Morgunblaðið - 16.03.2010, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 16.03.2010, Blaðsíða 23
hverjum vanda, sem allir gátu sam- einast um, og þannig sætt ólík sjón- armið. Hann var mannasættir, hæg- látur en hafði ríkt skopskyn og mikla seiglu sem varð til þess að hann kom oft miklu meiru í verk, en þeir sem fóru með offorsi og gassagangi. Hann var ekki yfirlýsingaglaður en því fastheldnari á það sem hann sagði. Það er honum öðrum fremur að þakka að íslensk kvikmyndagerð varð viðurkennd af stjórnvöldum sem listgrein, og án starfa hans í menntamálaráðuneytinu er ekki víst að íslenska kvikmyndavorið hefði hafist. Hann er án alls vafa einn helsti velgjörðarmaður íslenskra kvikmynda. Ég sendi fjölskyldu hans og ætt- ingjum mínar innilegustu samúðar- kveðjur. Farðu í friði, góði vinur, og megi lífsstarf þitt verða öðrum fyr- irmynd. Hrafn Gunnlaugsson, kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur. Það má nú ekki minna vera að leiðarlokum en að ég sendi Knúti Hallssyni ofurlitla vinarkveðju í þakklætis- og virðingarskyni. Aðrir munu verða til að fjalla um þennan góða embættismann í menntamálaráðuneytinu, einkum þá frá sjónarhóli stjórnsýslunnar. Enn aðrir munu nefna margvísleg störf hans á félagsmálasviðinu, til dæmis sem formanns í Félagi Sameinuðu þjóðanna til margra ára; þá var ris á þeirri starfsemi. En mig langar að minnast á nokk- ur þau mál sem hann tók að hjarta sér og eru þess eðlis að margur emb- ættismaðurinn telur þau kannski ut- an síns verksviðs. Að vísu hafa kvik- myndagerðarmenn gert sér grein fyrir, hvern þátt hann átti í viðgangi kvikmyndalistarinnar á Íslandi og er það vel. En hann kom víðar við. Í tví- gang sat hann á frumbýlisárum Listahátíðar í Reykjavík í for- mennsku stjórnar þar og átti því einnig þátt í eflingu þessarar hátíðar sem hefur svo mjög stækkað borg og land menningarlega séð og flestum ef ekki öllum þykir í dag að við get- um ekki án verið. Í annan stað vita hins vegar fáir hversu dyggilega hann stóð við bakið á okkur sem ýtt- um úr vör Íslenska dansflokknum snemma á áttunda áratugnum; þar þurfti að sigrast á fleiri tregðulög- málum en flesta grunar. Og enn vil ég tíunda störf hans fyrir Íslands hönd í starfsemi Evr- ópuráðsins, en hér heima ríkti lengi sú skoðun að ferðir til Strasbourg væru einhvers konar lúxus-uppbót á lág laun opinberra embættismanna. Það var ekki síst Knúti að þakka, að það viðhorf breyttist, að minnsta kosti meðal þeirra sem eitthvað til þekktu. Mottóið var: Annaðhvort tökum við þátt í slíku alþjóðlegu starfi af fullum áhuga og leggjum okkar af mörkum; ella ekki. Hann hélt fundi hér heima með stjórnsýslu og sérfræðingum þar sem afstaða var mótuð og útttektir gerðar um gildi slíks samstarfs. Og ferðir urðu ekki fleiri en nauðsyn bar til, en þar kom Ísland hins vegar út með fullum sóma. Knútur var minnisstæður per- sónuleiki. Ekki var hann hávær, en leyndi á sér, stóð á sínu, hlýr og stutt í kímnigáfuna, ágætur sögumaður, skemmtilegur ferðafélagi, bráðvel gefinn og fjölfróður og þó gætinn og nákvæmur eins og opinberum emb- ættismanni ber að vera. Öll var hans framkoma þannig að nærvera hans var góð. Að leiðarlokum hvarflar hugurinn til Ernu, Jónasar og annarra að- standenda með miklum hlýhug. Sveinn Einarsson. Látinn er í Reykjavík