Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. ágúst 2012 Fjölgun refa og röng stefna ríkisstjórnarinnar Refurinn er einn af frumbyggjum landsins og hefur sinn rétt sem slíkur. Hinsvegar er vitað að frá landnámi hefur ávallt verið reynt að takmarka stofnstærð hans með veiðum og þannig að lágmarka skaða af hans völdum á búfénaði og öðrum skepnum landsins. Fyrir tveimur árum ákvað ríkis- stjórnin án rökstuðnings að hætta stuðningi við refaveiðar þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að tekjur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts af hlutdeild sveitarfélaganna væru hærri en heildarútgjöld ríkisins. Við þessu var varað enda ljóst að mörg sveitarfélög mundu af fjárhagsástæð- um nota tækifærið og skera niður fjárveitingar til refaveiða. Nú berast fréttir víða af landinu af gríðarlegum fjölda refa og áhyggjur af þessum vanda fer vaxandi. Meðfylgjandi ljósmyndir sýna vel vandann sem við er að etja en á myndunum má sjá illa dýrbitið sauðfé í Borgarfirði og á hinni má sjá ref sem er að bera 22 fuglsunga í greni. Stærð refastofnsins tífaldast á 30 árum Sá losaragangur sem viðgengist hefur á stjórnun refaveiða undan- farna áratugi hefur ásamt friðun ákveðinna landsvæða leitt af sér óhóflega stækkun refastofnsins. Dr. Páll Hersteinsson, sem stundaði rannsóknir á íslenska refnum í ára- tugi, sagði í viðtali í Morgunblaðinu 15. desember 2010 að íslenski refa- stofninn hafi verið um 1,000 dýr í lágmarkinu 1973–1975 og miðar hann þá við hauststofn. Árið 2007 sé stofninn áætlaður um 10.000 dýr og hafi því tífaldast frá því 30 árum áður. Líkur má leiða að því að stofn- inn hafi stækkað með líkum hraða síðan 2007. Á þessum tíma hefur ref- urinn fært sig nær byggð og á síðustu árum er æ algengara að dýrbitið sauðfé finnist og fugl- um hefur víða fækkað mikið. Því leggjast gríðarlegar fjár- hagslegar byrðar á fámenn en land- stór sveitarfélög þar sem skilningur hefur þó verið á vandamálum sem upp geta komið í náttúrunni þegar handleiðslu mannsins nýtur ekki lengur og stofnar afræningja vaxa úr hófi. Skaða á fuglalífi vegna frið- unar og tilviljanakenndra veiða má vel sjá á Vestfjörðum og víðar. Af þeim sökum er afar brýnt að koma skipulagi aftur á refaveiðar. Hættum öfgum og beitum skynsemi í þágu náttúrunnar Í stað þess að vinna að friðun refa og skera algerlega niður fjárveit- ingar til refaveiða hefði verið skyn- samlegra að skipuleggja þær betur og gera markvissari. Nú liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga sem myndi breyta skipulagi refaveiða á Íslandi. Undirritaður er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en nái hún fram að ganga er kveðið á um að halda refastofninum í hæfilegri stofnstærð sem gæti legið nærri 4–5.000 dýrum. Til að ná því markmiði gerir tillagan ráð fyrir að engin landsvæði verði undan- skilin refaveiðum, teknar verði aftur upp greiðslur úr ríkissjóði vegna fækkunar refa, að samið verði við Samband íslenskra sveitarfélaga eða landshlutasamtök sveitarfélaga um að sjá um skipulagningu veið- anna og greiðslur til veiðimanna, að rannsóknir verði á hendi vísinda- manna en veiðistjórnun á hendi reyndra veiðimanna og síðast en ekki síst að greiðslur fyrir hlaupa- dýr og grenjavinnslu verði þær sömu um land allt. Eins og rakið hefur verið þarf að halda refastofninum í hæfilegri stofnstærð og því er mikilvægt að tillaga sem felur í sér breytta framtíðarskipan refaveiða verði samþykkt sem fyrst. Við verðum að komast frá þeirri öfgastefnu sem umhverfisráðherra og ríkisstjórnin hefur á þessum málaflokki og setja fram skynsamlega stefnu í þágu nátt- úrunnar. Ásmundur Einar Daðason alþingismaður Framsóknarflokksins. Lesendabás Ásmundur Einar Daðason. Refur með 22 þúfutittlingsunga í kjaftinum á leið í greni. Mynd /Hilmar Stefánsson Dýrbitið lamb á Snartarstöðum í Bor- Mynd /Gunnhildur Birna Björnsdóttir Fjárvís Ákall til Bænda- samtakanna Við vinnslu á vorupplýsingum á sauðfjárbókhaldinu (Fjárvís) að undanförnu hefur komið upp í huga minn mjög góð grein sem birtist í