Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 26

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 2013 Ræktunarstarfið miðar að því að bæta og breyta eiginleikum til þess m.a. að framleiða verðmætari vöru, afurðarmeiri og endingarbetri gripi þannig að hjörðin skili bóndanum meiri arði. Auk þess er það hluti af ræktunarmarkmiðinu að varðveita hin ýmsu séreinkenni íslensku sauðkindarinnar. Þetta eru allmargir eiginleikar sem við þurfum að taka tillit til svo árangur náist. Í gegnum einstaklingsdóminn fáum við ágætar upplýsingar um nokkra þætti s.s. holdfyllingu, fitu, þunga, bollengd, ullargæði og heilbrigði (s.s. bitgallar, fótaskekkjur, eistnagallar). Stefnan er að rækta þéttavaxið og bollangt fé (langt miðað við hæð) með góða ull, bráðþroska með hæfilegu fitumagni og er listin fólgin í því að sameina þetta allt í sama gripnum. Skýrsluhaldið gefur okkur síðan upplýsingar um mæðraeiginleikana sem ekki eru mælanlegir á einstaklingnum sjálfum en mikilvægi þeirra þarf vart að tíunda, því þetta eru grundvallareiginleikar. Mikill árangur hefur náðst á síðustu árum í því að bæta vaxtarlag og kjöt- gæði. Sem dæmi má nefna að þykkt bakvöðva hefur aukist um tæpa 2 mm að jafnaði á 10 ára tímabili og gerðar- einkunn sláturlamba hækkað úr 7,46 í 8,58, fitan minkað en fallþungi aukist. Því má fullyrða að í dag framleiðum við almennt mun betri markaðsvöru. Ásamt því að halda áfram að bæta kjötgæðin þarf að leggja ríka áherslu á afurðasemi ánna.Sauðfjárdómarnir ásamt öflugu skýrsluhaldi eru tæki sem bændur geta nýtt sér til að breyta fjárstofni sínum. Dæmin sýna að árangurinn getur verið mjög mikill á skömmum tíma. Verklag við ásetning Almennt er skynsamlegt að fram- kvæma lambaskoðun sem fyrst eftir að lömbin koma af sumarhögunum þannig að hópurinn sé sem saman- burðarhæfastur þegar hann er metinn. Einnig í ljósi þess að markmiðið er að lömbin séu sem næst sláturstærð þegar þau koma af fjalli. Það er í öllu falli ákaflega gagnlegt að vigta lömbin nánast beint af fjalli/úthaga til þess að átta sig á því hverju ærnar og sumarhagarnir skila í vexti. Þá er það þekkt staðreynd að bakvöðvi hrútlamba byrjar að slakna þegar líður á októbermánuð og því engin ástæða til að geyma það langt fram á haustið að láta stiga þá. Þegar lömb eru valin til skoðunar er ágætt vinnulag að vera búinn að merkja við í bókinni hvaða lömb koma til greina sem ásetningur t.d. útfrá kynbótamati fyrir frjósemi og mjólkurlagni. Síðan er eðlilegt að setja einhver viðmið fyrir þroska þannig að lömbin verði að standast ákveðnar kröfur um lífþunga. Sá hluti lambanna sem ekki kemst í gegnum þessa síu er þá meðhöndlaður sem sláturlömb og fær meðferð við hæfi. Hluta lambanna er væntanlega arðbærast að lóga strax og önnur að bata. Hvar þessi mörk liggja er reiknidæmi sem er breytilegt milli búa sökum aðstæðna (óhætt er að leita til ráðunauta RML við úrlausn slíkra dæma). Til þess að lambadómarnir skili tilætluðum árangri þarf að skoða ríflegan fjölda miðað við ásetning. Framkvæmd lambaskoðunar Flestir bændur þekkja hvernig aðstaða þarf að vera til að skoðunin gangi sem best fyrir sig. Það er a.m.k. góð lýs- ing, rafmagn, naglfast borð, sæti fyrir íhaldsmenn, dómara og ritara. Þegar tveir ráðunautar eru við matið (einn stigar og annar ómmælir) er best að til staðar séu a.m.k. þrír aðstoðarmenn auk ritara, þannig að báðir dómararnir hafi íhaldsmann og sá þriðji framvísi lömbunum. Gott skipulag og góð aðstaða sparar tíma, léttir verkið og stuðlar að betri meðferð lamba. Víða hefur reynst vel að mynda nokkurs konar vinnslulínu þar sem lömbum er fram- vísað til ómmælingar úr mjórri rennu (t.d. sundurdráttargangi) og komast þannig að mestu hjá því að draga lömbin. Mikilvægt er að búið sé að vigta öll lömb sem koma til skoðunar því annað kostar meiri mannskap. Ef vigtin er komin inn í Fjárvís þarf ekki að slá hana aftur inn þegar dómur er skráður. Afkvæmi sæðingastöðvahrúta Bændur eru hvattir til að láta dæma sem mest af afkvæmum sæðingastöðvahrúta, sér í lagi undan nýrri hrútum stöðvanna. Mikilvægt er að fá sem gleggsta mynd af afkvæmum þeirra strax og draga ekki undan gallagripi. Eyþór Einarsson hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins Sauðfjárskoðun 2013 Nú styttist í göngur og réttir. Annasamur og skemmtilegur tími fram undan hjá sauðfjárbændum. Lokahönd er lögð á framleiðslu ársins og grunnur lagður að framleiðslu næstu ára með tilheyrandi heilabrotum. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hvetur bændur til að vanda til verka á þessum lokaspretti í framleiðsluferlinu því þessum tíma, sem öðrum, fylgja ýmsar ákvarðanir sem hafa mikil áhrif á afkomu búsins. Nokkur hagnýt atriði Pantanir og skipulagning Best er að panta lambaskoðun í gegnum heimasíðu RML (www.rml.is). Á forsíðunni er flipi merktur „Panta sauðfjárdóma 2013“ sem hægt er að velja með bendlinum og leiðir menn áfram inn á pöntunarform fyrir lambamælingar. Þar gefur bóndinn upp nauðsynlegar upplýsingar ásamt því að óska eftir skoðun í ákveðinni viku og velja síðan óskadag, og jafnvel tvo daga til vara ef svo ber undir. Þá er hægt að láta athugasemdir fylgja með ef pöntun þarfnast nánari útskýringa. Einnig er hægt að panta í síma 516-5000 hjá RML. Þegar niðurröðun hefst verður síðan haft samband við bændur og tímasetning staðfest. Um skipulagningu á Suðurlandi heldur Fanney Ólöf Lárusdóttir, frá Vesturlandi til Eyjafjarðar verður niðurröðun í höndum Helgu Halldórsdóttur og fyrir Þingeyjarsýslur og Austurland er það Guðfinna Árnadóttir sem vinnur úr pöntunum. Minna skal á að hrútasýningar eru einnig pantaðar í gegnum sama kerfið og ekki er síður mikilvægt að slíkar pantanir berist í tíma. Gjaldskrá Vinna við sauðfjárdóma er seld á tímagjaldi. Það er 5.000 kr. án vsk. fyrir einn ráðunaut en þegar tveir starfsmenn mæta þá er seinni starfsmaðurinn á 25% lægra gjaldi (3.750 kr. án vsk.). Gjaldið er síðan hærra til þeirra sem ekki greiða búnaðargjald eða 9.500 kr fyrir einn starfsmann og 7.125 kr á þann seinni (án vsk). Ef sérstaklega er óskað eftir helgar- eða kvöldvinnu bætist við 50% álag. Lágmarksgjald fyrir skoðun á hverjum stað er 1 klst. Því getur verið hagkvæmara fyrir bændur með mjög litlar hjarðir að sameinast um skoðun þar sem það er hægt. Gjaldtaka fyrir lambaskoðun og hrútasýningar á vegum fjárræktarfélaga er með sama hætti og fyrir bændur (búnaðargjaldsgreiðendur) og bætist við álag sé óskað eftir helgar eða kvöldvinnu. Skráning dóma Bóndinn leggur til ritara við lambaskoðun. Ritarinn