Bændablaðið - 16.05.2012, Síða 4

Bændablaðið - 16.05.2012, Síða 4
Bændablaðið | Miðvikudagur 16. maí 20124 Fréttir Húsfreyjan í Laxárdal þróar nýjar afurðir til að auka nýtingu í svínaræktinni: Framleiðir fjóra nýja vöruflokka úr svínakjöti Petrína Þórunn Jónsdóttir, hús- freyjan í Laxárdal, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og hefur í vor, í samstarfi við Matís, þróað fjórar nýjar vöru- tegundir unnar úr svínakjöti. Lifrarkæfa, grísabuffkökur og þurrkað kjöt „Þetta eru kæfa, þurrkað kjöt, hakk og beikon úr hrygg sem ég hef verið að þróa í samstarfi við Matís. Ég ræddi í fyrstu hugmyndina við Vilberg Tryggvason, stöðvarstjóra Matís á Flúðum. Hann kom mér í samband við Óla Þór Hilmarsson hjá sama fyrirtæki sem hefur verið mjög hjálplegur og kenndi mér til dæmis að úrbeina,“ útskýrir Petrína. Hugmynd Petrínu var að geta nýtt allt svínið og fyrstu vörurnar verða seldar á bændamörkuðum á Suðurlandi í sumar. „Beikonið er unnið úr hryggnum, það er örlítið fitulag ofan á en annars er það nánast fitulaust og skorið í þykkari sneiðar en neytendur eiga að venjast. Ég verð auðvitað með góða síðubeikonið líka í sölu en Krás á Selfossi verkar það fyrir mig. Lifrarkæfan er unnin úr lifrinni og þurrkaða kjötið er bara úr fitu- minnstu vöðvunum. Eftir verður hakkefni, með um 8% fitu, en úr því ætla ég að búa til grísabuffkökur með íslenskum kryddjurtum sem hægt er að grilla, steikja á pönnu eða nota í hamborgara,“ segir Petrína og bætir við: „Ég byrjaði seint á þessu verkefni og mikil vinna við þróun og annað er eftir, þó að þetta gangi mjög vel. Það er verið að hanna lógó og límmiða fyrir mig en það verður ekki tilbúið fyrr en í lok maí. Um daginn gaf ég vörurnar út um allt, þar sem ég hafði ekki enn fengið leyfi til að selja, og allir sem hafa prófað vörurnar eru mjög ánægðir. Þurrkaða svínakjötið er mjög vinsælt og ég geymi það til að mynda uppi í Matís, því krakkarnir mínir klára þetta um leið ef það er til heima.“ /ehg Steingrímur J. Sigfússon sjávar- útvegs- og landbúnaðarráðherra segir að barist verði með kjafti og klóm fyrir því að Ísland geti við- haldið banni við innflutningi á hráu kjöti til landsins. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lýst efasemdum um að bann við innflutningnum standist EES-saminginn. Með samþykkt svonefnds mat- vælafrumvarps í desember 2009 voru innleiddar ýmsar reglugerðir Evrópusambandsins (ESB) um mat- væli og fóðurvörur. Hins vegar var ákvæðum um innflutning á hráu kjöti sleppt með þeim rökum að verið væri að verja heilsu dýra og manna gegn sjúkdómum sem ekki væri að finna hér á landi. Heimild væri til þess í EES-samningnum. Við þetta hefur eftirlitsstofnunin sett spurningar- merki. Lá fyrir að sótt kynni að verða að málinu Sindri Sigurgeirsson, varaþing- maður Framsóknarflokksins, spurði Steingrím í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í byrjun mánaðarins hvernig stjórnvöld hefðu svarað umræddum efasemdum ESA og hvort hætta væri á að Ísland yrði knúið til að leyfa innflutninginn með dómsmáli. Steingrímur svaraði því til að ESA væri vissulega að skoða inn- leiðingu matvælafrumvarpsins hér á landi. Legið hefði fyrir að sú leið sem hér var farin væri umdeild og að henni kynni að verða sótt. Málið væri hins vegar ekki komið á það stig að um formleg bréfaskipti væri að ræða en framundan væri fundur þar sem farið yrði yfir málið. Steingrímur sagði ljóst að stjórnvöld ætluðu sér ekki að leyfa innflutning á hráu, ófrosnu kjöti að óbreyttu. „Við undirbúum að sjálfsögðu okkar málsvarnir og rök- semdir og munum berjast með kjafti og klóm fyrir því að geta viðhaldið þeirri aðferð við innleiðinguna sem við þarna völdum. Við teljum okkur hafa sterk, fagleg rök fyrir því að það sé mikilvægt fyrir Ísland að geta viðhaft þetta innflutningsbann á hráu kjöti.