Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 38

Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 38
FYRSTI BÓNDINN SEM GISTIR Fyrsti bóndinn sem gisti á hinu nýja hóteli Bændasamtakanna var Sigmundur Sigurðsson frá Syðra- Langholti í Árnessýslu. Eftir að hann hafði skráð sig á gestalista var honum tjáð að hann væri boðs- gestur. FYRSTU LÉTTADRENGIRNIR Fréttamaðurinn Óli Tynes heitinn og Hrafn Gunnlaugsson kvikmynda- gerðarmaður voru fyrstu „picco- loarnir“ á Hótel Sögu. FYRSTU STARFSMENN Í STJÓRNUNARSTÖÐUM Þorvaldur Guðmundsson var fyrsti hótelstjórinn, Ragnar Ragnarsson aðstoðarhótelstjóri, Gunnar Óskars- son var móttökustjóri, Valur Jóns- son yfirþjónn, Halldór Vilhjálms- son yfirmatreiðslumaður og Bertha Johansen gjaldkeri. UMSJÓN HERBERGJA Ingibjörg Guðmundsdóttir hafði yfirumsjón með herbergjastúlkum, en fyrirliðar þeirra voru þær Anna Guðmundsdóttir og Hulda Davíðs- dóttir. JOHNSON HARÐUR Í PRÚTTINU Þegar Lyndon B. Johnson, þáver- andi varaforseti Bandaríkjanna, gisti á Sögu voru uppi miklar varúðarráðstafanir. Haukur Gunnars- son í Rammagerðinni var fenginn til að koma með minjagripi í hótelið til þess að spara varafor- setanum og fylgdarliði hans það ómak að fara út að kaupa minja- gripi. Johnson var harður við að prútta en Haukur kunni ekki við að þrátta við varaforsetann og hafði því lítið upp úr krafsinu. GLEYMDI ÖLLUM MANNASIÐUM Sagan segir að í veislu sem haldin var Lyndon B. Johnson til heiðurs í Súlnasalnum hafi hann setið á milli Ásgeirs Ásgeirssonar forseta og Ólafs Thors. Johnson féll prýðilega við Ólaf, gleymdi þess vegna öllum mannasiðum og snéri bakhlutanum að Ásgeiri allan tímann. Margar góðar minningar frá Sögu Sigrún Kristín Ægisdóttir hárgreiðslumeistari hefur rekið hárgreiðslu- stofuna Hársögu á Hótel Sögu frá 1982. Hún kann vel við sig á Sögu og segist hafa eignast marga góða vini þar. Sigrún byrjaði á Sögu sem nemi í hár- greiðslu árið 1978, sextán ára gömul. Hún tók við Hársögu tvítug og hefur rekið stofuna allar götur síðan eða í 34 ár. „Ég veit hreinlega ekki hvaða tryggð þetta er en það er greinilega eitthvað við húsið sem ég kann við og sem heldur mér hér. Okkur sem vin- num hér líður svo vel og það er góður vinnuandi í húsinu.“ „Hér vinnur mikið af góðu fólki“ „Ég hef verið hér síðan litla Saga var og horft upp á mikla stækkun og gríðarlegar breytingar. Hér hef ég kynnst mörgu góðu fólki, eignast marga góða vini og á því margar góðar minningar frá Sögu.“ Að sögn Sigrúnar er stór hluti viðskipta- vina Hársögu fólk sem kemur utan úr bæ, mest Vesturbæingar, en inn á milli eru alltaf hótelgestir. „Ég er stolt af því að eiga minn fasta kúnnahóp en um leið er alltaf sjarmerandi að fá hingað hótelgesti og gaman að kynnast nýju fólki.“ Túperað hár í tísku um 1970 Sigrún segir að fyrst eftir að Hótel Saga opnaði hafi Hársaga orðið mjög vinsæl hárgreiðslustofa og þótt fínt að koma í lagningu þangað. „Í kringum 1970 var túperað hár í tísku og allir stólar upp- teknir frá morgni til kvölds af konum í lagningu. Hártískan hefur breyst mikið frá þeim tíma og allt mikið léttara í dag. Í dag eru viðskiptavinirnir af báðum kynjum, mikið verið að lita og klippa hár og minna um þessar stífu greiðslur.