Fréttatíminn


Fréttatíminn - 07.10.2011, Side 52

Fréttatíminn - 07.10.2011, Side 52
48 matur og vín Helgin 7.-9. október 2011  Ítölsk rauðvín Ástríðufull vínþjóð Á Ítalíu er rauðvín ómissandi hluti af matarmenningunni og því eru flest ítölsk rauðvín framleidd til að passa vel með mat, ítölskum mat. Og það fer ekkert á milli mála að ítölsk rauðvín eru frábær matarvín. í talía er annar stærsti vínframleiðandi heims á eftir Frakklandi. Þar hafa menn verið að böggl-ast við vínframleiðslu í yfir þrjú þúsund ár og vínviðurinn vex þar eins og illgresi, úti um allt. Ítalía nýtur þess að búa yfir öllum tegundum af jarðvegi og loftslagi, allt frá Ölpum í norðri til sólbak- aðra Miðjarðarhafsstranda í suðri og þar á milli teygir fjöllótt landslagið sig suður eftir stígvélinu og leyfir vínviðinum að vaxa í veðurmildum fjallshlíðunum. Ítalir eru þekktir fyrir að vera ástríðufullir og til- finningaríkir og þau einkenni koma svo sannarlega í ljós í víngerð þeirra. Hefðbundnar ítalskar rauðvíns- þrúgur eru frábrugðnar þrúgum annarra landa. Mest er plantað af Sangiovese-þrúgunni og næstmest af Barbera-þrúgunni auk fjölda annarra skemmtilega öðruvísi þrúgna eins og Nebbiolo. Þessi mikla fjöl- breytni þýðir auðvitað að Ítalir framleiða allar tegund- ir rauðvína, allt frá ómerkilegu borðvíni upp í einhver flóknustu og bestu vín í heimi. Þrjú helstu vínsvæði á Ítalíu eru Piemonte í norð- vestri, Toscana norður af Mið-Ítalíu og Veneto í norð- austri. Róm toscana er heimkynni margra frábærra rauðvína. Þar ber helst að nefna Chianti sem er stórt hérað og í því eru framleidd mörg vín sem öll bera nafnið Chianti. Þau eru þó ekki öll frábær. Bestu vínin koma úr miðjunni, sem nefnist Chianti Classico, en að auki eru ágætis vín frá svæði sem nefnist Chianti Rufina. Flest Chianti-vínin eru úr sangiovese-þrúgunni en einhver eru blönduð. Vínið er yfirleitt, eins og betri ítölsk rauðvín, mjög þurrt en ólíkt Piedmont-vínunum er meiri ávöxtur í þeim og ekki eins mikil fylling en eins og flest ítölsk rauðvín nýtur Chianti sín best með mat. Suður af Chianti- svæðinu leynist frábært lítið svæði sem kennir sín vín við smábæinn Montalcino. Þar ber helst að nefna Brunello Di Montalcino sem er mikið vín og verður að fá að eldast til að njóta sín sem best, jafnvel í tíu til tuttugu ár. Bestu kaupin frá þessu svæði eru þó oft í Rosso di Montalcino sem er litli bróðir Brunello og er vín sem má drekka strax. Að lokum er ekki hægt að skilja við Toscana án þess að nefna Vino Nobile di Montepulciano. Það eru vín sem fram- leidd eru suðaustan við Chianti-svæðið og geta á góðum degi jafnvel skákað bestu Chianti-vínunum. Þetta eru þó dýr vín og eins og með Montalcino er um þessar mundir hægt að gera frábær kaup á Rosso di Montepulciano-vínum. Í Venoto á Norðaustur-Ítalíu eru nokkur af vinsælustu rauðvínum landsins framleidd. Þau eru ólík stóru þungu vínunum eins og Barolo, Barbaresco og Bru- nello di Montalcino að því leyti að þau eru léttari og auðveldari til drykkju og þurfa ekki að þroskast jafn mikið og því yfirleitt tilbúin til drykkjar strax. Vín eins og Valpolicella og Bardolino og Soave frá svæðinu í kringum Gardavatnið og borgina Verona, frá framleiðendum eins og Masi og Tommasi, eru góð dæmi um vín