Morgunblaðið - 05.04.2011, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 05.04.2011, Blaðsíða 20
20 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 5. APRÍL 2011 ✝ Þórey Einars-dóttir fæddist 21. apríl 1955. Hún lést á Krabbameinslækn- ingadeild 11E á LSH 25. mars 2011. Foreldrar hennar eru Bentey Hallgrímsdóttir, f. 9. maí 1925, og Einar Jóhann Al- exandersson, f. 14. janúar 1924, d. 25. júní 1998. Systkini Þóreyjar eru Birgir Þórisson, f. 1947, Rósa Kristín Þórisdóttir, f. 1948. Sigurjón Einarsson, f. 1960, og Aldís Einarsdóttir, f. 1966. Þórey kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum Smára Þór- arinssyni 1973 og gengu þau í hjónaband 22. október 1976. Foreldrar Smára eru Þórarinn Ingi Jónsson og Björg Hjartar- dóttir. Börn Þóreyjar og Smára eru Örvar, f. 24. júní 1977, maki Birgitta Birgis- dóttir, barn Alda, f. 27. sept- ember 2008, Vala, f. 8. febrúar 1984, maki Illugi Torfason, barn Þórey, f. 22. mars 2011, Adda, f. 14. nóvember 1998. Þórey lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1974, BA-prófi í ensku og almennum bók- menntum frá Háskóla Íslands 1981, MA-prófi í enskum og amer- ískum bók- menntum frá Am- erican University 1988 og námi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá HÍ 1989. Und- anfarin ár stund- aði Þórey nám í kvikmyndafræði við HÍ meðfram kennslu. Þór- ey kenndi við Réttarholtsskóla 1980 til 1981 en gerðist svo blaðamaður á Vikunni til 1986 er hún fór til náms í Banda- ríkjunum. Á árunum 1989- 1990 kenndi hún í Fjölbrauta- skólanum við Ármúla. Þórey kenndi um tíma á fyrri hluta tíunda áratugarins kennslu- fræði erlendra bókmennta við Kennaraháskóla Íslands og var gestakennari í nýtingu bókmennta í tungumála- kennslu við Háskóla Íslands 2000 til 2009. Árið 1990 hóf hún kennslu við Mennta- skólann við Hamrahlíð og kenndi þar til dauðadags. Þór- ey sat í stjórn Enskukenn- arafélagsins 1994-1999. Útför Þóreyjar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 5. apríl 2011, og hefst athöfnin kl. 15. Elsku mamma mín, ég trúi ekki enn að þú sért farin frá okkur. Það var svo ótalmargt sem við áttum eftir að gera sam- an, ótalmargt sem ég átti eftir að segja þér og þú að kenna mér. En ég trúi því að þú sért á einhverjum góðum stað núna, laus úr viðjum sjúkdómsins og öllu því sem honum fylgdi. Ég veit að þú þoldir ekki að vera sjúklingur og að það þyrfti að hafa mikið fyrir þér. Mér fannst erfitt að sjá þig svona veika og mér fannst það ósanngjarnt, en ég veit að þar sem þú ert núna hefurðu fengið frið. Við vorum alltaf nánar, en síð- ustu ár höfum við orðið nánari með hverju árinu. Við þekktum hvor aðra svo vel og þurftum aldrei mörg orð til að tjá hvernig okkur leið, við bara skildum það. Þú sagðir einu sinni við mig að það væri mikilvægara að sýna ást og umhyggju en að tjá hana með orðum. Við vorum ólíkar en samt svo tengdar og á margan hátt líka svo líkar. Ég hafði og hef enn svo mikla þörf til að segja þér frá öllu, merkilegu og ómerkilegu og fá ráð við öllu, hvort ég eigi að kaupa mér kjól eða skó, eða hvort ég eigi að fá mér aðra súkkulaðikökusneið. Við létum stundum alveg eins og fífl saman, töluðum dönsku, dönsuðum eða sungum söng- leikjasöngva hástöfum þar til pabbi bilaðist. Ég á svo yndis- legar minningar frá síðustu jól- um, þrátt fyrir að flensur hafi sett svip sinn á hátíðahöldin. Þér fannst jólin vera algjört klúður, en mamma, þau voru fullkomin. Það var svo notalegt að gista hjá ykkur í Mávahlíðinni, láta þig hjúkra mér þegar ég var með magaverkina og kúra saman fram eftir kvöldi. Þegar ég hugsa til þessara