Bændablaðinu þann 14. júní sl. Þar l i tgreindi Ólafur Dýrmundsson nokkrar myndir sem Bændablaðinu höfðu borist af fé Óskars Halldórssonar á Krossi í Lundarreykjadal. Ég vil taka fram að ég var alveg sammála Ólafi með litgreininguna en ég er sjálfur með nokkuð litskrúðugan fjárstofn og tel mig þekkja flest þessara litaaf- brigða. En þá kemur að alvörunni: hvernig á að skrá þessa liti í fjár- bókhaldinu þar sem gagnagrunnur- inn í Fjárvís gefur ekki möguleika á að skrá tiltekin litaafbrigði? Í Fjárvís er hægt að skrá ýmis litaafbrigði af hvítu, gráu, svörtu, mórauðu og grámórauðu en það vantar samt mörg afbrigði eins og botnuflekkótt, golsuflekkótt, baugótt, krúnótt, hosótt og svo mætti áfram telja. Þessi litaaf- brigði eru þó öll til og viðurkennd af Bændasamtökunum, t.d. á vegg- spjaldinu með íslensku sauðfjár- litunum. Annaðhvort mógolsótt eða móflekkótt Til að standast gæðastýringu í sauðfjárrækt og halda þar öllum greiðslum og þess háttar þarf hver og ein kind að hafa sitt númer og auð- kenni og vera rétt skráð en hvernig er það hægt þegar kerfið gefur ekki möguleika á því að skrá réttan lit kindarinnar? Sem dæmi má nefna að kind sem er mógolsuflekkótt er í kerfinu annaðhvort skráð sem mógolsótt eða móflekkótt. Ákall um lagfæringar Hef ég nokkrum sinnum rætt þessi mál við Hjálmar Ólafsson, forritara hjá Bændasamtökunum og aðal- hvatamann að Fjárvís er ég best veit. Hann hefur jafnan svarað mér á þá leið að þetta væri allt í vinnslu en ekkert hefur gerst. Vil ég nú skora á þá aðila sem vinna að þessum málum að bregðast við þessu ákalli mínu um lagfær- ingar á áðurnefndu kerfi svo hægt sé að skrá þessa einstaklinga rétt í Fjárvís. Með fyrirfram þökkum, Árni Bragason Sunnuhlíð í Vatnsdal Þjóðhagslegt mikilvægi landsbyggðar Upplýsingar um íbúaþróun, búferlaflutninga og spár um lík- lega fólksfjöldaþróun eru mikil- vægur grunnur í þjóðhagslegu til- liti. Þróun síðustu áratuga sýnir skýrt gríðarlega samþjöppun fólks á Íslandi á höfuðborgarsvæðið og reyndar einnig hraða þéttbýlis- myndun út um land. Í ársbyrjun bjuggu á höfuð- borgarsvæðinu í nær algerlega sam- felldri byggð, þ.e. frá Hafnarfirði til Mosfellsbæjar, 63% landsmanna eða rétt tæplega 200 þúsund manns. Á hinum endanum er það sem kallað er strjálbýli, þ.e. sveitir og minni þéttbýliskjarnar með undir 200 íbúum. Þar bjuggu hinn 1. janúar sl. 6,5% mannfjöldans eða rúmlega 20 þúsund manns. Svo brá við á síðasta ári að íbúum í fámennari byggðakjörnum og strjálbýli fjölgaði nokkuð umfram landsmeðaltal eða um 0,6% eftir meira og minna samfellda fækkun undangenginn áratug. Þetta og fleira gefur ákveðnar vísbendingar um að nokkur veðrabrigði kunni að vera í vændum í byggðamálum og veitir ekki af. Mannekla og húsnæðisskortur Allvíða af landsbyggðinni berast nú þær fréttir að þar standi mann- ekla og húsnæðisskortur hvað helst í vegi framþróunar og eflingar við- komandi byggðarlaga. Á mörgum stöðum við sjávarsíðuna hefur orðið mikil uppbygging í útgerð og þó ekki síður landvinnslu sjávarafurða. Má nefna í því sambandi staði eins og Vopnafjörð, Þórshöfn, Bolungarvík, Neskaupstað, Vestmannaeyjar, Dalvík og marga fleiri. Á öðrum stöðum eru það fiskeldi, ferðaþjón- usta, menning og handverk eða ylrækt, þang- eða þörungavinnsla sem eru í sókn og kallar á aukinn mannafla og húsnæði. Ekki má gleyma hefðbundnum landbúnaði sem hefur verið að styrkjast með aukinni fjölbreytni, úrvinnslu heima á búunum og síðast en ekki síst með vaxandi útflutningi. Því miður er framþróun þessara byggða mörgum annmörkum háð. Enn skortir víða á að samgöngur og fjarskipti séu í ásættanlegu horfi. Flutningskostnaður er hár, þó nú sé loksins komin til framkvæmda nokkur jöfnun þar á. Mjög víða á landsbyggðinni utan stærri þétt- býlisstaða er uppistaðan af yngra húsnæði frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Því er orðinn skortur á húsnæði á ákveðnum svæðum. Skýrist það bæði af því að nú búa færri einstaklingar í hverju húsi en áður sem og að íbúum hefur sumsstaðar tekið að fjölga á nýjan leik án þess að