“ /fr Barist með kjafti og klóm gegn innflutningi á hráu kjöti – sagði Steingrímur J. Sigfússon í svari við fyrirspurn Sindra Sigurgeirssonar Petrína lærir úrbeiningu hjá Óla Þór Hilmarssyni, starfsmanni Matís. Mynd / ehg Steingrímur J. Sigfússon. Sindri Sigurgeirsson. Æðarbændur í sumum landshlut- um standa margir hverjir frammi fyrir erfiðleikum um þessar mund- ir vegna mikils kulda og snjókomu nú þegar æðarvarp er víðast hvar hafið. Því miður er þetta annað árið í röð sem veðurfar mun að öllum líkindum hamla varpi og draga úr dúntekju. Fyrir ári síðan brast dúntekja alveg eða að hluta á sumum stöðum og því féll víðast hvar til minni dúnn árið 2011 en venja er. Einnig var nýtingarhlut- fall á dúninum lélegra. Varp er víðast hvar hafið og því þykir rétt að nota tækifærið og minna á nokkur atriði varðandi dún- tekju, þurrkun dúnsins og frágang hans til hreinsunar. Það koma ávallt einhverjar kvartanir á borð hlunn- indaráðgjafa um að illa hafi verið gengið frá dúni fyrir hreinsun. Forþurrkun og grófhreinsun (áður en dúni er skilað til dúnhreinsistöðv- ar): 1 Af gefnu tilefni þá er ekki æski legt að trufla æðarfuglinn í varpi meðan kuldatíð og snjókoma ríkir. Kollurnar liggja og hreyfa sig ekki af hreiðri nema styggð komi að þeim en ef illviðri stendur of lengi, geta þær yfir- gefið hreiður til að halda lífi í sjálfum sér. Móðurhvötin er rík og þær þrjóskast verulega lengi við og liggja jafnvel alþaktar í snjó svo dögum skiptir. 2 Vegna dúntekju (mismunandi er hvaða aðferð er best eftir aðstæðum á hverjum stað): a) Þar sem því er við komið er gott að setja þurrt gras/hey í hreiðurbotna því regnvatn sest neðst í hreiðurskálar og heldur dúninum blautum. Passið að vel fari um dúninn þegar kollan liggur á. b) Sumir láta æðardúninn liggja ósnertan þar til að varpi loknu, sérstaklega á svæðum þar sem hætta er á vorhretum, sbr. það sem við sjáum gerast núna. c) Blautur dúnn missir einangr- unargildi sitt og rotnar ef hann helst blautur lengi. Takið því blautan dún, en setjið vel af heyi í hreiðrið og þekið vel undir og aðeins yfir eggin til að verja þau vargi. Einnig skilja margir eftir smá dúnlag undir og kringum eggin. d) Sumir taka kragann af hreiðrinu, en sá dúnn er oft besti dúnninn sem þarf minnsta hreinsun, sækja svo restina af dúninum úr hreiðurskálinni síðar. Gott er að flokka dúninn eftir vætu og hreinleika strax í dúntínslu, þannig verður nýting betri. 3 Mikilvægt er að flokka allan dún sem fyrst, (sjá lið 2c eða strax og komið er í hús). Betri nýting fæst ef dúnn er strax flokkaður eftir hreinleika. Aldrei blanda saman góðum og lélegum dúni í þurrkun né í poka. Ekki setja of mikinn dún í hvern poka, þ.e. hafið ágætlega rúmt í þeim. 4 Æðarbændur þurfa að þurrka allan dún strax að dúntekju lokinni. Það er alltaf raki í dúni og þarf að þurrka hann úr honum. Margir eru farnir að þurrka dúninn með hitaofnum og hitablásurum þar sem aðstæður bjóða upp á slíkt. Aðrir leggja hann á grindur eða plast og þurrka ýmist inni eða láta sólina um verkið líkt og gert hefur verið alla tíð. 5 Losið um allar klessur og hreiður- botna strax þegar dúnninn er þurrkaður. Klessur fara ekki úr í hreinsivélum og geta haft veruleg áhrif á nýtingu. 6 Við þurrkun er gott að tína úr dún- inum allt gróft rusl og hrista hann með því að klappa saman ágætlega stórum dúnviskum. Ekki draga dúninn eftir netum, einungis hrista viskana sundur og saman. 7 Mikilvægt er að dúnninn sé alveg skraufþurr þegar honum er pakkað í poka. Hægt er að nota plastpoka ef dúnninn er alveg 100% þurr. Ef einhver vafi leikur á öðru er betra að nota léreftspoka eða hörpoka. Geymið dúninn á svölum og þurrum stað. Æðardúnn þránar og skemmist ef honum er pakkað blautum. 8 Æðardúnn getur tekið í sig lykt úr umhverfinu svo veljið honum geymslustað með það í huga. Einnig er mikilvægt að varna því að smáar lífverur komist í dúninn. Gott er ef hægt er að hafa pokana með dúninum opna fram að því þeir eru afhentir dún- hreinsistöð, bjóði aðstaða upp á slíkt. 9 Athugið að hreinsun getur aldrei bætt dún sem ekki hefur hlotið rétta meðferð við dúntekju og þurrkun. Léleg meðferð getur valdið því að dúnninn skemmist og verði illhreinsanlegur. 10 Dúnn sem er afhentur vel þurr, grófhristur og flokkaður eftir hreinleika kemur með betra nýtingarhlutfall úr hreinsun og slitnar síður. Æðardúnn er verðmæt afurð og litlar sem engar birgðir eru til eftir tvö mjög góð söluár í röð. Eftirspurnin er mikil og ekkert lát virðist vera á henni. Sumir útflutningsaðilar eru þegar búnir með birgðir og bíða eftir því að dúnn ársins komi í sölu. Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir Hlunnindaráðgjafi Dúntekja víða í hættu annað árið í röð Hér glittir rétt í kollinn á æðarkol- lunni sem liggur fast á hreiðri sínu þó allt sé komið á kaf í snjó. Kollurnar eru þrautseigar og reyna að halda hita á eggjum sínum eins lengi og mögulegt í þeim snjó sem kyngt he- fur niður undanfarna daga. Að sögn Salvars Ólafs Baldurssonar bónda í Vigur í Ísafjarðardjúpi var snjódýptin á hreiðrunum víða orðin um hálfur metri á mánudag þegar þessi mynd var tekin.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.