Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 2013 Kristján Gunnarsson mjólkureftirlitsmaður hættir eftir 32 ára starf: „Mjólkurframleiðendur mikið sómafólk sem gert hafa mér lífið og starfið léttara“ Kristján Gunnarsson mjólkur- eftirlitsmaður á Norður- og Austurlandi lætur af störfum um næstu mánaðamót, en hann hefur starfað við mjólkureftirlit hjá samlaginu í nær 32 ár, hóf störf 1. nóvember árið 1981. Á tímabilinu hefur hann starfað með 6 samlagsstjórum, þeir eru Vernharður Sveinson, Þórarinn E. Sveinson, Hólmgeir Karlsson, Helgi Jóhannesson, Sigurður Rúnar Friðjónsson og nú síðast Kristín Halldórsdóttir. Skjálftaköst þegar verst á stendur Kristján lætur af störfum nú um næstu mánaðamót, en við starfi hans tekur Sigríður Bjarnadóttir sem um árabil hefur starfað sem ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar. „Það hafa margir spurt hvers vegna ég haldi ekki áfram störfum þar til ég næ 67 ára aldri, en skýringin á því er einkum sú að ég greindist með Parkinson sjúkdóminn fyrir tveimur árum og þó svo ég geri ekki ráð fyrir að hann verði mér að aldurtila, þá dregur hann ansi mikið úr manni máttinn. Ég hef ekki sama starfsþrek og áður, starfinu fylgir mikill akstur og hann þreytir mig og að auki er skriftin mín orðin nær ólæsileg. Stundum fæ ég líka sjálftaköst þegar verst stendur á,“ segir Kristján. „Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti ekki að fá mér vinnu sem barþjónn, held ég geti orðið fjári góður í að hrista kokteila!“ Hann tekur fram að sér líði ágætlega og lyfin virki vel á sig. Margir sjúkdómar séu verri viðureignar en Parkinson, „og ég er bara glaður á meðan ég fæ ekki eitthvað ennþá verra.“ Miklar tæknibreytingar á þremur áratugum „Það hefur margt breyst á ríflega þremur áratugum,“ segir Kristján þegar hann rifjaði upp starfsferilinn með Bændablaðinu. „Þegar ég byrj- aði voru svokölluð fötumjaltakerfi algeng en eru nú nær horfin, aðeins eitt eftir á Norðaustursvæðinu.“ Við tóku rörmjaltakerfi sem höfðu það sér til ágætis að létta vinnu bóndans, „en að mínu viti fóru þau mun verr með kýrnar,“ segir hann. Þau tóku breytingum, þróuðust í svonefnd brautakerfi og urðu í kjölfarið betri fyrir kýrnar. Síðan tóku við mjalta- gryfjur með láglínukerfum sem Kristján telur langbestu mjaltakerfin með tilliti til júgurbólgu og álags á spena. Soghæð við mjaltir var mun lægri þar sem ekki þurfti að toga mjólkina upp í tveggja metra hæð líkt og tíðkaðist í rörmjaltakerf- unum. Mjaltaþjónar fóru svo að ryðja sér til rúms og segir Kristján þá fara ágætlega með kýrnar, en séu vandmeðfarnir eigi að halda mjólk- urgæðum góðum. Mikil og góð þrif þurfi í fjósum og mikilvægt að kýr séu hreinar. „Ég hef aldrei séð samhengið á milli nýrra fjósa og betri mjólkurgæða, ef umgangur er góður í eldri fjósum skila þau ekki lakari mjólki. Mannlegi þátturinn skiptir mestu, ekki búnaður eða aðstaða,“ segir Kristján. Að taka tilliti til allra skoðana Þegar Kristján kom til starfa fyrir ríflega þremur áratugum var þar fyrir við mjólkureftirlit Guðmundur Karlsson og störfuðu þeir tveir saman til ársins 1998. Að auki sinntu þeir félagar neyðarviðgerðarþjónustu fyrir mjólkurframleiðendur. „Guðmundur var góður kennari og einn minn besti vinur frá því við kynntumst. Hann