húsnæði hafi bæst við. Í nýju fasteignamati kom svo í ljós að nokkrir staðir sem höfðu nýlega fengið umtalsverðar sam- göngubætur stóðu upp úr í hækkun fasteignamats. Segir það sína sögu um mikilvægi samgangna í þessu samhengi öllu. Ólík staða svæða Það sem við í daglegu tali köllum landsbyggð er þó fjarri því að vera einsleitt mengi. Sum svæði eiga við erfiðar aðstæður að glíma meðan önnur standa allvel. Kraginn í svona 100 km radíus út frá höfuðborgar- svæðinu nýtur um margt góðs af nábýlinu en finnur líka fyrir Stór- Reykjavíkursvæðinu sem sterkum segli sem sogar til sín ýmsa hluti. Sömuleiðis má segja að staðan sé nokkuð sterk á Eyjafjarðarsvæðinu í byggðalegu tilliti, þar hefur verið fólksfjölgun bæði til langs tíma og á síðustu árum og þjónustustig er hátt. Miðausturland hefur alla burði til að eflast en vantar enn úrbætur í samgöngumálum fyrir Norðfjörð, Seyðisfjörð, tengingu Djúpavogs við Hérað og sama fyrir Borgarfjörð eystri. Skagafjörðurinn stendur líka traustum fótum og á síðustu árum eru vísbendingar um að telja megi Vestmannaeyjar í þessum hópi. Eftir standa þá 7-8% þjóðar- innar á svæðum þar sem glímt er við alvarlegri byggðavanda. Snæfellsnes, Húnavatnssýslur, Suður-Þingeyjarsýs la og Skaftafellssýslur hafa látið undan síga, þó finna megi byggðarlög eða byggðakjarna þar eins og annars staðar þar sem bærilega gengur. Bráðavandinn er hins vegar sér- staklega á Vestfjörðum og í vissum byggðum á norðausturhorninu. Sóknaráætlanir mikilvægar Þó svo að engar töfralausnir séu til á byggðavandanum og ýmislegt hafi verið reynt í gegnum tíðina með misjöfnum árangri er engu síður tilefni til nokkurrar bjartsýni í þessum efnum ef rétt verður á málum haldið. Sóknaráætlanir landshlutanna eru hér lykilverk- færi sem og að líta almennt á bætt búsetuskilyrði og aðstæður á landsbyggðinni og í hinum dreifðu byggðum sem einn vænlegasta fjár- festingakost Íslands. Ofþensluárin voru landsbyggðinni mjög mótdræg og henni blæddi meir en endranær í hinu meinta góðæri. Bóluhagkerfið hafði neikvæð áhrif á afkomu og þrótt landsbyggðarinnar sem byggir afkomu sína á raunverðmætum. Alltof sterkt gengi krónunnar er gott dæmi í þessu sambandi en það dró þrótt úr útflutningsstarfseminni en jók á skuldsetningu þjóðarbúsins með óhóflegum innflutningi og viðskiptahalla. Eftir hrun blasir á nýjan leik við að útflutningstekjur á mann á landsbyggðinni eru mun hærri en á höfuðborgarsvæðinu og góður gangur er í raunhagkerfinu. Einnig ríkir nú meira jafnvægi í efnahagslífinu almennt og ágætt atvinnuástand er á flestum svæðum á landsbyggðinni. Þessir þættir ættu að geta skapað mikilvægan grunn að sókn landsbyggðarinnar eftir hin mögru ár „góðærisins“. Fjárfest í innviðum á landsbyggðinni Til þess að ýta enn frekar undir sókn hefur verið ákveðið að ráðast í viða- mikil samgöngu- og fjárfestinga- verkefni á landsbyggðinni. Mörg þessara verkefna hafa setið á hakan- um árum saman. Nú eru að hefjast framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng en þau munu marka tímamót í sam- göngubótum á Miðnorðurlandi og Norð-Aausturlandi sem og styðja við bakið á fyrirhugaðri uppbygg- ingu í Þingeyjarsýslum. Í nýrri fjár- festingaáætlun ríkisstjórnarinnar er jafnframt gert ráð fyrir flýtingu Norðfjarðar- og Dýrafjarðarganga. Þar er líka gert ráð fyrir fjármagni í nýbyggingu við Háskólann á Akureyri, uppbyggingu ferða- mannastaða um land allt og fjárfest- ingu í nýjum Herjólfi og úrbótum í Landeyjahöfn. Það sem gerir kleift að ráðast í jafn viðamikla innviða fjárfestingu á landsbyggðinni eru auknar tekjur ríkissjóðs af sérstöku veiðigjaldi. Við þær aðstæður, sem nú eru uppi í íslenskum sjávarút- vegi, er skynsamlegt og sanngjarnt að nýta umframarð í óvenju góðu árferði til að fjárfesta í möguleikum og tækifærum landsbyggðarinnar. Sú ráðstöfun mun skila þjóðinni allri miklum ávinningi til framtíðar litið. Steingrímur J. Sigfússon. Höfundur er starfandi iðnaðar- ráðherra og fer með byggðamál. Steingrímur J. Sigfússon.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.