Fréttatíminn


Fréttatíminn - 27.01.2012, Síða 36

Fréttatíminn - 27.01.2012, Síða 36
E r okkur ekki alveg óhætt að slá því föstu að heimur versnandi fer, að unglingar í dag tali verri íslensku en töluð hefur verið síðan land byggðist, og séu í ofanálag svo áhugalitlir um lestur bóka og alls texta sem ekki tengist nýjustu tölvu- leikjum, að til skelfingar horfir? Og að við horfum máttvana á börnin sogast hratt og óstöðvandi inn í heim tölvuleikja þar sem engar bækur er að finna, einungis fáein orð, endurtekin í sífellu – á ensku. Sumsé, dagarnir hafa glatað lit sínum og það er komið hausthljóð í vindinn. Við erum fyrirstaðan Gerum okkur grein fyrir þessu, ella lendum við í blindgötu í fyrsta skrefi: það eru ekki börnin og unglingarnir sem eru vandamálið. Það eru ekki tölvuleikirnir, Xbox live, play station, heldur við. Það erum við sem stöndum í vegi fyrir batn- andi heimi, fyrir auknum lestri – við sem teljumst fullorðin, við sem erum foreldrar, við sem sitjum við völd í bæjarstjórnum, sveitarfélögum, ríkisstjórnum, við sem stýrum námsbókaútgáfu og stýrum því hvernig börnunum er kennt, með hvaða hætti þau komast í kynni við texta, við ís- lenska menningu, sögu mannkyns. Vandamálin eru svo sannarlega til staðar, hrapandi lestur barna og unglinga, dvín- andi áhugi á lestri, um það vitna ítrekaðar mælingar. En það er því miður leti okkar, sjálfhverfni, íhaldssemi og skortur á frjórri hugsun sem hefur magnað vandamálin. Ef við ætlum að snúa þessari vondu þróun við, þá verðum við að byrja á því að taka okkur sjálf til endurskoðunar, horfa inn á við. Annars ber fyrsta skref okkur beinustu leið í blindgötu, og þar sitjum við föst, bölvandi öllum nema okkur sjálfum. Og hvernig skal bregðast við? Hvar og hvernig höfum við, foreldrar, skólar, skóla- bókabókaútgáfur, stjórnvöld til sjávar og sveita, brugðist? Byrjum á að gera okkur þetta ljóst: tölvu- leikir eru ekki af hinu illa, þeir eru ekki svarthol sem gleypa alla birtu, heldur geta þvert á móti verið bráðskemmtileg afþrey- ing, og í viðbót veitt börnum kunnáttu og nauðsynlega innsýn í heim tölvu og tækni, þann heim sem verður sífellt stærri hluti af samfélaginu. Tölvuleikirnir fara ekki neitt. Áhugi barna á tölvuleikjum dvínar ekki, því fáum við ekki breytt; en við getum breytt viðbrögðum okkar. Það er morgunljóst að að lestraskiln- ingur dvínar því minna sem barnið les. Og að minni leshæfni þýði ekki bara síðri árangur í námi og eykur þar með líkur á brottfalli seinna meir, heldur einnig minni færni til að lesa úr upplýsingum, lesa úr allri þeirri gnótt af textum og auglýsingum sem skella á okkur dag hvern, úr öllum áttum, við ólíklegustu tækifæri. Það þýðir einfaldlega að barn sem lítið eða ekkert les, muni þegar það eldist eiga erfiðara með að setja sig inn í þjóðfélagsmál, átta sig á þjóðfélagsumræðu, og verður þar með óþarflega móttækilegt fyrir áróðri – skortir færni til að sjá í gegnum hann. Minnkandi læsi þýðir blátt áfram grynnri umræðu, sem þýðir veikara lýðræði, sem þýðir verra samfélag. Það er þetta sem málið snýst um, þessvegna er læsi svona nauðsynlegt, lífs- nauðsynlegt. Hér