Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 30

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 2013 Ferðamönnum fjölgar og það verður æ vinsælla að ganga um landið. Styrking innviða vegna þessarar ört vaxandi atvinnugreinar gengur hægar en skyldi. Síðasta ríkisstjórn stofnaði Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og hugðist afla honum tekna með gistináttagjaldi. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða, tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Einnig að fjölga viðkomustöðum ferðafólks og draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði. Enn er óljóst hvað núverandi ríkisstjórn gerir í þessu mikilvæga máli. Ótal aðilar hafa lagt eitthvað af mörkum við að styrkja innviði ferðaþjónustu, ekki síst ferðaþjónustufyrirtæki og ferðafélög. Um daginn gekk undirritaður, ásamt fleirum, Laugaveginn frá Landmannalaugum til Þórsmerkur, einnig yfir Fimmvörðuháls milli Skóga og Þórsmerkur, og dvaldi á Þórsmörk nokkra daga. Á þessum fjölförnu gönguleiðum sá ég víða jarðvegseyðingu vegna umferðar göngufólks og fylgdist einnig með sjálfboðaliðum vinna að því að koma í veg fyrir slíka eyðingu og um leið að greiða götu göngufólks. Einnig sá ég hvernig stór svæði eru að gróa upp, sem bæði er árangur landgræðslu og sjálfsáningar birkis og víðis. Götur breytast í vatnsfarvegi Íslenskur jarðvegur er að miklu leyti gerður úr eldfjallaösku (gjósku) og er því laus í sér og honum hættir til að rofna og fljóta eða fjúka burt. Gróðurþekjan bindur hann og þar sem hún rofnar er voðinn vís. Það gerist einmitt í götum sem fólk og fénaður myndar með traðki sínu. Í halla leitar vatn í slóðirnar og skolar burt jarðvegi þannig að göturnar dýpka og breytast í vatnsfarvegi. Þannig götur verða illfærar göngufólki, svo það myndar nýja slóð við hliðina. Oftar en ekki kemst vatn einnig í nýju götuna og grefur hana líka niður og í þurru veðri tekur vindurinn við. Þannig myndast ljót rofsár eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Hvað er til ráða? Birkið er duglegt að sá sér Við gengum m.a. margumrædda Almenninga, sem styr stendur um hvort skuli beita. Við sáum þar tilsýndar nokkrar lambær á beit á nýsánu og ábornu grasi. Þarna hefur verið sáð í og borið á stór gróðursnauð holt og hæðir og myndast þar grashýjungur sem féð sækir í. Hér verður ekki tekin afstaða til hvort beit þessi sé réttlætanleg, en þar hlýtur að skipta máli hvort bændurnir fjármagna sjálfir uppgræðsluna eða hvort hún er kostuð af almannafé. Einnig skiptir máli hve mörgu fé er beitt þarna, í hve margar vikur að sumrinu og í hve miklum mæli það leggst á birkinýgræðinginn. Birki sáir sér sjálft í þann gisna svörð sem uppgræðslan myndar og það gladdi okkur að sjá í hve ríkum mæli birki nemur land um allt þetta stóra svæði, einkum á svonefndri Kápu nálægt Hamraskógum og Þórsmörk. Þarna þarf tvennt til: gríðaröflugan birkifræbanka í Þórsmörk og að yfirborð auðnarinnar sé bundið með gisnu grasi, en ef það verður of þétt nær birkifræið ekki að spíra. Einnig var þarna talsvert af víði og dálítið af eini. Flestar