Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 8

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 8
Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 20138 Fréttir Hugmynd að nýrri matvöru varð að veruleika Íslenskar grænmetispylsur komnar á markað Grænmetispylsur með íslensku bankabyggi eru nýjar á markaðnum og hafa selst vel í verslunum undanfarna mánuði. Framleiðandinn nefnir þær „Bulsur“ en varan er hugarfóstur Svavars Péturs Eysteinssonar hönnuðar og tónlistarmanns. Svavar er sjálfur grænmetisæta og fannst vanta grænmetispylsur á markaðinn. Við þróun Bulsunnar var haft að leiðarljósi að nota íslenskt hráefni eins og kostur væri. Þá er lögð áhersla á að útvega lífrænt ræktað bygg og að nota ekki aukaefni. Í Bulsunum er m.a. bankabygg frá Vallanesi, repjuolía frá Þorvaldseyri, salt frá Reykjanesi á Vestfjörðum og blóðberg frá Sandi í Aðaldal. Fljótlega eftir að varan kom á markað var ljóst að eftirspurnin var slík að auka þyrfti framleiðsluna. Auk Svavars starfar Berglind Hasler við Bulsugerðina en þau eru hjón. Hætti að borða kjöt og langaði í grænmetispylsu „Ég hætti að borða kjöt fyrir tveimur árum síðan og fann fljótlega að það vantaði eitthvað sem kæmi í staðinn fyrir kjötpylsurnar. Prófaði innfluttar grænmetispylsur og spurði mig hvort ekki væri markaður fyrir innlenda framleiðslu. Í kjölfarið fór ég að prófa mig áfram og tók raunar 12 mánuði í tilraunir ásamt fleirum. Bankabyggið er meginuppistaðan í vörunni og svo leitaði ég að öðrum hráefnum. Í stað þess að endurgera erlendar uppskriftir að grænmetispylsum, sem eru að megninu til úr soja, þá ákvað ég að búa til sérstaka íslenska afurð sem væri án allra aukaefna og ekki unnin úr dýraafurðum,“ segir Svavar. Utan um bulsuna er plastgörn sem er óæt og þarf að taka af fyrir neyslu. Best þykir að steikja eða grilla Bulsurnar að sögn Svavars. Fengu ráðgjöf víða „Ég hafði sjálfur enga reynslu í mat- vælaiðnaði eða matvælaframleiðslu. Það sem ég gerði var að setja mig í samband við fjölda fólks, fá ráðgjöf og afla mér upplýsinga úr öllum áttum. Hjá Matís fékk ég mjög góðar viðtökur og fékk að nýta matar- smiðjurnar þeirra. Þar fékk ég mikla og góða ráðgjöf um þróun vörunnar. Þá var Nýsköpunarmiðstöð mér innan handar, bæði með fjár- stuðning og ráðgjöf. Ég fór líka á fjölbreytt námskeið á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar sem var góður skóli.“ Svavar segir að í öllu þessu ferli hafi varan sprottið fram og sé nú fáanleg í verslunum. Seldust upp á nokkrum klukkutímum „Við gerðum fyrsta skammtinn og dreifðum í Frú Laugu og í Melabúðina. Sjálfur reiknaði ég með að hann dygði í um viku en nokkrum klukkustundum eftir að Bulsurnar voru komnar í verslanir var ljóst að það þyrfti að framleiða meira því lögunin var fljótt upp- seld. Ég gerði aðra lögun og sleit mér út með vöku og stóð ósofinn við pylsusprautuna í nokkra daga. Fljótlega var mér ljóst að ég yrði að breyta framleiðsluaðferðunum ef það ætti að vera eitthvað vit í þessu. Þá tókum við ákvörðun um að skala framleiðsluna upp og leita samstarfs við Esju Gæðafæði. Nú framleiðum við Bulsurnar í aðstöðu hjá þeim og njótum aðstoðar fagmanna hjá fyrirtækinu,“ segir Svavar. Neytendur geta sem fyrr segir nálgast Bulsurnar í Melabúðinni og Frú Laugu en einnig í Víði, Krónunni, Nóatúni, Iceland, Lifandi markaði og Nettó. Vakin og sofin yfir rekstrinum Markaðssetning og dreifing á Bulsunum er á hendi þeirra hjóna Svavars og Berglindar. „Við erum vakin og sofin yfir þessu, sjáum um allt sem tengist rekstrinum,“ segir Svavar en framundan er að losa sig frá sjálfri framleiðslunni. „Það er hugmyndin að einbeita okkur að þróun á fleiri vörutegundum. Við höfum áhuga á að gera fleiri bragðtegundir af Bulsunum,“ segir Svavar Pétur. Ætla að flytja á Strandir Aðspurður um framtíðaráform segir Svavar fjölskylduna hyggjast flytjast norður á Strandir í haust. Þar hafa þau hjónin leigt jörð og ætla sér að þróa fyritækið þaðan og rækta það sem hægt er nyrðra. „Ætli við setjum ekki upp fyrstu Bulsjusjoppuna á Ströndum og sjáum hver traffíkin verður!