var hokinn af reynslu þegar ég kom til starfa og miðlaði mér af sinni miklu reynslu. Það er fyrst og fremst honum að þakka hversu vel mér hefur samið við kúabændur, hann kenndi mér fína samskiptatækni sem síðan hefur í áranna rás þróast, en hún gengur út á að taka tillit til allra skoðana, þjóna og kenna framleiðendum eins og þeir væru mínir bestu vinir. Umfram allt skiptir samt mestu að halda ætíð ró sinni, á hverju sem gengur. Það er mikilvægt í þessu starfi að geta talað við fólk,“ segir Kristján. Eftir að Guðmundur lét af störfum lagðist neyðarviðgerðarþjónustan af og starf Kristjáns snerist þá einkum um eftirlit og ráðgjöf, „en ég gríp af og til í skrúfjárnið og laga sjálfur það sem laga þarf heima á býlunum hafi ég viðeigandi varahluti meðferðis, með því geta bændur sparað sér kaup á aðkeyptum iðnaðarmönnum“. Mikil reynsla sem ég bý að alla tíð Kristján nefnir einnig til sögunnar Ólaf Jónsson dýralækni, núverandi héraðsdýralækni á Norðurlandi eystra, en hann kom til starfa hjá Mjólkursamlaginu fyrir tæpum aldarfjórðungi, fyrst til að sinna sér- stöku átaks- og rannsóknarverkefni í tengslum við júgurbólgu. „Hann var ómetanlegur kennari, af honum lærði ég mikið,“ segir Kristján „og með okkur þróaðist traust og náin vinátta sem haldist hefur alla tíð.“ Með Ólafi starfaði hann að júgurbólguverkefninu og var farið á nær alla bæi á samlagssvæðinu til rannsóknar- og ráðgjafastarfa. „Það er fyrst og fremst Ólafi og þessu átaksverkefni að þakka hversu vel ég þekki nú orsakir, afleiðingar og smitgengi þessa sjúkdóms. Við fórum í nokkur hundruð heimsóknir í allt, Ólafur sá um skoðanir kúnna og ég ritaði allt niður jafnóðum. Við tókum mörg þúsund sýni og heimsóttum bændur svo aftur með niðurstöður og ræddum þær sem og viðeigandi aðgerðir sem unnt væri að grípa til. Ég hlustaði ótal sinnum á Ólaf ráðleggja bændum og kunni orðið utanbókar ýmislegt sem hann ráðlagði. Þetta var mikil reynsla fyrir mig sem ég bý að alla tíð.“ Ólafur varð síðar gæðastjóri samlagsins og störfuðu þeir Kristján því áfram saman í mörg ár að gæðamálum mjólkuriðnaðarins. Ekki óvinveitt mjólkurlögga Líkt og fram kemur í orðinu felst starf mjólkureftirlitsmanns í eftirliti og ráðgjöf og að benda bændum á það sem betur má fara, „sumir myndu kalla þetta hálfgert nöldurstarf og lítt til vinsælda fallið að koma heim á bæi með alls konar ábendingar um hvernig gera megi betur. Það þarf töluverða lagni í samskiptum í þessu starfi, að geta boðið fram aðstoð sína og leiðbeiningar án þess að móðga eða að bændum finnist við vera að stíga á tærnar á þeim. Sem betur fer hef ég komist vel í gegnum þetta, það hefur ekki hlaupið snurða á þráðinn á milli mín og framleiðenda öll þessi ár og fyrir það er ég þakk- látur. Ég held að það skipti máli að ég vel að fara ávallt mjúku leiðina, skapa gagnkvæmt traust og ég kem ekki heim á bæina sem óvinveitt mjólkurlögga, þvert á móti.