Knútur Hallsson, góður vinur og samferða- maður í brátt sjötíu og fimm ár. Kunningsskapur okkar hófst í Vest- urbænum þar sem við vorum ná- grannar. Við útskrifuðumst saman stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík mjög snemma að morgni lýðveldisdagsins 17. júní 1944 en síð- an var oft gantast með að hið unga lýðveldi hefði fengið okkur í morg- ungjöf. Leiðin lá svo í Háskóla Ís- lands í lögfræðinám og urðum við báðir lögfræðingar, cand. juris, sama dag, 26. janúar 1950. Stjórn- arráðið varð síðan starfsvettvangur okkar Knúts. Hann byrjaði í fjár- málaráðuneytinu en ílengdist síðan í menntamálaráðuneytinu frá 1954 og starfaði jafnframt í forsætisráðu- neytinu á árunum 1954-1971. Knútur gegndi m.a. störfum ráðuneytis- stjóra menntamálaráðuneytisins. Örlögin höguðu því oft til að störf hans fyrir menntamálaráðuneytið leiddu til funda okkar á alþjóðlegum vettvangi þar sem ég dvaldi í ýmsum sendiráðum okkar eða hjá Evrópu- ráðinu í Strassborg í gegnum árin. Ávallt var tilhlökkunarefni að hitta Knút og fá hann og Ernu í heimsókn til okkar Lóu. Knútur átti mjög far- sælan feril í ráðuneyti mennta og lista. Hann var mjög samviskusam- ur, vandvirkur og hafði fas hins trausta embættismanns. Án efa hafa málefni skapandi lista átt hug hans meira en önnur verkefni. Sérstak- lega var honum hugleikið að tryggja framgang innlendrar kvikmynda- gerðar alla tíð og var mjög gaman að fylgjast með því þegar Knútur fékk heiðursverðlaun Eddunnar árið 2003. Þegar um hægðist hjá okkur báðum á seinni árum fóru ekki margir innlendir listviðburðir fram hjá okkur. Sameiginlegt áhugamál okkar var að tryggja öryggi þjóðar- innar með þátttöku í vestrænni sam- vinnu og aðildinni að NATO. Knútur lagði sitt af mörkum m.a. með for- mennsku í stjórn Samtaka um vest- ræna samvinnu og Félags samein- uðu þjóðanna. Þegar ég lít til baka yfir öll árin er vinsemd Ernu og Knúts í minn garð og fjölskyldu minnar það sem stendur efst í huga mínum. Ekki síst eftir andlát eigin- konu minnar, Lóu, í nóvember 1999. Hin síðari ár spjölluðum við Knútur saman flesta daga um málefni líð- andi stundar og rifjuðum upp ýmsa atburði á löngu tímabili frá skóla- dögum okkar til dagsins í dag. Ég minnist skemmtilegra samfunda okkar Knúts, með vinum og kunn- ingjum. Verður hans sárt saknað. Votta ég Ernu, syni þeirra Jónasi, tengdadóttur, fjölskyldu, vinum og vandamönnum samúð mína og fjöl- skyldu minnar. Blessuð sé minning góðs vinar. Niels P. Sigurðsson. Okkur langar til að kveðja kæran vin úr félagsskap sem hann kallaði sjálfur „heilaga þrenningu“. Þessi þrenning, sem var reyndar eins van- heilög og hugsast getur, hittist að jafnaði einu sinni á ári og málaði bæ- inn rauðan. Þótt Knútur væri ívið eldri en við var það fyrir okkur eins og endurnýjun lífdaganna að hitta hann. Við fyrstu sýn gat hann virst frekar grámóskulegur, þurr og formfastur, dæmigerður embættis- maður af gamla skólanum. En undir kyrrlátu yfirborði Knúts Hallssonar, lágværri röddinni og persónulegri tímasetningu í málfasinu, bjó lúmsk- ur húmoristi, áhrifamikill og lunkinn diplómat, sem gat, ef menn vissu ekki betur, verið ráðuneytisstjóri úr þeim gamansömu bresku alvöru- þáttum „Já ráðherra“. Að öðru leyti en því að hann hafði, öfugt við koll- ega sína þar, einlægan áhuga