Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 20136 Málgagn bænda og landsbyggðar LOKAORÐIN Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 6.900 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.450. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Tjörvi Bjarnason (ábm.) tjorvi@bondi.is – Sími: 563 0332 – Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Freyr Rögnvaldsson fr@bondi.is – Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is Auglýsingastjóri: Arnþór Gíslason augl@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið ehf. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621 Heimsleikar íslenska hestsins LEIÐARINN Lokaorðin eru skrifuð þegar allt annað efni Bændablaðsins er komið á síðu. Þá fær ritstjórinn að pústa örlítið í lok dagsverksins og er nær iðulega jákvæður út í lífið og tilveruna. Það er svo margt skemmtilegt í Bændablaðinu, ekki einhver endalaus bölmóður og leiðindi. Eða svo segja menn. Svo koma dagar þegar birtustigið yfir Betlehem er ekki jafn skínandi sterkt. Fréttirnar í síðustu viku um mannaskítinn í Ölfusá voru ekkert sérlega upplífgandi. Kemur ekki á daginn að í mörgum sveitarfélögum landsins eru frárennslismál í fullkomnu ólagi. Skýrsla frá Umhverfisstofnun kemur upp um slóðaskapinn. Og til að bíta höfuðið af skömminni gerir fréttastofa RÚV úttekt á þeim upphæðum sem sveitarfélögin krefjast af þegnum sínum í klóakskatt. Haldið þið ekki að einna hæstu gjöldin séu á Selfossi - sjálfum matvælabænum! Mikil umræða hefur verið um tækjakaup hjá Matís vegna mælinga á óæskilegum efnum í mat. Við uppfyllum ekki kröfur sem gerðar eru um að fylgja eftir eftirliti á matvörum. Látum liggja á milli hluta að IPA-styrkur ESB berst ekki fyrirtækinu. Shit happens (eins og á Selfossi). Sýnu alvarlegra er að við séum ekki löngu búin að kippa þessu matvæla- og gæðaeftirliti í liðinn. Fyrir innlenda matvælaframleiðslu og að sjálfsögðu neytendur skiptir miklu að þessi mál séu í lagi. Auðvitað þarf að gera sömu kröfur til þeirra sem flytja mat inn í landið og til innlendra framleiðenda. Sennilega gera menn sér ekki fulla grein fyrir því að með sama sleifarlaginu munu erlendir matvælabirgjar sæta lagi og senda hingað til lands matvörur sem komast ekki í gegnum nálarauga eftirlits annarra ríkja. Við sjáum nú þegar dæmi um að hér er selt grænmeti í stórmörkuðum sem er ekki flokkað sem söluvara í Evrópu. Hollenskur garðyrkjuráðunautur, sem kemur reglulega til Íslands, varð klumsa þegar hann sá litlar og visnar paprikur í búðum hér á landi. Þær voru raunar ekki eitraðar en annars flokks vara og ekki taldar söluvara í hans heimalandi. Hingað berast þær hins vegar með vorskipunum og almúginn kaupir á „hagstæðu verði“ sem er mun lægra en á stóru paprikunum frá Flúðum. Verðum við sem þjóð ekki að fara að hysja upp um okkur buxurnar? Reyna að standa undir öllu lofinu sem aðrir - og við sjálf - ausum yfir okkur í tíma og ótíma. Ef ekki þá getum við pakkað saman í matvælaframleiðslunni og hætt að dásama landið og vatnið sem það allra hreinasta í heimi. Munum að það tekur andartak að eyðileggja orðspor en árafjölda að byggja það upp. /TB Að afloknu heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín er við hæfi að óska íslenska landsliðinu til hamingju með sinn árangur. Hafliða Halldórssyni landsliðseinvaldi, aðstoðarmönnum, knöpum og öllum öðrum sem störfuðu með liðinu eru færðar bestu þakkir fyrir sinn þátt í að auka hróður íslenska hestsins á