SunnudagsMogginn - 30.01.2011, Page 23

SunnudagsMogginn - 30.01.2011, Page 23
30. janúar 2011 23 Auðlindamálin hafa verið mikið rædd und- anfarið. Á haustfundi Landsvirkjunar sagði Hörður að arðgreiðslurnar gætu orðið hlut- fallslega jafnmiklar fyrir Íslendinga og arð- urinn af olíunni fyrir Norðmenn. Og það væri mikilvægt að svara þeirri spurningu hverjir ættu tilkall til hans. „Já, og það er áhugaverð spurning, þó að hún hafi ekki fengið mikla athygli á haust- fundinum, hvað gera eigi við þennan um- framarð, sem spáð er í raforkuvinnslunni,“ segir Hörður. „Mikilvægt er þó að muna að enn er nokkuð langt í að hann myndist. Það er mikilvægt að stjórnvöld móti þá stefnu. Það þurfa að vera skýrar leikreglur um það hvernig menn skipta umframarðinum á sann- gjarnan hátt, þannig að allir njóti góðs af því – og það myndist sátt. Það þarf að gerast löngu áður en arðurinn myndast, eins og við höfum lært af kvótakerfinu í sjávarútveg- inum. Það getur myndast mikil togstreita, ef ekki er vel vandað til leikreglna um hvernig skipta eigi arði milli þessara fjögurra aðila, landeigenda, sveitarfélaga, orkufyrirtækja og þjóðarinnar. En ef það verður gert á næstu árum tel ég fullvíst að finna megi leið sem er sanngjörn og almenn sátt um í þjóðfélaginu. Það er á borði stjórnvalda að taka þann bolta og mikilvægt að sú umræða hefjist.“ – Það hefur verið talað um auðlinda- ákvæði í stjórnarskrá. „En það er rangt sem sumir hafa haldið fram að þjóðin eigi auðlindirnar. Þær eru bara að hluta til í eigu þjóðarinnar, í gegnum þjóðlendulögin, eign á bújörðum og samn- inga, en fjölmargir einkaaðilar eiga einnig vatnsréttindi og jarðhitaréttindi. Og það þurfa að gilda skýrar leikreglur. Okkar sýn er sú að verðmætin muni aukast og þá hagn- ast allir en skiptingin þarf að vera sanngjörn og gegnsæ og fyrirfram ákveðin.“ – Telur þú ráðlegt eða raunhæft að koma í veg fyrir söluna á HS Orku til Magma? „Í mínum huga er mikilvægt í þessu máli að leikreglur séu skýrar og að farið sé eftir þeim. Það var mörkuð sú stefna fyrir nokkr- um árum síðan og sett lög um að heimila einkaaðilum að eiga fyrirtæki í raforku- vinnslu. Ef breyta á þeim lögum þá þarf að vanda þær breytingar og ekki æskilegt að breytingum sé beint gegn einum aðila heldur sé komið á leikreglum sem almenn sátt er um og jafnframt tryggt að markmið um fjár- festingu í orkugeiranum, umgengni um orku- auðlindina og aukna arðsemi náist. Mik- ilvægast í mínum huga er að tryggja þjóðinni arð af nýtingu orkuauðlinda og eins og ég benti á áðan þá eru margar ólíkar leiðir í boði hvað það varðar.“ – Það kom fram í máli þínu á haustfund- inum að ríkið hefði ekki tekið út neinn arð síðustu tíu árin á mesta uppbyggingarskeið- inu. „Mjög óverulegan arð. Ríkið hefur lagt fram verulegt eigið fé í Landsvirkjun á síð- ustu tíu árum sem hefur haft í för með sér að 1,2 milljarðar dollara eða um 36% af fjár- festingu Landsvirkjunar er fjármögnuð með eigin fé. Það er þá eigandinn sem ákveður að taka ekki út úr fyrirtækinu og fjárfesta heldur í uppbyggingu. Fyrir vikið má reikna með að arðgreiðslur í framtíðinni verði hærri.“ – Er markmið Landsvirkjunar að geta fjár- magnað sig án ríkisábyrgðar? Og er það skref í átt að einkavæðingu? „Það er alveg óháð því, hvort það væri gert. En þetta er eitt af því sem hefur ekki verið ákveðið ennþá, heldur segjum við í stefnunni æskilegt að koma fyrirtækinu í það ástand, gagnvart samkeppnismarkaði líka. Að vísu greiðum við ríkisábyrgðargjald en fyrir ríkið er æskilegt að það beri ekki ábyrgð á lánum fyrirtækja og hægt er að koma Landsvirkjun í það ástand á ákveðnum árafjölda.