Saga - 2002, Page 8
6
FORMÁLI
konar fyrirbæri þeir voru og fjallað um mikilvægi þeirra sem stofnana.
í þessari grein, „Um staði og staðamál", dregur hann saman öll megin-
rökin fyrir túlkun sinni og reifar viðhorf annarra fræðimanna til efnisins
í gagnrýnu ljósi.
Tónlistarsögima ber einnig á góma. Árni Heimir Ingólfsson fjallar um
„Þjóðhvöt" Jóns Leifs og Alþingishátíðina 1930 í greininni „Hetjur
styrkar standa". Athyglinni er beint að þessu tónverki Jóns, tilurð þess
og atburðarásinni í tengslum við samningu þess. Verkið er sett í
samhengi við tónlistarsögu þessa tíma og þá strauma sem léku um
íslandsstrendur í árdaga hljómsveita og kórsöngs á íslandi.
í síðasta tölublaði Sögu var riðið á vaðið með nýjan bálk sem fékk
heitið Viðhorf. Hér er haldið áfram á sömu braut og eru þrjár viðhorfs-
greinar í ritinu að þessu sinni. Árni Bjömsson birtir þanka um íslenskt
þjóðemi í framhaldi af fundaröð Sagnfræðingafélags íslands veturinn
2001-2002, „Hvað er (ó)þjóð?". Árni Heimir Ingólfsson og Torfi K.
Stefánsson Hjaltalín bregðast aftur á móti við fyrri skrifum í Sögu, Árni
Heimir andmælir ýmsu í ritgerð Ingu Dóru Bjömsdóttur um kórsöng en
Torfi bregst við ritdómi um bók sína Eldur á Möðruvöllum og ræðir þar
einkum hlutverk stiftamtmanna og amtmanna.
Ritdómar eru með svipuðum hætti og áður, 10 höfundar fjalla um 13
bækur. Efni ritanna sem fjallað er um spannar allt frá elstu tímum til
samtímans, fjallað er um yfirlitsrit, heimildaútgáfur, greinasöfn, afmark-
aðar rannsóknir og doktorsrit. Markmiðið er að leggja lóð á vogarskál-
ar hinnar sagnfræðilegu umræðu og taka þátt í gagnrýninni umræðu
um fræðileg efni.
Fyrir skömmu bárust ritstjórum þau ótíðindi að Hermann Pálsson
prófessor í Edinborg hefði látist af slysförum. Hermann var afkasta-
mikill fræðimaður og eru aðeins fá ár síðan hann skrifaði síðast í Sögu.
Jónas Kristjánsson, fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar Árna
Magnússonar, minnist Hermanns í þessu hefti.
Mannaskipti verða í öðrum ritstjórastólnum frá og með næsta hefti af
Sögu. Guðmundur J. Guðmundsson lýkur nú áratugarstarfi í þágu
tímaritsins og er honum þakkað kraftmikið og óeigingjarnt starf um
árabil. I stól hans sest sagnfræðingurinn Páll Bjömsson, sem stundar
fræðistörf við Hugvísindastofnun Háskóla íslands og er formaður Sagn-
fræðingafélags íslands. Hann er boðinn hjartanlega velkominn til starfa.
Áslaug J. Marinósdóttir málfræðingur hefur tekið að sér málfars- og
prófarkalestur í þessu hefti Sögu og fögnum við mjög þessum liðsauka
við útgáfuvinnu ritsins og væntum góðs af samstarfinu við hana áfram.
Að lokum þakka ritstjórar samstarf við alla þá fjölmörgu sem komu
að vinnslu ritsins, þeim sem komu að prentvinnslunni, ráðgefandi rit-
nefnd, ritrýnum, þýðendum, prófarkalesara, Sögufélagsfólki og síðast
en ekki síst höfundunum.
Hrefna Róbertsdóttir