heimsvísu. Íslandshestafélagið í Þýskalandi hafði veg og vanda að skipulagningu mótsins í Berlín í samráði við Alþjóðasamtök íslenska hestins, FEIF. Aðstaða fyrir áhorfendur var í flestum tilfellum til fyrirmyndar en betur hefði mátt hlúa að hestum og knöpum. Það er mikilvægt fyrir forsvarsmenn bænda hér heima að fá tækifæri til að upplifa slíkan viðburð sem Heimsmeistaramótið er hverju sinni. Talið er að um 13 þúsund manns hafi sótt mótið frá öllum heimshornum. Íslandshestamennska er orðin rótgróin í Þýskalandi og þar eru nú fleiri íslensk hross en hér á landi. Einnig er íslenski hesturinn mjög vinsæll á Norðurlöndunum. Þessi mikli áhugi á hestinum okkar á heimsvísu endurspeglast vel í þeirri fjölbreyttu flóru keppenda og gesta sem sækja slík mót. Telja má líklegt að skipta megi áhugamönnum um íslenska hestinn í tvo hópa: Þá sem hafa komið til Íslands og þá sem eiga eftir að koma til Íslands. Margir hverjir hafa komið oft til landsins og sumir eru árlegir gestir. Þetta skapar hestamönnum og hrossaræktendum hér á landi mikil tækifæri sem við eigum enn langt í land með að nýta til fullnustu. Eftir að hafa spjallað við fjölda gesta á mótinu frá hinum ýmsu löndum er ljóst að áhugi þeirra snýr ekki eingöngu að hestinum. Allt þetta fólk hefur mikinn áhuga á landi okkar og menningu. Það var ánægjulegt að hitta fyrir fólk sem talaði ágæta íslensku, margt eftir veru sína á sveitabæjum á Íslandi til að komast í kynni við hestinn í sínu upprunalega umhverfi. Ennfremur að hitta fólk sem kunni hvert einasta erindi í þekktum íslenskum sönglögum og söng með af innlifun. Það er mikilvægt fyrir okkur að rækta eftir fremsta megni samband okkar við slíka Íslandsvini. Slík verðmæti er ekki hægt að meta til fjár. Samhliða hefðbundnu mótshaldi skipa hvers konar viðskipti stóran sess á viðburðum sem þessum. Á mótinu í Berlín var stórt svæði þar sem hverskonar vara og þjónusta var falboðin auk þess sem fjölmargir kynntu starfsemi sína. Í samstarfi við Íslandsstofu kynntu íslenskir aðilar starfsemi sína og þjónustu eins og Landssamband hestamannafélaga, Félag hrossabænda og einstök hrossaræktarbú. Starfsmenn Bændasamtakanna voru einnig á svæðinu og leiðbeindu gestum við notkun á Veraldarfeng (WorldFeng), upprunaættbók íslenska hestsins. Bændasamtök Ísland (vegna WorldFengs) voru stofnaðilar að svokölluðu Hestatorgi (The Icelandic Horse Plaza) árið 2006 ásamt Félagi hrossabænda og fleirum, en það er sameiginlegur vettvangur til að kynna stofnanir og félög tengd íslenska hestinum á Íslandi. Bændasamtökin gegna mikilvægu hlutverki í öllu þessu samhengi. Samkvæmt lögum bera samtökin ábyrgð á kynbótastarfi í greininni og auk þess hefur tölvudeild BÍ haldið utan um og þróað forritið WorldFeng í samráði við notendur þess. Jens Iversen formaður Alþjóðasamtaka íslenska hestsins FEIF og mikill Íslandsvinur, sagði á mótinu að WorldFengur væri það sem sameinaði alla áhugamenn um íslenska hestinn, hvar sem þeir væru í veröldinni, sama hvaða stefnu eða áherslur þeir hafi í sinni ræktun eða reiðmennsku. Það er ljóst að heimsmeistaramót, ekki síður en landsmótin hér heima, eru mjög mikilvæg við markaðsetningu á íslenska hestinum. Sumir hrossaræktendur hafa á slíkum mótum skapað viðskiptatengsl sem í mörgum tilfellum hafa orðið að vináttutengslum. Markaðssetning á hrossum er ekkert ólík annarri markaðssetningu og kostar mikla vinnu og fjármuni og því er nauðsynlegt að nýta öll tækifæri sem gefast til að sækja fram. Heimsmeistaramótin