jóla, hlýnar mér allri að innan. Nú er ég komin í nýtt hlutverk, nú er ég orðin mamma. Þrátt fyrir alla sorgina og sökn- uðinn sem virðist yfirþyrmandi þá veit ég að ég verð að vera sterk fyrir Þóreyju mína, litla sólargeislann. Ég ætla mér að vera eins góð mamma og þú varst mér. Þó ég sé enn að tak- ast á við reiðina að guð hafi ákveðið að taka þig til sín í sömu viku og hann gaf mér Þóreyju mína þá er ég óendanlega þakk- lát fyrir það að þú hafir fengið að hitta hana, knúsa hana og kyssa áður en þú lést. Ég man þú sagð- ir við mig „þetta er óborganleg stund“. Þessi stund tengir ykkur tvær nöfnurnar að eilífu og Þór- ey mun fá að vita allt um ömmu sína. Hún er ljósið í lífi okkar núna. Hún er það sem fær mig fram úr á morgnana og neyðir mig til að horfa til framtíðar með björtum augum. Hún á það skil- ið. Elsku besta mamma mín, þú varst yndisleg og ég gleymi aldr- ei hlýja faðminum þínum, bros- inu og hlátrinum. Eins og ég lof- aði mun ég passa pabba, Öddu og Örvar og þau munu passa mig. Þó að lífi þínu hér á jörð sé nú lokið mun minning þín og ljósið þitt loga að eilífu. Sof, ástríka auga, sof, yndisrödd þýð, hvíl, hlýjasta hjarta, hvíl, höndin svo blíð! Það hverfur ei héðan, sem helgast oss var: vor brjóst eiga bústað, - þú býrð alltaf þar. Hið mjúka milda vor sín blóm á þig breiði og blessi þín spor. (Jóhannes úr Kötlum) Þín elskandi dóttir, Vala. Ég kveð ekki aðeins móður mína, heldur einn besta vin sem ég hef nokkurn tíma átt. Við hlógum að sama gríninu, við sáum það fallega í sömu augna- blikum og við vorum með eins fingur. Ég vona að með tíð og tíma eigi ég eftir að upplifa tærar minningar af öllum þeim yndis- legu stundum sem við áttum saman, þegar þunginn færist frá eilífðinni sem lifði á milli síðustu andardrátta hennar. Þangað til getum við sungið Strolluna: Ég vildi að ég sæi strolluna koma niður hólana Sillu, Dóru og Soffíu Soffíu, Soffíu, Gest og Kitta og Ólínu, Fríðu, Einar og Kristínu Gumma Grím og Þóreyju, Jakob Fals og frú. Örvar Þóreyjarson Smárason. Elsku yndislega tengda- mamma mín er látin. Þórey var einstök kona, hún var hlý, góð og kom alltaf fram við mig eins og eina af fjölskyld- unni, frá því ég hitti hana fyrst, þegar Örvar fór með mig í mat- arboð í Mávahlíðina. Ég man að ég kveið fyrir, var pínu stressuð að fara hitta tengdó í fyrsta sinn. En um leið og ég steig inn fæti á heimili Þóreyjar og Smára rann af mér allt stress, enda engin ástæða til eins og ég komst svo að. Ég mun aldrei gleyma þess- ari kvöldstund, við borðuðum góðan mat og drukkum gott vín. Það var mikið talað og mikið hlegið, sögur voru sagðar af Örv- ari þegar hann var ungur og Þórey vildi mikið vita um mig og mína fjölskyldu, það þótti mér vænt um. Ein minning er mér of- arlega í huga en það er ræða hennar í brúðkaupi okkar Örv- ars, þar sem hún bauð mig vel- komna í fjölskylduna og sagðist ekki einungis hafa eignast tengdadóttur heldur liti hún á mig sem þriðju dótturina. Þau orð hennar geymi ég innst í hjartanu mínu og mun aldrei gleyma. En þau orð voru líka sönn. Þannig leið mér alltaf í kringum hana, ég var velkomin. Þórey var mikil lista- og hand- verkskona. Það er margt sem við litla fjölskyldan eigum eftir hana, t.d. kjólarnir og peysurnar sem hún prjónaði á Öldu og rúm- teppið sem hún saumaði og gaf okkur í brúðkaupsgjöf. Teppið mun ég geyma og lofa ég að Alda fái það svo þegar að því kemur. Það eina sem maður getur þakkað fyrir á erfiðum sorgar- stundum sem þessari eru minn- ingarnar og sem betur fer eru þær margar þó að ég hafi fengið alltof stuttan tíma með Þórey, en ferðalög okkar