trjáplönturnar voru smáar en vöxtulegar hríslur innan um. Það var flott að sjá þetta stóra svæði vera hægt og bítandi að breytast í kjarrlendi, en þegar ég fór þarna síðast fyrir 20 árum man ég ekki eftir að hafa séð trjáplöntur. Erlendir sjálfboðaliðar Í Þórsmörk kynnti ég mér starf erlendra sjálfboðaliða við að stöðva jarðvegsrof á gönguleiðum og jafnframt að gera stígana þægilegri og öruggari fyrir göngufólk. Frumkvöðullinn og verkstjórinn heitir Chas Goeaman. Hann er breskur og lærði til verka hjá bresku sjálfboðaliðasamtökunum BTCV sem starfað hafa frá því upp úr 1950. Hin íslensku Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd (Sjá) sem starfað hafa frá 1986 eru sprottin úr þeim sama breska jarðvegi. Tilgangurinn er að vernda náttúruna og gera hana jafnframt aðgengilegri og auðskiljanlegri fólki. Einnig að gefa sjálfboðaliðunum jákvæða náttúruupplifun og samveru. Við vorum þarna nokkur frá íslensku samtökunum í fáeina daga að aðstoða þessa góðu gesti okkar og einkum þó að kynna okkur starf þeirra og læra af þeim. Chas kom upphaflega til Íslands sem sjálfboðaliði en starfaði síðan hjá Umhverfisstofnun í áratug við það að skipuleggja og stýra vinnu erlendra sjálfboðaliða að náttúruvernd í þjóðgörðum og friðlöndum í umsjón stofnunarinnar. Hann hætti þar fyrir tveimur árum og fór að vinna að nýju verkefni í Þórsmörk á vegum Skógræktar ríkisins sem hefur umsjón með svæðinu. Einnig koma þar við sögu Vinir Þórsmerkur með fjárstyrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og fleirum, og margs konar aðstoð ferðaþjónustuaðila í Þórsmörk. Chas er í Þórsmörk í allt sumar með u.þ.b. 20 sjálfboðaliða og dvelur hver þeirra allt frá tveimur og upp í sex vikur. Um er um að ræða ungt og öflugt fólk, flest rúmlega tvítugt, margt við háskólanám eða nýútskrifað. Þau sækjast eftir að koma og kosta ferðir sínar sjálf. Þau búa í tjöldum í Langadal og matbúa við frumstæðar aðstæður sitt eigið fæði en fá skaffað hráefni. Þau eru flest borgarbörn og öðlast þarna sérstaka lífsreynslu í mjög nánum tengslum við íslenska náttúru. Það ríkti þægilegur samhjálparandi í hópnum og vinnugleði. Vinnubrögðin voru öguð og fumlaus. Chas lagði línurnar og hafði sem flokkstjóra fólk sem hafði öðlast reynslu af svona störfum. Allt þeirra starf beindist að gönguleiðum enda kallast verkefnið Thórsmörk Trail Volunteers, með eigin vefsíðu. Allt unnið með handverkfærum Reynt er að láta það sem gert er vera lítið áberandi og stígana það aðlaðandi og þægilega að göngufólk noti þá frekar en að ganga utan þeirra. Að mestu leyti er notað efni af staðnum. T.d. grisjaði Skógræktin skógarlundi í Þórsmörk til að fá trjávið og greinar til að hefta jarðvegsrof og byggja þrep í stígana. Grasrót og jarðvegur sem taka þarf úr stíg er notað í að fylla upp í farveg sem vatn hefur grafið. Allt er unnið með handverkfærum og vandað til verka. Víða á fjölförnum stígum eru leifar af þrepum sem ekki hafa staðist álagið og gera lítið gagn, jafnvel ógagn. Á leiðinni af Fimmvörðuhálsi niður á Goðaland sáum við mörg ónýt þrep sem fólk virðist hafa byggt