Fréttablaðið - 17.03.2012, Blaðsíða 26
17. mars 2012 LAUGARDAGUR26
Þ
ekkist þið tveir
grín istarnir?
Þorsteinn: „Já. Ég
hef fylgst með Mið-
Íslandshópnum úr
fjarlægð og man að
ég sá ykkur fyrst koma fram á
skemmtistaðnum Karamba við
Laugaveg. Ég sá strax að þarna
voru liðtækir menn sem kunnu
uppistandsfagið en voru líka
með eitthvað nýtt. Dóri DNA er
mér sérstaklega minnisstæður
þetta kvöld. Hann æddi um með
bjórglas og einhverja miða sem
hann hafði skrifað á og öskraði
í sífellu: „Hvað er körrent? Hvað
er körrent?“ Svo bullaði hann
bara um fréttir dagsins, sem mér
fannst alveg frábært. Þetta sýndi
frumlega h ugsun og mikinn kjark,
því hann hefur varla haft mikinn
tíma til að undirbúa sig. Manstu
eftir þessu, Ari?“
Ari: „Já, mjög vel. Dóri talaði í
fimmtíu mínútur.“
Þorsteinn: „Þetta var heilmikið
stuð. Svo gerðum við saman aug-
lýsingar fyrir Nova þar sem þú
lékst Gary Duncan, knattspyrnu-
manninn frá Scunthorpe United.“
Ari: „Einmitt. Sá karakter var
nú fundinn upp og auglýsingar
samdar hér við eldhúsborðið þitt.
Þær voru í þessum kennslumynd-
bandastíl sem þú hefur tileinkað
þér. Menn sem segja fólki hvern-
ig hlutirnir virka, hvort sem þeir
vita það eða ekki.“
Þorsteinn: „Já, þetta YouTube-
heilkenni sem er svo frábært. Þá
var ég að læra á gítar á YouTube
og þú sagðir mér að þú hefðir
lært að spila fótbolta á YouTube,
sem mér þótti hrikalega fyndið
og ætlaði varla að trúa því. En
svo sýndirðu mér einhvern tann-
lausan Breta sem var rosalega
harður við börnin sem hann var
að kenna knattspyrnu.“
Ari: „Þessar auglýsingar blésu
miklu lífi í vináttu okkar. En við
kynntumst reyndar fyrst árið
2006 þegar við sömdum Áramóta-
skaupið saman, ásamt fleirum.“
Þorsteinn: „Alveg rétt. Ég var
búinn að gleyma því.“
Ari: „Og svo leyfðirðu mér
að leika í bíómyndinni sem þú
skrifaðir handritið að og lékst
aðalhlutverkið í, Okkar eigin
Osló.“
Þorsteinn: „Já. Ég var búinn að
steingleyma því líka.“
Ari: „Það er mitt fyrsta og
hingað til eina hlutverk í kvik-
mynd. Það var stórkostlegt að
eyða fjórum dögum í að bulla
með þér og Ladda. Besta djobb í
heimi.“
Gerðu hlé á bekkjarpartíinu
Ari, varst þú aðdáandi Fóst-
bræðra á yngri árum?
Ari: „Já mjög mikill aðdáandi.
Ég var sextán ára þegar Fóst-
bræður hófu göngu sína og sautj-
án þegar þú birtist mér fyrst í
seríu númer tvö. Á fullkomnum
aldri. Í 5. bekk í MR vorum við
með bekkjar partí og allir voru
vel hressir, en ég man að það var
gert hlé á öllu til að horfa á Fóst-
bræðraþátt sem var í sjónvarp-
inu. Þá sá ég í fyrsta skipti skets-
inn með sértrúarsöfnuðinum sem
Benedikt Erlingsson leiðir. „Ég
drap föður minn og ég nauðgaði
móður minni en Guð MUN fyrir-
gefa mér!“ Ég átti erfitt með að
skilja allt því ég var orðinn svo
drukkinn, en við hlógum og hlóg-
um.“
Þorsteinn: „Það eru helst
strákar á aldrinum 12 til 23 ára
sem eru móttækilegir fyrir nýjum
grínþáttum. Þeir eru grúppíurnar
okkar, þessir bólugröfnu drengir
sem vilja láta taka mynd af sér
með okkur á iPhone-inn sinn.
En þættirnir mættu mikilli and-
stöðu hjá stórum hluta almenn-
ings. Við í Fóstbræðrum vorum
til dæmis hötuð af símastelpun-
um á Stöð 2, því þær vissu að þær
fengju tvö hundruð kvörtunarsím-
töl í hvert skipti. En svo snerist
þetta við á einhvern undarlegan
hátt. Þættirnir hættu að verða
költ og urðu dálítið vinsælir. En
ég held að margar aðrar grínþátt-
araðir hafi fengið meira áhorf, til
dæmis Stelpurnar og Svínasúpan.