eru hreinustu töfrar á ferð Og hvað gerum við - mælingar sýna hrap í áhuga á lestri, það hringja viðvörunarbjöll- ur, hvað eigum við til bragðs að taka? Fyrst – Það sem við blasir: lesum fyrir börnin okkar. Það er áreiðanlega einfaldasta en áhrifa- ríkasta leiðin. Og það sem best er, hér eru hreinustu töfrar á ferð; það þarf ekki að leggja til neitt fjármagn. Ekki krónu. En aftur á móti það sem við virðumst jafn- vel ennþá nískari á, og það meira að segja gagnvart börnum okkar, nefnilega tíma. Það er svo makalaust, en við höfum skapað okkur svo afskræmt umhverfi að við teljum okkur ekki hafa tíma til að lesa reglulega fyr- ir börnin. Afhverju er það, erum við svo tærð af stressi, svo skæld af sjálfselsku, að við neitum börnum okkar og okkur sjálfum um þá gleði, þær safaríku og mikil- vægu stundir sem verða til þegar foreldri les fyrir barn? Hvaðan kemur sú grimmd eða sljóleiki eða heimska að neita börnunum um þessar stundir, sem binda ekki einvörðungu börn og foreldra betur saman og eru uppspretta góðra minninga sem fylgja einstaklingnum allt hans líf - heldur gefa barninu þá til- finningu að lestur sé jákvæður, hamingju- ríkur þegar best lætur. Þar með, fallega og áreynslulaust, aukast líkurnar talsvert fyrir því að börnin lesi þegar þau eldast. Lesum fyrir börnin, og hættum ekki þótt þau séu orðin læs, höldum áfram eins lengi og þau vilja. Ef fólk á í vandræðum með að finna bækur, þá talar það við vinnufélaga, fjöl- skyldumeðlimi, vini, það fer á bókasöfnin og ræðir við starfsfólkið, og þannig verður til frjór og skemmtilegur umræðuhringur, fólk tengist og ennþá batnar samfélagið - án þess að leggja fram eina einustu krónu, og enginn stjórnmálaflokkur þarf að sam- þykkja ályktun. Vandamálið er hinsvegar þetta: að virkja okkur foreldra. Það þarf að koma hvatningunni út til samfélagsins; hvernig væri að fjölmiðlar landsins leggðu sitt afl í púkkið? Má ekki, til dæmis, skjóta að einni setningu nokkrum sekúndum fyrir útvarpsfréttir, þekktar raddir sem lesa hvatningar með boskap á borð við: Lestu fyrir barnið þitt. Það er ódýrt en ómetanlegt. Góða skemmtun! Lestu fyrir barnið þitt í kvöld. Það er stund sem lifir allt lífið. Hugmyndasnauðar og leiðinlegar skólabækur? Öll ferðalög hefjast heima, og það eru for- eldrar sem móta börnin. En líka skólarnir. Þar hefur margt breyst ánægjulega til batnaðar síðan ég sat í grunnskóla, kennsl- an orðin frjórri, skemmtilegri, og skóla- bækurnar aðgengilegri – eða sumar þeirra. Skólabækur eru einn af stóru þáttunum þegar kemur að læsi, en jafnframt hugs- anlega sá hluti sem síst er hugsað um í þessu samhengi. Sonur minn, 13 ára, var nýverið að lesa til prófs í samfélagsfræði um mikilvæg nöfn í Íslandssögunni, Jón Sigurðsson, Hannes Hafstein og Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Ekki var um eiginlega námsbók að ræða, heldur efni prentað út af Skólavefnum, sett í möppu, skreytt með fáeinum ljós- rituðum, daufum, óspenn- andi myndum, annars voru þetta textahlemmar, og textinn alveg laus við til- þrif, hvað þá hugkvæmni, hvað þá húmor, stundum virðist sneytt hjá honum í skólabókum eins