Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 34

Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 34
Hótel Saga fagnar 50 ára starfsafmæli í ár. Ingibjörg Ólafsdóttir tók við sem hótelstjóri á Hótel Sögu um síðustu áramót en hún starfaði fyrst við gestamóttöku á Sögu 1984, samhliða námi við Háskóla Íslands. „Árið 1991 tók Konráð Guðmundsson hótelstjóri á Sögu að sér að opna og reka Hótel Ísland fyrir Búnaðarbankann. Konráð bauð mér að reka Hótel Ísland og ég stýrði því í fimmtán ár. Þaðan fór ég til Leeds í Bretlandi og sá um hótelrekstur þar. Ég kom svo heim í haust og tók við rekstri Hótel Sögu um áramótin.“ Fjölbreytt starf Ingibjörg segir daglegt starf hótelstjóra vera fjölbreytt og spennandi og að engir tveir dagar séu eins. „Hótelstjóri er ábyrgur fyrir allri starfsemi hótelsins og þarf að hafa góða yfirsýn, bæði gagnvart samstarfsfólki og gestum og fylgjast með því að þjónustan sé eins og best verður á kosið. Á sama tíma þarf svo að halda utan um budduna svo eitthvað verði afgangs. Stundum getur það verið svolítið erfitt þar sem um þjónustu er að ræða og margt starfsfólk þarf til að hlutirnir gangi eins og smurðir. Gott starfsfólk og starfsánægja eru lykilatriði til að gestirnir fái góða þjónustu. Glaðir og brosandi starfsmenn smita út frá sér og ég er svo óskaplega lánsöm að vinna með hópi af frábæru fólki.“ Herbergi sem henta öllum „Forsetasvítan á Sögu var á sínum tíma flottasta hótelsvíta á Íslandi og þar gistu allir frægustu og merkilegustu gestir sem komu til landsins. Það er dásamlegt útsýni úr svítunni og hún er enn með sinn gamla stíl. Auk forsetasvítunnar er boðið upp á minni svítur, „business class“ -herbergi og það sem kallað er ven- juleg herbergi. Þannig að við bjóðum upp á herbergi í öllum verðflokkum. Í dag eru flest herbergin fremur rúmgóð en sum voru ansi lítil áður en þau voru sameinuð, enda voru herbergin 209 á hótelinu einu sinni 218.“ 90% yfir sumarið „Í gamla daga var Hótel Saga „hótelið“, enda lengi vel fá hótel í boði í sama gæðaflokki. Með tímanum hafa svo byggst upp mörg og glæsileg hótel sem bjóða svipaða þjónustu. Framboð á gistingu í dag er mun meira en áður og samkeppnin hörð. Hótel Saga hefur líka dregist aðeins aftur úr hvað varðar endurnýjun, en það stendur til bóta. Yfir hávetrartímann getur verið töluvert hark að leigja út herbergi en á sumrin er nýtingin yfir 90%, sem er mjög gott.“ Ingibjörg segir að í sínum huga sé Saga fallegt og klassískt hótel og að það skipti miklu að starfsfólk hótelsins sé stolt af því og leggi sig allt fram. „Saga hótelsins er löng og auðvitað þarf að endurnýja eitt og annað, bæði utan dyra og innan, vegna slits. Hótel Saga á að halda reisn og vera eilítið íhaldssamt enda margir sem kjósa slík hótel til að gista á. Þjónustan er og á alltaf að vera framúrskarandi og ég er sannfærð um að ef við náum að viðhalda þessu, og bjóða upp á þessi gæði í matnum, þá fylgi aðsóknin fast á eftir.“ Byggt af stórhug Á næstu misserum stendur til að endurnýja allt gler í hótelinu auk þess sem sjö- unda hæðin verður endurnýjuð. Skipt verður um gluggakistur og gólfteppi, enda sum þeirra upprunaleg og eins og að fara aftur í tímann þegar gengið er inn í herbergin. „Það að sumar innréttingar séu að hluta upprunalegar sýnir hvað hótelið hefur verið byggt af miklum stórhug og hversu vandað hefur verið til verka. Konráð Guðmundsson, sem var hótelstjóri hér nánast frá byrjun, rak hótelið af mikilli alúð og heilum hug. Undir hans stjórn unnu hér, auk mín, starfsmenn sem seinna áttu eftir að koma að rekstri hótela og veitingahúsa um allt land.“ Allt til alls Ingibjörg segir mjög krefjandi að starfa við ferðaþjónustu, þar sem starfsemi er alla daga á ári allan sólarhringinn. „Starfsfólk sem velst í þjónustustörf er fólk sem vill hafa mikið að gera, þar sem hlutirnir þurfa að gerast strax og vel og það þarf að Klassískt hótel sem býður framúrskarandi þjónustu Á Hótel Sögu eru 209 herbergi, tíu funda- og veislusalir og tveir veitinga- staðir. Hótelið er tæplega 19.000 fermetrar að flatarmáli og þar starfa yfir 100 manns. Saga er því lítið samfélag eða heimur út af fyrir sig og í ansi mörgu að snúast þegar kemur að rekstrinum. fylgja þeim eftir. Þetta eru því oft og tíðum litríkir og skemmtilegir karakterar sem eru tilbúnir að gefa mikið af sér. Hér hafa líka orðið til hjónabönd og vináttutengsl sem hafa enst alla ævi. Gestir sem koma inn á Sögu hafa hér allt til alls og geta þess vegna eytt öllu fríinu hér án þess að fara út, þótt ég mæli alls ekki með því. Hér eru góð herbergi, framúr- skarandi matur hvort sem fólk vill hamborgara, hlaðborð eða „à la carte“ í Grillinu og ball í Súlnasal, auk þess sem hér er spa til að slaka á, hárskerar og gjafavöruverslun svo fátt eitt sé nefnt.