og sumarbústaða- ferðir og þessar hversdagslegu stundir sem við áttum saman þakka ég fyrir. Þórey var besta amma sem hugsast getur og er missir henn- ar mikill þegar kemur að dóttur okkar Örvars, Öldu. Alda elskaði ömmu sína mikið og fannst svo gaman að fara í heimsókn til ömmu Þóreyjar og afa Smára, ekki fannst henni verra að fá að gista. Það var erfitt að segja Öldu frá því að nú væri amma Þórey dáin og kæmi ekki aftur, hún hristi bara hausinn og hló að okkur og neitaði. Það er akkúrat það sem ég vil gera, ég bara hreinlega trúi ekki að elsku tengdamamma sé farin. Við sögðum Öldu að nú væri amma Þórey í hjörtum okkar að eilífu. Eftir smá umhugsun hjá Öldu byrjaði hún að syngja lag sem hún lærir á leikskólanum sínum og því læt ég textann úr laginu fylgja hér sem kveðju frá Öldu. Sunnan yfir sæinn breiða sumarylinn vinda leiða. Draumalandið himinheiða hlær og opnar skautið sitt. Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt! Gakk þú út í græna lundinn, gáðu fram á bláu sundin. Mundu, að það er stutt hver stundin, stopult jarðneskt yndi þitt. Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt! Allt hið liðna er ljúft að geyma, – láta sig í vöku dreyma. Sólskinsdögum síst má gleyma, – segðu engum manni hitt! Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt! (Jóhannes úr Kötlum) Minningin um yndislega konu lifir í hjörtum okkar að eilífu. Birgitta Birgisdóttir og Alda Örvarsdóttir. Mig langar með fáum orðum að minnast hennar systur minn- ar, hennar Þóreyjar Einarsdótt- ur sem lést á krabbameinslækn- ingadeild Landspítalans hinn 25. mars sl. Við Þórey ólumst upp saman, hún var stóra systir sem passaði upp á bróður sinn, þó svo að í byrjun hafi hún verið ósátt við að fá lítinn bróður, hún vildi litla systur. Þórey hafði ráð við því eins og svo mörgu öðru – hún klæddi bara litla bróður sinn í stelpuföt og kallaði hann Bryn- dísi. Smátt og smátt sætti hún sig þó við bróðurinn og var góð og umhyggjusöm við hann eins og hún alltaf var við allt sitt sam- ferðafólk. Þó að það væri fimm ára aldursmunur á okkur leyfði hún Þórey mér að vera með í öll- um leik – dúkkulísuleik og Barbí-leik og langt fram á ung- lingsaldur fékk ég að vera með henni og hennar vinum sem nokkurskonar áheyrnarfulltrúi og hafði mikið gaman af. Sitjandi á gólfinu inni í táningsstelpuher- berginu og hlustandi á vinkon- urnar spjalla um allt sem tán- ingsstelpur spjalla um. Og þegar strákarnir fóru að koma þá var ég þar líka, mörgum þótti örugg- lega eitthvað skrítið hve litli bróðirinn fékk að vera mikið með – og örugglega svolítið furðulegt fyrir suma. En svona var hún systir mín hún Þórey – hún var yndisleg systir sem ég á svo margt að þakka. Og svo kom stóri strákurinn hann Smári og Þórey varð yfir sig ástfangin, og skömmu seinna kom litli strák- urinn hann Örvar, og þá fékk ég minn litla bróður. Nokkrum ár- um seinna fékk ég hana Iðunni mína, og svo komu þau öll svona koll af kolli, Vala, Einar, Harpa og hún Adda. Við vorum mikið saman á þessum árum, þetta var svona einn stór barnaflokkur sem við áttum sameiginlega. Þórey sýndi mínum börnum ást og umhyggju sem þau væru hennar eigin börn, og gráta þau nú Þóreyju frænku sína og sakna hennar sárt og mikið. Barna- flokkurinn okkar bara stækkar – við hafa bæst hún Alda litla hans Örvars og Birgittu og eins og engill af himnum sendur kom hún Þórey litla í heiminn hinn 22. mars, dóttir Völu og Illuga. Eftir að ég og mín fjölskylda fluttum til Noregs urðu sam- verustundirnar færri, en þær voru gleðilegar og innilegar. Ég á endalausa minningabók í hug- anum frá gleðistundum