og hann sé stórhættulegt fyrirbæri. Og spurningarnar lögðu áherslu á páfagaukalær- dóm, ekki skilning – hvað hétu foreldrar Hannesar Hafsteins? Mér er spurn, veitir sú þekking dýpri sýn á mann- inn, á söguna, á lífið? Og kvæði Hannesar, þau voru sögð ein- kennast á trú á framtíðina og karlmann- legri sýn á tilveruna. Karlmannlegri – við erum stödd á árinu 2012. Karlmannlegri, og öll um- gjörðin sagði manni að hér bæri að leggja gamaldags merkingu í orðið, að það þýddi kraftur, þolgæði, hugrekki. Eins og þeir eiginleikar séu fyrst og síðast bundnir við karlmenn. Ég þarf ekki að taka það fram; en sonur minn færðist ekki einu hænufeti nær skilningi eða áhuga á þessu góða og mikilvæga fólki. Og hver er þá tilgangurinn með náminu? Sumar skólabækur eru blessunarlega vel í áttina, ég á við, þar er reynt að koma til móts við nemendur, reynt að tala við þá, ekki yfir þeim. Reynt að gera námsefnið lif- andi, frjótt. Það eru þó óþægilega margar bækur, og sumar nýlegar – í íslensku, nátt- úrufræði, samfélagsfræði, trúabrögðum – sem eru, mér liggur við að segja, merki- lega leiðinlegar, áhuginn dofnar jafnvel við það eitt að opna bókina, maður farinn að geispa á fyrstu síðu, og þá er öll bókin eftir. Framsetningin ófrjó, hugmyndasnauð, höf- undar virðast hafa litla stílgáfu, efnið ekki sett fram á aðgengilegan, spennandi hátt, líklega vegna þess að höfundarnir eru ekki gæddir þeim hæfileikum sem góður kenn- ari þarf að hafa; að geta gert flókna hluti einfalda. Og athyglisverða. Skyldum við gera okkur grein fyrir hversu mikill ábyrgðarhluti það er að semja kennslubók handa grunnskólastiginu? Og gerum við þær kröfur að þær séu vel og skemmtilega stílaðar, hugmyndaríkar í framsetningu? Ég er ekki viss, öllu heldur, ég get ekki séð að svo sé raunin. Og það er alvarlegur hlutur. Leiðinleg, ófrjó skóla- bók vinnur gegn læsi. Vinnur gegn gleði. Vinnur gegn sköpun. Hún getur stein- drepið áhugann og þar með gert námið leiðinlegra, þar með erfiðara. Og þá fer vond keðjuverkun af stað. Nemandi verður tregari til að læra, að leggja eitthvað á sig, sem þýðir aukið álag á heimilið, auknar áhyggjur foreldra, meira átak að koma börnunum að efninu, að draga þau yfir ófærur textans, og trúið mér; það eru ófær- ur í sumum bókanna, maður á sjálfur fullt í fangi með að meðtaka efnið, finna svar við spurningum, hvað þá barnið. Hugmynda- daufar skólabækur draga úr almennun lestri, sá grunur sest að í brjósti nemand- ans, ósjálfráður grunur, að lestur þýði leið- indi. Að fræðsla þýði leiðindi. Frumskilyrði er að höfundar kennslubóka hafi hæfileika og hugkvæmni til að setja efnið fram, mat- reiða það vel, búa til veisluborð, öðrum má alls ekki hleypa nálægt gerð skólabóka. Og hér má ekki spara, við megum ekki detta niður á það dapurlega og huglausa plan að spara við gerð kennslugagna. Það er meira en vont, það er átakanleg skammsýni að leggja hugmyndadaufar, þunglamalegar skólabækur fyrir börnin okkar. Og kvarta síðan yfir minnkandi læsi. Bókmenntir eru hátíðlegar og fullar af skrýtnum orðum! Það er margt í mörgu. Og margar leiðir og aðferðir til að auka áhuga krakka