Morgunblaðið - 05.04.2011, Blaðsíða 16
16
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 5. APRÍL 2011
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Kaupmátturlauna hefurfallið á und-
anförnum árum svo
sem vænta mátti.
Bankakreppan
hafði sitt að segja að sjálfsögðu.
En öfgar vinstristjórnar í skatt-
heimtu, seintekin vaxtalækkun,
ógagnsæ „einkavæðing“ tveggja
hinna föllnu banka og hik bank-
anna við að koma til móts við
þarfir þjóðarinnar og ekki síst
fjandskapur ríkisvalds í garð at-
vinnulífs og andúð á fjárfest-
ingum hefur þó gert enn meiri
skaða. Þess vegna er viðsnún-
ingurinn miklu hægari en ella og
atvinnuleysið meira en þyrfti.
Skattahækkanir er lausn núver-
andi ríkisstjórnar á sérhverjum
vanda. Nefndir, starfshópar og
rýnimenn eru jafnan skipaðir til
verka þegar eitthvert álitaefni
kemur upp sem nær athygli
fólks og fjölmiðla. Þaðan koma
þó sjaldnast nokkur úrræði eða
skapandi tillögur sem gefa fólki
og fyrirtækjum nýja kosti. Helst
að bent sé á að enn megi hækka
þennan skattinn eða hinn.
Í þessu andrúmslofti fara
kjaraviðræður fram. Vissulega
er sviðsetningin og leikræn upp-
færslan sjálfri sér lík. Samnings-
aðilarnir reyna að fela fyrir þeim
sem fylgjast með um hve lítið er
að semja. Þess vegna er tölt upp
í stjórnarráð í fyrsta þætti og í
öðrum þætti upp í Ráðherra-
bústað og „gerðar kröfur“ á rík-
isvaldið. Útspil ríkisstjórnar-
innar var eitthvert hið smá-
gerðasta sem sést hefur við
slíkar uppsetningar. „Lofað var“
að þær smávægilegu launa-
hækkanir sem
menn tala um
myndu líka ganga
til bótaþega. Datt
einhverjum öðrum
en norrænni vel-
ferðarstjórn í hug að annað
kæmi til greina? Lofað var að
persónuafsláttur yrði verð-
tryggður. Það loforð hefur legið
fyrir lengi. Þá var fram-
kvæmdum lofað og voru það þær
sömu sem forystumenn ríkis-
stjórnarinnar hafa lofað reglu-
bundið á síðustu tveimur árum.
Þeim loforðum hafa jafnan fylgt
tölur um störfin sem skapast
myndu í kjölfarið. Ef eitthvað
hefði verið að marka þau loforð
öll væri atvinnuleysið fyrir löngu
horfið. Og það er mergurinn
málsins. Forystumenn atvinnu-
lífsins, ekki síst forseti ASÍ, hafa
margoft bent á að ríkisstjórnin
hafi alls ekki staðið við yfirlýs-
ingar sínar sem gefnar voru síð-
ast þegar eins stóð á í kjara-
viðræðum og núna. Hefði ekki
verið nær að fara yfir þau brigð
öll og krefjast efnda áður en lát-
ið er eins og einhver veigur sé í
því endurtekna efni sem nú var
spilað út til að slá ryki í augu
launþega? Og auðvitað er það
svo að við gerð kjarasamninga er
mjög erfitt að eiga skipti við rík-
isstjórn sem hefur það beinlínis
á stefnu sinni að grafa undan ís-
lenskum sjávarútvegi, stöðug-
leika innan hans og þó einkum
möguleikum hans til framtíðar.
Lágmarkskrafan hlýtur að vera
sú að ríkisstjórnin geri hreint
fyrir sínum dyrum varðandi
sjávarútveginn áður en lengra er
haldið.
