Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 37

Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 37
„Alltaf jafn gaman að syngja á S ögu“ Ragnar Bjarnason var hljómsveitarstjóri í Súlnasal Hótel Sögu í nítján ár og segir að sér hafi allt þótt jafn gaman að syngja þar. Ferill hans hófst 1964 með hljómsveit Svavars Gests en margir landsþekktir tónlistarmenn hafa spilað með Ragnari á margskonar skemmtunum. „Ég bjó í Danmörku í tæp tvö ár og spilaði með ýmsum hljómsveitum í Skandinavíu. Einn daginn var ég á leiðinni til umboðsmannsins til að skoða tveggja ára samning sem okkur hljómsveitinni sem ég var í stóð til boða og gerði ráð fyrir að við ferðuðumst um Evrópu, Suður-Ameríku og Vestur-Indíur og spiluðum þar. Ég var nýbúinn að kynnast konunni á þessum tíma og satt best að segja ekkert spenntur fyrir samningnum. Í því sem ég er að fara út úr dyrunum réttir konan mér bréf, sem reynist vera frá Svavari Gests. Ég hafði unnið með Svavari áður en ég fór út og í bréfinu segist hann vera að snúa sér alfarið að hljómplötuútgáfu og að hann langi að enda síðasta árið sitt á Sögu með mér og Ellý Vilhjálms. Konráð Guðmunds- son, hótelstjóri á Sögu, hafði á sínum tíma ráðið Hljómsveit Svavars Gests til að spila í Súlnasalnum. Eftir að Svavar hætti buðu Konráð og Svavar mér að taka við, sem ég gerði og stofnaði þar með fyrstu hljómsveitina mína,“ segir Ragnar. Miðja skemmtanalífsins Ragnar segist hafa spilað á Sögu með eigin hljómsveit í nítján vetur en aldrei á sumrin. „Blessaður vertu, Saga er æðislegur staður og frábært að syngja þar. Strákarnir í hljómsveitunum, söng- konurnar og starfsfólkið hafa verið svo skemmtileg og alltaf líf í tuskunum. Súlnasalurinn var miðja skemmtana- lífsins í Reykjavík og það má segja að flest sem gerðist í bænum hafi gerst á Sögu. Við spiluðum á allskonar böllum og skemmtunum og lögðum okkur alltaf alla fram. Dansskólar Hermanns Ragnars og Heiðars Ástvaldssonar héldu reglu- lega rosalega flottar dansskemmtanir hérna og skemmtanirnar sem ferðaskrif- stofurnar héldu voru einstakar. Nýársfagnaðurinn á Sögu var líklega með allra flottustu skemmtunum sem haldnar hafa verið á Íslandi og með ólíkindum glæsilegur. Konráð lét til dæmis fljúga inn jarðarberjum sérstaklega fyrir nýárs- böllin og einu sinni réði hann danska desertmeistara til að skreyta sal og hreinlega breyta honum í eftirréttasal. Barnaböllin og jólatrésskemmtanirnar á Sögu voru líka mjög vinsæl á tímabili og við spiluðum líka á þeim.“ Rakarasúla sem hávaðamælir „Konráð Guðmundsson var hótelstjóri á Sögu allan þann tíma sem ég var þar. Hann hugsaði um staðinn eins og ungbarn og lagði sig allan fram um að gera Hótel Sögu sem glæsilegasta. Hljómsveitin spilaði söngleikjatón- list fyrir matargesti en þegar leið á kvöldið kom fyrir að hótelgestir kvörtuðu undan hávaða. Styrkurinn í okkur var þó einungis brot af því sem er hjá hljómsveitum í dag. Til að leysa þetta keypti Konráð eins konar hávaðamæli, sem leit út eins og rakarasúla. Súlan var svo tengd í græjurnar og ef tónlistin fór yfir ákveðin mörk sló hún út magnar- anum. Satt best að segja vissi Konráð allt sem gerðist á Sögu á meðan hann sá um reksturinn. Yndislegur en um leið ákveðinn yfirmaður sem lét fólk vinna. Ég notaði hávaðamælinn mikið á barnaböllunum, lét krakkana koma upp að sviðinu og öskra þar til hann sló út og þeim þótti það mjög gaman. Eftir að barnaböllin hættu fékk ég Jón bassa til að taka súluna úr sambandi, þannig að hún slægi ekki magnar- anum út en virkaði að öðru leyti. Ég var svakalega lukkulegur með þetta og fannst mér loksins hafa tekist að leika á Konna. Ég hitti Konna fyrir nokkrum árum og sagði grobbinn við hann að nú ætlaði ég að segja honum eitt sem hann vissi ekki og ég hefði getað trixað hann á. Hann leit á mig hlæjandi og spurði hvort ég ætti við súluna. Hann vissi það þá allan tímann, alveg eins og allt annað sem átti sér stað í húsinu.“ Raflost eftir ball Að sögn Ragnars var hann einu sinni hætt kominn eftir raflost sem hann fékk eftir skemmtun í Súlnasalnum. „Ég spilaði á víbrafón og eitthvert vesen var með „pluggið“ á honum. Einu sinni eftir ball var ég að taka saman, hélt um míkrafónstatíf og greip víbrafóninn og vissi ekki fyrr en það leiddi allt í gegnum mig. Ég stóð stífur á sviðinu og gat mig hvorki hreyft né öskrað. Sem betur fer hafði Karl Möller gleymt töskunni sinni og sá mig þegar hann kom aftur að sækja hana og gat kippt dótinu úr sambandi. Annars veit ég ekki hvernig hefði farið.“ „Viltu dimma ljósin!“ Ragnar segir mikið af erlendum skemmtikröftum hafa skemmt á Sögu. „Einu sinni kom hingað kvenkyns dansari sem átti að vera mjög glæsi- leg. Ég sá mynd af henni og verð að viðurkenna að hún leit vel út. Jæja, það er búið að selja atriðið inn á hótelið og sjóið að byrja, þegar um- boðsmaðurinn kemur til mín og biður mig um að dimma ljósin. Ég hváði og spurði hvort það væri ekki frekar rétt að setja á hana kastara, en hann vildi það ekki. Ég minnkaði ljósið en hann bað mig um að dimma aðeins meira. Þegar dívan kom inn á sviðið reyndist hún vera fimmtíu og fimm ára og þokkalega íturvaxin, myndin var þá þrjátíu og fimm ára gömul.“ Fastir menn og mannabreytingar „Þrátt fyrir að margir í hljómsveit- inni hafi spilað með mér lengi voru töluverðar mannabreytingar í gegnum tíðina. Stefán Jóhannsson trommari spilaði með mér í fimmtán ár, Karl Möller og Jón bassi voru líka lengi með mér en aðrir skemur. Þuríður Sigurðardóttir söng með okkur um tíma og Eyþór Stefánsson lagði á sig að fljúga heim um helgar og spila þegar hann var í námi í Noregi.“ Ragnar segir að þeir hafi spilað allar gerðir af tónlist; rokk, bítla- lög, klassík, dinner og söngleikja- tónlist. „Við reyndum að fylgjast með tíðarandanum og æfðum vel tvisvar til þrisvar í viku í Súlnasalnum. Ætli þetta hafi ekki verið fjórar eða fimm tegundir af hljómsveitum sem spiluðu með mér, klassi yfir þeim öllum og ekkert vesen,“ segir Ragnar Bjarnason söngvari að lokum.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.