Ársrit Nemendasambands Laugaskóla - 01.01.1926, Blaðsíða 66
60
Höskuldi bana, skirrist ekki við, að vega að honum
varnar- og vopnlausum.
Hverjar eru orsakir illvirkis þessa, sem er hetjunni
Skarphéðni svo ósamboðið?
Ef sagan er með athygli lesin, kemur þessi atburður
alls ekki neitt ókynnilega fyrir sjónir.
Alt hefir stefnt í sömu átt, öll vötn runnið til sama
sjávar.
Við skulum snöggvast líta á málið frá sjónarmiði
Skarphéðins.
Þegar hér er komið sögunni, er hann fullorðinn og
fullþroskaður maður að skapgerð og árafjölda, en þó
stendur hann að flestu alveg í sömu sporum og á morgni
æskunnar, þegar hann leit framtíðina í hillingum og tíbrár-
Ijóma. Að þessu hefir hann altaf verið steðjinn, aldrei
hamarinn. Afli sínu hefir hann að miklu mátt eyða í
það að rífa upp með rótum og fleygja draumum sínum
og æskuvonum án of mikils hávaða og eftirtektar. Slíkt
skilur ætíð eftir ör, sem auðveldlega geta rifnað upp og
blætt á ný.
Þó að heimilislífið á Bergþórshvoli hafi verið fagurt
og fast í fjölþættni sinni og samheldni, getur ekki hjá
því farið, að Skarphéðni hafi fundist þröngt um sig.
Hann hlýtur að hafa átt drauma um höfðingjaveldi, manna-
forráð, goðorð. Drauma um ríkt óhindrað Iíf, þar sem
frelsi var til að velja, njóta, hafna. »Á öllu verður mað-
urinn þreyttur nema valdi.«
Valdið er mörgum nauðsyn, leið til þroska. Mönnum
verður Ijós ábyrgðin, sem á þeim hvflir, er setja metnað
sinn í að reynast vel, aukast að veldi og styrk hið innra
við skilning þess, að til að geta miðlað öðrum, þarf að
vera af nokkrum nægtum að taka. Skarphéðinn þurfti
valdanna við til að ná þangað, er hæfileikarnir bentu, og
honum var það einnig sjálfum ljóst.