á já- kvæðum breytingum, ekki síst í þágu íslenskrar kvikmyndagerðar. Á því sviði var hann sannur frum- kvöðull og lykilmaður í stjórnkerfinu við að koma íslenskri kvikmynda- gerð á legg, m.a. með því að semja fyrstu lögin um Kvikmyndasjóð Ís- lands þar sem hann gegndi stjórn- arformennsku um árabil. Til marks um lífsviðhorf Knúts Hallssonar og kímnigáfu eru þessi lokaorð úr Morgunblaðsviðtali sem tekið var við hann í tilefni af því að hann fékk heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademí- unnar árið 2004: Heldurðu að við fáum annan séns hinum megin? „Ég er guðhræddur KFUM-mað- ur. Einn af drengjunum hans séra Friðriks. Hef búið síðan að þeirri reynslu að hafa hlustað á elds- og brennisteinsprédikanir hans.“ Og ef við fáum séns fyrir handan mundirðu þá vilja vinna þar í ráðu- neyti? „Nei. Þá væri kominn tími til að skemmta sér ærlega.“ Árni Þórarinsson, Friðrik Þór Friðriksson. Kynni okkar Knúts hófust þegar fjölskylda hans flutti í Vesturbæinn á fjórða áratug fyrri aldar. En sam- skipti okkar hófust þó ekki að ráði fyrr en leiðir okkar lágu saman í lagadeild háskólans á árinu 1944. Knútur var enginn kúristi í laga- náminu þótt hann rækti skyldur sín- ar í þeim efnum. Hann gaf sér rúm- an tíma til lesturs annarra bókmennta og þá helst íslenskra fræða, sögu og stjórnmála. Í stúdentalífinu var mikið spjallað og spekúlerað um þau efni, sem þá voru efst á baugi. Tók Knútur drjúg- an þátt í slíkum vangaveltum. Prúð- ur og rólegur setti hann fram skoð- anir sínar, sem hann tvinnaði gjarnan við góðlátlegan húmor, sem reyndar einkenndi hann alla ævi. Það gat ekki gengið að ungt fólk kæmist ekki til mennta vegna fjár- skorts. Hann studdi það eindregið að stofnaður yrði lánasjóður náms- manna. Það myndi auka jafnrétti. Stúdentar áttu frumkvæðið að úr- bótum í því efni. Þetta var áhugamál hans á skólaárum og hann fylgdi því eftir er hann kom að stjórnunar- störfum í menntamálaráðuneyti. Slíkum skólafélaga var eftirsókn- arvert að fá að kynnast. Það mynd aðist svolítill þríhyrningur, sem við Niels P. Sigurðsson stóðum að með Knúti. Stutt á milli heimila okkar, við áttum samleið í skólann og hóf- um að lesa saman undir kennslu- stundir. Slíkur samlestur létti námið – ekki síst rökræður og smá-rifrildi um það hvernig ætti að skilja þætti í jurisprudens. – Svo mátti ræða allt önnur efni, svona inn á milli. Svo tókum við lokapróf í lögfræði í janúar 1950. Við Knútur fórum til starfa í Stjórnarráðinu, hann í fjár- málaráðuneytinu en ég í forsætis- og menntamálaráðuneytinu. Knútur starfaði aðallega að endurskoðun á fjárhagslegum rekstri opinberra embætta. En hugur hans beindist í vaxandi mæli að málefnum mennta og menningar. Hann gekk því til liðs við menntamálaráðuneytið á árinu 1954. Ég minnist samstarfsins þar með þökk og gleði. Þarna fann Knútur sér ævistarf, sem hann rækti af trúmennsku. En auk þess tók hann drjúgan þátt í starfi menningarfélaga og einstak- linga, sem störfuðu að listum. Þegar Knútur minntist æskudaga sinna voru kjörforeldrar hans minn- isstæðastir. Afi Knúts var Guð- mundur Hallsson trésmiður. Hann var hafsjór fræða. Kunni Íslendinga- sögur utanað og lék sér að Eddu- kvæðum og öðrum kveðskap, forn- um og nýjum. Sjálfur var hann hagmæltur. Þetta varð Knúti fræða- brunnur og trúlega