“ Þarf skýrar leikreglur lindina getur haft mikinn fjárhagslegan hag af því að hún sé virkjuð.“ Fleiri kostir en álver – Þú talaðir um það á haustfundinum að uppbygging fyrir norðan gæti tekið sjö til átta ár, að því gefnu að kaupandi orkunnar væri tilbúinn að taka áhættuna með Lands- virkjun, „Ef það yrði álver. Það hefur verið mikið í umræðunni og er orkufrekasta verkefnið sem við höfum til skoðunar. Ekkert bendir til þess að á þessu svæði sé orka fyrir stærra álver en 250 þúsund tonn, en það getur breyst ef nýtingin er framar björtustu vonum. Vísindamenn telja líklegt að virkjunin gæti orðið 400 megavött, sem yrði að byggja upp í smáum skrefum vegna óvissu um auðlindina. Ef ákveðið verður að byggja álver yrði stærsta skrefið í upp- hafi 125 þúsund tonn sem eru um 200 megavött. Það er að vísu mjög stórt skref fyrir okkur. Síðan eru verulegar lík- ur á að hægt verði að stækka álverið í 250 þúsund tonn. En það er ekki öruggt og ekki væri hægt að tryggja það í upphafi. Ef samið verður um álver, þá verða þeir aðilar að vera tilbúnir að taka þá áhættu með Landsvirkjun. Annars munum við ekki skrifa undir skuldbindandi samning. Við getum tryggt 125 þúsund tonn, en það yrði aldrei nema viljayfirlýsing af okkar hálfu um seinni hlutann, af því að á svona svæði er veruleg óvissa um hvernig jarðhitasvæði hegðar sér. Það er ekki eins og vatnsorka. Óvíst er hvern- ig niðurdráttur er í svæðinu og hvað það er stórt. Á mörg- um svæðum eins og Kröflu hefur verið búist við verulegri orku, en þau hafa reynst vera nánast köld. Þess vegna er hvorki hægt fyrir Landsvirkjun né viðskiptavininn að ganga út frá því, að þetta sé 100% öruggt, þó að svæðin lofi mjög góðu og gætu líka verið stærri. Það eru síðan fjölmargir minni notendur sem sýna svæðinu verulegan áhuga.“ – Þú hallast frekar að öðrum kaupendum en álverum? „Ég myndi ekki alveg orða það þannig. Það hljómar þannig, af þeirri ástæðu að sumir vilja bara ræða um ál- ver. Það eru til fleiri valkostir, en við fylgjumst líka náið með áliðnaðinum. 125 þúsund tonna álver er of lítið til að það verði hagkvæmt, 250 þúsund tonn eru í minni kant- inum. Við vitum að þau álver sem eru þegar til staðar þurfa öll að stækka til að tryggja hagkvæmni. Þetta er mikill samkeppnisiðnaður og álfyrirtækin í heiminum eru stöðugt að verða stærri og stærri. Við þurfum hins- vegar að verða heppin í orkuvinnslunni á Norðaust- urlandi til að anna meira en 250 þúsund tonnum. Eins og ég nefndi áður eru allt aðrar markaðsaðstæður núna en árið 1995, þegar ráðist var í mikið átak til að fá erlend fyr- irtæki til landsins. Í dag hafa mun fleiri og fjölbreyttari fyrirtæki áhuga á að starfa á Íslandi“ Höldum áfram að framkvæma – Það hefur komið fram að Landsvirkjun er sterkt fyr- irtæki fjárhagslega. „Það er hinsvegar of skuldsett, sem er krónískt vanda- mál íslenskra fyrirtækja, en við ráðum við lánin, stöndum í skilum og munum gera það. Það mun því myndast veruleg arðgeta þegar raforkuverðið hækkar. Fyrirtækið stendur á traustum grunni en þarf að lækka skuldir sínar, við þurfum að standast alþjóðlegan samanburð í þeim efnum.