frá þessu héraði. Sérstaklega geta verið góð kaup í Valpolicella-vínum framleiddum með Ripasso-aðferðinni frá þessu svæði. Það er yfirleitt tekið áberandi fram ef vínið er framleitt með þessari aðferð. Eitt er þó það vín frá þessu svæði sem slær öðrum við og það er Amarone. Amarone-vínin eru gerð úr nákvæmlega sömu þrúgu og Valpolicella-vínin en þó með þeim mun að aðeins þroskuðustu berin eru notuð í Amarone-vínin og berin eru þurrkuð mánuðum saman á strámottum áður en þau eru gerjuð, sem verður til þess að Amarone-vín eru mjög áfeng með mikilli fyllingu og löngu og miklu bragði. Þetta eru ekta vetrarvín. Norðvestur-Ítalía eða Piemonte státar af rauðvíns- þrúgunni Nebbiolo sem gefur af sér frábær vín, en bara á þessu eina svæði. Annars staðar í heiminum þrífst þrúgan illa og er ósátt við að vera ekki heima hjá sér þar sem hún blómstrar og verðlaunar vínbændur með hinum frábæru Barolo og Barbaresco sem verða að teljast til betri rauðvína. Hafa ber þó í huga að bæði Barolo og Barbaresco teljast til kröftugra rauðvína og eru í þyngri kantinum. Þau eru þurr, með mikla fyllingu og yfirleitt mjög áfeng. Þau eiga að fá að eldast í nokkur ár og þetta eru vín sem þurfa öndun þegar þau eru opnuð, helst í nokkra klukkutíma fyrir drykkju. Önnur ágætis rauðvín frá þessu héraði kallast Dolcetto, Barbera og Nebbiolo. Þetta eru hvers- dagslegri vín en Barolo og Barbaresco en standa vel fyrir sínu og því ákjósanlegur kostur ef ætlunin er að fá nasaþef af þessu góða svæði án þess að tæma budduna. Piemonte Venoto toscana lamadoro Primitivo Negroamaro 2010 Verð: 1.550 kr. 12% Þetta er ágætisdæmi um ítalskt rauðvín sem er ávaxtaríkt og létt til drykkjar. Það kemur frá héraðinu Puglia á suðausturhorni Ítalíu (í hælnum á stígvélinu) og er úr þrúgunni negroamaro sem er einmitt sérkenni svæðisins. Það er létt blómalykt af því og dökk ber í ávaxtaríku bragðinu sem er kröftugt en stutt. Þetta er fínasta hversdags- vín á 1.500 kall til að drekka með pitsum og pasta. Baroncini Rosso di Montalcino 2009 Verð: 2.298 kr. 14% Rosso di Montalcino er litli bróðir Brunello di Montalcino og oft er hægt að gera mjög góð kaup í þessum rosso- vínum eins og þetta vín ber vitni um. Greinileg sýra og tannín sem þó eru í fínasta jafnvægi. Bragð af rauðum og dökkum berjum og smá keimur af lakkrís, meðal- fylling og mjög bragðgott. Þetta vín hittir alveg í mark. tommasi Ripasso Valpolicella 2009 Verð: 3.299 kr. 13% Fyrir þá sem kannast við hið frábæra Tommasi Amarone er þetta litli bróðir. Ripasso-aðferðin þýðir að afgangsber úr framleiðslu Amarone er bætt út í Valpoli- cella-vínin sem gefur aukinn karakter og gæði. Þetta vín er auðdrukkið, með meðalfyllingu og örlítið ýkt bragð af dökkum berjum sem fellur kannski full fljótt. Það breytir því þó ekki að þetta er fallegt og skemmti- legt vín. Mætti vera aðeins ódýrara. Teitur Jónasson og Kristinn Grétarsson matur@frettatiminn.is Nú situr Heinz Á TOPPNUM www.aman.is • Háteigsvegur 1 Október í Ámunni Bjórgerðarfest ...bjórgerðarverslunin þín 15% af öllu bjórgerðarefni 35% afsláttur af Canadian bjórgerðarefni 10% afsláttur af bjórgerðarvélum Bjógerðarefni frá: • Coopers • Canadian • Beermix

x

Fréttatíminn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.