Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 20

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 2013 Matreiðslumeistari heimsækir bændur Íslenska grænmetið hefur vinninginn Sigurður Helgason, yfirmatreiðslumaður á Grillinu á Hótel Sögu, fer í heimsókn í sveitina og ræðir við sína birgja. Hvað er það sem kokkurinn og bóndinn tala um þegar grænmeti er annars vegar? Grillið hefur keypt kryddjurtir og annað grænmeti frá lífrænt vottaða býlinu Engi í Laugarási frá því á níunda áratugnum og er einn elsti viðskiptavinur bændanna. Í Silfurtúni við Flúðir eru ræktuð jarðarber í tonnatali en meðal þess sem Grillið fær þaðan eru græn jarðarber. Myndband af heimsókninni til grænmetisbændanna er að finna á Facebook-síðu Grillsins. Ræktunin: Ingólfur: „Heildarhugsunin er að rækta með sem minnstu umhverfisálagi. Við erum að nota lífrænan áburð og náttúrlega engin eiturefni. Við viljum láta náttúruna njóta sín eins og hægt er í þessari ræktun. Það eru ákveðin grundvallaratriði í lífrænni ræktun sem við förum eftir. Til dæmis að við leyfum jarðveginum að brjóta niður lífrænu efnin í stað þess að gefa tilbúinn áburð. Með þeim hætti getum við notað ýmislegt sem fellur til í ræktunni síðar. Í staðinn fyrir eiturefni þá notum við lífrænar varnir, bæði flugur og ýmsar örverur sem halda meindýrum í skefjum. Annars er lífræn ræktun ekkert flókið mál og gengur ágætlega!“ Sigurður: „Þið hafið verið dugleg að koma fram með framandi grænmetistegundir.“ Ingólfur: „Við höfum reynt margar tegundir í gegnum árin, til dæmis grænmeti sem ekki hefur verið ræktað hér á landi áður. Það eykur fjölbreytnina í þessari daglegu vinnu hjá okkur. Það skapar skemmtilegar tengingar við matreiðslumenn, ræktunarfólk og aðra neytendur. Við erum með margar tegundir af kryddjurtum, ýmsar salattegundir og fjölbreytt úrval af gróðurhúsagrænmeti og útiræktuðu. Síðan höfum við verið að prófa berjaræktun til að auka úrvalið hjá okkur yfir sumarmánuðina. Jarðarber, kirsuber og hindber höfum við verið með í boði.“ Sigurður: „Svo rekið þið markað á sumrin.“ Ingólfur: „Já, töluvert af því sem við ræktum frá vori og fram í sumarlok er selt á markaðnum okkar hér heima á býlinu. Þess vegna höfum við líka reynt að vera með fjölbreytt úrval af grænmeti.“ Sigurður: „Þið hafið líka verið að sinna íslensku flórunni, m.a. ræktað blóðberg og fleira. Eitthvað sem við matreiðslumenn kunnum vel að meta.“ Ingólfur: „Það er gaman að vera með íslenskar jurtir og það er margt skemmtilegt þar í boði. Sennilega er blóðberg vinsælasta íslenska jurtin sem er til dæmis notuð í te. Við höfum líka verið að bjóða hvannir, vallhumal, skarfakál og haugarfa. Þarna eru ýmsir möguleikar og úrval til að vinna með.“ Ferskleiki er lykilatriði Sigurður: „Þegar við kokkarnir á Grillinu veljum grænmeti þá leggjum við okkur alla fram um að komast í íslenska framleiðslu. Aðalástæðan er sú að við viljum fá grænmetið sem fyrst til okkar eftir að það kemur úr moldinni eða er klippt af plöntunum. Það er ferskleikinn sem skiptir öllu máli en með þessu erum við að græða marga daga miðað við innflutta grænmetið. Tíminn hefur mikil áhrif á bragð grænmetisins. Ég get nefnt brokkolí sem dæmi. Það þornar mjög hratt eftir að það er skorið og það breytir öllu bragði og áferð. Þegar við komumst í nýtt og flott rótargrænmeti þá viljum við á Grillinu ekkert hrófla mikið við því. Það þarf svo lítið að gera við ferskt og nýtt grænmeti - of flókin meðhöndlun á góðu hráefni er óþarfi.