Ægir - 01.10.2002, Blaðsíða 42
42
F R Ó Ð L E I K U R O G S K E M M T U N
K R O S S G Á TA N
Útselur er nokkuð stærri en land-
selur og þyngri. Hann getur orðið
allt að 3 m á lengd og brimlarnir
allt að 300 kg að þyngd. Urturnar
eru þó minni og léttari eða að með-
altali um 2 m á lengd og um 165
kg. Höfuð útselsins er frammjótt
og hátt nef, framhreifarnir eru mun
minni en á landselnum og ofar á
búknum. Tveir hreifar eru að aftan
og milli þeirra lítill dindill. Litur
útselsins er dökkur, oft nær svartur
en urturnar eru ljósar á kvið og gráblettóttar á hálsi. Útselur lifir
einungis í Norður-Atlantshafi og í Eystrasalti. Hann er að finna
norður eftir strönd Noregs og í kringum Bretland, Færeyjar, Ís-
land og Grænland. Hann lifir einnig við austurströnd Norður-
Ameríku. Hér við land er útselurinn mest við sunnan og vestan-
vert landið. Yfirleitt er mest um útsel á stöðum sem eru fyrir
opnu hafi. Um fjögurra ára aldur eru flestar urtur orðnar kyn-
þroska og kæpa fyrst árið eftir. Brimlarnir verða kynþroska um 6
ára. Útselurinn kæpir á haustin og veturna og oftast er það á
skerjum eða útnesjum yfirleitt
nokkuð frá byggð. Urtan fæðir
einn kóp á ári en til eru dæmi
þess að tveir kópar hafi fæðst.
Um fæðingu eru ururnar um 8
kg en brimlarnir um 12 kg og
liggja þeir í bóli í þrjár til fjórar
vikur án þess að fara í sjóinn. Þá
hafa þeir náð steingráum lit,
búnir að missa fæðingarhárin
sem eru gulhvít. Aðalfæða
útselsins eru grunnsævisfiskar
svo sem þorskur, ufsi steinbítur, marhnútur og hrognkelsi.
Við Ísland eru um 8.000 dýr samkvæmt áætlun sem var gerð
árið 1995 og hefur farið eitthvað fækkandi undanfarið. Aðallega
hefur selurinn verið veiddur fyrir kjötið af honum því í dag eru
skinnin ekki verðmikil eins og áður fyrr og af einhverju leiti er
kjötið notað í loðdýrafóður. Undanfarin ár hefur hann einnig
verið veiddur fyrir hvatningu frá aðilum í útgerð og fiskvinnslu
og á síðustu 10 árum hafa verið veiddir frá 1000 til 2.500 útsel-
ir árlega.
Halichoetus grypus
Útselur