Ægir

Árgangur

Ægir - 01.03.2002, Blaðsíða 27

Ægir - 01.03.2002, Blaðsíða 27
27 Æ G I S V I Ð TA L I Ð Gjaldtaka sem sáttaleið En frumvarpið hefur ekki bara orðið fyrir ágjöf stjórnarandstæðinga. Einstaka samflokksmenn sjáv- arútvegsráðherra hafa ekki farið um það sérstaklega jákvæðum orðum. Því má spyrja sem svo hvort ómögulegt sé að setja fram frumvarp til lagasetning- ar um stjórn fiskveiða sem geti sætt öll sjónarmið. „Já, það er ómögulegt að mínu mati. Hagsmunirnir eru svo gríðarlega miklir og mismunandi, til dæmis á milli landshluta. Því er ekki að leyna að innan Sjálfstæðisflokksins hafa menn verið mjög andsnúnir allri gjaldtöku, í hvaða formi sem hún er. Ég væri því að segja ósatt ef ég hefði ekki átt von á einhverri andstöðu í eigin herbúðum. Á síðasta landsfundi kom fram það sjónarmið frá mörgum flokksmönnum að menn vildu samþykkja einhverskonar gjaldtöku á sjávarútveginn sem leið til sátta. Það var ekki svo að menn teldu nauðsynlegt að leggja gjald á sjávarút- veginn, í hjarta sínu voru menn því mótfallnir. En til þess að ná sáttum töldu menn rétt að leggja þetta til. Í máli Einars Odds Kristjánssonar hefur komið fram að hann er frumvarpinu andsnúinn og það kemur ekki á óvart. Einar Oddur kemur aldrei í bakið á manni, ef hann er ósammála kemur hann beint að manni með sína gagnrýni og ég virði það við hann. Ég hlusta mikið á Einar Odd þótt ég sé ekki sam- mála öllu því sem hann segir.“ Skil vel gremju útvegsmanna og sjómanna Sögulegt samkomulag náðist milli útvegsmanna og sjómanna um tillögur sem miðuðu að því að framsal veiðiheimilda yrði takmarkað. Það olli bæði tals- mönnum LÍÚ og sjómannasamtakanna miklum von- brigðum að ráðherra skyldi ekki fara að þessum sam- eiginlegu tillögum samtakanna. Árni M. Mathiesen segir það vissulega rétt að þessar sameiginlegu tillög- ur hafi verið sögulegar, en hann hafi hins vegar ekki getað fallist á þær. „Grundvallarkerfið sem við höf- um búið við í gegnum tíðina hefur byggst á frjálsu framsali. Þetta kerfi hef ég aðhyllst og lagt áherslu á. Það hefur oft verið lagt upp með það í umræðunni að gegn því að sjávarútvegurinn greiði auðlindagjald fái hann aukið frjálsræði til hagræðingar. Þrátt fyrir að ég sé í grundvallaratriðum sammála þessari grein- ingu útvegsmanna og sjómanna, þá finnst mér ekki rétt og ekki samræmast því meginmarkmiði að ná víðtækri samstöðu um fiskveiðistjórnarkerfið, að breyta svona mikilvægu atriði í kerfinu nánast fyrir- varalaust. Því má ekki gleyma að við höfum í mörg ár unnið að þessari endurskoðun kerfisins með m.a. Auðlindanefnd og Endurskoðunarnefnd og í allri þeirri vinnu hefur aukið frjálsræði verið grunntónn- inn. Mér finnst því ekki rétt að ákveða á síðustu metrum þessarar vinnu að gjörbreyta kerfinu með því að takmarka framsalið og kippa þannig grunnin- um undan töluvert stórum hópi manna í sjávarútveg- inum. Ég trúi því að hægt sé að nálgast þetta vanda- mál á annan hátt og sérstaklega þegar til þess er litið að hagsmunaaðilarnir hafa náð samkomulagi um þetta atriði. Ég hef boðið útvegsmönnum og sjó- mönnum upp á að við reynum að finna lausn á þessu án þess að gjörbreyta ákvæði um framsalið og ég veit ekki betur en menn séu tilbúnir að skoða það. Hins vegar skil ég vel að útvegsmenn og sjómenn hafi orð- ið fyrir vonbrigðum með að ég sem sjávarútvegsráð- herra skyldi ekki fara að þeirra sameiginlegu tillög- um. Auðvitað hefði ég kosið að geta farið að tillög- unum og það hefði örugglega gert samskipti mín við þessa aðila auðveldari. Tilgangur með minni veru veru hér í ráðuneytinu er hins vegar ekki að gera mitt líf eitthvað þægilegra - það er ekki útgangs- punktur í starfi mínu og því komst ég að þessari nið- urstöðu.“ Fyrst og fremst tæknilegar breytingar á frumvarpinu - Er ekki erfitt og óæskilegt að ljúka svo stóru máli sem endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar er í ósátt við bæði útvegsmenn og sjómenn? „Ég held nú raunar að ósáttin sé ekki eins mikil og kann að virðast. Það hefur meðal annars komið fram hjá hagsmunaaðilunum að þeir séu tilbúnir að fallast á gjaldtöku, en ágreiningurinn er um hversu hátt gjaldið eigi að vera. Það er auðvitað mjög mikilvægt að útvegurinn sé tilbúinn að greiða gjald og því má heldur ekki gleyma að stjórnarandstaðan er líka því hlynnt að sjávarútvegurinn greiði gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Sumum í Samfylkingunni finnst reyndar að gjaldtakan, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, sé of lítil.“ Sjávarútvegsráðherra gerir ekki ráð fyrir veiga- miklum breytingum á frumvarpinu áður en það verður að lögum, væntanlega áður en Alþingi lýkur störfum í vor. „Ég sé ekki að ákvæðið um gjaldtök- una taki miklum breytingum, þær breytingar sem kunna að verða á frumvarpinu lúta fyrst og fremst að ákveðnum tæknilegum málum. Nokkrir þingmenn beggja stjórnarflokkanna hafa gert fyrirvara við ákveðin atriði. Ég nefni til dæmis hámarkshlutdeild- ina, þá sérstaklega í ákveðnum tegundum, og síðan varðandi stærð krókabátanna. Um þessi atriði og önnur sem kunna að vera skiptar skoðanir um mun sjávarútvegsnefnd þingsins og þingflokkar stjórnar- flokkanna fjalla og komast að niðurstöðu.“ Ég skil vel að útvegsmenn og sjómenn hafi orðið fyrir vonbrigðum með að ég sem sjávarútvegsráðherra skyldi ekki fara að þeirra sameiginlegu tillögum.

x

Ægir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.