Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 39

Bændablaðið - 09.08.2012, Blaðsíða 39
Brunch á Skrúð og gist í Latabæjarsvítunni Veitingastaðurinn Skrúður á jarðhæð Hótel Sögu er vinsæll í hádeginu og á kvöldin. Í Skrúði er barnahorn með Latabæjarþema þar sem börnin geta leikið sér á meðan foreldrar þeirra njóta matarins. Skrúður er annar af tveimur veitingastöðum á Hótel Sögu. Á veturna er morgun- verður í Skrúði. Virka daga er boðið upp á hádegishlaðborð fyrir gesti og gangandi og fjölskyldubistró á kvöldin, en í sumar var breytt til og einnig boðið upp á kvöldverðarhlaðborð. Um helgar er boðið upp á brunch, sem er afskaplega vinsæll af fjölskyldufólki og þá ekki síst vegna barnahornsins sem er rekið í samvinnu við Latabæ. Björk Ormarsdóttir, sölustjóri Radisson Blu Hótel Sögu og Park Inn Ísland, segir að í barnahorninu geti börnin leikið sér á meðan foreldarnir njóti matarins. „Þar geta þau horft á sjónvarp, litað og meira að segja skrifað íþróttaálfinum bréf sem við komum svo áfram til hans, ég hef satt best að segja ekki tölu á hvað bréfin eru orðin mörg.“ Margir fastagestir Skrúður opnaði 1987 og er veitingasala á jarðhæð Hótel Sögu. Að sögn Bjarkar tekur Skrúður 120 manns í sæti og er aðsóknin mikil. „Hingað koma margir fast- agestir og hópar mæta reglulega í hádeginu mismunandi daga vikunnar. Við fáum einnig mikið af vina- og saumaklúbbum sem koma hingað til að spjalla saman, spila á spil og fá sér kaffi og kökur um eftirmiðdaginn.“ Latabæjarsvítan Björk segir að Hótel Saga og Latibær hafi farið í samstarf árið 2010 og að auk barnahornsins í Skrúði sé eitt herbergi á hótelinu helgað Latabæ. „Við tókum eina svítu og innréttuðum hana í anda Latabæjar. Svítan er afskaplega vinsæl meðal barnafólks, bæði innlends og erlends og dæmi um að foreldrar hafi komið hingað erlendis frá sérstaklega til að leyfa börnum sínum að gista í herberginu. Latabæjarsvítan er skreytt með myndum af íþróttaálfinum, Glanna glæp og Sollu stirðu á veggjunum. Þar eru Latabæjarleikföng, rúmföt og handklæði og allt í stíl. Hugmyndin er að í framtíðinni verði boðið upp á barnamatseðil á Skrúði með hollum og góðum mat fyrir börnin. Um síðustu jól var boðið upp á Latabæjar- hlaðboð í Súlnasalnum tvær helgar í röð og salurinn fylltist um leið og var opnað,“ segir Björk. Latabæjarsvítan er skreytt með myndum af íþróttaálfinum, Glanna glæp og Sollu stirðu á veggjunum. Skrúður. Virka daga er boðið upp á há- degishlaðborð fyrir gesti og gangandi og steikarhlaðborð á kvöldin. Björk Ormarsdóttir, sölustjóri Radisson Blu Hótel Sögu og Park Inn. VIÐBYGGING ÁKVEÐIN Á áttunda áratugnum var tekin ákvörðun um að byggja við Bændahöllina. Viðbyggingin er að norðanverðu og sjö hæðir. Fram- kvæmdir við viðbygginguna hófust árið 1982 og lauk 1987. Árið 1964 var brotið blað í sögu veitingareksturs á Íslandi og nútíminn hélt innreið sína í veitingahúsamenningu landsins þegar Stjörnusalurinn á efstu hæð Hótel Sögu var opnaður. Í dag er sal- urinn betur þekktur sem Grillið. Hörður Sigurjónsson, sölustjóri veitingasviðs Radisson Blu Hótel Sögu, hefur starfað við Grillið með hléum frá 1966 og þekkir sögu þess og rekstur vel. „Hótel Saga var opnuð 1962, Stjörnusalurinn tveimur árum síðar og hefur starfað sem veit- ingastaður óslitið frá þeim tíma. Stjörnusalurinn dregur nafn sitt af loftskreytingu salarins, sem sýnir stjörnumerki dýrahringsins og hefur verið látin halda sér óbreytt frá upphafi.“ Fyrsti veitingasalur hússins Stjörnusalurinn var fyrsti veitingasalurinn á Sögu og í upphafi notaður undir alla veitingastarfsemi hótelsins. „Hér var boðið upp á morgunmat fyrir hótelgesti í fjöl- mörg ár. Veitingasalan var opin frá því snemma á morgnana og fram til miðnættis og boðið upp á hádegismat, síðdegiskaffi og kvöldverð.“ Stjörnusalurinn var flaggskip veitingareksturs á Íslandi þegar hann var opnaður. Nafnið Grillið var í fyrstu gælunafn á staðnum vegna þess að þar var eitt fyrsta grill- ið á landinu. Smám saman festist nafnið og í dag er Stjörnusalurinn betur þekktur sem Grillið. Útsýnið engu líkt Útsýnið frá Stjörnusalnum er engu líkt og þaðan er hægt að horfa yfir stóran hluta Reykjavíkur, til Bláfjalla, og í suðri eru Bessastaðir og Keilir. Halldór H. Jónsson arkitekt teiknaði Hótel Sögu og segir Hörður að hann hafi fylgst vel með að allir munir innanhúss væru á sínum stað. „Í hans huga var hótelið hann- að sem heild, bæði innanhúss og utan. Innréttingum í Grillinu hefur verið haldið að mestu óbreyttu, að því undanskildu að upphækkun var sett í miðju salarins til þess að gestir sem þar sitja geti horft yfir gesti sem sitja við gluggana og notið útsýnisins.