Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Page 213
Ritdómar
211
í útgáfunni eru báðir textarnir prentaðir samsíða, og aftanmáls eru ljósmyndir
af báðum handritatextunum, þannig að lesandi á auðvelt með að velta fyrir sér
lesháttamun og taka sjálfstæða afstöðu ef honum svo sýnist. Þetta er hagkvæm
lausn með svo stuttan texta, og raunar er munur textanna svo mikill að óhugsandi
hefði verið að gera grein fyrir þeim með prentun annars textans og lesbrigðaskrá
úr hinum.
Auk handritatextanna beggja er prentað það sem útgefandi nefnir „Restored
text“, þar sem gerð er tilraun til þess að steypa saman gerðunum og endurgera
frumtextann. Þetta hefur Finnur Jónsson áður gert í fyrrnefndri útgáfu, og ekki
skal hér lagður dómur á hvernig til hefur tekist í hvoru tilvikinu. Enda hljóta hér
alltaf að vera mörg matsatriði. í heild virðist Raschellá styðjast meira við Uppsala-
bókartextann en Finnur, enda þótt stundum gangi hann lengra en sá síðarnefndi í
því að laga hann til.
Það sem ótvírætt verður að teljast merkilegt í skýringum útgefandans er túlkun
hans á myndunum, sem verða mun skiljanlegri eftir en áður. Þessir uppdrættir,
sem eins og áður sagði eru einungis í U, hafa löngum veist mönnum torskildir. En
með túlkun sinni hefur útgefandinn opnað leiðir til a. m. k. nokkurs skilnings á
þankagangi höfundar II MR, og mun nánar vikið að þessu síðar.
Ekki er örgrannt um að mér þyki útgefandinn á stundum ganga of langt í lag-
færingum sínum á textanum. Þetta er einkum varhugavert ef um afdrifarík efnis-
leg atriði er að ræða. Á einum stað gengur hann jafnvel svo langt (raunar að fyrir-
mynd Finns Jónssonar) að breyta textanum til hins „betra“ þar sem báðir hand-
ritatextarnir fara saman, í því skyni að fá fram texta sem kemur bctur heim við
ríkjandi hugmyndir um hljóðafar á ritunartíma ritgerðarinnar. Hér er um að ræða
ummæli um stafinn i, sem höfundur II MR kallar „skipting", þar sem hann er
ýmist sérhljóð eða samhljóð (sbr. bls. 32-5, 62-5). Hér gerir höfundurinn ráð fyrir
því að milli samhljóða, sem hann kallar „málstafi", sé i „réttr hljóðstafr", þ. e. a. s.
sérhljóð, en ef sérhljóð fari á eftir sé hann samhljóð. En „önnur skipting" þessa
stafs sé að hann sé „lausaklofi", þ. e. a. s. hluti af tvíhljóði. í báðum textunum er
orðum hagað þannig að svo má skilja, að þegar samhljóð stendur á undan og sér-
hljóð á eftir, sé i hluti af tvíhljóði, og í báðum tilvikum eru nefnd orðin björn,
bjór eða björg. Það sem útgefanda (og Finni Jónssyni) finnst grunsamlegt er það
að j sé samhljóð í orðum eins og jór, en hluti af tvíhljóði í orðum eins og bjór,
og þessvegna gera þeir viðeigandi lagfæringu á textanum, þannig að skilja má svo
sem i sé samhljóð í báðum tilvikum. Enda þótt útgefandinn og Finnur Jónsson hafi
e. t. v. eitthvað til síns máls, sýnist mér alls ekki útilokað að fá skynsamlegan
skilning út úr textanum eins og hann er án lagfæringarinnar. Það er kerfisbundinn
munur á því að standa í algjörri framstöðu og á eftir samhljóði í framstöðu, og það
er alls ekkert óhugsandi að einhver hljóðfræðilegur eða hljóðkerfislegur munur
hafi verið á i eða j eftir þessu umhverfi. Og jafnvel þótt svo hefði ekki verið gat
vel hugsast að höfundur ritgerðarinnar hefði gert sér það í hugarlund. Það verður
því að teljast vafasamt að halda því blákalt fram að þarna sé villa í báðum hand-
ritatextunum. Þetta er ekki síst hættulegt í útgáfu sem þessari, sem búast má við
að verði tekið mark á víða um heim. Hér hefði mátt láta nægja að gera athuga-
semdir án þess að gera þessar breytingar á textanum.