Saga - 2002, Page 74
72
ÞORSTEINN HELGASON
Tyrkjaráninu var farin önnur leið af því að atburðurinn hefur lifað
með þjóðinni. Þess vegna var tímaflakk í myndinni. Nútíminn var
líka viðfangsefni, raunar öll minning og úrvinnsla þjóðarinnar á
atburðinum eftir að hann hafði gerst. Það vill svo til að þetta er
hagkvæm nálgun því það er dýrt og fyrirhafnarsamt að breiða yfir
nútímann og hverfa inn í fortíðina. En hér var þetta ekki sparnað-
arráðstöfun heldur viðfangsefni. Þegar skólabörnin sjást í mynd-
inni á söguslóðum Tyrkjaránsins og við sjáum teikningar þeirra
erum við ekki aðeins að kanna atburðarásina sumarið 1627 held-
ur einnig að fylgjast með bömum í Vestmannaeyjum meðtaka og
vinna úr þessari vitneskju árið 2001.
Margir koma yfirleitt að verki við gerð kvikmyndar en „stjórn-
andans er að gæta þess að allir séu að búa til sömu myndina."33 Á
úrvinnslustiginu bættust okkur tveir liðsmenn sem settu veruleg-
an brag á verkið. Annars vegar var það Magnús Þorsteinsson sem
vann grafískar þrívíddarmyndir. Við fundum fyrirmyndir af skip-
um, mismunandi sennilegar, og hann settist við að smíða eftir
þeim á tölvuna, útfæra þau í þrívídd, setja þau í landslag eða á
gömul kort, lýsa og skyggja og fleira það sem hægt er að gera. Þrí-
víddarmyndirnar voru ekki viðamiklar en ýttu verkinu í báðar
áttir í tíma, til fortíðar með því að líkja eftir því sem hefði getað átt
sér stað, og til nútíma með því að allir vissu að þetta var tækni-
brella.
Hinn liðsmaðurinn var Sverrir Guðjónson tónlistarmaður. I
höndunum á honum varð tónlistin miklu meira en eyðufylling.
Hún tók virkan þátt í söguþræðinum, skapaði eftirvæntingu og
óhugnað, sætti og sundraði, tengdi saman og aðgreindi. Sverrir
notaði gamla íslenska músík sem grunn, stundum af tilbúnum
upptökum, en spann úr henni á hugvitssamlegan hátt og yfirfærði
á steinahljóðfæri og munngígju fyrir utan mannsröddina, bætti
svo við fínlegum hljóðáhrifum á útmældum stöðum. Ennfremur
tefldi hann íslömsku bænakalli og fleiri framandi tónum á móti
hinu íslenska og evrópska. Hver þáttur var með sínu sniði og inn-
an þáttanna, einkum þess fyrsta, voru ólíkir kaflar og Sverrir gaf
þeim sérstakan lit og áferð.
33 „It's the film director's job to make sure everyone is making the same
film", segir stjórnandinn Richard P. Rogers. Sjá Laurie Kahn-Leavitt,
„Process of Making a Historical Film. Case Study: A Midwife's Tale".