uppspretta að ást hans á bókmenntum okkar. Knútur Hallsson hafði fastmótaða skapgerð. Hlédrægur og hæverskur vann hann störf sín, oft í kyrrþey. Hann vildi ekki berast á en var glað- ur og reifur með vinum sínum á góðri stund. Hann var heimakær og þótti mjög vænt um borgina. Lét öðrum eftir að klífa fjöll en átti margar góðar stundir við tjörnina – og auðvitað við KR-heimilið. Fyrsti áratugur nýrrar aldar var að líða og Knútur orðinn hálf níræð- ur og ári betur, er heilsan bilaði. Hann var ætíð heilsugóður og tæp- ast hafði hann lasnast svo að hann lægi dagsstund í rúminu. Lát hans kom því óvænt. Það var fjölskyldu hans og vinum þungt áfall. Knútur var ekki aðeins gáfumað- ur heldur líka gæfumaður. Honum fannst auðvelt að finna sér rétta leið. Einungis að vera sjálfum sér og öðr- um trúr og vilja heldur það sem betra var. Góður drengur er genginn. Hafi hann kæra þökk fyrir samfylgdina. Ernu og fjölskyldu hennar sendi ég einlægar samúðarkveðjur og bið minningu Knúts blessunar. Ásgeir Pétursson. Knút Hallsson hitti ég fyrst í Stokkhólmi fyrir bráðum sextíu ár- um. Þangað var hann kominn, ungur lögfræðingur og starfsmaður í fjár- málaráðuneytinu, til að kynna sér hagsýslufræði, en sú fræðigrein mun þá hafa verið tiltölulega nýuppgötv- uð á Íslandi. Fáum árum seinna réðst hann til menntamálaráðuneyt- isins og enn nokkru síðar kom ég til starfa þar. Mér er það minnisstætt er ég fyrsta vinnudaginn sat einn í herbergi, öllum hnútum ókunnugur, að Knútur kom inn og tók sér sæti makindalega á stól handan við skrif- borðið og hóf notalegt spjall við nýj- an samstarfsmann. Það var upphafið að meira en þrjátíu ára samskiptum okkar sem starfsfélaga. Menntamálaráðneytið var ekki fjölmennt þá og starfsmenn komu hver og einn að ýmsum málaflokkum eftir því sem verkefni bar að hönd- um. Eftir að formlegri deildaskipt- ingu var komið á um 1970 stýrði Knútur þeirri deild sem fór með málefni safna og lista og ýmis önnur menningarmál. Viðfangsefnin voru margvísleg, samskipti við stofnanir og önnur almenn stjórnsýsluverk- efni, en einnig vinna við gerð laga- frumvarpa og reglugerða og þátt- taka í fjölþjóðlegu samstarfi. Tvennt kemur fyrst í hug þegar minnst er sérstakra áhugaefna Knúts í starfinu. Annars vegar höf- undaréttarmál, en um þau gerðist hann sérfróður og lagði mikinn skerf til samfelldrar vinnu að réttarbótum á því sviði. Hitt lýtur að kvikmynd- um. Fram á áttunda áratug síðustu aldar var hálfgildings eyða í menn- ingarlífi Íslendinga að því er tók til innlendrar kvikmyndalistar. Þetta var Knúti ljóst og einlægur áhugi hans og þrautseigja áttu drjúgan hlut að þeim straumhvörfum sem urðu í þessum efnum með stofnun Kvikmyndasjóðs. Hann var því vel að þeim heiðursverðlaunum kominn sem honum voru veitt árið 2003 fyrir framlag sitt í þágu íslenskrar kvik- myndagerðar. Hvort tveggja þeirra hugðarefna sem hér voru nefnd lét Knútur áfram til sín taka eftir að hann tók við starfi ráðuneytisstjóra 1983 þótt verksvið hans tæki þá vitaskuld breytingum. Meðal síðustu verkefna hans á vegum menntamálaráðuneyt- isins var að vinna að undirbúningi löggjafar um sameinað Landsbóka- safn Íslands og Háskólabókasafn í nýreistri Þjóðarbókhlöðu og einnig að drögum til kvikmyndalaga. Knútur Hallsson var harðgreind- ur maður og glöggskyggn