Ægir - 01.10.2002, Blaðsíða 22
22
F J Ö L S K Y L D U L Í F S J Ó M A N N A
svo skrítið, því nú hafa þær aftur
fengið ástvininn heim, oft eftir
langar fjarverur, og geta deilt
áhyggjum og daglegu amstri með
honum. En við sjómannskonur
megum ekki gleyma því að þótt
einmanaleiki og kvíði sæki að
okkur, þá getum við verið viss
um að eins og Jesús er um borð í
bátnum hjá mönnunum okkar, þá
vill hann líka vera um borð í okk-
ar bátum, á heimilum okkar, og
leiða okkur í gegnum öll stórviðri
sem kunna að ganga yfir. Þetta
leiðir okkur að þriðja atriðinu
sem mig langar til að við skoð-
um.
Eitthvað meira en
kaldaskítur?
3. Jesús segir við lærisveinana:
Hví eruð þér hræddir, þér trúlitl-
ir?
Þegar ég var á sjónum minnist
ég þess aðeins einu sinni að hafa
orðið eitthvað smeyk að ráði. Það
var í janúar 1995 að ég var háseti
um borð í Sléttbaki EA-304 og
vorum við á leið inn til Patreks-
fjarðar í var. Það var töluverður
sjór og mér var ekkert farið að lít-
ast á blikuna enda hafði ég byrjað
á sjónum sumarið áður og hafði
ekki lent í svona slæmu veðri úti
á sjó. „Þetta hlýtur að vera eitt-
hvað meira en kaldaskítur, er það
ekki?” spurði ég Gunnar Jó-
hannsson, sem þá var skipstjóri.
Gunnar brosti við spurningunni
og svaraði því til að þegar vind-
stigin væru orðin 12 og ölduhæð-
in 12-14 metrar, eins og hann
sagðist halda að væri, kallaðist
það fárviðri. Þegar ég stóð við
brúargluggann og himinhá aldan
kom æðandi eins og kolsvartur
ógvekjandi veggur á móti skip-
inu, fann ég að við mennirnir
erum ósköp litlir og megum okk-
ur lítils þegar veðurofsinn er í
ham. En þegar ég leit á Gunnar,
skipstjóra, fann ég að þar var
traustur maður með mikla
reynslu og vissi að hann myndi
skila mér og allri áhöfn sinni
heilli til hafnar.
Að bíða milli vonar og ótta
Rétt fyrir klukkan 8 einn morgun
í apríl sl. var ég nýkomin á fætur
og eins og alla venjulega morgna,
byrjaði ég þennan morgun á því
að fara fram í eldhús og kveikja á
útvarpinu, til þess að heyra 8-
fréttirnar og hella upp á kaffi.
Allt í einu heyri ég að þulurinn
nefnir nafn skipsins sem maður-
inn minn var þá skipstjóri á. Seg-
ir hann frá því að eldur hafi kom-
ið upp um borð og að þyrlan hafi
verið sett í viðbragðsstöðu, en
skipverjar hafi ráðið niðurlögum
eldsins. Skipið hafði verið statt
um 80 sjómílur frá landi og
þónokkur spölur í næsta skip.
Að byrja nýjan dag á því að fá
svona fréttir er ekki mjög gott.
Sem er nú kannski full vægt í ár-
ina tekið því maginn á mér fór í
hnút og hjartað byrjaði að hamast
í brjósti mér. Ég æddi um allt
hús, en veit ekki af hverju. Ég
hugsaði með mér: „Af hverju var
ekki hringt í mig og ég látin vita,
ætli sé ekki alveg örugglega allt í
lagi hjá þeim?”
Þulurinn sagði að áhöfnin hefði
slökkt eldinn sjálf, en einhvern
veginn gat ég ekki verið fullviss.
Ég hef þrisvar sinnum farið á
námskeið hjá Slysavarnaskóla sjó-
manna þannig að ég veit það full-
vel að eldur um borð í skipi er
eitt af því alvarlegasta sem hent
getur sjófarendur. Kannski þess
vegna var ég ekki alveg sannfærð,
þó að þulurinn hafi sagt að það
væri allt í lagi. Kannski hefði ein-
hver átt að hringja í sjómanns-
konurnar og láta þær vita, strax
og eldurinn var slökktur, að allir
væru heilir á húfi. Um 11 leytið
hringdi svo maðurinn minn og þá
fyrst leið mér betur – en ég þurfti
að heyra rödd hans til þess að
sannfærast um að allt væri nú ör-
ugglega í lagi.
Trúin hjálpar
Ég sem sit heima og gæti bús og
barna meðan maðurinn minn
dregur björg í bú, er svo heppin
að trúa því og treysta að Jesús
Kristur sé sá albesti skipstjóri
sem við höfum. Ég hef valið að
vera í áhöfn hans því ég veit að
hann elskar alla áhöfn sína og
gerir aldrei mannamun. Hann
þekkir okkur betur en við sjálf,
sér beint í hjarta okkar og á þar
bústað.
Við getum treyst því að Guð er
hjá okkur. Það er okkar að taka á
móti honum og hleypa honum
inn í hjörtu okkar, trúa orði hans
og standa stöðug í því að trúin
veitir okkur styrk – huggar í sorg
og í vanmætti. Alveg eins og hún
huggaði mig, þetta tiltekna kvöld
þegar Svanborg SH fórst við Snæ-
fellsnesið. Þá þarf Jesús ekki að
segja: „Hví eruð þér hræddir, þér
trúlitlir?” Maðurinn minn er ekki
eini skipstjórinn um borð, hann
er svo heppinn að hafa annan sér
til aðstoðar sem leiðir hann og
verndar í hverju sem á dynur, -
allt til endiloka skipsferðarinnar.
Á sumrin þegar ég sé
pabbana bjástra við að
grilla mat og krakk-
arnir að stússast í
kringum þá, meðan
mömmurnar elda sós-
urnar og búa til salat
– þá finn ég fyrir ein-
manaleika af því að
það er enginn pabbi
heima hjá okkur til
þess að grilla og hafa
félagsskap af.
Þórunn Halldórsdóttir með fjölskyldu sinni í Hamragerði 14 á Akureyri. Eiginmaður hennar er Páll Steingríms-
son, fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Víði EA. Dætur þeirra eru Aðalbjörg, fimm ára, og Sólbjört, eins
árs. Á myndinni er líka vinkona Aðalbjargar, Eydís Rut Yngvadóttir, fimm ára.