“ Afmælisuppákomur út árið Í tengslum við 50 ára starfsafmæli Hótel Sögu eru haldnar sérstakar uppákomur í hverjum mánuði fyrir gesti, viðskiptavini og starfsfólk. „Í haust ætlum við til dæmis að koma fastagestunum okkar á óvart með óvæntri uppákomu og gleðja þá sérstaklega í tilefni afmælis- ins,“ segir Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Hótel Sögu, brosandi að lokum. Ingibjörg Ólafsdóttir, framkvæmda- stjóri Radisson Blu Hótel Sögu og Park Inn Ísland Ýmsar skemmtilegar uppákomur hafa átt sér stað í gestamóttökunni á Hótel Sögu. Karen Þórsteinsdóttir, umsjónarmaður einstaklings- bókana, hóf störf í gestamóttökunni 1972. Hún kann margar sögur af gestum og segir skemmtilega frá. Hingað kemur allskonar fólk „Í mínum huga er Hótel Saga eins og lítið þorp með öllum þeim uppá- komum sem fylgja mannlegum sam- skiptum. Hingað kemur allskonar fólk, bæði skemmtilegt og kátt og miður skemmtilegt og erfitt í samskiptum, en sem betur fer er það sjaldgæfara en þeir sem eru kurteisir og glaðir. Efstar í mínum huga eru heimsóknir Husseins Jórdaníukonungs en hann kom hingað tvisvar og var mikið umstang í kringum það. Ég man líka eftir heimsókn Joseph Luns, aðalritara NATO, Elísabetar Englandsdrottningar, en hér var haldin mikil veisla henni til heiðurs, Ellu Fitzgerald og Louis Armstrong, tenórsins góða Pavarotti auk frægra rithöfunda eins og Doris Lessing og Fay Weldon, en þær komu hér á listahátíð. Eins og gefur að skilja var mikið umstang í kringum þessar heimsóknir og að sjálfsögðu settur út rauður dregill í tilefni þeirra.“ Nakinn með hatt „Einu sinni var von á erlendum þjóðhöfðingja hingað til að gista. Bíllinn var að renna í hlað og allir í startholunum þegar lyftan kom niður. Út úr lyftunni stígur einn af okkar yndislegustu gestum og greinilegt að hann hafði fengið sér aðeins of mikið í tána, enda stóð hann þarna kviknakinn og með hatt á höfðinu. Sem betur fer tókst okkur að koma karlinum í stóran frakka af einum dyraverðinum og á bakvið í gestamóttökunni áður en þjóðhöfðinginn gekk í hús.“ Ýtti öryggisverði út úr lyftunni „Ólafur Noregskonungur kom hingað og hefð fyrir því að ég fylgdi honum upp á svítuna. Eitt sinn þegar Ólafur rennir í hlað stöndum við Ingibjörg Ólafsdóttir, núverandi hótelstjóri, ægilega virðulegar hlið við hlið og bíðum hans. Allt í einu snýr Ingibjörg sér að mér og spyr mig hvort hún sé með mjólkurskegg. Ég fæ náttúrulega hláturskast. Í ofanálag fór lyftan ekki af stað þegar við ætluðum upp þannig að ég þurfti að ýta einum öryggis- verðinum út. Við vorum of þung fyrir lyftuna. Ólafur hafði greinilega gaman af þessu og hló, enda afalegur og góður karl. Ég átti því mjög erfitt með að hemja mig í lyftunni upp með kónginum.“ „...and I am a princess“ „Hingað kom líka einu sinni hópur af ungum mönnum sem höfðu komið til landsins á einkaþotu. Einn þeirra kom í móttökuna og pantaði nokkrar svítur. Í mínum huga voru þetta bara einhverjir smástrákar og mér leist ekki betur á þá en svo að ég lét þá greiða allt fyrirfram. Um nóttina var svo eitt- hvert partístand á þeim. Daginn eftir kallaði ég þá niður, talaði yfir þeim og bannaði þeim að hafa svona mikinn hávaða. Einn þeirra gekk þá að mér ansi mannalegur og sagði, „but I am Prince“. Ég hafði ekki hugmynd um hver þetta var og svaraði „yes, and I am a princess“. Eftir að strákarnir voru farnir kom í ljós að þetta voru tónlistarmaðurinn Prince og vinir hans að skemmta sér.“ Skemmtilegast að taka á móti bændum Karen segir að sér þyki yndislegt að vinna á Hótel Sögu enda séu þar engir tveir dagar eins. „Þrátt fyrir að mér þyki alltaf gaman að taka á móti gest- um þykir mér allra skemmtilegast að taka á móti íslenskum bændum. Þeir eiga Hótel Sögu og eru í mínum huga aðallinn í landinu.“ Carlos Ferrer vikapiltur og prestur í dag. Auk hans eru Karen Þórsteinsdóttir, Jóhanna Hauksdóttir og Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt á myndinni. Karen Þórsteinsdóttir, umsjónarmaður einstaklingsbókana á Hótel Sögu.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.