á Íslandi, í Noregi og á Spáni, þessar minningar hugga sorgina, en tár- in þrýsta á og og söknuðurinn eftir henni Þóreyju minni mun aldrei hverfa. Elsku systir, nú ert þú farin í langt ferðalag og ég veit að hann pabbi tók á móti þér, við munum síðan öll fara í sama ferðalag og koma til ykkar – koll af kolli. Þá hittumst við Þórey og ger- um eitthvað skemmtilegt. Elsku Smári, Örvar, Vala, Adda, Birgitta, Illugi, Alda og Þórey, megi öll þau öfl sem geta gefa ykkur styrk í sorginni. Sigurjón bróðir. Vort líf er svo ríkt af ljóssins þrá, að lokkar oss himins sólarbrá, og húmið hlýtur að dvína, er hrynjandi geislar skína. Vor sál er svo rík af trausti og trú, að trauðla mun bregðast huggun sú, þó ævin sem elding þrjóti, guðs eilífð blasir oss móti. Vort hjarta er svo ríkt af hreinni ást, að hugir í gegnum dauðann sjást. - Vér hverfum og höldum víðar, en hittumst þó aftur – síðar. (Jóhannes úr Kötlum.) Guð blessi minningu elsku- legrar tengdadóttur okkar. Björg og Þórarinn Ingi. „Skjótt hefir sól brugðið sumri“ (J.H.) Sumarið hennar Þóreyjar varð allt of stutt. Enn erum við minnt á hvað við mannverurnar ráðum litlu um líf og dauða. Ég kynntist Þóreyju þegar Óli bróðir minn og Aldís systir hennar rugluðu saman reytum fyrir tæpum tveimur áratugum. Kynnin urðu nánari eftir að Ási bróðursonur minn fæddist og við fórum að hittast oftar í afmæl- isboðum, kvöldverðum og af ýmsu öðru tilefni. Það var gaman að spjalla við Þóreyju, ekki síst um bókmenntir og kvikmyndir sem voru meðal hennar helstu áhugamála. Hún var alltaf að bæta við menntun sína og visku með lestri bóka og með náms- dvölum erlendis eftir því sem tækifæri voru til. Svo var hún líka mikil hannyrðakona. Síðastliðið sumar fórum við ásamt skemmtilegum hópi fólks í dásamlega ferð til Grunnavíkur þar sem Þórey var í sveit hjá afa og ömmu sem barn meðan enn var búið í þessari harðbýlu vík. Rústir báru vott um horfna drauma um útgerð, veiðar og fiskvinnu fyrir unga fólkið sem fremur kaus að leita sér betra lífs í þéttbýlinu annað hvort á Ísafirði eða allt suður til Reykja- víkur. Vestfirðirnir skörtuðu sínu fegursta dagana sem við vorum þar og þarna kom í ljós hve Þórey þekkti vel sögu mann- lífsins í Jökulfjörðum, sögu ætt- ar sinnar, söngvana sem þar voru sungnir og bara þar. Þarna voru barnmörg heimili og ætt- artengsl milli bæja enda frænd- garðurinn stór. Lífsbaráttan var oft erfið með mannsköðum þegar bátar fórust eða börn og mæður dóu, þó oftast væri nóg til af mat. Vestfirsku ræturnar eru sterkar og það leyndi sér ekki í frásögn Þóreyjar. Meðan við hin örkuð- um upp um fjöll og firnindi hafði Þórey hægt um sig enda var hún að jafna sig eftir veikindi. Engan grunaði að þau myndu taka sig upp aftur og það svo fljótt, hvað þá að þau næðu yfirhöndinni á svo skömmum tíma og legðu Þóreyju að velli okkur öllum að óvörum. Eitt sinn skal hver deyja en stundum er dauðinn svo ótímabær og óréttlátur að konu verður orða vant. Þórey var kona í blóma lífsins með Smára sér við hlið, Öddu að vaxa úr grasi og Völu og Örvar með litlu ömmu- börnin sem eru rétt að stíga sín fyrstu skref út í heiminn. Sorg þeirra er mikil. Þau missa hana og hún missir af þeim. Svo var það MH þar sem starfsvettvang- ur Þóreyjar var. Þar sakna kennarar samstarfskonu og nemendur frábærs kennara. Að leiðarlokum þakka ég Þóreyju fyrir góð og gjöful kynni. Ég ætla að muna hana í berjabrekku í Grunnavík innan um lyng og lággróður, við gjálfur í mjúkum öldum og sól að hverfa bak við vestfirsku fjöllin. Fjölskyldu Þóreyjar allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Kristín