Ársrit Nemendasambands Laugaskóla - 01.01.1926, Side 87
81
Þá græddi það sárin og sefaði tárin,
að syngja og hugsa um þig.«
Margt fagurt og töfrandi verður á leið hans. Það er
leyndardómsfull, dulræn skógarganga. Þrestirnir syngja.
En erfiðleikarnir eru líka margir og óvæntir, þyrnarnir
stinga og þorstinn kvelur. En þó er sú hættan mest,
að glata sjálfum sér, verða fyrir meiri og margvíslegri
áhrifum en við verður ráðið, eins og vaxa út fyrir sín
eigin takmörk, missa rótfestuna. Þá er gott að hafa átt
góða æsku, eiga heimili að baki, geta horfið heim í
anda, setst við arin föður og móður og fundið sjálf-
an sig. Það er enginn fær um að hlýða rödd útþrár-
innar, nema hann eigi sér sterka rót — eigi eitthvað að
heiman, sem honum þykir vænt um: minningar, trú eða
köllunarverk.
Útþráin er vaxtarþrá æskumannsins. Hún þarf ekki
að lýsa sér í langferðahug, hún getur líka lýst sér í
bókhneigð, dagdraumum, ljóðást og söng. En það er
ætíð hið mikla og óþekta, sem seiðir og laðar. Því meiri
efniviður, sem í æskumanninum er, því sterkari er þessi
þrá. Hún er þó ekki ætíð hávær og heimtufrek, hún
getur líka verið hljóðlát og beðið færis — og þó verið
sterk.
En fullorðni maðurinn hættir að fálma eftir því óþekta.
Honum hefir lærst að þekkja krafta sína og hann finnur
hvíla á sér skyldu að beita þeim í starfi. Hans vaxtar-
þrá er starfsþráin. Á hann kalla óunnin verk. Og hon-
um finst hann vaxa með hverju frumlegu og vel unnu
starfi. Honum verða sigraðar þrautir að sælu, og þó
enn meir sjálf viðleitnin, baráttan, ef alhugur fylgir. Stund-
um er starfsþráin útleitin. Þá er leitast við að gera starfið
umfangsmikið. Smásalinn vill gerast stórsali, smábónd-
inn færir sundur kvíarnar, þar til að hann verður stór-
bóndi. Útleitna starfsþráin heimtar vexti og leggur þá við
6