Saga - 2002, Page 60
58
ÞORSTEINN HELGASON
hlutverki, sem tilteknar myndir fyrri tíðar. Hlekkjaðir Márar á
höggmynd í ítölsku borginni Livorno - svo að annað dæmi sé tek-
ið úr myndinni Tyrkjaránið - verða þá ekki höfundarlausir fulltrú-
ar Mára á fyrri hluta 17. aldar heldur einmitt höggmynd af þess-
um Márum sem séra Ólafur Egilsson sá á ferð sinni haustið 1627
og lýsti í reisubók sinni. Eða öllu heldur þá fá Márarnir hér þrefalt
hlutverk - í fyrsta lagi sem innlegg í lýsingu aðstæðna á fyrri hluta
17. aldar, sem handaverk myndhöggvarans Pietro Tacca og í þriðja
lagi sem viðmið við skilning og tilfinningu Ólafs Egilssonar þegar
hann sá þessar myndir. Máski fá þessar höggmyndir enn fleiri
hlutverk - verða vitnisburður um myndsýn tökumannsins og
klipparans og lestur leikarans á orðum Ólafs.
Eins og áður sagði sækja kvikmyndamenn í að nota efni úr eldri
kvikmyndum þegar gerðar eru sögulegar heimildamyndir. Á
kvikmyndum og kyrrstæðum myndum er margs konar munur.
Einn er sá að (eldri) kvikmyndir eru yfirleitt notaðar „eins og þær
koma af skepnunni". Að vísu er hægt að velja úr þeim, setja þær
saman á ótal vegu, jafnvel að breyta um lit o.s.frv. en kvikmynda-
búturinn er engu að síður afritaður inn í nýju myndina. Kyrrstæð-
ar myndir þarf hins vegar að kvikmynda. Hin virka kvikmynda-
vél stendur frammi fyrir kyrrstæðri mynd, rennir sér eftir henni,
stansar, myndar hluta, lýsir, dekkir. Þarna fer nýsköpun fram.
Engu að síður er margt sameiginlegt í notkun á gömlu myndefni,
kvikmyndum jafnt sem kyrrstæðum myndum, og mætti kalla
„samtíningsaðferð" (e. compilation). Samt er það hugtak yfirleitt
notað eingöngu um kvikmyndir sem eru að einhverju leyti sam-
settar úr eldri kvikmyndum og stundum ljósmyndum, ekki öðru
tilbúnu myndefni. Þessi sundurgreining á myndefninu er þó
fremur takmörkuð.25 Finn Lokkegaard hjá Kennaraháskóla Dan-
merkur hefur þó búið til lýsingu á „kompilationsfilm" þar sem
annars vegar er gert ráð fyrir kyrrstæðum myndum (ljósmynd-
um, málverkum, teikningum) og hins vegar kvikmyndum. Fyrri
flokkinn vill hann jafnvel kalla sérstöku heiti, „túlkunarmyndir"
(ikonografiske film), þegar hann birtist í hreinræktuðu formi.26
25 Sjá nýlega sænska doktorsritgerð: Patrik Sjöberg, Thé World in Pieces. A
study of compilation film.
26 Finn Lokkegaard, Filmreportage, dokumentarfilm og kompilationsfilm i historie-
undervisningen, bls. 25-26.