Ástgeirsdóttir. Fyrir margt löngu heyrði ég af konu sem hafði fengið 10 í ein- kunn fyrir BA ritgerð í ensku við Háskóla Íslands. Þetta þóttu mikil firn og hefur líklega hvorki gerst fyrr né síðar. Ekki grunaði mig þá að þessi fræga kona yrði mágkona mín, en sú varð raunin. Fyrsti fjölskyldumeðlimurinn sem Aldís nefndi við mig þegar við vorum að kynnast var Þórey systir. Það var Þórey systir þetta og Þórey systir hitt og Þórey og Smári og börnin og ég gerði mér fljótlega ljóst að þær systur voru afar nánar. Enda hafði Þórey fengið Aldísi í hend- urnar 11 ára gömul og átti ekki minni þátt í uppeldi hennar en foreldrarnir. Á fullorðinsárum urðu þær jafnvel enn nánari og töluðust við á hverjum einasta degi. Þórey og hennar fjölskylda var mjög stór þáttur í okkar lífi. Við fórum saman í frí og ferða- lög, í sumarbústaði og útilegur og mörg vetrarkvöld var setið við kertaljós og létt vín og rætt um lífið og tilveruna. Og þegar Ási kom í heiminn tók Þórey honum sem hann væri hennar eigið barn. Hann var passaður, hann gisti og borðaði hjá henni og þar var hans annað heimili. Svona voru öll okkar samskipti. Það var alveg sama hvað maður nefndi við hana, alltaf var hún boðin og búin að gera allt sem í hennar valdi stóð til að leysa úr málum. Þórey var af fyrstu kynslóð barna alþýðufólks í Reykjavík sem flest höfðu tök á því að læra það sem hugur þeirra stóð til. Greind hennar og gáfur komu snemma í ljós og var hún sett í skóla 5 ára gömul og var alla tíð ári á undan í skóla. Bettý tengdamamma sagði þá sögu að Þórey hefði á unga aldri sótt það mjög fast að komast í skóla til að geta sagt: „stelpa í mínum bekk“. Og skóli varð hennar starfsvettvangur nánast alla tíð því hún kenndi í MH og víðar og sótti nám og endurmenntun hér- lendis og erlendis. Yfirleitt var tilgangur hennar sá að bæta hæfni sína sem kennari. Og hún var ekki bara afburða vel mennt- uð í sínu fagi heldur var hún vel að sér um alla hluti. Hún var menntakona í þess orðs æðsta og besta skilningi og við sem feng- um að umgangast hana nutum þess. Hún hafði einstaka frá- sagnargáfu og gat útlistað flókin viðfangsefni á einfaldan og skýr- an hátt. Þórey hafði sterka réttlætis- kennd og samúð með þeim sem minna máttu sín. M.a. kynnti hún okkur fyrir starfi stuðnings- foreldra ABC og studdi sjálf mörg börn og oft fleiri en eitt í einu. Þórey var alla tíð baráttu- kona fyrir kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna og var góð fyrirmynd ungra kvenna. Það að hafa átt samleið með Þóreyju í þessi ár eru einhver mestu forréttindi sem ég hef notið í lífinu. Hún var svo gáfuð, skemmtileg og fögur jafnt ytra sem innra að fáir voru hennar jafnokar. Í veikindum sínum hélt hún ávallt þeirri reisn sem ein- kenndi þessa sterku konu. Og nú er hún farin og það er svo sárt og svo mikill missir. Maður situr eftir lamaður af sorg og harmi og það er svo erf- itt að finna nokkra huggun nema ef vera skyldi hugsunin um allt Þórey Einarsdóttir ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og afi, RAGNAR VALDEMARSSON verkstjóri, Lindasíðu 29, Akureyri, lést á heimili sínu fimmtudaginn 31. mars. Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju fimmtudaginn 7. apríl kl. 10.30. Þeim sem vildu minnast hans er bent á Heimahlynningu á Akureyri. Sigrún Ásdís Ragnarsdóttir, Jónas Magnús Ragnarsson, Aðalheiður Eiríksdóttir, Sóley Ragnarsdóttir, Bjarki Páll Jónsson, Jónas Atli Kristjánsson, Eydís Eva Ólafsdóttir, Garðar Darri Gunnarsson, Eiríkur Jónasson, Kristín Einarsdóttir, Sigrún Arna Jónasdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.