skráir dómana annaðhvort á dómblöð eða beint inn í fartölvu. Ef skráð er á blöð hefur bóndinn síðan val um að skrá dómana sjálfur inn í Fjárvís.is eða kaupa þá vinnu af RML samkvæmt tímagjaldi. Mikilvægt er að öll gögn fari inn í gagnagrunninn (ekki bara upplýsingar um ásetta gripi). Sú regla verður viðhöfð að ef dómar skila sér ekki inn í Fjárvís.is innan viku frá skoðun verður dómunum slegið inn á kostnað bóndans. Tölvudeild BÍ vinnur nú að hönnun forrits sem hægt verður að nota án nettengingar til dómaskráningar. Því ætti dómainnsláttur í tölvur að vera mögulegur þótt nettengingar séu lélegar í fjárhúsum. Afkvæmarannsóknir Afkvæmarannsóknir verða framkvæmdar með sama hætti í haust og sl. haust. Kröfur um styrkhæfa rannsókn eru að 8 hrútar séu að lágmarki í samanburði. Hver hrútur þarf að eiga a.m.k. 8 afkvæmi ómmæld og stiguð og 15 afkvæmi með sláturupplýsingar. Ómmældu lömbin þurfa öll að vera af sama kyni. Styrkupphæð er 10.000 kr á hverja afkvæmarannsókn. Fyrirkomulagið verður þannig að bændur ganga sjálfir frá niðurstöðunum í Fjárvís og senda tilkynningu um að hún sé frágengin fyrir 31.okt. á netfangið ee@rml.is og verður það þá í raun umsókn um styrkinn sem verður greiddur beint til bóndans. Ráðunautar RML veita mönnum aðstoð og leiðbeiningar eftir því sem með þarf um tæknileg atriði eða túlkun niðurstaðna. Vilji menn hins vegar að ráðunautar sjái alfarið um uppgjör á rannsókninni fellur það undir gjaldskylda vinnu. DNA sýnataka Þeir sem hafa áhuga á því að láta taka DNA sýni úr gripum m.t.t. riðuarfgerðar býðst það samhliða sauðfjárskoðuninni. Æskilegt væri að geta þess í athugasemdum þegar lambaskoðun er pöntuð. Um er að ræða stroksýni úr nös. Hvert sýni mun kosta 5.000 kr. Sé ætlunin að slátra hrútlömbum fyrir „hrútadag“ sem eru með óhagstæða arfgerð þarf sýnatöku þeirra að vera lokið fyrir 10. október, svo nægur tími sé til að greina sýnin. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins Lambaskoðun að Brúnastöðum í Fljótum. Mynd / Eyþór Einarsson Ferskostarnir Sæluostar úr sveitinni eru frá Jörfa í Víðidal og eru lagaðir beint frá býli. Þeir hafa víða sést á undanförnum misserum og eru kærkomin viðbót í annars fremur snauða íslenska flóru. Það eru stöllurnar Stella Jórunn A. Levy og Sæunn Vigdís Sigvaldadóttir sem eiga heiðurinn af þessum ostum, en þær hafa þekkst frá því í grunnskóla og eru sveitungar; Stella er frá Jörfa en Sæunn er búsett á Laugarbakka í Miðfirði. Ljósmyndari Bændablaðsins gekk fram á básinn þeirra á sumarmarkaðnum á Lækjartorgi á dögunum og ljóst var að markaðsgestir kunnu vel að meta ostana frá Jörfa. Í ljós kemur að þær hafa framleitt þessa osta í um þrjú ár en upphafið er rakið til námskeiðs vorið 2010 sem þær sóttu hjá Eirnýju í ostabúðinni Búrinu í þeim tilgangi að þekkja mun- inn á geita-, kúa- og kindaostum „Hún einfaldlega spurði okkur af hverju við værum ekki að gera ost – við hefðum allt til alls til að fara út í slíkt. Við byrjuðum að prófa ýmsar uppskriftir og fræðsluefnið var tekið úr ýmsum áttum. Við viðruðum svo þessa hug- mynd við Eirný og hún hvatti okkur eindregið til að byrja og við sjáum ekki eftir því, en móttökurnar hafa verið frábærar,“ segir Sæunn. „Við höfum báðar áhuga á íslenskri matarhefð og viljum kynna fyrir landi og þjóð þær perlur matvara sem fólkið á undan okkur hefur þróað og viljum að ungmenni viðhaldi þekkingu og landsins gæðum. Þegar við vorum að byrja gerðum við þó nokkuð marga potta af osti í alls konar útgáfum og vinir og fjölskyldumeðlimir voru „notaðir“ sem smakkarar.