Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 13

Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 13
Bændablaðið | Fimmtudagur 9. ágúst 2012 13 Sauðfjársetur á Ströndum 10 ára: Íslandsmót í hrútadómum á næsta leiti Óvenju mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetri á Ströndum í sumar en það hefur nú verið starfrækt í 10 ár. Framundan er Íslandsmeistaramót í hrútadómum sem verður haldið laugardaginn 18. ágúst nk. og hefst keppnin kl. 14:00. Keppnin hefur verið vinsæl og fjölsótt síðustu árin og keppendur komið úr öllum landshlutum. Keppt er í tveimur flokkum. Annars vegar keppa þaulvanir hrútaþuklarar, sem kunna upp á hár þá kúnst að stiga hrútana, um Íslandsmeistaratitil í hrútadómum. Hinn flokkurinn er fyrir óvana og hrædda hrútaþuklara en þeir glíma við að raða hrútunum í gæðaröð og rökstyðja röðina. Þétt dagskrá og góð aðsókn Aðsókn að Sauðfjársetrinu hefur verið góð í sumar að sögn Esterar Sigfúsdóttur framkvæmdastjóra en hún tók við starfinu um síðustu áramót. „Erlendum gestum sem heimsækja safnið til að fræðast um sauðkindur og búskap er að fjölga töluvert. Mikill fjöldi heimamanna og gesta sækir líka Sauðfjársetrið heim þegar eitthvað er um að vera, opnanir á sýningum, viðburðir og skemmtanir. Svo er ljómandi góð aðsókn að dýrindis kaffihlaðborðum sem eru reglulega í veitingastofunni Kaffi Kind,“ segir Ester. Margt er að skoða í Sauðfjársetrinu en fyrir utan fastasýninguna, sem ber yfirskriftina Sauðfé í sögu þjóðar, hafa þrjár sérsýningar verið settar upp í sumar. Auk þess eru þar reglulega ýmsir viðburðir ‒ dráttarvéladagur, hrútadómarnir og svokallaðir Furðuleikar eru árvissar skemmtanir. Á Furðuleikunum keppa menn í margvíslegum undarlegum íþróttagreinum, svo sem öskri, trjónufótbolta og kvennahlaupi að hætti Strandamanna (þar sem karlarnir sem keppa halda á konunum). Þrjár nýjar sérsýningar Hagleiksmaðurinn Þorsteinn Magnússon er yfirskrift sérsýningar sem opnuð var fyrr í sumar á Sauðfjársetrinu. Þar eru sýndir smíðisgripir og verkfæri Hólmvíkingsins Þorsteins Magnússonar sem smíðaði fjölbreytilegar, litlar eftirlíkingar af búsáhöldum sem notuð voru í sveitasamfélagi fyrri tíma. Önnur sýning, sem nýlega var opnuð, heitir Dugmiklar dragþórur en þar er sagt frá dráttarvélaöldinni á Ströndum og hún sett í samhengi við þróun á lands- og heimsvísu. Margar skemmtilegar myndir af vélaöldinni á Ströndum prýða þá sýningu. Þriðja sýningin var opnuð á Furðuleikum Sauðfjársetursins fyrr í sumar. Þar er á ferðinni sýning listakonunnar Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur sem er landsþekkt fyrir kindur, karla og kerlingar sem hún setur saman úr spýtukubbum. Sýning Aðalheiðar ber yfirskriftina Áfangastaður og er fertugasta sýningin í 50 sýninga röð sem listakonan ætlar að setja upp undir yfirskriftinni Réttardagur. Hefur þessi skemmtilega sýning Aðalheiðar vakið mikla athygli og aðdáun gesta Sauðfjársetursins. Stefnt á öflugt vetrarstarf Á árinu hefur einnig verið unnið að lagfæringum á húsnæði Sauðfjársetursins í Sævangi og hafa sjálfboðaliðar unnið þá vinnu að mestu leyti. Lokið er við einangrun og búið að skipta um járn á hálfu þakinu. Einnig hafa verið settar upp varmadælur. Þessar lagfæringar voru forsenda þess að hægt væri að skipuleggja vetrardagskrá á Sauðfjársetrinu. Frá og með haustinu verður því hægt að heimsækja safnið allan veturinn og jafnframt er stefnt á fjölbreytta dagskrá, spilakvöld, kvöldvökur, leiksýningar og sviðaveislu, svo dæmi séu nefnd. Eins hentar kaffistofan í Sævangi vel fyrir námskeið, fundi og ráðstefnur, að sögn Esterar framkvæmdastjóra sem er bjartsýn á framtíð Sauðfjársetursins. HJÓLBARÐAÞJÓNUSTA BKT er einn stærsti framleiðandi hjólbarða fyrir traktora, vinnu- og iðnaðarvélar í heimi. BKT hefur einnig haslað sér völl í framleiðslu á dekkjum fyrir hjólaskóflur og stóra vörubíla (Búkollur). HJÓLBARÐAR FYRIR TRAKTORA, vINNUvéLAR Og LANdBúNAÐAR TæKI vIÐ eIgUm gRíÐARLegT úRvAL HJÓLBARÐA FYRIR FLeSTAR TegUNdIR véLA, TæKJA Og vAgNA. KíKTU á pITSTOp.IS eÐA HAFÐU SAmBANd í SímA 568 2020. BKT mp567 BKT FLOT648 BKT TR459 BKT AgRImAX RT-657 dUggUvOgI RvK AUSTURvegI SeLFOSS pITSTOp.IS www HeLLUHRAUNI HFJRAUÐHeLLU HFJ 568 2020 SímI Listakonan Aðalheiður S. Eystein­ sdóttir opnar listasýninguna Áfan­ gastað á Sauðfjársetrinu í sumar. Sýningin stendur út ágúst. Matthías Lýðsson í Húsavík heldur í hrútinn á Íslandsmeistaramóti í hrútadóm­ um haustið 2011 en Arnar Snæberg Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins, þuklar gripinn. Framkvæmdastjóraskipti urðu hjá Sauðfjársetri á Ströndum um síðustu áramót. Arnar S. Jónsson lét af störfum og Siglfirðingurinn Ester Sigfúsdóttir, ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli með meiru, tók við starfinu. Guðmundur Guðlaugsson frá Hvammi í Hvítársíðu ekur til sigurs í ökuleikni á aldraðri dráttarvél á dráttarvéladegi Sauðfjársetursins í sumar. Barbara Guðbjartsdóttir í Miðhúsum í Kollafirði sigraði í kvennaflokki í dráttarvélarakstrinum með glæsibrag.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.