Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 12

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 12
Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 201312 Fréttir Af jörðu – Íslensk torfhús eftir Hjörleif Stefánsson Torfhúsin hafa margþætt menningarlegt gildi Í byrjun júlímánaðar sl. var bókin Af jörðu – íslensk torfhús, eftir arki- tektinn Hjörleif Stefánsson, gefin út af Crymogeu bókaútgáfu. „Ég hef lengi tengst vinnu og viðhaldi á íslenskum torfbæjum og því má segja að aðdragandi bókarinnar sé orðinn nokkuð langur,“ segir Hjörleifur. „Fljótlega eftir að ég kom heim að loknu námi í Noregi, eða um 1977, tók ég að vinna að verkefnum fyrir Húsafriðunarnefnd og Þjóðminjasafnið sem tengjast torfbæjum. Þó má segja að áhugi minn á þessu nái alveg aftur á námsárin en í náminu mældi ég og teiknaði Galtastaði fram í Hróarstungu, sem er einn af torfbæjunum sem Þjóðminjasafnið hefur tekið til varðveislu. Um þessa bók byrjaði ég hins vegar að hugsa upp úr árinu 2000. Í nokkur sumur þar á eftir ferðaðist ég um landið gagngert í þeim tilgangi að skoða torfbæi og taka af þeim myndir. Það var svo fyrir um þremur til fjórum árum að ég settist niður til að skrifa þennan texta af alvöru. Ég leitaði til Crymogeu bókaútgáfu, sem leggur metnað sinn í að gefa út fallegar bækur, og þar var samþykkt að gefa bókina út. Þetta snýst nefnilega að hluta til um að vekja athygli manna á fegurð torfbæjanna í landslaginu. Frá upphafi búsetu á Íslandi og fram á 20. öld Hjörleifur leggur áherslu á mikilvægi torfhúsanna í menningarsögulegu samhengi. „Þessi þjóð bjó í torf- húsum alveg frá upphafi búsetu á Íslandi og fram á 20. öld. Langflest hús voru öldum saman úr torfi. Hver maður varð að geta bjargað sér og menn byggðu sér úr því efni sem hendi var næst. Við þau veðurfars- skilyrði sem eru á Íslandi, þá er það einfaldlega þannig að torfið var algjört undra byggingarefni; veitti skjól fyrir vindi og einangraði gegn kulda. Það er í raun ekki auðvelt að ímynda sér hvernig Íslendingar hefðu komist af á þessu landi ef ekki hefði verið torfið. Sagt er að landið hafi verið skógi vaxið, en það hefur náttúrlega verið lágvaxinn skógur og ekki mikið af stórviði til að byggja úr. Menn hafa getað notað hann sem minniháttar máttarvið, hrís á þekju og fleira þess háttar, en varla mikið meira. Rekaviðurinn hefur hins vegar alltaf skipt miklu máli. Jafnvel þótt menn hefðu haft timbur – eins og menn höfðu til að mynda í Noregi – hefðu menn líka byggt torfhús. Í Norður-Noregi byggðu menn torf- hús allt fram á 19. öld – einfaldlega af því að þau einangruðu vel. Um það leyti sem Ísland byggðist voru ofnar að koma til sögunnar í Noregi og menn fóru að hita híbýli sín með þeim. Það gerist um svipað leyti og ný húsagerð ryður sér þar til rúms, svokölluð stokkahús. Þá gátu menn byggt hús úr tréstokkum sem raðað var upp og læst saman á sérstakan hátt á hornunum. Í þessum húsum voru ofnar til upphitunar. Það krafðist þess að menn hefðu eldivið og þessi hús voru aldrei algeng hér á landi þó það séu til einstök dæmi um þess háttar stofur.“ Engin tvö torfhús eins Torfhús tíðkuðust einnig í öðrum nágrannalöndum okkar, en Hjörleifur segir að blæbrigðamunur hafi verið á byggingarstílnum á milli landa – og raunar hafi hvert hús verið ein- stakt. „Engin tvö torfhús voru eins. Eiginleikar hvers og eins réðust af landkostum og gróðurfari á hverjum stað. Meira að segja hér innanlands voru hús með mjög mismunandi hætti. Svo er það merkilega – og það kemur vel fram í bókinni – hversu torfhús voru algeng í nágrannalönd- unum miklu lengur en fólk hafði gert sér grein fyrir. Í Skotlandi t.d. var aragrúi af torfhúsum fram á 20. öld. Það sama á við um Norður-Noreg. Skoskir bændur voru flestir leiguliðar og höfðu aðeins samning til skamms tíma. Þeir þurftu þó sjálfir að byggja hús sín en þessi stutti leigutími olli því að þeir reistu sér gjarnan torfhús frekari en varanlegri hús úr steini eins og land- eigendur gerðu.