“ Hagsmunir beggja að leiðarljósi Kristján kveðst kinnroðalaust geta sagt að hann hafi ævinlega hagsmuni beggja að leiðarljósi, samlagsins og framleiðendanna. „Erfiðast hefur mér þótt þegar bændur eru ekki sáttir við niðurstöður úr tankprufu og þá reynir á að finna lendingu. Í mínum huga er það mikið atriði að bóndinn beri traust til mjólkur- iðnaðarins og þá þarf iðnaðurinn ekki síður að teysta bændum. Það eru allir ávallt að gera sitt besta, framleiðendur, samlagið og starfs- fólkið þar, mjólkurbílstjórarnir og starfsfólk á rannsóknarstofu. Við megum þó aldrei falla í þá gryfju að halda að ekkert geti farið úrskeiðis, að allt sé fullkomið,“ segir Kristján. Sérviskan skilað góðum árangri Hann segist stundum heyra að hann hafi vanið bændur á alls kyns vit- leysu og taki sér aldrei frí. „Þetta er þannig starf að maður þarf nánast að vera á vaktinni allan sólarhringinn, það eru mjaltartímar alla daga og á mjaltaþjónabúunum stendur hann allan sólarhringinn. Það getur alltaf eitthvað komið upp á og bændur verða að geta náð í eftirlitsmanninn og fengið hjá honum ráð um það sem upp á hefur komið. Ég hef þá skoðun að ef maður er almennilegur og greiðvikinn við bændur þá komi þeir fram við mann á sama hátt,“ segir Kristján. „Mér hefur alltaf samið vel við bændur, sjálfstæði mitt í starfi og traust sem byggst hefur upp á milli okkar í áranna rás er forsenda þess hversu vel mér hefur gengið með mjólkur- gæðamálin. Eflaust er ég þó nokkuð þver og læt ekki vel að stjórn, vil fara mínar eigin leiðir og sem betur fer hefur mér oft tekist að sýna að mínar leiðir og sérviska hafa skilað góðum árangri.“ Fæ eflaust hastarleg fráhvarfseinkenni Kristján segist svo lánsamur að hafa starfað með skemmtilegu fólki og það geri starf hans léttara. „Þeir kúabændur sem ég hef kynnst eru allir mikið sómafólk og þeir hafa gert mér lífið og vinnuna léttari, mannkostir þeirra, traust og vinátta hafa gert að verkum að þetta starf er mjög skemmtilegt og gefandi,“ segir Kristján. „Ég hugsa að ég fái hastarleg fráhvarfseinkenni þegar ég hætti og hitti ekki lengur allt þetta góða fólk reglulega.“ Kristján útilokar ekki að hann gefi á sér færi verði leitað eftir ráðum varð- andi úrlausn mála. „En ég mun á næst- unni taka svona mánuð í að heimsækja og sníkja kaffi hjá gömlum vinum mínum sem hættir eru að framleiða mjólk, þá hef ég vanrækt undanfarið mér til háborinnar skammar,“ segir hann og notar tækifærið og þakkar bændum á sínum svæðum frábæra samvinnu undanfarna áratugi. /MÞÞ Kristján lætur af störfum um næstu mánaðamót, en hann hefur starfað við mjólkureftirlit í alls 32 ár. Fyrir tveimur árum greindist hann með Parkisonsjúkdóminn sem dregið hefur úr starfsþreki hans og gerir að verkum að hann lætur af störfum nokkur áður en hann kemst á aldur. Myndir / MÞÞ byggst hefur upp á milli okkar í áranna rás er forsenda þess hversu vel mér hefur gengið með mjólkurgæðamálin,“ segir Kristján sem hér er með Guðmundi Gylfa Halldórssyni bónda á Breiðabóli. Dekkjainnflutningur Viltu spara Eigum á lager flestar stærðir traktors, vagna og vinnuvéladekkja á góðu verði. Einnig mikið úrval fólksbíla og jeppadekkja á lager, 10% aukaafsláttur. Vorum að fá sendingu af vörubíladekkjum, 22.5" Verðdæmi: Skotbómulyftaradekk 405/70-24 kr. 116.000 m/vsk Traktorsdekk 380/70 R24 kr. 109.000 m/vsk Traktorsdekk crossply 16,9-34 kr. 122.000 m/vsk Verð gildir á afhendingastöðvar Landflutninga um allt land. Jason ehf Hafnarstræti 88 Akureyri Vinsamlegast hafið samband við Ármann Sverrisson 896-8462 - e-mail manni@gott.is Tryggva Aðalbjörnsson 896-4124

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.