Ríkisstjórnin
þvælist fyrir þróun
kjarasamninga}
Launamál á leiksviði
Skoðanakönnunsem birt var í
gær sýnir að fólk
hefur ekki tekið
skýra afstöðu til
þess hvernig greiða
ætti Icesave III
samningana yrðu
þeir samþykktir í
kosningunum á laugardag.
Spurt var að því hvernig fólk
teldi best að ríkissjóður aflaði
þeirra rúmlega 26 milljarða
króna sem fjármálaráðuneytið
telur að þyrfti að greiða á þessu
ári yrðu samningarnir sam-
þykktir. Könnunin sýnir að 55%
svara þessu ekki, 21% vill taka
lán fyrir kostnaðinum, 16% vilja
skera niður og 9% vilja hækka
skatta.
En þó að niðurstaðan sé afar
óljós um afstöðu fólks til þess
hvernig ætti að fjármagna samn-
ingana yrðu þeir samþykktir, má
segja að hún sýni um leið að þeg-
ar fólk stendur frammi fyrir
þessum raunveruleika þykir því
enginn kostur góður.
Könnunin gaf þannig óljósar
niðurstöður en varpar um leið
ljósi á þá staðreynd
að þeir peningar
sem færu í að greiða
löglausar kröfur
Breta og Hollend-
inga yrðu ekki not-
aðir í annað. Og til
að setja þessi út-
gjöld í samhengi má
hafa í huga að útgjöldin í ár yrðu
jafnmikil og allur stofnkostn-
aður Búðarhálsvirkjunar, tvö-
faldur rekstrarkostnaður Há-
skóla Íslands eða tveir
þriðjuhlutar rekstrarkostnaðar
Landspítalans.
Og þetta er aðeins greiðslan
sem liggur fyrir fyrsta árið og
ekki yrði komist hjá segðu Ís-
lendingar já á laugardag. Full-
komin óvissa ríkir um fram-
haldið en töluverðar líkur eru á
að þar yrði um margfalt hærri
fjárhæðir að ræða.
Tugir eða hundruð milljarða
eru óraunverulegar tölur, en
þegar þær eru settar í samhengi
sést vel hversu ofboðslegar fórn-
ir ríkisstjórnin reynir að telja
landsmenn á að færa vegna Ice-
save-lögleysunnar.
Fórnarkostnaðurinn
vegna Icesave III
yrði í senn
gríðarlegur og
raunverulegur }
Miklar fórnir fyrir ekki neitt
S
tjórnmálamaðurinn lætur ekki að
sér hæða. Fyrir hrun gengu
lánshæfismatsfyrirtæki út frá því
sem vísu að ríkisvaldið stæði á bak
við skuldbindingar viðskiptabank-
anna. Í krafti þess góða lánshæfismats sem
bankarnir hlutu vegna þessarar meintu ríkis-
ábyrgðar fengu þeir stjarnfræðilegar upp-
hæðir að láni frá útlöndum.
Stjórnmálamaðurinn horfði í gegnum fing-
ur sér með þessa skuldasöfnun, því hún jók
veltu í þjóðfélaginu og skilaði sér í ríkiskass-
ann. Þannig gat stjórnmálamaðurinn sinnt
sínu helsta áhugamáli, sem er að vera góður
fyrir annarra manna peninga.
Enn er stjórnmálamaðurinn við sama hey-
garðshornið. Nú er það honum sérstakt
áhugamál að almenningur taki á sig skuld-
bindingar einkabanka í útlöndum. Með þeim gjörningi
verður auðveldara fyrir ríkið að fá áfram lán, hjá
Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum ríkjum. Þannig get-
ur stjórnmálamaðurinn áfram sinnt sínu helsta áhuga-
máli, sem er að vera góður fyrir annarra manna peninga.
Stjórnmálamaðurinn er lydda. Hann beygir sig og
bugtar fyrir yfirgangi gamalla nýlenduvelda, sem tóku þá
ákvörðun, að íslenska ríkinu forspurðu, að veita því „lán“
til að bjarga þeim einstaklingum sem reyndust svo fífl-
djarfir að leggja peninga sína inn á hávaxtareikninga
Landsbanka Íslands.
