Saga - 2002, Page 176
174
ÁRNIHEIMIRINGÓLFSSON
geti orðið heimsgild í ríkasta mæli og að íslenska þjóðin sje sá
menningargimsteinn, sem sje, eða geti orðið mjög mikils virði
fyrir germanskar þjóðir að minsta kosti, jafnvel fyrir allan heim-
inn, og að það megi því aldrei skerða þann gimstein, þjóðerni
vort og sjálfstæði.15
Þá skoðun Jóns að íslensk menning - og þá ekki síst tónlist hans
sjálfs - ætti sérstöku hlutverki að gegna meðal þjóða heimsins er
að finna í skrifum hans allt frá þriðja áratugnum og til æviloka.16
En honum reyndist erfitt að sannfæra aðra um þetta álit sitt. Þótt
Páll Isólfsson væri því almennt hlynntur að greiða fyrir komu
hljómsveitarinnar fannst honum óviðeigandi að hún kæmi til að
leika á Alþingishátíð Islendinga:
Ég tel ekki neina ástæðu til þess að fá útlenda hljómsveit til að
aðstoða við hátíðina 1930. Sú hátíð er alls ekki nein músíkhátíð.
Ég segi útlenda hljómsveit, því þótt þú dirigerir, þá verður þó
sveitin í augum útlendinga sem hér verða útlend. Annað mál er
það að ég mun að sjálfsögðu á allan hátt styðja þig við komu
hljómsveitar, hvort sem kynni að vera fyrir eða eftir hátíðina.
Ég veit vel hvaða þýðingu það hefir að fá hingað góða sveit -
okkar vegna.17
Páll og Jón höfðu þekkst allt frá því 1916, þegar Jón ákvað að
halda til Leipzig til tónlistarnáms eftir að hafa hlýtt á orgeltónleika
Páls í Dómkirkjunni. Á þriðja áratugnum fór hins vegar að bera á
sundurlyndi milli þeirra, sem að töluverðu leyti virðist mega rekja
til þess að Jón átti erfitt með að unna Páli stöðu hans hér heima.
Sjálfur hafði Jón ítrekað reynt að skapa sér starfsgrundvöll á
Islandi en þeim tilraunum hans fylgdu ávallt ýfingar og missætti
15 Jón Leifs, „Ríkisafmælið 1930", Lesbók Morgimblaðsins 17. júní 1928, bls.
190.
16 Sjá t.d. bók Jóns, Islands kunstlerische Anregung, þar sem hann rekur þessar
menningarpólítísku hugmyndir sínar í löngu máli. Bókina taldi Jón vera
eins konar „listræna yfirlýsingu" sína sem tónskálds og að þar kæmi fram
grundvallarhugsunin bak við tónverk hans. Hugmyndir hans eru hins
vegar ruglingslegar í meira lagi. Eflaust hefði honum farið betur, eins og
forvera sínum Richard Wagner, að halda sig við tónsmíðarnar í stað þess
að geysast fram á ritvöllinn með misviturlegum athugunum um eigin list
og annarra.
17 Lbs. Bréfa- og nótnasafn Jóns Leifs. Páll ísólfsson til Jóns Leifs, Reykjavík
28. desember 1928.