Kjarninn - 22.08.2013, Qupperneq 75
Deildu með
umheiminum
Pistill
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
framkvæmdastjóri
un Women í Afganistan
Hvað er fram undan
í afganistan
Lýðræðisþróun andspænis afturhaldsöflum
Þ
egar alþjóðlegar hersveitir undir forystu
Bandaríkjamanna fóru inn í Afganistan í árslok
2001 var hinn yfirlýsti tilgangur að handsama
Bin Laden og ganga milli bols og höfuðs á Al
Kaída og afgönskum hryðjuverkasveitum honum
hliðhollum. Talibanar höfðu þá stjórnað landinu frá 1996 en
þeir náðu undirtökunum í skelfilegri borgarastyrjöld sem
geisaði eftir fall kommúnistastjórnarinnar árið 1990 þar sem
fjórar Mudjahedinfylkingar tókust á um völdin. Innrásin
í Afganistan naut umtalsverðs stuðnings á Vesturlöndum,
bæði vegna árásarinnar á Tvíburaturnana í New York
11. september 2001 en eins vegna hins, að heimsbyggðin
hafði fylgst í hryllingi með stjórnarháttum talibana;
trúarofstækinu, refsigleðinni og kvenhatrinu.
aðeins lítill hluti aðstoðarinnar verður eftir í landinu
En eins og dæmin sanna er eitt að fara inn í land með
herlið og annað að komast út aftur og geta með sanni sagt
að árangur hafi náðst sem réttlætt geti mannfórnir og
ómældan kostnað af stríðsrekstrinum. Talið er að um 45.000
manns, hermenn og almennir borgarar, hafi látist af völdum
átakanna í Afganistan og fjárframlög frá alþjóðasamfélaginu
hafa verið gríðarleg, bæði í formi framlaga til öryggismála
sem og þróunar og mannúðarmála. Framlagið hefur vaxið
ár frá ári; á árinu 2005/2006 nam framlagið rúmlega fjórum
milljónum Bandaríkjadala en 2010/2011 hafði framlagið
fjórfaldast og nam 15,7 milljörðum Bandaríkjadala, sem
jafngilti allri landsframleiðslu Afganistans á því ári. Það
verður þó að hafa í huga að alþjóðleg framlög til Afganistans
verða ekki nema að takmörkuðu leyti eftir í Afganistan
því stór hluti þeirra fer úr landi aftur í formi vopnakaupa,
margvíslegs vöruinnflutnings og greiðslna til verktaka,
ráðgjafarfyrirtækja og alþjóðlegra starfsmanna. Er jafnvel
talið að aðeins um 38 prósent framlaganna komi yfirleitt inn
í afganska hagkerfið.
Eftir rúman áratug í Afganistan er alþjóðaherliðið
nú farið að draga sig til baka og stefnir að því að vera á
brott með allar hersveitir, aðrar en þær sem nauðsynlegar
eru til að þjálfa afganska herinn, fyrir lok ársins 2014.
Brottflutningur herliðsins mun hafa gríðarleg áhrif í
landinu; hernaðarleg, pólitísk og efnahagsleg.
Kvenkyns fórnarlömbum stríðsátakanna fjölgar
Hin efnahagslegu áhrif felast ekki síst í því að um 100.000
hermenn munu verða á brott og álíka margir alþjóðlegir
starfsmenn verktakafyrirtækja sem vinna í tengslum
við alþjóðaherinn, en með þeim hverfur fjöldinn allur af
þjónustustörfum, bæði beinum og afleiddum, sem afganskir
starfsmenn sinna. Þá er talið líklegt að samhliða brotthvarfi
alþjóðhersins muni mörg ríki draga úr framlögum sínum
til þróunar og mannúðarmála í landinu. Að vísu er talið að
aðeins um 6–10 prósent af vinnuaflinu séu í störfum sem
fjármögnuð eru með alþjóðlegum framlögum en það munar
um öll störf, því um helmingur þjóðarinnar hefur ekki næga
atvinnu og vegna fjölgunar þurfa 400 til 500 þúsund ný störf
að verða til á hverju ári.
