Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 22

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 2013 „Mér sýnist allt stefna í að upp- skera verði verulega góð, þetta er toppsumar,“ segir Jóhann Thorarensen verkstjóri í Ræktunarstöð Akureyrarbæjar við Krókeyri. Á svæðinu eru nú um 320 litlir matjurtagarðar sem standa Akureyringum til boða gegn vægu leigugjaldi, þeir eru jafnan auglýstir að áliðnum vetri og segir Jóhann að ávallt sæki fleiri um en að komist. „Það er gríðarlegur áhugi meðal bæjarbúa að rækta eigið grænmeti, hann hefur ekkert dalað frá því við byrjuðum með þetta, mér sýnist hann fremur fara vaxandi ef eitt- hvað er.“ Þetta er fimmta sumarið sem Akureyrarbær býður bæjarbúum upp á að leigja reiti undir græn- metisræktun við Krókeyri og hefur í áranna rás verið bætt við viðbótar- landrými undir ræktunina því ásókn er mikil. Nú eru um 320 garðar á svæðinu og hefur Jóhann áform um að bæta við fyrir næsta vor. „Við höfum svolítið landrými laust á svæði þar sem fólk hefur losað sig við arfa og annan úrgang og mér finnst líklegt að þar getum við bætt við 20 til 30 görðum næsta vor með því að vinna landið upp,“ segir hann en með viðbótinni verða þá komnir um 350 garðar á svæðinu. Hver og einn ræktandi hefur til umráða 15 fermetra reit og fylgja honum kál- og kryddplöntur, sáningarplöntur og spírað útsæði. Eyjaskeggjar áhugasamir Íbúum í Hrísey og Grímsey stendur einnig til boða að rækta grænmeti í eigin garði með sömu kjörum og í Akureyrarbæ. Byrjað var í Grímsey í fyrravor og segir Jóhann að vel hafi til tekist og þar séu nú alls tíu ræktendur. Hann segir áhuga fyrir grænmetisrækt mikinn í eyjunni. „Við vorum bara ánægðir með hvernig til tókst þarna úti við ysta haf, en höfum gert þá breytingu að Grímseyingar sem búa við enn styttra sumar en við hér inni í bænum fá nú annað útsæði en aðrir. Við höfum verið með rauðar íslenskar, en eyja- skeggjar rækta nú í sumar gullauga og premium, þær eru fljótsprottnari og eiga að henta betur,“ segir Jóhann. Hríseyingar bættust í hópinn nú í vor og þar eru sjö ræktendur með matjurtagarða þetta fyrstu sumar. Þá segir Jóhann að áhugi fyrir grænmet- isræktun hjá grunn- og leikskólum fari vaxandi og séu nokkrir slíkir með í pakkanum. Leikskólabörn á Pálmholti hafa matjurtagarð á sinni lóð, en börn á Lundaseli eru aftur á móti með garð við Krókeyri og koma af og til saman í strætó til að huga að honum. Þá er stór garður við Glerárskóla og er uppskeran m.a. nýtt í matreiðslu í skólanum að haustinu og fram eftir vetri. Við dvalarheim- ilin í bænum, Hlíð og Lögmannshlíð, eru einnig grænmetisgarðar sem íbúar og starfsmenn hugsa um og á þeim bæjum er uppskeran einnig til eigin nota innan heimilanna. Lífsstíll Jóhann segir að matjurtagarðarnir hafi fyrst verið í boði árið 2009, sumarið eftir efnahagshrun og hafi að hluta til verið viðleitni bæjarins til að koma til móts við bæjarbúa í kreppunni, gera þeim kleift að rækta eigið grænmeti þegar erfiðleikar blöstu víða við í þjóðfélaginu og þröngt var í búi. Þótt nokkuð sé um liðið og margir hafi rétt úr kútnum eftir að kreppan skall á segir Jóhann að áhugi fyrir grænmetisræktun sé síst minni nú en var þá. „Fyrir marga er þetta lífs- stíll, fólk vill gjarnan vera sjálfbært, njóta útiveru, dunda við ræktun sína og njóta afrakstursins að hausti og fram eftir vetri,“ segir hann. Nú með haustinu er fyrirhugað að bjóða upp á námskeið þar sem m.a. verður farið yfir geymsluaðferðir og nýtingu. Slík námskeið hafa áður verið haldin í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri, matvælasvið, og afnot fengist af eldhúsi skólans. Grenndargarðar í bænum Í ljósi vaxandi áhuga hefur Jóhann hug á að kynna hugmynd sína um grenndargarða fyrir bæjaryfirvöldum, þ.e. að setja upp litla garða hér og hvar í hverfum bæjarins. Á hverjum stað gætu verið tíu til fimmtán garðar og segir hann að í öllum hverfum bæjar- ins megi finna bletti til að koma görð- um af þeirri stærð upp. Nefnir hann m.a. svæði yst við Mýrarveg og eins Eiðsvöll sem dæmi. „Það eru margir sem ekki hafa