Bændablaðið - 09.08.2012, Qupperneq 10

Bændablaðið - 09.08.2012, Qupperneq 10
Bændablaðið | Fimmtudagur 9. ágúst 201210 Fréttir Tólf taflmenn, ýmist úr ýsubeini, hvalbeini eða rostungstönn, fundust við fornleifauppgröft á Svalbarði við Þistilfjörð í Norður- Þingeyjarsýslu. Einnig fundust þar teningur, ferhyrnd plata úr hval- beini sem á hefur verið haganlega rist krossmynd og helmingur hringlaga plötu, einnig úr hval- beini, með listilega útskornu dýri. Uggi Ævarsson fornleifafræðingur, sem tekið hefur þátt í uppgreftr- inum, segir að um geysilega merki- legan fund sé að ræða. Rannsaka byggðasögu og landnotkun Íslenskir og kanadískir fornleifafræðingar á vegum Fornleifastofnunar Íslands og Laval- háskóla í Québec hafa nú grafið upp öskuhaug í Hjálmarvík niðri við sjó á Svalbarðstungu sem spannar að minnsta kosti tímabilið frá 15. öld og aftur á þjóðveldisöld. Uggi segir að síðastliðin fjögur sumur hafi fornleifafræðingarnir rannsakað byggðarsögu og landnotkun á Svalbarðstungu, sem er á milli Sandár og Svalbarðsár og nær frá sjó um 30 km inn til landsins. Grafnir hafa verið könnunarskurðir, jarðvegsbor notaður, talað við staðkunnuga og ritheimildir gaumgæfðar. „Bráðabirgðaniðurstöður sýna að byggð hafi allvíða hafist á Tungunni áður en eldfjallagjóska af Veiðivatnasvæðinu féll árið 1477 og gjarnan töluvert áður en gjóska féll úr Heklu árið 1300,“ segir Uggi. Mikið magn dýrabeina fannst í haugnum Nú í ár var ákveðið að einbeita sér að öskuhaugnum sem fannst árið 2010 ásamt fornleifaskráningu. Tólf fermetra hola var opnuð og lög- unum flett af. Uggi segir að mikið magn dýrabeina hafi komið upp og fróðlegt verði að fá upplýsingar um lífsviðurværi íbúa á norðausturhorni landsins á Þjóðveldisöld með tilliti til mataræðis og þeirra gripa sem týnst hafa í rusli eða hefur verið fleygt. Í haugnum fundust sem fyrr segir taflmennirnir, teningurinn og hringlaga platan með útskornu dýri. „Þrátt fyrir að griparannsóknin sé stutt á veg komin er einsýnt að um geysilega merkan fund er að ræða,“ segir Uggi. „Þessir hlutir eru óvenju heillegir og í raun er alveg magnað að hafa fundið þetta allt í öskuhaugi.“ Þriggja ára styrkur frá kanadíska ríkinu Þriggja ára styrkur fékkst nú í ár frá kanadíska ríkinu til fornleifarannsókna á Svalbarði og er á næstu tveimur árum fyrirhugað að freista þess að finna byggingar þær sem voru í notkun samtímis öskuhaugnum, sem og grafa fleiri könnunarskurði til að staðfesta aldursgreiningar sem kjarnaborun hefur gefið vísbendingar um. Þá gefst svigrúm til kerfisbundinnar fornleifaskráningar sem mun gefa ómetanlegar upplýsingar um eðli minjastaða og útbreiðslu þeirra auk kortlagningar menningarminja. Uggi segir það vissulega nokkuð sérstakt að kanadíska ríkið styrki fornleifarannsóknir á norðausturhorni Íslands, en forsaga málsins er sú að tveir bandarískir dýrabeinafræðingar grófu í öskuhauginn á Svalbarði fyrir rúmum 30 árum, þeir Tom Amorosi og Thomas McGovern. Þeir fundu þá m.a. eitt stærsta dýrabeinasafn sem fundist hefur við uppgröft hér á landi. Nemandinn tók upp þráðinn Á þeim tíma var einn nemenda þeirra með í för, Kanadamaður að nafni Jim Woollett. Kom hann aftur heim að Svalbarði fyrir fáum árum og tók þar upp þráð þeirra nafna Thomasar og Toms, ásamt Ugga og Guðrúnu Öldu Gísladóttur fornleifafræðingum. „Það lá beint við að ég færi með honum en ég er mikill áhugamaður um þetta svæði, skrifaði M.A. -ritgerð um næstu sveit, Hólsfjöllin,“ segir Uggi og bætir því við að lokum að rannsókn sú sem nú fari fram einblíni ekki einvörðungu á öskuhauga heldur almennt á byggðasögu svæðisins og landnotkun um aldirnar. /MÞÞ Merkur fundur við fornleifauppgröft á Svalbarði við Þistilfjörð: Tólf taflmenn, teningur og útskornar plötur á meðal þess sem fannst í öskuhaugi - - - Þjóðbúningasilfur Eru menningarverðmæti að glatast? Inga Rut Hlöðversdóttir er gullsmiður sem lauk meistaranámi frá Tækniskólanum í Reykjavík vorið 2012. Áhugasvið hennar er hið gamla þjóðbúningasilfur eða víravirki eins og það er oftast kallað. Hún hefur áhyggjur af því að við séum að týna verðmætum upplýsingum í formi skissubóka eða teikninga eldri gullsmíðameistara og handverksfólks sem nú er farið yfir móðuna miklu. Inga Rut hefur því hafið formlega leit að þessum gömlu menningarverðmætum og nýtur til þess liðsstyrks Menningarráðs Suðurnesja. Er þjóðbúningasilfur ólíkt eftir landshlutum? „Þegar ég var við starfsnám á gullsmíðaverkstæði í Osló í Noregi fékk ég tækifæri til að kynna mér aðeins þjóðbúningamenningu Norðmanna. Sú menning er breytileg eftir dölum og bæjum. Þegar ég sá það vaknaði sú spurning hvort einhver landshlutaskipting hafi verið á Íslandi hér á árum áður við gerð víravirkis. Þá er ég að tala um á þeim tíma þegar samgöngur voru bágbornar, menn fóru á milli staða ríðandi á hestum,“ segir Inga og dregur fram tilvísun í munnlegar heimildir sem hafðar voru eftir Dóru G. Jónsdóttur: ,,Svokallaður klukkuvír hefur verið þekktur á Norðurlandi í víravirkisgerð, svo er sagt að víravirki hafi verið unnið úr fínni (grennri) vír á Vestfjörðum, eins hafi verið frekar óvenjulegt víravirki á Kópaskeri hér á árum áður.