Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1986, Page 116
114 Kjartan Ottósson
legu samhengi. Tungumál spretta ekki fram fullsköpuð eins og
Aþena úr höfði Seifs, heldur eru bundin hefð og verða til smám
saman. Líta má á na-sagnir sem eins konar minni fyrirrennara mið-
myndar, sem upphaflega var orðmyndunarfyrirbæri, notað þar sem
þörfin virtist brýnust, einkum í breytingarsögnum, þar til hinir
auknu möguleikar sem miðmynd skapaði urðu til. Hliðstæða mið-
myndar við þátíð heldur áfram hér, þar sem sterk þátíð er eldri en
veik, og á reyndar rætur í indóevrópsku. Sterk þátíð, inkóatífar na-
sagnir o. s. frv. eru fornminjar í málinu, voru þar fyrir er hinir nýrri
myndunarhættir sem síðar urðu reglulegir komu upp. Hefðin í mál-
inu kom í veg fyrir að hinum eldri myndunarhætti yrði útrýmt.
Hafa verður í huga að sjálf merking eða inntak eiginlegrar mið-
rnyndar gerir henni erfiðara fyrir en flestum öðrum formdeildum að
standast þær kröfur sem gerðar eru til beygingar. Anti-kásatíf
merking (,,and-orsakarmerking“) er valþáttur sem liggur „djúpt“ í
uppbyggingu setningarinnar, þ. e. með því að velja þá merkingu er
jafnframt ákvarðaður setningarrammi (sjá 1.2.5). Enn fremur er
það óvenju róttækt inngrip fyrir beygingarformdeild að breyta að-
ilafjölda sagnarviðfangs (3.2), og tíðara að aðilar hvers sagnarless
séu fastbundnir.
Enda þótt anti-kásatíf miðmynd sé dálítið afbrigðileg sem beyg-
ingarformdeild, sver hún sig langmest í þá ættina. Ef hún er borin
saman við hina lexikaliseruðu merkingarflokka miðmyndarsagna,
sem fjallað var um í 2.2, t. d. afturbeygilega flokkinn, stingur mun-
urinn í augu. Ef flokka ætti saman það sem líkast er, mundi mið-
mynd fylgja þolmynd. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að
aðrar beygingarformdeildir hafa yfirleitt ekki verið settar undir
smásjána á sama hátt og gert hefur verið við miðmynd hér. Væri
það gert tel ég líklegt að ýmsir myndu furða sig á óreglu þeirri sem
óumdeildar beygingarformdeildir sýna í raun.
Um þolmyndarmerkingu miðmyndar (,,háttarþolmynd“) er það
að segja, að hún er að sumu leyti minni takmörkunum háð en eigin-
leg miðmynd. Bæði er það, að miklu fleiri sagnir geta merkingar
sinnar vegna staðið í þolmynd en miðmynd, og líka hitt, að ekki er
um að ræða neinn „merktan“ beygingarflokk á borð við inkóatífar
na-sagnir í miðmyndarmerkingunni. Að þessu leyti má segja að
þolmyndarmiðmynd sé eindregnara beygingarfyrirbæri en eiginleg
miðmynd. Á hinn bóginn er staða hennar innan málkerfisins veik,