Í öryggismálum verða áhrifin mjög sýnileg en afganski
herinn hefur smám saman verið að taka yfir landsvæði sem
áður voru undir stjórn alþjóðahersins og á sumum þessara
svæða eru áhöld um hversu vel hafi til tekist. Afganski
herinn hefur að mörgu leyti staðið sig vel í baráttunni við
árásarsveitir en þær eru aðeins hluti vandans því á mörgum
svæðum eru aðrir en talibanar undir vopnum sem geta ógnað
friði og öryggi. Afganskar konur hafa miklar áhyggjur af
öryggi sínu, meðal annars vegna þess að víða er löggæslan í
molum og margir fyrrverandi ofbeldis og hryðjuverkamenn
hafa verið munstraðir í löggæsluhlutverk í svokölluðu
Afghan Local Police (ALP), sem eru vopnaðar löggæslusveitir,
stofnaðar af Bandaríkjamönnum, sem lúta hvorki aga né
eftirlitsvaldi innanríkisráðuneytisins. Á síðasta ári fækkaði
almennum borgurum sem voru fórnarlömb stríðsátakanna
í Afganistan að vísu í fyrsta skipti síðan 2006 um 12 prósent
en hins vegar fjölgaði konum og stúlkum í þessum hópi um
20 prósent. Þá virðast fleiri konur verða fyrir skipulögum
árásum en á síðasta ári voru til dæmis tvær konur, sem voru
yfirmenn útibús kvennamálaráðuneytisins í Laghmanhéraði,
drepnar með stuttu millibili. Morðingar þeirra hafa enn ekki
verið handteknir enda virðist oft sem lítil alvara fylgi leitinni
að meintum árásarmönnunum.
Konur og kosningar
Hver hin pólitísku áhrif verða af brotthvarfi alþjóðahersins
á enn eftir að koma í ljós en árin 2014 og 2015 verða mjög
pólitískt mikilvæg því á árinu 2014 verða forsetakosningar
og samhliða kosið til 36 fylkisþinga eða Provincial Councils,
og árið 2015 fara svo fram þingkosningar. Það er því ljóst
að það verða stjórnarskipti í landinu og í fyrsta skipti í
sögu Afganistans mun einn þjóðkjörinn forseti taka við
af öðrum. Það er því mjög mikilvægt að vel takist til um
skipulag kosninganna; öryggi frambjóðenda og kjósenda
verði tryggt, kosningaþátttaka verði almenn og ásakanir
um kosningasvindl hverfandi. Konur hafa 25 prósenta kvóta
á þjóðþinginu og höfðu hann líka á fylkisþingum en í júlí
samþykkti þingið ný kosningalög sem minnka kvóta þeirra á
fylkisþingum niður í 20 prósent, sem er reyndar varnarsigur,
því til stóð að taka þann kvóta alfarið af þeim.
Þátttaka kvenna í kosningunum, bæði sem frambjóðendur
og kjósendur, er hins vegar gríðarlega mikilvæg og nokkurs
konar prófsteinn á lýðræðisþróunina í landinu. Kvenkyns
frambjóðendur hafa aftur á móti áhyggjur af öryggi sínu
og kvenkyns kjósendur óttast að karlar í þeirra fjölskyldu
og/eða heimabyggð reyni að hindra að þær komist á
kjörstað. Framkvæmd kosninga í landi eins og Afganistan
er gríðarlegt verkefni og sú stofnun sem sér um framkvæmd
kosninga, Independent Election Committee (IEC), þarf að
þjálfa 4000 nýja starfsmenn til að vinna að kosningunum.
Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu verða
6000 kjörstaðir í landinu og af öryggisástæðum þarf að
leita á öllum kjósendum en af því aðeins konur geta leitað á
konum þarf að þjálfa um 13.000 konur til öryggisstarfa fyrir
kosningar.
Friðsamleg stjórnarskipti eða borgarastyrjöld
Ef vel tekst til í komandi kosningum og stjórnarskipti fara
friðsamlega fram er það gríðarlegur áfangi í lýðræðisþróun
Afganistans, sem fór tvisvar á síðustu öld í gegnum
lýðræðisþróun sem endaði í byltingu og vopnuðum
átökum, fyrst á þriðja áratugnum og svo 1973. En það eru
enn mörg ljón í veginum og of snemmt að spá fyrir um
hvernig til tekst. Eitt slíkt ljón eru talibanarnir, því enginn
veit hvort og þá hvernig þeir munu reyna að hafa áhrif á
kosningarnar. Opnun skrifstofu þeirra í Katar með stuðningi
Bandaríkjamanna er sjálfsagt liður í því að ná einhvers
konar samkomulagi við þá fyrir kosningar og áður en
alþjóðaherliðið hverfur á brott úr landinu. Samkomulag við
þá og þokkalega friðsamlegar kosningar væri þá sá árangur
sem alþjóðasamfélagið gæti þakkað sér og sinni aðkomu á
undanförnum áratug.
Hitt gæti líka gerst að allt færi á verri veg og talibanar
tækju ákvörðun um að hunsa og jafnvel trufla kosningarnar
með aðgerðum sínum og árásum og bíða af sér brottför
alþjóðaherliðsins. Í því tilfelli er hætt við að lýðræðisferlið
í Afganistan og tilraun til að koma landinu inn í nútímann
myndi enn eina ferðina enda í blóðugum innbyrðis átökum.
