Vera - 01.12.1982, Side 22
Blönduð
byggð -
betri
byggð
Á borgarráðsfundi þ. 30. nóvember sl. var lagt fram
bréf frá forstöðumanni Borgarskipulags frá 22. nóv.
varðandi deiliskipulagstillögu vestari hluta svæðis B. í
Ártúnshoiti. Þessi deiliskipulagstillaga varsamþykkt með
4 atkvæðum á móti einu. Þetta eina var atkvæði fulltrúa
Kvennaframboðsins, Guðrúnar Jónsdóttur og lét hún
bóka afstöðu sína þannig:
„Deildiskipulag fyrir Ártúnsholt, sem hér er fjallað
um, gerir ráð fyrir 126 íbúðum í Verkamannabústöðum á
svæði, sem upphaflega var ætlað fyrir 90 íbúðir. Hér eins
og endranær, þegar teknar eru ákvarðanir um skipulag og
byggingu Verkamannabústaða, sitja hagkvæmnis- og
fjárhagssjónarmið í fyrirrúmi. Að engu eru hafðar kann-
anir, munnlegar og skriflegar umsagnir starfsmanna Fé-
1 agsmálastofnunar Reykjavíkur, kennara og skólastjóra
grunnskóla í Fella- og Seljahverfi, sem allar henda á. að
viðlíka skipulag og hér um ræðir, hefur haft í för með sér
ill-leysanleg félagsleg vandamál.
Við teljum þá grundvallarhugmynd, sem skipulagið
byggir á, þ.e. að þjappa verkamannabústöðum saman á
eitt svæði, afar varhugaverða, þar sem ekkert tillit er
tekið til félagslegra afleiðinga hennar. Enn þá alvarlegri
verður hún við þá 36 íbúða fjölgun, sem núverandi deili-
skipulag gerir ráð fyrir.
Við greiðum því atkvæði gegn þessari tillögu að deili-
skipulagningu.“
* * *
Hér er auðvitað verið að mótmæla því að hola mörgum
íbúðum niður á allt of litlu svæði. Eins og bókun Kvenna-
framboðsins ber með sér, var upphaflega gert ráð fyrir 90
verkamannaíbúðum á Ártúnsholtinu og svæðið skipulagt
með tilliti til þess hvað varðar leikvelli og önnur útivistar-
svæði. Eftir kosningar í vor fór stjórn Verkamannabú-
staða og arkitekt hennar fram á að þeim íbúðum yrði
fjölgað í hvorki meira né minna en 143 án þess að aukið
yrði við byggingarsvæðið sjálft. Þetta þótti í mesta lagi og
síðar var samþykkt ný tilhögun, sú að íbúðirnar yrðu 126
og hlaut sá íbúðafjöldi samþykki skipulagsnefndar og
borgarráðs en á öllum stöðum greiddu fulltrúar Kvenna-
framboðsins atkvæði á móti og vildu að staðið yrði við
upphaflegt skipulag, 90 íbúðir. Fyrir þessari skoðun
okkar í Kvennaframboðinu liggja góðar og gildar ástæð-
ur, sem hér verður gert grein fyrir:
Það samræmist ekki stefnu Kvennaframboðsins að nóg
sé að byggja og byggja á sem ódýrastan hátt. í skipulagi
nýrra liverfa veröur að taka tillit til mannlegra þátta og
þeirrar kröfu að íbúahverfi séu eins vistleg og unnt er.
Félagslegum þörfum sé fullnægt og allt verði lagt undir til
að koma í veg fyrir vandamál, sem röng skipulagsstefna
getur haft í för með sér.
Það samræmist heldur alls ekki stefnu Kvennafram-
boðsins að þjóðfélagshópum sé safnað saman á einn stað.
Reynslan bæði hér og erlendis sýnir að æskilegt er að
íbúahverfi séu blönduð, bæði hvað varðar húsagerð og
íbúa og þá með tilliti til tekna, menntunar, aldurs o.s.frv.
* * *
I þessu sambandi má nefna dæmi um hroðvirknisleg
vinnubrögð í skipulagsmálum, vinnubrögð, sem koma
niður á heill íbúanna og skapa beinlínis vandamál í nýjum
hverfum. Mikið hefur verið rætt um félagsaðstæður í
Breiðholtinu og skýrslur sýna,að þar hefði verið þörf á
meiri aðgát. Eiðsgrandasvæðið er annað og nýrra dæmi
um fljótfærni. Á því svæði öllu var upphaflega gert ráð
fyrir íbúatölunni 1800. (Þá er miðað við meðal fjöl-
skyldustærð, 3.5.) En íbúatalan á þessu svæði stefnir nú í
3000. Ástæðan fyrir þessari aukningu er a) Stjórn Verka-
mannabústaða fór fram á blokkir í stað raðhúsanna, sem
upphaflega var gert ráð fyrir og b) Byggung fékk að
byggja blokkir líka. Á öllu Eiðsgrandasvæðinu er ekkert
dagvistunarheimili, enginn skóli, engin verslun, engin
þjónusta yfirhöfuð. Þrjú þúsund íbúar verða að sækja allt
slíkt í gamla Vesturbæinn, sem fullnægir naumast íbúum
sínum eins og er.
* * *
Víkjum þá aftur að Ártúnsholtinu. Þeir, sem þar koma
til með að búa, munu þurfa að sækja alla þjónustu sína í
Árbæinn. En hvernig er ástandið þar og er það hverfi
reiðubúið tl að taka á móti aukningunni?
Þar bjuggu árið 1981, 4.200 íbúar og af þeim voru
1360 innan við 16 ára aldur. í Árbæ er ein félagsmiðstöð,
Ársel. Þar eru 570 börn á forskólaaldri og þar er eitt
dagheimili fyrir 17 börn og leikskólaaðstaða fyrir 110
börn. í Árbæjarskóla voru á síðasta ári 900 nemendur, 23
að meðaltali í bekk. Og það er í Árbæinn, sem íbúar
Ártúnsholts og raunar hins væntanlega Seláshverfis líka,
eiga að sækja sína félagslegu þjónustu. (Af Seláshverfinu
er annars það að segja að í tíð fyrrverandi borgarstjórnar-
meirihluta var gefið loforð um 110 verkamannaíbúðir
þar. nú virðist á döfinni að fækka eða jafnvel hverfa frá
byggingu þeirra íbúða. Fjölgunin í Ártúnsholtinu er því
mögulega einhvers konar uppbót á því.)
Að þessu öllu athuguðu virðist það ekki að ósekju að
Kvennaframboðið greiði atkvæði gegn tillögum um fjölg-
un verkamannaíbúða á umræddu svæði. Að lokum skal
þess getið að fulltrúi okkar Kvennaframboðskvenna í
stjórn Verkamannabústaða er Guðlaug Magnúsdóttir.
Ms.