Nú skipta endurheimtur í þrotabú Landsbankans,
gengisþróun og aðrir áhættuþættir í sjálfu
sér engu máli, þegar metið er hvort almenn-
ingur eigi að gangast í ábyrgð fyrir slíkar
skuldbindingar einkaaðila. Hér er um prin-
sippmál að ræða. Erum við fullgild og stolt
þjóð, sem lætur ekki baráttulaust undan of-
beldi erlendra gerræðisafla, eða erum við
máttlausar og þreklausar undirlægjur, sem
láta vaða yfir sig á skítugum skónum vegna
þess að það er „þægilegra“ að friða útlenda
oflátunga? Að því slepptu er augljóst að með
því að samþykkja samninginn er verið að
taka mikla áhættu. Ef eitthvað er enda að
marka heilaþvott stjórnmálamannsins, um að
útgjöld ríkisins verði hverfandi, gengis-
áhætta sé engin og endurheimtur verði að lík-
indum 100%, af hverju er þá verið að veita
ríkisábyrgð á kröfunni? Þá er öldungis
óþarft að veita slíka ábyrgð.
Mál eins og þetta gera gagn að því leyti að þau afhjúpa
stjórnmálamanninn fyrir þjóðinni. Þau sýna svart á hvítu
að hann hugsar bara um eigin botnhlera og lætur sig litlu
varða þær hugsjónir sem mestu skipta; um að standa
með sjálfum sér og þjóðinni, sem honum var treyst til
þess að verja með kjafti og klóm.
Kannast einhver við að hegðun stjórnmálamannsins
núna eigi sér einhverja fyrirmynd? Hvenær áður hefur
baráttan snúist um að taka erlend lán til skamms tíma,
til að standa straum af erlendum lánum og verða ekki
„tímabundnum lausafjárvanda“ að bráð? ivarpall@mbl.is
Ívar Páll
Jónsson
Pistill
Stjórnmálamaðurinn enn í stuði
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjórar:
Davíð Oddsson Haraldur Johannessen
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Útgefandi:
Óskar Magnússon
FRÉTTASKÝRING
Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is
M
eð því að færa verk-
efni efnahags-
brotadeildar yfir til
embættis sérstaks
saksóknara, líkt og
gert er ráð fyrir í nýju stjórnar-
frumvarpi, er fyrsta skrefið stigið í
átt að því að mynda nýja efnahags-
brotastofnun sem mun fara með
rannsókn á öllum fjármuna- og efna-
hagsbrotum í landinu. Fyrirmyndin
er norska stofnunin Ökokrim sem
fer með rannsókn allra stærri efna-
hagsbrota þar í landi.
Með sameiningunni á að gera
rannsóknirnar skilvirkari og koma í
veg fyrir tvíverknað og henni er
vafalaust ætlað að koma í veg fyrir
að atvik á borð við það sem varð árið
2008, þegar efnahagsbrotadeild rík-
islögreglustjóra fékk húsleitarheim-
ild í húsakynnum skattrannsóknar-
stjóra, endurtaki sig.
Frumvarpið hefur verið samþykkt
í ríkisstjórn og sent þingflokkum
Samfylkingar og Vinstri grænna.
Það verður væntanlega lagt fyrir á
Alþingi innan tíðar og er vonast til að
það verði að lögum fyrir þingslit.
Rannsakað á tveimur stöðum
Sameining efnahagsbrotadeildar
og sérstaks saksóknara er þó aðeins
fyrsti áfanginn í að endurskipuleggja
rannsókn og saksókn efnahagsbrota.
Í innanríkisráðuneytinu er vonast til
að innan þriggja ára verði til ný efna-
hagsbrotastofnun sem annist rann-
sókn og saksókn í alvarlegum og
flóknum efnahagsbrotum.
