Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1986, Page 65
KJARTAN G. OTTÓSSON
Mörk orðmyndunar og beygingar:
miðmynd í nútímaíslensku
0. Inngangur
Hvort er miðmynd í íslensku frekar beygingarformdeild eða orð-
myndunarfyrirbæri? Pessi spurning hefur lítt verið rædd fræðilega á
prenti, þótt þetta virðist vera eina spurningin sem ýmsa fýsir að fá
svarað um miðmynd. Yfirleitt hafa höfundar handbóka og mál-
fræðiyfirlita gengið út frá því sem gefnu, að miðmynd, þ. e. sagnir
með endinguna -st, væri beygingarformdeild á borð við persónu,
tölu, hátt og tíð, og talið hana hliðstæða germynd og þolmynd.1
Kristján Árnason (1980:53-54) telur þó ýmislegt mæla gegn því
að miðmynd sé einföld beygingarformdeild, enda sé „í flestum til-
fellum“ alls ekki um að ræða einfalda svörun milli „miðmyndarend-
ingarinnar“ -st og tiltekinnar merkingar. í mörgum tilvikum sé
endingin -st frekar orðmyndunarviðskeyti, sem leiði af einni sögn
aðra sem hefur skylda merkingu, t. d. berjast af berja, og samsvar-
andi fyrir sýnast, bregðast, ætlast til, andast o. fl. Á þessu telur
Kristján þó líka þá annmarka, að ekki sé hægt að benda á neina
ákveðna merkingu eða hlutverk þessa viðskeytis, gagnstætt t. d.
-ari í bakari. Þá bendir Kristján á að oft séu ekki til neinar germynd-
arsagnir samsvarandi miðmyndarsögnunum, t. d. skjátlast, ferðast,
hamast.
1 Grein þessi er rituð, mest i hjáverkum og ígripum, á 3 ára tímabili. Hún var
upphaflega ætluð til birtingar í íslensku máli í ritstjóratíð Höskuldar Þráinssonar, en
gengið frá handriti í september 1986. Greinin óx upp úr smáþætti rannsóknar sem
styrkt hefur verið af Vísindasjóði: Beygingarþróun miðmyndar í íslensku. Fyrst og
fremst þakka ég Höskuldi Þráinssyni hvatningarorð og fjölmargar gagnlegar ábend-
ingar unt ófullgert uppkast að þessari grein, einnig Halldóri Ármanni Sigurðssyni
hvatningarorð og ábendingar, Christer Platzack ábendingar, Guðvarði Má Gunn-
laugssyni yfirlestur á hluta handrits og Helga Bernódussyni gagnlegar samræður um
suma þætti. Enn fremur þakka ég meðlimum Cosa nostra við Stofnun norrænna mála
við Lundarháskóla gagnlegar ábendingar á umræðufundi 21. nóvember 1985. Helga
Bcrnódussyni, Höskuldi Þráinssyni og Pétri Ástvaldssyni þakka ég leyfi til að nota
óprentaðar ritgerðir sínar.