“ Fimm tegundir „Á endanum stóðum við uppi með fimm tegundir: Piparkjúku, Hvítlauks- og basilkjúku, Graslaukskjúku, Pestókjúku og Hreinakjúku. Þetta eru allt súrmjólkurostar og henta því ekki í sósur eða bakstur. Súrmjólkurostar voru almennt kallaðir ystir ostar. Þeir voru ystir með sýru, síaðir í ostpoka, léttpressaðir en ekki fergðir og borð- aðir tiltölulega nýir. Þessi ostur var einnig oft kallaður kjúka og það orð mun frá gamalli tíð hafa verið notað um súrmjólkurost. Kjúkurnar eru tilbúnar til átu strax og líftíminn er frekar stuttur, við ábyrgjumst átta daga frá framleiðsludegi en einnig er hægt að frysta hann. Kjúkan kemur úr sömu fjölskyldu og kotasælan og Mozzarella, svokallaðir ferskostar. Svo er gaman að leika sér með ostana, t.d. að hafa chilisultu og graslauks- kjúku saman og hunang með hreinu kjúkunni. Á haustin er gaman að leika sér aðeins með berin, um jólin með appelsínu og kanil og sumrin með fjallagrös og fífla.“ Sæunn segir misjafnt eftir árs- tíðum hversu mikið þær framleiði. „Á sumrin seljum við meira en á veturna, nema auðvitað um jólin en þá búum við til ostakörfur. Við gerum ost einu sinni í viku og sendum í verslanir. Við vinnum ostinn í viðurkenndu eldhúsi í félagsheimilinu Víðihlíð og þurfum í raun ekki meira en eldavél, stóran kæli og áhöld eins og skálar, sigti og mæla. Við sendum suður í Búrið, norður á Sauðárkrók í Hlíðarkaup, í Kaupfélagið á Hvammstanga, Grettisból á Laugarbakka, í veiðihúsið í Viðihlíð og í Laxahvamm. Í sumar vorum við á Lækjartorgi og gekk það vonum framar – við fengum frábærar móttökur. Framleiðslan hefur aukist ár frá ári, sérstaklega eftir að matar- markaðir urðu algengari en þeir eru mikilvægir framleiðendum því þar er hægt að fá mjög góða kynningu. Svo er alltaf gaman að hitta viðskiptavinina því margir hafa spuringar um ostana sem ekki er hægt að fá ef þeir eru keyptir úr búðarhillu. Aukinn áhugi hefur verið í þjóðfélaginu um Slow food hugsjónina og hreinar afurðir – og fögnum við því.“ Að sögn Sæunnar vakti það tals- verða athygli í sveitinni þegar forseti Íslands valdi ostategund frá Jörfa í veisluborð sitt fyrir eina móttökuna á Bessastöðum. „Það var tekið fyrir á nokkrum þorrablótum hér í sveit- inni – og líka í fjölmiðlum. Við próf- uðum að gera Appelsínukjúku fyrir Bessastaði og hún tókst mjög vel. Hún er ekki komin á markað enn sem komið er. Fyrirspurnir hafa verið um ostinn og aldrei að vita nema að við vinnum meira með það. Annars er gaman að eiga svona ostaleyndar- mál. Framtíðardraumurinn er ostabúð við þjóðveginn, að gera ostaeldhús og verslun á fjósloftinu á Jörfa. Þar sem mikil vakning er í þjóðfélaginu um ferska vöru þá sjáum við tæki- færi felast í þessu. Markmiðið er að Sæluostar skapi tvö full störf. Aldrei að vita nema að við getum hætt að vinna okkar venjulegu vinnu og sinnt ostunum eftir okkar bestu getu.“ /smh Stella Jórunn á básnum á Lækjartorgi. Mynd / TB

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.