Starfsemi sem hin nýja stofnun
myndi sinna er nú sinnt af nokkrum
stofnunum, m.a. skattrannsóknar-
stjóra, lögreglunni á höfuðborgar-
svæðinu, ríkissaksóknara og rann-
sóknardeild tollstjóra. Innan ráðu-
neytisins er einnig vilji til að rann-
sóknir Fjármálaeftirlitsins og Sam-
keppniseftirlitsins á málum, sem
varða þyngri refsingu en sektum,
verði færðar yfir til nýju stofnunar-
innar.
Innan stjórnkerfisins hefur verið
bent á að innan þessara stofnana sé
að finna mikla sérhæfða þekkingu en
á hinn bóginn sé oft verið að rann-
saka afmörkuð (meint) brot, sem eru
í raun hluti af víðtækari brotastarf-
semi. Engin stofnun hafi yfirsýn yfir
alla brotastarfsemina og engin stofn-
un hafi valdboð yfir annarri til að
safna saman upplýsingum eða taka
yfir rannsókn, líkt og kom svo ber-
lega í ljós þegar efnahagsbrotadeild-
in þurfti húsleitarúrskurð til að afla
gagna hjá skatttrannsóknarstjóra.
Þá eru þekkt dæmi um að verið sé
að rannsaka sömu háttsemi á fleiri
en einum stað og að sakborningar
þurfi að mæta í yfirheyrslur hjá
tveimur ólíkum stofnunum vegna
sama málsins. Þá hefur ráðuneytið
bent á að algengt sé að ein stofnun
hefji rannsókn en þegar líður á
rannsóknina komi í ljós að hún sé
betur komin hjá annarri stofnun.
Allt veldur þetta tvíverknaði sem
tefur mál og truflar og veldur sak-
borningum miklu óhagræði og hug-
arangri. Þótt ekkert sé ákveðið í
þessum efnum virðist blasa við að
hin nýja efnahagsbrotastofnun muni
rísa á grunni embættis sérstaks sak-
sóknara en líftími embættisins er
takmarkaður og á að vera lokið fyrir
1. janúar 2013. Starfsmenn sérstaks
saksóknara er nú 72 en til saman-
burðar má nefna að starfsmenn
efnahagsbrotadeildar voru að jafn-
aði 14-15 á árunum 2004-2008 og þar
eru starfsmenn nú 17.
Starfsmönnum efna-
hagsbrotadeildar verð-
ur boðið að flytjast yfir
til sérstaks saksóknara
eða þiggja annað starf
innan lögreglunnar, skv.
upplýsingum Morgun-
blaðsins.
Ný stofnun rannsaki
öll efnahagsbrot
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höfuðstöðvar Til stendur að mynda nýja efnahagsbrotastofnun.
Allangt er síðan embætti ríkis-
saksóknara lagði til að efna-
hagsbrotadeild og embætti sér-
staks saksóknara yrðu
sameinuð. Ríkislögreglustjóri
hefur einnig lýst sig fylgjandi
sameiningunni. „Það er verið að
vinna að sams konar verkefnum
á þessum tveimur stöðum,“ seg-
ir Sigríður Elsa Kjartansdóttir,
saksóknari hjá ríkissaksóknara.
Hún bendir á að þegar lögum
um sérstakan saksóknara var
breytt um mitt ár 2010 hafi
mörkin enn brenglast en með
henni voru verkefni sérstaks
saksóknara ekki lengur bundin
við bankahrunið heldur víkkuð
út og ná nú til rannsóknar á
meintum brotum í starfsemi
fjármálafyrirtækja.
Embætti ríkissaksóknara vilji
að mynduð verði öflug stofnun
eða deild sem sinni efnahags-
brotum og það komi vel til
greina að leggja
starfsemi annarra
stofnana, að hluta
eða í heild, undir
hana.
Mörkin
brengluðust
SAMS KONAR VERKEFNI