“ Sigurður Helgason matreiðslumeistari á Grillinu og Ingólfur Guðnason bóndi í Engi. Jarðarber frá Silfurtúni með hleyptri jógúrt, hvítsúkkulaði ganach og ískrapi jarðarber frá Silfurtúni. Jarðarberin eru fáanleg frá maí og fram í október Í Silfurtúni á Flúðum er mikið ræktað af jarðarberjum. Bændurnir Eiríkur Ágústsson og Olga Lind Guðmundsdóttir hafa byggt upp starfsemina en auk berjaframleiðslunnar rækta þau tómata, rauðkál og fleira. Á ári hverju selja þau um 10 tonn af jarðarberjum. Eiríkur: „Við byrjum að tína í maí á hverju ári og reynum að tína út október ef veðráttan er í lagi. Á búinu eru á milli 40 og 50 þúsund jarðarberjaplöntur þannig að það eru ófá handtökin við búskapinn. Sigurður: „Tínið þið berin á mis- munandi tímum?“ Eiríkur: „Já, það tekur um 6-7 vikur að tína öll berin af hverri plöntu. Ef við værum með allt á sama tíma þá væri tímabilið búið á þeim tíma. En við dreifum þessu. Við hefjum ræktun á mismunandi tímum, skiptum um plöntur, setjum nýjar í húsin og reynum að dreifa tímabilinu sem mest. Plönturnar eru keyptar frá Hollandi en þeim er plantað fjórum í hvern pott um miðjan apríl. Um mánuði síðar fara þær að blómstra. Það ferli tekur um 4-6 vikur. Þumalfingursreglan er sú að um 6 vikum eftir blómstrun, um hásumarið, þá tínum við berin. Að því loknu haustum við plönturnar, leyfum þeim að klára sig með engum berjum á. Síðan kælum við húsin og reynum að halda þeim frostlaus- um a.m.k. fram í miðjan febrúar. Þá hitum við húsin aftur upp en í millitíðinni erum við búin að klippa allar plöntur niður. Þær vaxa síðan upp aftur þar sem þetta eru fjölærar plöntur. Við notum plönturnar hins vegar ekki nema í tvö ár þó að þær geti enst miklu lengur.“ Sigurður: „Þegar maður ber saman íslensku berin við þau erlendu þá er allt annað bragð að þeim. Hvaða skýringu hefur þú á því?" Eiríkur: „Ég hef oft verið spurður að þessu og er ekkert endilega klár á útskýringunni. En við búum á Íslandi, hreint land, gott vatn og gott loft. Svo er náttúrlega lykilatriði í þessu að þið fáið berin alveg splunkuný. Þau sem koma að utan hljóta að vera eitthvað eldri.“ Sigurður: „Nú er maður kannski sérvitur en ég hef verið að fá græn jarðarber hjá þér.“ Eiríkur: „Já, ég er dálítið hissa á því.“ Sigurður: „Með því er ég að sækja til þín ákveðinn bragðeiginleika. Þau eru miklu súrari og áferðin er önnur. Bragðið er mitt á milli grænna epla og rauðra jarðarberja!“ Eiríkur: „Og hvað gerið þið eigin- lega við þetta?“ Sigurður: „Núna erum við að gera ís úr grænu berjunum. Við viljum fá meira sýrukennt „element“ inn í rétt- inn á móti rauðu jarðarberjunum sem eru dísæt. Með grænu berjunum erum við að fá súra bragðið. Þetta kemur skemmtilega út og við höfum líka notað þau með ýmsum forréttum. Eiríkur Ágústsson jarðarberjabóndi og Sigurður Helgason matreiðslumeistari. Sigrún Elfa Reynisdóttir bóndi í Engi Myndir og texti / TB

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.