“ Matseðillinn fylgir tíðarandanum Hörður segir að þrátt fyrir að Stjörnusalurinn hafi að mestu haldi ytra útliti sínu frá upphafi hafi matseðillinn tekið miklum breytingum og fylgt tíðarandanum. „Á árum áður var opið allan daginn, sem tengdist mikið fundahaldi hér á hótelinu og mikið var lagt upp úr hádegisverðinum. Í dag er aftur á móti eingöngu opið á kvöldin og boðið upp á hátíðarkvöldverð. Áherslan í dag er því allt önnur en áður og meira lagt upp úr matseðlinum, sem er fyrsta flokks. Í dag sérhæfir Grillið sig í samsettum réttum, eins konar óvissumatseðli fyrir matargesti sem er mjög vinsæll sem slíkur. Við leggjum gríðarlega áherslu á gott hráefni, góð vín og fyrsta flokks þjónustu. Eins og gefur að skilja er ekki ódýrt að borða hér en fyrir vikið fá gestir einungis það besta. Kokkarnir eru allir mjög færir og hafa margir þeirra lært sitt fag á þekkt- um veitingahúsum erlendis.“ Fjöldi frægra gesta „Við eigum marga fastagesti og fjöldi rótgróinna fyrirtækja hefur lengi haft fyrir sið að bjóða erlendum gestum sínum hingað í mat. Hingað hefur líka komið fjöldi erlendra stjarna og fyrirmanna í gegnum tíðina. Söngkonan Ella Fitzgerald hefur borðað hér, Lyndon B. Johnson fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Charlton Heston leikari og einnig Neil Armstrong, fyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið. Mér er þó breski leikarinn Alec Guinness einna minnisstæðastur. Hann kom hingað reglulega og stundum nokkrum sinnum á ári í allmörg ár og gisti á hótelinu. Guin- ness og eiginkonan sátu alltaf við sama borðið, með útsýni yfir Bessastaði og út á Reykjanes, og borðuðu morgunmat. Hann sagði mér einu sinni að honum þætti svo gott að koma til Íslands til að slaka á því að hér fengi hann að vera í friði og óáreittur.“ Engu breytt þrátt fyrir lagfæringar Að sögn Harðar er kominn tími til að hressa aðeins upp á salinn. „Við ætlum ekki að breyta neinu útlitslega en það er að sjálfsögðu kominn tími til að endurnýja eitt og annað. Það stendur til dæmis til að skipta um allt gler og pósta í salnum síðar á árinu,“ segir Hörður Sigurjónsson að lokum. Hörður Sigurjónsson, sölustjóri veitingasviðs Radisson Blu Hótel Sögu, hóf nám sem þjónn í Stjörnusalnum 1966 og starfaði þar til 1980. Hann hóf aftur störf við hótelið haustið 2011. Gul lmo lar GEIMFARAR GISTA Áhöfn Apollo 13 geimflaugarinnar gisti á Hótel Sögu þegar geim- fararnir heimsóttu Ísland ásamt eiginkonum sínum í október 1970. Þeir voru James A. Lovell, John L. Swigert og Fred W. Haise. MARGIR FRÆGIR GESTIR Meðal frægra gesta sem gist hafa á Hótel Sögu eru Neil Armstrong, fyrsti maðurinn sem steig fæti á tunglið og Lyndon B. Johnson, 36. forseti Bandaríkjanna, leikararnir Charlton Heston, Mia Farrow og Alec Guinness, André Previn píanóleikari og söngvararnir Lu- ciano Pavarotti og Ella Fitzgerald. ALLTAF VIÐ SAMA BORÐIÐ Alec Guinness leikari gisti reglu- lega á Sögu í nokkur ár ásamt eiginkonu sinni, Merula Sylvia Salaman. Guinness og Salaman sátu alltaf við sama borðið þegar þau borðuðu morgunmat. MÓTMÆLI VIÐ SÖGU Ráðherrafundur Atlantshafsbanda- lagsins (NATO) var í fyrsta sinn haldinn á Íslandi árið 1968. Tölu- verð mótmæli voru við Hótel Sögu vegna fundarins enda gisti fjöldi fundargesta á hótelinu. SKRIFSTOFUR RÝMDAR Allar skrifstofur á þriðju hæð Hótels Sögu voru rýmdar í júní árið 1987 vegna fundar utanríkis- ráðherra NATO-ríkjanna. Þetta voru skrifstofur Búnaðarfélags Íslands, Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Starfsfólkið tók sér sumarfrí á meðan á fundinum stóð. SAGA GIRT AF Hótel Saga var fullbókuð vegna fundar utanríkisráðherra aðildarþjóða Atlantshafsbandalags- ins og samstarfsríkja þess, sem haldinn var í Háskólabíói árið 2002. Hótelið var girt af með öfl- ugri öryggisgirðingu og þar fengu ekki aðrir gestir að dvelja en þeir sem tengdust fundinum. Stjörnusalurinn – Grillið

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.