“ Á ball eftir vinnu „Einn af rómönsunum við að starfa hér er að hafa skemmt sér í Súlnasalnum og á Mímisbar í gegnum árin. Stundum hlustaði ég á hljómsveitirnar á meðan þær voru að æfa og stundum áttum við stelpurnar það til að skella okkur beint á Mímisbar og jafnvel á ball í Súlna- salnum efir vinnu,“ segir Sigrún. Hárgreiðslukona Evu Joly Eins og búast má við hefur Sigrún greitt ýmsu þekktu fólki sem hefur gist á Hótel Sögu. „Ég sá um hárgreiðsluna fyrir Silvíu Svíadrottningu þegar hún gisti hér ásamt Karli Gústafi. Í gegnum árin hef ég oft verið pöntuð upp á svít- una og meðal annars greitt eiginkonu forsætisráðherra Finnlands nokkuð oft, auk þess sem ég sé um hárgreiðsluna fyrir Evu Joly þegar hún heimsækir Ísland,“ segir Sigrún Kristín Ægisdóttir hárgreiðslumeistari að lokum. Heimsóknir erlendra þjóðhöfðingja og háttsettra ráðamanna hafa verið tíðar á Hótel Sögu í gegnum árin. Sigríður Ingvars- dóttir, hótelstjóri á Park Inn Ísland, starfaði lengi á Sögu og þar á meðal sem forstöðumaður gistisviðs. Hún segir skipulag í kringum opinberar heimsóknir oft umfangsmikið. Opinberar heimsóknir „Í mínum huga er alltaf jafn gaman að taka á móti gestum en formið og siðavenjurnar í kringum opinberar heimsóknir er ólíkt því sem maður á að venjast á venjulegum vinnudegi,“ segir Sigríður. Mikil undirbúningur vegna Hillary Clinton „Sumar þessara heimsókna voru undirbúnar með margra vikna fyrirvara og í samstarfi við erlendar undirbúningsnefndir og öryggisverði, sem voru hér jafnvel í nokkrar vikur og fundað með á hverjum degi. Mér er minnisstætt þegar Hillary Clinton var boðið til landsins árið 1999 vegna ráðstefnu sem kallaðist Konur og lýðræði. Undirbúningurinn fyrir þá heimsókn var mikill og öryggisgæslan einnig. Það var farið vandlega yfir herbergjaskipan, hver gisti hvar og hvernig skyldi haga öllum sköpuðum hlutum. Hvaða bílastæði skyldi taka frá og um tíma var hótelið girt af. Við sem stóðum í þessu sváfum lítið nóttina fyrir þessar heimsóknir, enda allt gert til að gera þær sem glæsilegastar. Verkefnið var samt sem áður skemmtilegt og stressið sem fylgdi því líka.“ Tívolí í Súlnasalnum Útgáfutónleikar Stuðmanna vegna hljómplötunnar Tívolí voru haldnir í Súlnasal Hótel Sögu árið 1976. Tómas Tómasson bassaleikari segir mikið fjör hafa verið á Sögu það kvöld enda salurinn troðfullur af fólki. „Ástæðan fyrir því að við völdum Súlnasalinn fyrir útgáfutónleikana var ein- faldlega sú að á þessum tíma stóðu engir aðrir staðir á sama kalíberi til boða og okkur fannst það líka grand. Tónleikarnir tókust líka frábærlega og fólk skemmti sér greinilega vel, alveg eins og við. Meira að segja móðir mín mætti með Imbu frænku.“ Klæddir í stíl við umslagið „Við klæddum okkur upp fyrir tónleikana í stíl við myndina á umslagi plötunnar, sem var hönnuð af Önnu Björnsdóttur. Ég var klæddur upp eins og fjallkonan, Egill var í hlutverki Hveitibjörns og Jakob var Frímann flugkappi, sem eru allt persónur sem koma líka fram í textunum á plötunni. Aðrir í hljómsveitinni, Ragnar Sig- urðarson trommari og Þórður Árnason gítarleikari, voru svo aftur á móti í óræðari hlutverkum. Hjalti Hafsteinsson rótari var kynnir á tónleikunum og gaf gestum forsmekk af því sem koma skyldi þegar hann mætti á sviðið grænn í framan.