Þannig er það oft með eitthvað
svona nýtt.“
Ari: „Jón Gnarr sagði mér eitt
sinn að einna mest hefði verið
kvartað yfir atriðinu „Hvað á að
gera við afa?“, sem fjallaði um
mann sem vill ekki setja afa sinn
á elliheimili og ákveður frekar að
skjóta hann. Svo hættir maðurinn
við á ögurstundu og setur afa
á elliheimili, en kvartanirnar
snerust allar um að það væri ljótt
að sýna atriði þar sem gamall
maður væri skotinn. En hann
var ekkert skotinn. Það var eins
og margir hefðu alveg misst af
punktinum í atriðinu. Nú til dags
eru auðvitað miklu fleiri leiðir
til að tjá ónægju sína með allt,
Facebook, vefsíður, spjallvefir og
svo mætti lengi telja.“
Þorsteinn: „Þá var það bara Vel-
vakandi.“
Ari: „Já, og Þjóðarsálin á Rás 2,
fyrir utan að hringja beint í Stöð
2 og skammast. En Fóstbræðra-
þættirnir höfðu mikil áhrif á mig.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á
gríni en ætlaði samt alltaf að vera
kvikmyndaleikstjóri og gera ein-
hverjar skandinavískar og þung-
lyndar bíómyndir. Líklega hef ég
alltaf verið uppistandari í eðli
mínu en var rosalega seinn að
fatta að færa það upp á svið. Ég
var 28 ára þegar ég tróð fyrst upp
og þá var ég í raun ekki að hegða
mér neitt öðruvísi en ég gerði í
partíum.“
Þorsteinn: „Fyrir utan að þú
fékkst borgað fyrir það.“
Ari: „Þetta var reyndar algjör
sjálfboðavinna til að byrja með,
en í dag er ég svo gæfusamur að
geta lifað á því að skrifa og koma
fram og vonandi endist það sem
lengst. Ég vann áður á frábærri
auglýsinga stofu sem heitir Jóns-
son og Le‘Macks og þegar ég byrj-
aði að skemmta á fullu fékk ég
að vera áfram með aðstöðu þar.
Allir þar hvöttu mig til dáða og
hafa hjálpað mér margvíslega.
Til að mynda fékk fékk ég ómet-
anlegan stuðning frá eigendum og
starfsmönnum stofunnar þegar
ég gerði litla grín-
plötu fyrir jólin 2009.
Ég var alltaf hálfgerð-
ur vinnustaðagrínisti
þar. Varst þú ekki svo-
leiðis líka?“
Þorsteinn: „Svona
af og til, jú. Ég er með
smá athyglisbrest og
þegar ég finn að ég
er að tapa athyglinni
þá byrja ég stund-
um með eitthvað rugl
til að ná henni aftur.
Þetta hófst þegar ég
var í MR og leidd-
ist stundum í tímum.
Þá byrjaði ég að fela
mig bak við gardínur
og það endaði þannig
að ég var heilan tíma
bak við gardínur. Svo
gerði ég samning við
einn kennarann um
að fá að glósa á töfl-
una hjá honum því ég
hefði sofnað yfir bók-
unum. Ég skil þessa tilfinningu
mjög vel.“
Fékk ógeð á sketsaþáttum
Hver er helsti munurinn á að
skrifa fyrir sketsaþætti annars
vegar og uppistand hins vegar?
Ari: „Það eru milljón sinnum
fleiri ákvarðanatökur í sketsa-
þáttum, meira um millibils-
ástand, lengra ferli og þú sérð
afraksturinn af því sem þú skrif-
ar kannski ekki fyrr en mörg-
um mánuðum síðar. Þetta er að
minnsta kosti mín reynsla. Í uppi-
standi ertu sífellt að prófa eitt-
hvað nýtt og henda út gömlu. Og
þú veist strax hvort eitthvað virk-
ar eða ekki og getur þá lagað eða
hent út. Ef eitthvað virkar ekki í
sjónvarpi veistu það ekki nema
af afspurn. Ég vildi óska þess að
ég gæti setið heima hjá hverjum
einasta manni sem horfir á Mið-
Íslands þættina og horft á hann
horfa.“
Þorsteinn: „Já, og útskýra hvers
vegna atriðin eru fyndin. Ég hef
ekki séð Fóstbræður síðan þætt-
irnir voru sendir út á sínum tíma
og hef engan áhuga á því. Við
unnum mjög hratt og kannski
voru vinnubrögðin
okkar voðalega óvönd-
uð.“
Ari: „En er það ekki
kostur að geta tekið
hraðar ákvarðanir?“
Þ orstein n : „ Jú ,
kannski. En ég fékk
ógeð á því að skrifa
sketsaþætti. Fékk ógeð
á að vinna með þetta
form. Þetta er dálítið
eins og að yrkja ljóð og
semja alltaf ferskeytl-
ur aftur og aftur. Fyrr
eða síðar vill maður
gera eitthvað annað,
smásögubók eða eitt-
hvað slíkt.“
Ari: „Það er mikil
hætta á að endurtaka
sig ef maður er ekki
duglegur að finna
nýjar nálganir á hlut-
ina. Sjálfur á ég til að
vera dálítið takmark-
aður. Ég er góður í að
skrifa ákveðna tegund af sketsum
en lakari í öðrum. Flestir skets-
arnir mínir eru bíólegir. Ég er
svona form-pervert. En svo er
svo mikið af góðum sketsum sem
ganga bara út á tvo menn að tala.
