Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1986, Side 76
74 Kjartan Ottósson
hvert annað: sumpart eru þau hrein-formleg, þ. e. varða sjálfkrafa
uppfyllingu paradigmans, eða þau lúta að merkingu eða
hljóðmynd, þ. e. hvort merking og hljóðmynd eru regluleg. í sam-
ræmi við það viðhorf að inntakið komi á undan hefur regluleiki
hljóðmyndar minni þýðingu.
Fyrsta atriðið felst í sjálfkrafa uppfyllingu paradigmans. Pá er
sem sagt þegar búið að setja upp einhvern reglubundinn flokk orða
eða beygingarmynda sem á grundvelli merkingar eða hljóðmyndar
gæti hugsanlega verið paradigma. Þetta má líta á frá tveimur sjón-
arhornum. Annars vegar er gengið út frá lesunum og þess krafist að
hvert les hafi beygingarmynd fyrir alla þá beygingarþætti sem til-
skilið er. Þannig á t. d. hvert einstakt lýsingarorð ekki aðeins að
geta fallbeygst, heldur einnig stigbreyst. Hins vegar er gengið út frá
beygingarþáttunum og athugað hvaða les geta tengst þeim, t. d.
hvaða les taka stigbreytingu. Málnotandinn verður sem sé að vita
að lesið tilheyri aðlegðarmenginu, án þess að leggja það á minnið
fyrir hvert einstakt les.
Yfirleitt er gert ráð fyrir því að öll les sama orðflokks myndi sams
konar paradigma, t. d. að öll nafnorð hafi myndir fyrir sömu tölur
og föll. Þetta felst líka í einni af þremur aðalaðferðum við að af-
marka orðflokkana sjálfa, þeirri beygingarfræðilegu.13 í reynd er
það þó frekar svo, að orðflokkar afmarka beygingarmöguleikana á
ákveðinn hátt, þannig að t. d. nafnorð geta beygst í tölum og
föllum, en ekki tíðbeygst. Merking lessins verður nefnilega jafn-
framt að samræmast beygingarþættinum.
Stundum vantar þannig í paradigma lið eða liði sem búast hefði
mátt við vegna orðflokksins, og oftast er ástæðan sú, að merking
stofnsins er ekki móttækileg fyrir inntaki beygingarþáttarins.14
Þannig geta t. d. orð sem tákna efni, t. d. sykur, ekki staðið í fleir-
13 Hinar aðferðirnar eru setningafræðileg og merkingarleg (sjá t. d. Höskuld
Þráinsson 1980:53-58, Bergenholtz & Mugdan 1979:126-141, sbr. Lyons 1977:423-
452). Setningafræðileg rök ráða því, hvernig óbeygð orð eins og lýsingarorðið and-
vana eru flokkuð. Sé hægt að nota þau eins og beygð orð má telja þau hafa sams kon-
ar paradigma og önnur orð sama orðflokks, þótt beygingarmyndirnar séu allar sam-
hljóða.
14 Meðal annarra hugsanlegra ástæðna má nefna að málnotendur eru í vafa um
hvernig myndin ætti að vera. Alþekkt dæmi um þetta (t. d. Kiparsky 1974:271) eru
myndir 1. persónu eintölu af ákveðnum rússneskum sögnum, þar sem stofninn endar
á d. Valið stendur um það hvort d-ið verði zd að gömlum (kirkjuslavneskum) hætti