“ Torf, grjót og timburgrind „Flest torfhús eru gerð af veggjum úr torfi og grjóti. Þannig er hlaðin upp tóft og inni í henni stendur timbur- grind sem oft á tíðum er þiljuð að innan, til dæmis í baðstofum og í híbýlum manna,“ útskýrir Hjörleifur. „Í öðrum húsum er óþiljað, svo sem eldhúsum, göngum, smiðjum o.s.frv. Timburgrindin ber uppi máttarviði þaksins og þar ofan á er svo torf- þekja. Hvernig þessi grind er gerð er svolítið breytilegt frá einum tíma til annars og einnig þekjan. Sums staðar eru bara sperrur og svokallað árefti sem hvílir á þeim. Áreftið gat verið með ýmsum hætti; stundum hrís ofan á og torfið svo ofan á því. Á enn öðrum stöðum notuðu menn melgresi undir torfið í staðinn fyrir hrís. Þegar líða tók á 19. öldina breyttust svo húsin eitthvað eftir því sem ný byggingarefni komu til sögunnar. Fyrst kom tjörupappinn, um 1840, og svo bárujárnið nálæg 1880. Þannig voru torfhúsin löguð að tækniframförunum. Meira að segja þegar rafmagnið kom til sögunnar þá voru torfbæirnir rafvæddir. Á fyrstu áratugum 20. aldar voru vatns- og fráveitur lagðar í þessi hús. Á seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20. þegar kolaofnar voru komnir til sögunnar þá voru þeir náttúrlega teknir í notkun líka í torfbæjunum. Reykháfar og eldavélar voru tengdar við og herbergjaskipan fór að breytast mjög í samræmi við þetta.“ Helmingur þjóðarinnar bjó enn í torfhúsum árið 1914 Fram kemur í bókinni að árið 1914 hafi um það bil helmingur þjóðarinnar enn búið í torfhúsum. „Upp úr því verða mjög hröð umskipti á húsa- kosti Íslendinga,“ segir Hjörleifur. „Timburhúsin komu nokkuð áður inn í myndina en steinsteyptu húsin koma meira upp úr aldamótunum. Þó var það þannig að áfram var haldið að byggja torfhús og töluvert lengur. Íhaldssamir bændur héldu því áfram, alveg fram undir 1920- 30, þeir sem voru haldnir þjóðlegri rómantík. Mig minnir að seinasta torfhúsið sem nefnt er í bókinni hafi verið byggt skömmu eftir 1940. Flest merkustu torfhúsin okkar sem hafa varðveist eru undir verndarvæng Þjóðminjasafnsins. Það má segja að þau séu um allt land, þó flest séu á Norðurlandi. Stærstu bæirnir eru Glaumbær, Laufás, Grenjaðarstaðir, Burstafell og Keldur. Svo má nefna Þverá í Laxárdal, Galtastaði fram í Hróarstungu, Núpsstað, Selsbæinn í Skaftafelli ofl. Þessir bæir voru flestir teknir til varðveislu þegar mönnum varð helst starsýnt á stærstu og glæsi- legustu bæina. Maður saknar svolítið í þessu samhengi híbýla almúgafólks – en á þessum tíma þótti ekki mikilvægt að varðveita slíkt. Enn eru þó uppistand- andi slík torfhús frá því undir lok 19. aldar eða um aldamótin og enn hægt að bjarga þeim.“ Fagurfræðilegt gildi Í huga Hjörleifs hafa torfhúsin marg- þætt menningarlegt gildi. „Þessi torf- hús sem við eigum enn eru áþreifan- legustu og skýrustu menjarnar um híbýlamenningu okkar – og allir aðrir þættir menningarinnar bera keim af henni. Hún er þannig mjög mótandi fyrir okkar menningu. Í nágrannalöndum okkar eru ekki til menjar af þessum toga þótt torfhús hafi verið þar algeng fram á 19. öld – sem er stórmerkilegt! Við höfum þeim skyldum að gegna að varð- veita þessar menningarminjar, auð- vitað fyrir okkur sjálf en ekki síður fyrir heimsbyggðina sem innlegg í heimsmenninguna, þar sem þetta er hvergi til annars staðar en hérna. Það er reyndar svo að það er starfandi nefnd á vegum menntamálaráðu- neytisins, undir forystu Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar, sem er að vinna að því að fá þennan menningararf skráðan á heimsminja- skrá UNESCO. Að því að ég best veit er þar um að ræða torfhúsamenn- inguna í heild sinni. Svo er annar þáttur – sem mér er einnig mjög hugleikinn – en það er fag- urfræðilegt gildi torfhúsanna. Þau eru byggð úr jarðvegsefnum sem fengin eru á þeim stað þar sem þau standa. Fyrir vikið falla þau að landslaginu á annan hátt en hús sem eru reist úr fram- andi efnum. Þau verða hluti af lands- laginu. Ég trúi að arkítektar geti lært mikið af því að gefa þeim eiginleika gaum – hvernig við getum byggt hús sem eru samboðin því landslagi sem þau standa í. Tilgangurinn með bókinni er einmitt öðrum þræði að vekja athygli á þessu. /smh Mynd / smh Mynd / Guðmundur Ingólfsson

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.