Ég væri til í að gera meira af því.“
Þorsteinn: „Já, það er mikið til í
því. Þannig sketsar eiga til að lifa
lengi. Einn skets úr Fóstbræðr-
um sem fór lágt á sínum tíma en
hefur lifað er Maður í lyftu, þar
sem Jón Gnarr var fastur í lyftu
með Benedikt Erlingssyni og vill
sýna honum gyllinæð, læknamis-
tök og hár sem vex út úr vörtu.
Þessi innilokunarkennd virkar
vel.“
Ari: „Já, og svo er skítlétt að
taka svona atriði. Bara redda
lyftu og þá er það komið. Full-
kominn skets.“
Sköpunargleðin situr eftir
Þorsteinn, ertu spenntur fyrir
nýju Mið-Íslands þáttunum?
Þorsteinn: „Já, það er ég. Mín
reynsla er sú að mínir uppáhalds-
þættir eru þeir sem ég kveiki
ekki á alveg strax, svo ég vona
að fyrsti Mið-Íslands þátturinn
veiti mér smá mótspyrnu. Ef mér
finnst fyrsti þátturinn rosa góður
er ekkert víst að ég nenni að horfa
á þann næsta.“
Ari: „Þú hefur örugglega
gaman af súrari hlutanum af
þáttunum. Það er fullt af hefð-
bundnu gríni í þeim en annað sem
er mjög óhefðbundið og skrýt-
ið. Ragnar Hansson, leikstjórinn
sem skrifar þættina með okkur,
er mjög metnaðar fullur og kemur
með nýja vídd inn í efnið okkar.
Það er ekkert uppistand, engar
eftir hermur og alls ekki „kör-
rent“ heldur frekar hliðstæður
veruleiki.“
Þorsteinn: „Þættirnir eru aug-
lýstir þannig að nú fái Mið-Ísland
tækifæri lífs síns!“ Hvað meina
þeir með þessu? Hefur ekkert
merkilegra gerst í ykkar lífi en
að fá að gera þætti á Stöð 2? Er
verið að stilla ykkur upp við vegg
og segja ykkur að gjöra svo vel að
standa ykkur?“
Ari: „Það er verið að segja
ákveðna sögu með þessu, ekki
endilega úr okkar veruleika.“
Þorsteinn: „Já, þetta vekur
athygli. En ef mér leyfist að tala
eins og gamall karl í bransanum,
þá vona ég að Mið-Ísland fylgi
sinni sannfæringu eins og við
gerðum í Fóstbræðrum. Það er vel
hægt að skrifa fyrir aðra en það
verður aldrei sannfærandi. Það er
kikk að fá viðbrögð og nýjabrumið
er skemmtilegt, en það hverfur og
sköpunargleðin er það sem situr
eftir þegar fram í sækir.“
Ari: „Algjörlega. Það er frá-
bær tilfinning að fá hugmynd og
búa eitthvað til. Pabbi minn á sér-
staka bókahillu sem í eru allar
bækurnar sem hann hefur skrifað
og þýtt. Það er svo gaman að sjá
hversu mikill tími liggur að baki
þessarar litlu hillu. Það finnst
mér fallegt.“
Þorsteinn: „En ég er viss um að
pabbi þinn er að hugsa um næstu
bók.“
Ari: „Já, hann er byrjaður að
skrifa hana.“
Bólugrafnar drengjagrúppíur
Ari Eldjárn og félagar í Mið-Íslandi byrja með nýjan þátt á Stöð 2 í næstu viku. Ari er mikill aðdáandi Fóstbræðraþáttanna sem
skörtuðu Þorsteini Guðmundssyni og hófu göngu sína fyrir fimmtán árum. Kjartan Guðmundsson hlýddi á spjall spaugaranna.
VINIR Ari Eldjárn og Þorsteinn Guðmundsson hafa starfað talvert saman í gegnum tíðina, meðal annars við kvikmynd, Áramótaskaup og auglýsingar. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Ef mér
finnst fyrsti
þátturinn
rosa góður er
ekkert víst að
ég nenni að
horfa á þann
næsta.“