“ En er hægt að lifa af Bulsu- framleiðslunni einni saman? „Ég held að það verði bara að koma í ljós að einhverjum tíma liðnum þegar komin er reynsla á Bulsusöluna. Það er að minnsta kosti talað um það að geti Íslendingar lifað af einhverju þá sé það matvælaframleiðsla,“ segir Svavar Pétur að lokum. /TB Bulsurnar eru fjórar í knippi. Svavar Pétur Eysteinsson framleiðir og selur grænmetispylsur sem nefnast Bulsur. Hér er Svavar í versluninni Frú Laugu þar sem viðskiptavinir hafa tekið þessari nýju vöru fegins hendi. Myndir / TB Íslenska hvönnin vinsæl í Bandaríkjunum Fyrirtækið SagaMedica ehf. hefur stundað hvannarskurð í rúman áratug og hefur umfangið vaxið með ári hverju. Í sumar varð mesta aukningin hingað til en vel á annan tug manna vann við hvannarskurð í Ölfusholti, Vík, á Flúðum og í Hrísey. Á síðastnefnda staðnum hefur hvannarskurður farið mjög vaxandi síðustu ár en Hrísey hefur fengið lífræna vottun. Kristinn Leifsson, verkefnastjóri hjá SagaMedica, segir að ástæðan fyrir þessari miklu hráefnistöku í ár sé mjög hraður vöxtur í sölu á SagaPro í Bandaríkjunum. SagaPro er náttúrulyf unnið úr hvannarlaufi sem dregur úr tíðni þvagláta. „SagaMedica hóf samstarf við nýjan dreifingaraðila í Bandaríkjunum í mars en salan hefur farið langt fram úr björtustu vonum. Nú er svo komið að salan ytra nemur tvöfaldri árssölu á Íslandi. Ef fram heldur sem horfir mun því verða aukin þörf á mannskap í hvannarskurði á næstu árum,“ segir Kristinn Leifsson. Hvannarskurður í Hrísey. Mynd / Saga medica Unnið hefur verið markvisst að því að spara raforku og bæta með- höndlun og gæði frystivara í lág- vöruverðsverslunum Nettó. Þetta er m.a. gert með því að setja gler- lok á 28 frysta í Nettóverslunum landsins að erlendri fyrirmynd. Með þessum breytingum sparar hver frystir um sig um 35.000 kílóvattstundir á ári, eða sem nemur orkunotkun níu meðalstórra heimila. Í krónum talið nemur árlegur sparnaður hvers frystis um 470 þús. kr. miðað við raforkuverð til heimila. Nettó mun með þessum hætti spara árlega tæplega milljón kílóvatt- stundir rafmagns eða álíka orku og ársnotkun 250 meðalstórra heimila. Heildarsparnaður vegna breyting- anna á frystunum verður því sam- tals um 13 milljónir króna miðað við raforkuverð til heimila. Með þessum breytingum haldast gæði matvörunnar betur þar sem hitastig er mun stöðugra og ísmyndun minni. Frystar með glerlokum spara milljónir króna Hver frystir sparar sem svarar orku- notkun níu meðalstórra heimila á ári. 14 kílóa grasker úr Borgarfirði Graskerjaræktun er ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar íslenskur landbúnaður er annars vegar. 14 kílóa borgfirskt grasker var þó til sölu í búvöruverslun- inni Ljómalind í Borgarnesi á dögunum. Í versluninni var haldinn markaður um síðustu helgi þar sem kynntar voru ýmsar söluvörur, s.s. kjöt, sultur, þurrkað grænkál og ostar. Graskerið, sem var boðið upp af sýslumanni, var af yrkinu Marina di Chioggia en það hefur gómsætt appelsínugult aldinkjöt. Hið risavaxna grasker vóg um 14 kíló en því var sáð 17.mars. Ágóðinn af sölunni, 6.000 krónur, rann til Hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi til styrktar byggingu hænsnakofa. Graskerið var ræktað af Stellu Dögg