“ – Þú talar um að draga úr framkvæmdum í bili og greiða niður skuldir, en kallar það ekki jafnframt á stöðn- un? Og er ekki hætta á að missa þekkinguna úr landi, sér- hæft vinnuafl og fyrirtæki? „Það er mikilvægt að koma inn á þetta. Þrátt fyrir að við segjum að Landsvirkjun verði ekki framkvæmdadrifin höldum við samt áfram að framkvæma. Næstu tuttugu árin muni raforkuframleiðsla tvöfaldast, fara úr 12,5 upp í 25 teravattstundir, og alls ekki stöðvast. En það verður ekki framkvæmdanna vegna, heldur til að mæta þörfum markaðarins. Stækkunin verður drifin áfram á markaðs- forsendum og skrefin verða minni. Við höfum verið spurð hvort við ætlum að falla frá stórframkvæmdum, en það eru engir stórir virkjanakostir í spilunum. Þeir kostir sem líklegir eru til að verða samþykktir eru 50 til 150 mega- vött, þannig að þetta felur ekki endilega í sér stefnu- breytingu – aðstæður á Íslandi eru breyttar og ekki aðrir Kárahnjúkar á teikniborðinu.“ – Þú hefur sagt líklegt að ná megi sátt um orkunýtingu upp á 35 til 40 teravattstundir. „Það á eftir að koma í ljós. Þetta er okkar mat miðað við núverandi tæknistig. Menn geta haft önnur líkön með lægri tölum en líka hærri tölum, en þá er farið inn á við- kvæm svæði sem við teljum ólíklegt að verði samþykkt. Það getur verið að þegar nýtingin verði komin 35 tera- vattstundir þá myndist sátt um að virkja meira, en við teljum ekki ráðlegt að virkja meira. Það er skynsamlegt að beita varúð, hvort sem þær eru 35 eða 50, og það breytir ekki þeirri grundvallarstaðreynd að lítið er eftir af orku. Það er algengt í umræðunni að á Íslandi sé mikið af orku, en það er meira vegna mannfæðar. 35 teravött er ekki mikið, en mikið fyrir svo fámenna þjóð, tífalt meira en við þurfum til eigin nota. 3,5 miljóna þjóð er hinsvegar ekki stór. Við verðum því að nýta orkuna á skynsamlegan hátt og vanda hvernig við seljum hana af því að það er ekki mikið eftir. Svo eru viðskiptavinir okkar alltaf með áform um að stækka og mikilvægt að við getum stutt þá í því, sá sem þykir lítill í dag er jafnstór og álverið í Straumsvík þegar það byrjaði.“ – Hvernig er staðan á Búðarhálsvirkjun? „Orkan fer náttúrlega inn á raforkukerfið, það er nán- ast aldrei þannig að hún fari til notanda, en raunverulega erum við að gera ráðstafanir til að mæta aukinni orkusölu til Alkan í Straumsvík. Við erum líka með aukagetu í kerfinu og spilum úr þeim þáttum. Samningum við Alkan lauk í ágúst 2010, í framhaldi af því var verkið boðið út og síðan hófust framkvæmdir. Verkefnið er enn á áætlun og Búðarhálsvirkjun hefur ekkert seinkað. Gert er ráð fyrir að hún verði tilbúin fyrir árslok 2013. Fjármögnun er ekki lokið, en við erum að vinna í því á fullu og höfum mögu- leika á að stöðva framkvæmdir ef svo ólíklega vill til að hún takist ekki. En ég er bjartsýnn á að henni ljúki á næstu mánuðum.“ – Hvað um neðri hluta Þjórsár? „Við erum raunverulega að bíða eftir niðurstöðu rammaáætlunar. Við vorum að vonast til að þar mundi skýrast áætlun stjórnvalda í neðri hluta Þjórsár og varð- andi aðra virkjanakosti. Við erum áfram að vinna að und- irbúningi virkjananna en erum þó ekki í neinum virkj- anaframkvæmdum og heldur ekki að vinna í að selja orkuna. Skipulagsmálin eru ekki kláruð, hvorki skipulag Flóa- né Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur verið sam- þykkt.“ – Það liggja 3,5 milljarðar í undirbúningi fram- kvæmdanna, þannig að fjármagnskostnaður er ærinn? Það er eðli virkjanaframkvæmda, um allt land erum við að undirbúa og stunda rannsóknir, það er því eðlilegt að það liggi fyrir kostnaður í upphafi – þetta er fjármagns- frek grein.“ Morgunblaðið/Árni Sæberg ’ Næstu tuttugu árin muni raforkuframleiðsla tvöfald- ast, fara úr 12,5 upp í 25 teravattstundir, og alls ekki stöðvast. En það verður ekki framkvæmdanna vegna, heldur til að mæta þörfum markaðarins.

x

SunnudagsMogginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.