Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1999, Page 18
16
Gunnar Harðarson
hún sé breytileg að hætti („grammatica una et eadem est secundum
substantiam in omnibus linguis, licet accidentaliter varietur", tilv. hjá
Bourgain 1989:320). Þennan greinarmun, sem kalla má greinarmun á
eðli tungu og háttum hennar, er vert að hafa í huga í því sem á eftir fer.
2.3 Hugmyndir Dantes
í riti sínu De vulgari eloquentia frá því um 1306 (sbr. Shapiro 1990)
gerir ítalska skáldið Dante (1265-1321) nokkra grein fyrir ítölskum
mállýskum og þar setur hann fram þá hugmynd að greina megi milli
tungumála eftir því hvar í Evrópu þau séu töluð og hvernig játun sé
orðuð á hverju máli. Dante tekur undir hina hefðbundnu hugmynd um
skiptingu tungumála við smíði Babelsturnsins og telur að mismunandi
þjóðtungur hafi orðið til af einni og sömu upphaflegu tungunni sem
refsing sundrunarinnar. Hann telur að ein þessara þjóðtungna hafi ver-
ið töluð á því landsvæði sem nær frá mynni Dónár að vesturlandamær-
um Englands og markast í suðri og vestri af landamærum Ítalíu og
Frakklands, svo og af Atlantshafi. Þessi tunga hafi síðar greinst í mis-
munandi tungur Slava, Ungverja, Tevtóna, Saxa, Engla og ýmissa
annarra þjóða. Hið eina sem varðveist hafi sem tákn um sameiginleg-
an uppruna sé að svo til allar noti þær orðið jo til að játa einhverju. En
frá austurlandamærum Ungverjalands taki við önnur tunga (væntan-
lega gríska) um þau svæði sem tilheyri Evrópu.
Syðri hluti Vestur-Evrópu talar hins vegar, að mati Dantes, sérstaka
þjóðtungu sem hann skiptir í þrjár undirtungur eftir því hvemig játun-
in er orðuð: oc, oil eða si. Þeir sem tala þessar tungur eru í grófum
dráttum Spánverjar, Frakkar og ítalir. Rökin fyrir því að tungur þess-
ara þjóða hafi greinst úr einni og sömu þjóðtungu eru í þetta sinn þau
að þær noti í meginatriðum sömu heiti um flesta hluti. Þessi kenning
Dantes virðist byggð á athugun og reynslu, ekki á neinum kenningum
sem hann hefur lesið í bókum, en þó er mögulegt að hann hafi þekkt
til hugmynda Rogers Bacon. Dante spyr hvers vegna ein þjóðtunga
hafi orðið að þremur og hvers vegna hver þessara þriggja sé jafn
breytileg innbyrðis og raun ber vitni, og á þar við mállýskumuninn
sem hefur verið, og er enn, afar augljós á Italíu. Hann telur að rekja
megi þessar breytingar til manneðlisins. Maðurinn er breytileg og
óstöðug vera ekki síður í hugsun og tali en siðum og venjum, enda