Margir Afganar búa sig undir hið versta og allir sem maður
talar við hafa skoðað með hvaða hætti þeir geti komist úr
landi ef mál þróast á versta veg. Það sem gæti hins vegar
komið í veg fyrir slíka þróun er sú staðreynd að talibanar
í Afganistan eru vígamóðir og sundraðir og eiga ekki jafn
auðvelt og áður með að fá fjárhagslegan stuðning til aðgerða,
þar sem þeir eiga í harðri samkeppni við sveitir íslamista í
Malí, Nígeríu, Sýrlandi og víðar og stuðningur frá Pakistan
fer minnkandi, enda sýpur Pakistan nú seyðið af aðgerðum
þeirra þar í landi.
afturhaldsöflin sækja í sig veðrið
Nú þegar sést hilla undir brottför alþjóða hersins og jafnvel
friðarsamninga við talibana er eins og almenningur,
stjórnvöld og alþjóðasamfélagið fari að búa sig sálfræðilega
undir innkomu þeirra í stjórn landsins. Flestir fara að róa
á bæði borð, fylgja í orði kveðnu lýðræðisumbótum en láta
uppivöðslu afturhaldsafla ómótmælt. Þá er gjarnan sagt
að það borgi sig ekki að ögra afturhaldsöflunum og því sé
betra að þegja. En hversu lengi getur það gengið? Í þinginu
er tekist á um lög um afnám ofbeldis gegn konum og
afturhaldsmenn halda þeim í gíslingu. Samt eru þetta lögin
sem allt alþjóðasamfélagið lítur til sem grundvallarlaga um
réttindi kvenna. Og Karzai segir ekki margt.
Í júlímánuði kynntu bandarísk stjórnvöld til sögunnar 200
milljóna dollara áætlun til að styrkja stöðu kvenna en varla
var blekið þornað á fréttatilkynningunum þegar einn helsti
trúarlegi ráðgjafi Karzai forseta tilkynnti að hann myndi
ekki hafa afskipti af yfirlýsingu sem gefin var út af klerkum
í Deh Salah í Baghlanfylki þess efnis að konur mættu
ekki vera á ferli án karlkyns ættingja, og loka ætti öllum
snyrtivöruverslunum á svæðinu, því þær væru vændishús.
Nú þegar hefur komið til átaka út af þessu og borgarstjórinn
í Deh Salah verið drepinn þegar hann reyndi að framfylgja
yfirlýsingunni. Það sem vekur athygli í þessu máli er að
talibanar eru ekki ráðandi í Deh Salah því svæðið var hreiður
Norðurbandalagsins á sínum tíma.
spilling og misskipting
En ef við gefum okkur samt að vel takist til í þeim
hernaðarlegu og pólitísku umskiptum sem fram undan eru
á árinu 2014 eru engu að síður blikur við sjónarrönd sem
vert er að gefa gætur. Gríðarlegt innflæði fjármagns í landið
á undanförnum áratug hefur gert mörgum kleift að sanka
að sér auði og völdum, meðal annars gömlum stríðsherrum
með blóðugar hendur, og misskipting hefur aukist; hinir
ríku verða ríkari á meðan 36 prósent þjóðarinnar eru undir
fátæktarmörkum. Flestir reyna að maka krókinn meðan
hægt er og hygla ættingjum, og sveitungum og spilling og
mútur eru allsráðandi. Samhliða þessu hefur menntun aukist
í landinu, sérstaklega meðal ungs fólks, en tveir þriðju hlutar
þjóðarinnar eru undir 25 ára aldri. Stór hluti þessa unga
fólks kemst hins vegar hvorki í framhaldsnám, vegna skorts
á námstækifærum, né heldur fær það vinnu við sitt hæfi, en
um helmingur þeirra sem útskrifast úr framhaldsskólum fer
í ófaglærð störf.
Eins og dæmin sanna í NorðurAfríku getur skapast
eldfimt ástand þegar saman fara stórir hópar ungs, menntaðs
fólks sem fær engin tækifæri og svo misskipting, spilling
og vanhæf stjórnvöld. Ef ný stjórnvöld í Afganistan ná ekki
tökum á þessu ástandi og takast ekki af fullri alvöru á við
spillinguna í landinu gæti þróun mála orðið með einhverjum
þeim hætti sem enginn sér fyrir núna, því enginn veit á
hvaða sveif þetta unga fólk leggst. Það er hins vegar borin
von að stjórnvöldum takist að snúa þróun mála til betri
vegar ef þau halda áfram að mylja undir gamla stríðsherra
og gefa íhaldssömum klerkum undir fótinn, á sama tíma
og þau telja alþjóðasamfélaginu trú um að þau vilji virða
mannréttindi, þar á meðal réttindi kvenna, og takast á við
spillinguna. Sú spurning hlýtur líka að vera áleitin hversu
lengi alþjóðasamfélagið ætlar að láta orð stjórnvalda duga í
stað þess að gera skýlausa kröfu um að þeim fylgi athafnir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
er yfirmaður un Women í
Afganistan og hefur gegnt
því starfi frá haustinu
2011. Hún er fyrrverandi
formaður Samfylkingarinnar,
utanríkisráðherra og
borgarstjóri í Reykjavík.
01/01 kjarninn PISTILL