Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1986, Síða 68
66 Kjartan Ottósson
um regluleika eða munstri í frálegðinni („miss a generalization“).
Þótt hægt sé að finna slíkt munstur er ekki þar með sagt að það sé
á nokkurn hátt virkt í málkerfi nokkurs málnotanda. Þetta er eitt
dæmi þess, hvernig möguleikarnir á að uppgötva málkerfið beint
gegnum frálegðina eru takmarkaðir. Það er einmitt eitt af viðfangs-
efnum málvísinda að segja til um það, hvers konar regluleiki er
virkur í málkerfum (sbr. Skousen 1975). Það hefur allt of oft
gleymst að reglur sem ekki eru lengur virkar geta skilið eftir sig í
málhefðinni munstur sem aðeins málfræðingar en ekki almennir
málnotendur gera sér grein fyrir.
Nauðsynlegt er í málfræðirannsóknum að notast allmjög við ein-
faldanir (idealizations), þar sem horft er burt frá ýmsum áhrifaþátt-
um í trausti þess að það hafi ekki áhrif á niðurstöðuna (sbr. Bresnan
& Kaplan 1982:xxiii). En hér er þá nauðsynlegt að reyna að gera sér
sem best grein fyrir því, hvaða hugsanlegir áhrifaþættir eru látnir
liggja á milli hluta, svo einhver hugmynd fáist um það, á hvern veg
þeir gætu skekkt niðurstöðurnar, og hvort áhrif þeirra geti gert ein-
földunina ónothæfa. í þessu sambandi er frumskilyrði að hægt sé að
finna því einhvern mögulegan stað í sálarlífi málnotenda sem haft
er fyrir satt (sbr. Linell 1979:27). Þannig er t. d. óhugsandi að
venjulegir enskir málnotendur leiði eight og octa- í octagonal út
með reglum af sameiginlegri grunnmynd, enda þótt sumir genera-
tífir hljóðkerfisfræðingar hafi gert ráð fyrir slíkum möguleikum (sjá
t. d. gagnrýnina hjá Linell 1979:225 og víðar). Þessi röklega sund-
urgreining eða smættun (reductio) er líka nauðsynleg við beinar til-
raunir, hún bendir m. a. á hvað forvitnilegast gæti verið að athuga,
hvernig mætti standa að rannsóknunum, og hvernig er hægt að
túlka niðurstöðurnar.
Kenning sú um eðli formdeilda (kategóría) sem byrjað hefur ver-
ið að nota innan málfræðinnar á síðari árum og kennd hefur verið
við prótotýpur (sjá yfirlit hjá Kjartani G. Ottóssyni 1986) gæti
breytt miklu í málfræðiiðkun. Grundvallarhugsunin bak við kenn-
inguna er sú, að einstakir fulltrúar formdeilda þurfi ekki allir að
vera jafngóðir sem slíkir, heldur geti formdeildir tekið yfir bæði
dæmigerða (miðlæga) fulltrúa og jaðarlæga (perifera), og mörk
milli formdeilda séu óglögg.3 Með þessu er horfið frá því sem kallað
3 Skyldar hugmyndir komu þegar fram innan Pragskólans (þar var talað um
„centre" og „periphery", sjá t. d. Bolinger 1975:516), og hafa skotið upp kollinum