tök á að koma hingað á bíl, sem vissulega er mjög algengt, enda eru garðarnir í útjaðri bæjarins. Það er líka svolítið hart að bíllinn skuli vera dýrasti útgjaldaliðurinn í dæminu,“ segir hann, en raunar segir hann þeim fara fjölgandi sem komi ýmist gangandi, skokkandi eða hjól- andi í matjurtagarða bæjarins. „Ég hef tekið eftir því að æ fleiri taka rúntinn hingað til að huga að garði sínum inn í daglega hreyfingu sína og það er auð- vitað mjög gott,“ segir hann. Smáræktendur komi upp markaði Jóhann varpar fram þeirri hugmynd að framleiðendur matvæla, m.a. grænmetis, komi saman og setji upp markað t.d. á Ráðhústorgi. „Það vantar svona markað hér í bænum og ég auglýsi eftir því að einhver hafi forgöngu um að koma honum upp, það er tilvalið fyrir þá sem eru með ræktun í mismunandi smáum stíl hafi tækifæri á að selja afurðir sínar á markaði,“ segir hann. Þá nefnir hann að tilvalið sé t.d. fyrir unglinga að rækta grænmeti yfir sumarið og selja á slíkum markaði og hafa þannig nokkrar tekjur, síst minni en eru í boði í hefðbundinni unglingavinnu. Þeir gætu t.d. einbeitt sér að því að rækta gulrætur eða spergilkál svo dæmi sé tekið og selt afraksturinn sér til tekjuöflunar. „Með því skapaðist gott tækifæri fyrir ungmenni að kynnast ræktun og hafa smálaun upp úr vinnu sinni,“ segir hann. Gott sumar, góð uppskera Nú eru margir ræktendur farnir að taka upp, margt af því sem sett var niður í vor er tilbúið, segir Jóhann. „Það eru góðar uppskeruhorfur hér í matjurtagarðinum, sumarið hefur verið gott,“ segir hann og bendir á að júní hafi verið einn sá sólríkasti í 60 ár, júlí hafi svo aftur á móti verið heldur blautur þannig að þetta spili saman og geri að verkum að útlit sé fyrir toppuppskeru með haustinu. „Ég á ekki von á öðru en að bæjarbúar muni fara heim með mikla og góða uppskeru í haust,“ segir hann. Sem dæmi nefnir hann að í vor hafi verið sett niður um 700 kíló af kartöflum og miðað við að uppskera verði allt að fimmtánföld, svo sem útlit er fyrir, megi gera ráð fyrir að hún verði um fimmtán tonn. / MÞÞ Mikil ásókn í matjurtagarða og færri komast að en vilja Allt stefnir í toppuppskeru norðan heiða Jóhann Thorarensen verkstjóri í Ræktunarstöð Akureyrarbæjar við Krókeyri segir uppskeruhorfur í matjurtagörðum Akureyringa góðar. Gulræturnar spretta vel. „Það er alveg yndislegt að vera hérna, það gerist bara ekki betra,“ segir Hildur Heba Theodórsdóttir sem ræktar grænmeti af kappi í einum af matjurtagörðunum við Krókeyri. Þetta er þriðja sumarið sem Heba er með eigin matjurtagarð á svæðinu og líkar henni afskaplega vel. Heima við er hún svo með salat og krydd, tómata, gúrkur og paprikur og er að auki með eplatré, vínberja- plöntur og jarðarber. „Þetta er allt saman fínasta búbót, en ég hef líka afskaplega gaman af því ræktuninni og hún gefur mér mikið,“ segir Heba, en hún nýtir alla uppskeruna. Sumt er borðað strax en annað geymt í frysti til vetrarins. „Ég nota allt mitt grænmeti og annað sem ég rækta í hristinga, pott- og ofnrétti og borða sem snakk,“ segir hún og er alsæl með þá aðstöðu sem bærinn býður upp á við Krókeyri. Hún segist oft koma í garðinn og alltaf sé eitthvert verk að vinna, reyta upp arfaklær eða vökva. „Það er alltaf hægt að finna sér eitthvað skemmtilegt að dunda við og ég reyni að hafa garðinn í góðu lagi, það skiptir miklu,“ segir hún. Liðtækir aðstoðarmenn „Þetta gefur lífinu svo sannarlega lit, það er nauðsynlegt að vera úti i náttúrunni og anda að sér fersku lofti og sjá grænmetið vaxa dag frá degi,“ segir Heba, en hún nýtur dyggrar aðstoðar bróðurdætra sinna, þeirra Karenar og Aldísar sem oftar en ekki fá að bregða sér með henni í garðinn og leggja sitt lóð á vogar- skálarnar. „Þær eru mjög duglegar að hjálpa mér og hafa gaman af því að aðstoða mig í garðinum,“ segir Heba. /MÞÞ Gefur lífinu lit að rækta eigið grænmeti Nýtir alla uppskeruna sem er mikil búbót Aldís og Karen, bróðurdætur Hildar Hebu Theodórsdóttur, aðstoða hana við grænmetisræktunina. Myndir / MÞÞ Myndir / MÞÞ

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.