“ Vantar aðgengilegar upplýsingar Inga Rut segir að hægt sé að nálgast gamalt þjóðbúningasilfur á Þjóðminjasafninu. „Ef munir eru stimplaðir er hægt að finna út hver smiðurinn er en svo er ekki með alla muni sem eru á safninu. Ef þeir eru ekki stimplaðir vantar allar upplýsingar. Þegar ég var í gullsmíðanáminu við Tækniskólann áttum við að endurgera gamalt víravirki. Við fengum aðgang að geymslu safnsins og þar skoðuðum við muni, tókum myndir og mældum út þann hlut sem við vildum endurgera. Þetta er hægt, að fá aðgang og leyfi til að koma við og mæla gamla hluti, en það er ekki hægt að vera alltaf inni í geymslu safnsins,” segir Inga Rut og bætir við að vilji smiður færa víravirkið í nútímalegt horf þarf hann að hafa góða þekkingu á hinum upprunalega grip. „Því til stuðnings vil ég nefna að þú prjónar ekki nútímalega lopa- peysu nema þekkja hinar hefðbundnu aðferðir svo þú vitir hvar þú getir tekið breytingarnar inn í heildarmyndina. Ef þú leitar að víravirki á Netinu færðu upp myndir, ekkert sem nýtist þér til annars en að sjá hlutföll og mynd af fallegum hlut, því finnst mér vanta betri upplýsingar um víravirkisgerð okkar Íslendinga og betra aðgengi fyrir alla. Við ungu gullsmiðirnir getum lært af þessu, við getum passað okkur á að taka afrit af því sem við smíðum. Það er gert þannig að maður snýr t.d. myllu á hvolf, setur blað yfir og strýkur yfir með blýanti eins og við lærðum að gera með 10 krónu pening í barna- skóla, ekki flókin aðgerð en gerir mikið gagn,” segir Inga Rut. Skissubók gamals gullsmíðameistara efldi áhugann Þegar Inga Rut fór út til Noregs fékk hún að taka með sér afrit af gamalli skissubók Bjarna Þorgeirs Bjarnasonar gullsmíðameistara en hann vann við gullsmíði á árunum 1947 til 1995. „Þessari bók er mikið búið að fletta fram og til baka, blöðin orðin lúin og laus frá kápunni. Ég tók afrit af þessari bók því mér fannst eins og mætti ekki koma mikið meira við sjálfa bókina. Mér finnst bókin vera dýrgripur sem ekki má skemma með frekari notkun. Áhugi minn á víravirki var mikill en varð enn meiri við það að komast í skissubók Bjarna Þorgeirs. Þegar ég horfi á hana finnst mér eins og menningarverðmæti séu að tapast. Ég hef áhyggjur af því að til séu aðrar skissubækur eða lausar teikningar annarra gullsmíðameistara eða handverksfólks sem séu á leið í ruslið hjá þeim sem hafa þær undir höndum. Já, ég segi líka handverksfólks, því ég tel það vera mögulegt að þeir sem smíðuðu víravirki hér á árum áður hafi ekki allir verið lærðir gullsmiðir.“ Leit að frekari gögnum Inga Rut hefur spurst fyrir á Þjóðminjasafninu um gamlar skissubækur eða teikningar gullsmíðameistara og handverksfólks. Þar fékk hún þau svör að ekkert væri þar að finna og var vísað á Þjóðskjalasafnið. „Þangað fór ég og lagði inn sömu fyrirspurn en eftir nokkra daga fékk ég þau svör að ég þyrfti að leita á Þjóðminjasafninu. Svo í hring var ég komin en hafði engin svör fengið svo hugleiðingar mínar eru enn til staðar og leit mín að frekari gögnum stendur enn yfir,” segir Inga. Auglýsir eftir skissubókum og teikningum Til þess að varðveita þennan mikil- væga menningararf auglýsir Inga Rut eftir skissubókum, teikningum eða öðru sem tengist þjóðbúningaskarti frá gamalli tíð. „Það væri afar gott að fá meiri upplýsingar svo rannsókn mín geti haldið áfram. Við getum ekki beðið mikið lengur með að safna þessum upplýsingum saman,“ segir Inga Rut sem vonast til að hægt verði að koma meira skipulagi á þessi mál. „Þá er engin spurning að við verðum að halda utan um þessi menningar- verðmæti sem nýtast bæði þjóðinni og ekki síst gullsmiðum framtíðarinnar,“ segir Inga Rut Hlöðversdóttir gull- smiður. Þeir sem kunna að hafa upplýsingar undir höndum geta haft samband við Ingu Rut í síma 694-3089 eða í gegnum netfangið ingahl@internet.is Mynd /TB -

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.