á lestri. Stóra upplestra- keppnin er ein þeirra, og sérdeilis vel heppnuð. Hún kveikir funandi áhuga hjá 12 ára börnum landsins, fjöldi nemenda í sjöunda bekk sem leggur mikið á sig til að komast áfram. Það er gleði að verða vitni að þessari keppni, hvernig hún kveikir í börnum að æfa upplestur, og ganga síðan inn í skólasal fullan af 12 ára krökkum, sem eru samankomin til að hlusta á jafn- aldra sína lesa upp. En þar mæta manni hinsvegar von- brigðin. Skipuleggjendur keppninnar velja flesta þá texta sem krakkarnir lesa, og í stað þess að gera hið augljósa, velja það sem á einhvern hátt rímar við þeirra líf, sem þau geta snert á og skilið, þá þurfa börnin að glíma við gamla og þunga texta, með mörg- um tungubrjótum. Til að mynda úr Heims- ljósi Laxness, úr ljóðum Huldu, öndvegis skáldskapur, en liggur órafjarri 12 ára börnum. Ég fylgdist í fyrra með duglegum og snjöllum krökkum flytja orð Laxness, og sumir ljóð eftir Ingibjörgu Haralds, yfir fullum sal, gerðu það vel og af metnaði. En það var sorglegt að fylgjast með þeim sem hlustuðu, sjá hvernig áhugi þeirra dofnaði og dó út. Þarna fengu ófáir nemendur stað- festingu á þessu: Bókmenntir eru hátíð- legar, óskiljanlegar, fullar af skrýtnum orðum. Sumsé - full ástæða til þess að halda sig frá þeim. Sumsé, þeir sem lesa eru alls ekki svalir alls ekki skemmtilegir - önnur ástæða til að halda sig frá bókum. Ímyndið ykkur ef skipuleggjendum hefðu borið gæfu til að velja texta sem ríma við krakkana sem fylltu stóran salinn, fyndinn, skemmtilegan, hressandi, vekjandi texta sem hittir þau beint í hjartastað – hugsið ykkur fullan sal af krökkum heyra jafn- aldra sína flytja bráðskemmtilega og áhugavekjandi texta, og þar með sann- færast um að bækur geta verið skemmti- legar, að þangað sé fullt að sækja. Hugsið ykkur. En í stað þess fengum við sal fullan af krökkum, geispandi yfir óskiljanlegum orðum. Svona svipað og að fiska víti, en láta síðan múra upp í markið svo maður gæti örugglega ekki skorað. Heimur versnandi fer? Hrapandi lestur? Jú, en kennum ekki börnunum um, heldur okkur sem vannýtum tækifærin, heldur okkur sem erum of löt, og hugmyndas- nauð, of íhaldssöm, of föst í gömlum hug- myndum, til að breyta, snúa þróuninni við. Það erum við en ekki börnin, við en ekki tölvuleikir og afþreyingaiðnaðurinn sem múra upp í markið. Og það erum við sem ein getum og eigum að brjóta niður múrinn - og skora úr vítinu. En – hvað ætlið þið að lesa fyrir barnið ykkar í kvöld? Grein er byggð á erindi sem var flutt á ráð- stefnunni Alvara málsins – Bókaþjóð í ólestri, sem haldin var í Norræna húsinu um síðustu helgi. ... erum við svo tærð af stressi, svo skæld af sjálfselsku, að við neitum börnum okkar og okkur sjálfum um þá gleði, þær safaríku og mikilvægu stundir sem verða til þegar foreldri les fyrir barn? Hvaðan kemur sú grimmd eða sljóleiki eða heimska að neita börnunum um þessar stundir, ... Jón Kalman Stefánsson rithöfundur Bókaþjóð í ólestri Um lestur, leti okkar og hugmyndasnauðar skólabækur 28 viðhorf Helgin 27.-29. janúar 2012

x

Fréttatíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.