gætu nýst betur í kynningu á öllu því sem íslenskt er Án þess að á neinn sé hallað getum við nýtt okkur heimsmeistarmót sem þetta mun betur í framtíðinni. Við Íslendingar ættum að gera okkur mun meira áberandi á slíkum viðburði, þar sem saman koma gestir sem eru mjög móttækilegir fyrir öllu sem íslenskt er. Við þurfum að taka höndum saman um að kynna íslenska hestinn sem víðast með sameiginlegu markaðsátaki og jafnframt að styðja við bakið á hrossaræktendum og söluaðilum reiðhesta af fremsta megni. Við getum einnig nýtt þennan vettvang til að kynna íslenskar landbúnaðarafurðir með myndarlegum hætti í samstarfi afurðafyrirtækja og búgreinafélaga. Ferðaþjónusta á Íslandi á mikla möguleika á að ná enn frekar til þess markhóps sem sækir slík mót. Þessu til viðbótar eru heilmörg tækifæri til að kynna menningu og listir fyrir slíkum hópi Íslandsvina. Með mikilli og góðri samvinnu bænda og hestamanna getum við hafist handa strax með það að markmiði að gera okkur gildandi á næsta heimsmeistaramóti í Herning í Danmörku að tveimur árum liðnum. Slíkt ætti að verða upptaktur að víðtæku samstarfi í sókn um markaðsetningu íslenska hestsins á alþjóðavísu í samstarfi við íslensk stjórnvöld og ferðaþjónustufyrirtæki. Ég skora á alla sem hlut eiga að máli að nýta það tækifæri til fulls. /SSS Ekki barnanna bestir Snyrtilegasta sveitabýlið í rekstri Vatnsleysutorfan hlaut umhverfisverðlaun Bláskógabyggðar Umhverfisverðlaun umhverfis- nefndar Bláskógabyggðar voru afhent í þriðja sinn á hátíðinni „Tvær úr Tungunum“ 17. ágúst. Að þessu sinni voru veittar viðurkenningar fyrir snyrtilegasta sveitabýlið í rekstri. Áður hefur umhverfisnefndin veitt viðurkenningu fyrir snyrtilegasta garðinn og snyrtilegustu iðnaðarlóðina. Heiðarbær, Fellskot og Vatnsleysa verðlaunuð Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Þriðja sætið að þessu sinni hrepptu Heiðabær I og III í Þingvallasveit. Býlin fengu viðurkenningu fyrir snyrtileika og gott skipulag á fallegum stað. Ábúendur eru Jóhannes Sveinbjörnsson, Ólöf Björg Einarsdóttir og Steinunn Guðmundsdóttir. Í öðru sæti var Fellskot sem fékk viðurkenningu fyrir fallega aðkomu, stíl og samræmi í húsakosti. Staðnum er vel við haldið og hann er snyrtilegur. Ábúendur eru Kristinn Antonsson, María Þórarinsdóttir, Bent Larsen Fróðason og Líney Sigurlaug Kristinsdóttir. Í fyrsta sæti varð Vatnsleysa I-III. Verðlaunin voru veitt fyrir fallegt bæjarstæði og samræmi í húsakosti og snyrtimennsku við íbúðarhús og útihús. Þau fengu að auki stig fyrir snyrtilega klippta runna og fyrir vinnuvélar sem var vel við haldið. Ábúendur á Vatnsleysu I eru Guðmundur Sigurðsson, Sigríður Egilsdóttir og Rúnar Guðmundsson. Á Vatnsleysu II bú Bragi Þorsteinsson, Halla Bjarnadóttir og Ingunn Birna Bragadóttir og á Vatnsleysu III Sigurður Erlendsson og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir. Framúrskarandi snyrtimennska Vatnsleysutorfan hefur áður hlotið umhverfisverðlaun en þar sem snyrtimennskan er svo framúrskarandi var ekki hægt að ganga framhjá bæjunum við verðlaunaveitingu. Það var Herdís Friðriksdóttir formaður umhverfisnefndar Bláskógabyggðar sem afhenti verðlaunin en hún er lengst til hægri á myndinni með verðlaunahöfum. /MHH Viðurkenningar fyrir snyrtilegasta sveitabýlið. Bændurnir á Vatnsleysu og Fellskoti ásamt formanni umhverfisnefndar Bláskógabyggðar. Heiðarbæjarfólk átti ekki heimangengt. Mynd / Ásborg Arnþórsdóttir

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.