“ Ætluðum að lifa af sölunni Tómas segir aðdragandann að útgáfu Tívolí hafa verið erfiðan. „Við tókum plötuna upp í London, áttum ekki fyrir mat og hreinlega sultum á tímabili. Sumar á Sýrlandi seldist mjög vel og við ætluðum að lifa af sölunni á henni en peningarnir skiluðu sér bæði seint og illa. Platan er að mörgu leyti merkileg, til dæmis fyrir þær sakir að trommuleikarinn Simon Phillips, sem síðar spilaði með The Who, Toto og fjölda annarra, lék á henni fimmtán ára gamall sem session-leikari.“ Sviðið lítið annað en sylla „Útgáfutónleikar vegna Tívolí voru fyrsta sinn sem við spiluðum á Hótel Sögu en við áttum eftir að gera það nokkrum sinnum eftir það, bæði á böllum og árshátíðum. Hótel Saga er með eindæmum fallegt hús og glæsilegt, þrátt fyrir að sviðið í Súlnasalnum hafi verið glatað á þessum tíma og nánast ekki annað en sylla. Ég man líka eftir hávaðasúlunni, sem sló út rafmagninu ef tónlistin fór yfir ákveðinn styrk og hún sló öllu út þegar Þórður var að stilla gítarinn sinn í hljóðprufu fyrir tónleikana. Við töluðum við Konráð hótelstjóra eftir það og hann tók súluna úr sambandi fyrir okkur, enda lipur maður og góður,“ segir Tómas Tómasson bassa- leikari að lokum. Fjallkona, Tómas Tómasson bassaleikari. Hveitibjörn, Egill Ólafsson söngvari. Frímann flugkappi, Jakob Frímann Magnússon hljómborðsleikari. Heimsóknin sem aldrei varð „Öryggisgæslan í kringum kínverska ráðamenn er einnig mjög mikil og engu síðri en vestrænna ráðamanna. Árið 2002 átti Jiang Zemin, forseti Kína, að gista hér og undirbúningurinn gríðarlegur. Á síðustu stundu var svo skipt yfir á annað hótel vegna mótmæla við Háskólabíó í tilefni heimsóknarinnar,“ segir Sigríður. Allt verður að ganga upp Sigríður segir stemninguna í kringum opinberar heimsóknir mikla. „Það verður allt að ganga upp og á réttum tíma og gaman að sjá þegar bíla- lestin kemur að húsinu. Pikkalóarnir tilbúnir í sínum fínasta búningi til að opna dyrnar. Hótelstjórinn og fleira starfsfólk á sínum stað til að taka á móti gestunum. Starfsfólkið mætti alltaf snemma og biðin því oft löng. Svo kom kallið yfir talstöðina, „við erum hjá Þjóðminjasafninu“, og þá fór allt í gang, alveg eins og í leikhúsi.“ Hjólin upp „Eftir brottför erlendu þjóðhöfðingjanna og þegar verki undirbúnings- nefndanna og öryggisvarðanna var lokið var stundum haldin veisla. Innan bandarísku leyniþjónustunnar kallast þessar veislur „wheels up party“, því um leið og flugvél þjóðhöfðingjans tekst á loft er vakt öryggis- varðanna lokið og aðrir taka við,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir. Hársaga Hótel SöguSigrún Kristín Ægisdóttir, hárgreiðslumeistari. Gul lmo lar M yn di r: A nn a B jö rn sd ót ti r Sigríður Ingvarsdóttir, hótelstjóri á Park Inn Ísland.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.