og hafði gott vald á þeim viðfangsefnum sem hann hafði með höndum. Hann var allra manna prúðmannlegastur í framgöngu, ekki asafenginn en fylginn sér og lét ógjarnan undan síga þegar um var að ræða málefni sem honum þótti nokkru skipta. Hann var hugulsamur og raungóður og reyndist ýmsum hjálparhella langt umfram embættisskyldur. Hann hafði ánægju af að blanda geði við vini sína og kunningja og hafði lag á íbyggilegri gamansemi sem naut sín vel í samræðum. Allt þetta gerir að verkum að áratuga samveru er gott að minnast. Árni Gunnarsson Knútur var einn af fremstu for- ystumönnum í Samtökum um vest- ræna samvinnu um árabil. Hann var afar hógvær maður og rólegur, lag- inn og þrautseigur. Hann var ekki einn af þeim mönnum sem sóttu í ræðupontuna, en vann farsæl störf á bak við tjöldin. Knútur var varkár maður og kurt- eis, en fylginn sér og naut stuðnings okkar allra án tillits til flokksbanda sem ekki voru virk í þessum sam- tökum, enda má segja að það var mjög þýðingarmikið í öllu starfi samtakanna, ef til vill hornsteinn þess árangurs sem náðist oft og tíð- um við erfiðar aðstæður og öldugang í þjóðfélaginu. Knútur var heimsborgari og kunni vel við sig í alþjóðlegu um- hverfi og það rifjar upp margar minningar þegar við sóttum ársfundi Atlantshafssamtakanna í ýmsum höfuðborgum bandalagsríkjanna. Ekki var verra að vera í félagsskap með góðum vinum, eins og Björgvini Vilmundarsyni og Kristjáni Gísla- syni og þeirra ágætu konum. Knútur hafði einstakt skopskyn og kunni þá list að þegja þegar aðrir töluðu, en þegar hann tók til máls var á hann hlustað. Í þessu alþjóða- samstarfi kynntist Knútur fjölda er- lendra áhrifamanna og nýtti þau sambönd með varfærnum og heið- arlegum hætti. Erna var glæsilegur fulltrúi heima og heiman, yfirflugfreyja og lærður flugmaður. Þau áttu fallegt heimili sem gott var að sækja heim. Með þessum orðum kveð ég góðan vin og samstarfsmann um áratuga- skeið og sendi innilegar samúðar- kveðjur til Ernu, Jónasar og fjöl- skyldu. Heimir Hannesson.  Fleiri minningargreinar um Knút Hallsson Jónasson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Minningar 23 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. MARS 2010 ✝ Hjartans þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samúð og vinarhug við andlát og útför okkar elskulega ÁRMANNS SNÆVARR, sem lést mánudaginn 15. febrúar. Guð veri með ykkur öllum. Valborg Sigurðardóttir, Sigríður Ásdís Snævarr, Kjartan Gunnarsson, Stefán Valdemar Snævarr, Sigurður Ármann Snævarr, Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, Valborg Þóra Snævarr, Eiríkur Thorsteinsson, Árni Þorvaldur Snævarr og barnabörn. ✝ Okkar innilegustu þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samúð, styrk og hlýhug við andlát og útför ástkærrar eiginkonu minnar, móður okkar, tengda- móður, ömmu og systur, STELLU OLSEN, Suðurási 32, Reykjavík. Sérstakar þakkir til starfsfólks á deild 11E á Land- spítalanum og líknardeildarinnar í Kópavogi fyrir einstaka umönnun. Einnig viljum við þakka samstarfsfólki Stellu hjá Félagsþjónustu Kópavogs fyrir ómetanlegan stuðning. Birgir Ólafsson, Telma Birgisdóttir, Finnur Kolbeinsson, Snorri Birgisson, Martha Sandholt Haraldsdóttir, systkini og ömmubörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.