Blöndal en hún er aðeins 16 ára gömul og ein af aðstandendum Ljómalindar. Ljómalind er félag matar og handverksfólks á Vesturlandi og er til húsa að Sólbakka 2. Þar eru til sölu afurðir beint frá býli, bæði matur og handverk. Grasker eru ekki algeng hér á landi. Búið er að fella ríflega 400 hreindýr á því veiðitímabili sem nú stendur yfir. Hreindýrakvótinn í ár er alls 1.229 dýr, 623 kýr og 606 tarfar. Hefja mátti veiðar á törfum 15. júlí síðastliðinn en tímabilinu lýkur um miðjan september. Veiðar á kúm hófust í byrjun ágúst og lýkur 20. september. Jóhann Guttormur Gunnarsson, starfsmaður Umhverfisstofnunar á Austurlandi, segir það sitt mat að veiðimenn komi of seint til veiða og það sé helsta skýringin á því að ekki sé búið að fella fleiri dýr en raun ber vitni. „Það er alltof algengt að menn komi ekki austur til veiða fyrr en gæsaveiðitímabilið hefst og ætli að samnýta ferðina,“ segir hann og telur slíkt ekki alltaf góðri lukku stýra. Veðurfar hafi verð hagstætt til veiða það sem af er sumri en úr þessu geti brugðið til beggja vona. „Menn hafa ekki nýtt sér þetta góða veiðiveður í nægilega ríkum mæli.“ Halda sig hátt uppi til fjalla Jóhann segir að nú í ár sé nokkuð stór kvóti á svæði 7, við Djúpavogshrepp, en það sé erfitt svæði yfirferðar. Einn þriðji hluti alls kvótans er á því svæði. „Þetta er erfitt svæði og menn þekkja það ekki eins vel og mörg önnur, þannig að það kann að skýra að hluta til hversu fá dýr hafa verið felld. Eins er líka stór kvóti í ár á svæði 1 sem er norðan við Jökulsá á Dal og það er líka erfitt yfirferðar,“ segir Jóhann. Almennt segir hann dýrin halda sig hátt uppi til fjalla.Stofninn sé hins vegar í ágætu lagi, allt tal um annað sé þvættingur. Heilbrigðisstimplun Umhverfisstofnun hefur á vef sínum birt tilkynningu um að þeir sem ætli sér að selja hreindýrakjöt í haust, heilan skrokk eða hluta til veitinga- staða eða smásöluaðila verði að fá kjötið heilbrigðisstimplað. Sláturhús Norðlenska á Höfn í Hornafirði tekur að sér að flá hreindýr og heilbrigðis- stimpla kjöt. Koma skal með dýrið óflegið á staðinn til að það fáist stimplað. /MÞÞ Aðeins búið að fella um 400 hreindýr úr ríflega 1.200 dýra kvóta Gæsaveiðitímabilið að hefjast „Við erum fullir bjartsýni í upphafi veiðitímabilsins, enda sýna talningar að gæsastofnar eru í góðu áskigkomulagi og því má vænta þess að veiði geti orðið góð,“ segir Elvar Árni Lund formaður Skotvís, en gæsaveiðitímabilið hófst fyrr í vikunni. Elvar Árni segir að samkvæmt talningu sem fram fór síðastliðið haust hafi komið í ljós að vöxtur er í öllum gæsastofnum og sem dæmi er talið að um 360 þúsund fuglar séu í heiðargæsastofninum. Grágæsastofn er að hans sögn líka í góðu lagi. Gæti verið seinna á ferðinni „Það voraði frekar seint, en sumarið var gott og því eru líkur á að varp hafi tekist ágætlega í ár og ungar komist á legg. Ef til vill verður gæsin eitthvað seinna á ferðinni en gengur og gerist, heiðargæs verpti fremur seint í ár því það var mikill snjór á hálendinu fram eftir vori og þær því lengur í túnum,“ segir Elvar Árni. Gæs í samkeppni við fé um beit Elvar Árni segir það sitt mat að fulltrúar bænda og Skotvís ættu að ræða meira saman um gæsaveiðina. „Við bendum á að gæsin er í samkeppni við fé bænda um beit og eins liggur hún gjarnan á svæðum sem verið er að græða upp á melum og móum. Það er því sameiginlegur hagur okkar að veiði sé innan hóflegra marka,“ segir Elvar Árni. Hann segir að brýnt sé fyrir félagsmönnum í Skotvís að ganga vel um þau lönd sem þeir fari um og eftir því sem hann besti viti fari þeir eftir því í hvívetna. /MÞÞ

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.