af góðum hug en vanþekkingu. Þar bregst gjarnan að reikna með rofmætti rennandi vatns og að stýra vatnsrennsli þannig að það skemmi ekki stíginn og valdi jarðvegseyðingu. Chas og hans fólk kann skil á þessu. Þeirra fyrsta verk á hverjum stað er gjarnan að dreifa vatnsrennsli þannig að það nái ekki að safnast í nógu öflugan straum til að hrífa með sér jarðveginn úr stígunum. Þetta er gert með sérstökum vatnsrásum (dren) og er vandi að staðsetja þau og byggja rétt. Oftast er notað til þess grjót en stundum viður. Stundum þarf að færa götuna til að hægt sé að tjónka við vatnið. Þessir ungu erlendu gestir okkar eiga skilið hól og heiður fyrir það sem þeir gera. Við Íslendingar eigum að læra af þeim og virkja og mennta íslensk ungmenni til slíkra verka. Við í Sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd (Sjá) vinnum að því og skipuleggjum styttri ferðir og afmarkaðri verkefni fyrir Íslendinga. Okkur hefur hin síðari ár ekki gengið sem skyldi að ná til unga fólksins. Á því viljum við ráða bót og þiggjum alla aðstoð við það. Þorvaldur Örn Árnason, líffræðingur og formaður Sjálfboðaliðasamtaka um náttúruvernd (Sjá). Stöðvum jarðvegseyðingu af völdum ferðamanna Yfirlit um framleiðslu og sölu ýmissa búvara í júlí 2013 BRÁÐABIRGÐATÖLUR JANÚAR júlí 2013 2013 maí 2013- júl. 2013 ágúst 2012- júlí 2013 Breyting frá fyrra tímabili, % Hlutdeild % Framleiðsla júlí 2012 3 mán. 12 mán. m.v. 12 mán. Alifuglakjöt 742.248 2.007.884 7.936.668 9,4 1,6 3,5 26,7% Hrossakjöt 45.763 107.930 1.452.767 -27,2 -37,9 22,1 4,9% Nautakjöt 330.564 1.042.750 4.248.421 8,4 5,1 3,7 14,3% Kindakjöt 0 0 9.927.475 0,0 -100,0 3,2 33,5% Svínakjöt 611.745 1.622.242 6.107.992 19,6 12,5 4,1 20,6% Samtals kjöt 1.730.320 4.780.806 29.673.323 11,1 4,3 4,3 Sala innanlands Alifuglakjöt 728.344 2.007.322 7.928.879 6,8 -0,7 5,1 31,9% Hrossakjöt 58.560 140.541 602.730 125,2 21,5 7,7 2,4% Nautakjöt 357.041 1.088.060 4.262.960 15,4 8,8 4,0 17,1% Kindakjöt * 513.591 1.361.992 6.453.034 3,3 -11,3 -0,3 25,9% Svínakjöt 589.502 1.466.894 5.625.952 15,6 0,0 -0,6 22,6% Samtals kjöt 2.247.038 6.064.809 24.873.555 11,0 -1,2 2,2 * Sala á kindakjöti pr. mánuð er sala frá afurðastöðvum til kjötvinnsla og verslana. Innflutt kjöt Árið 2013 Árið 2012 Tímabil janúar - júní Alifuglakjöt 392.924 287.635 Nautakjöt 53.638 52.173 Svínakjöt 243.638 147.266 Aðrar kjötvörur af áðurtöldu 24.433 17.793 Samtals 714.633 504.867 Framleiðsla og sala búvara í júlí Framleiðsla kjöts var 11,1% meiri í júlí en í sama mánuði í fyrra. Er það einkum svína- og alifuglakjötsframleiðsla sem stendur að baki þeirri aukningu. Síðastliðna 12 mánuði nam framleiðsluaukning 4,3% og má einkum rekja til mikillar slátrunar hrossa síðastliðið haust. Sala á kjöti var 11% meiri í júlí en í sama mánuði í fyrra eða rösk- lega 172 tonn af kjöti og er aukning í öllum kjöttegundum, þó minnst í kindakjöti 3,3%. Síðastliðna 12 mánuði hefur kjötsala aukist um 2,2%. /EB Lagfærður stígur í brekku nálægt Sönghelli í Húsadal. Mynd / Þorvaldur Örn Uppfylling í djúpum vatnsfarvegi sem myndast hefur þegar vatn rann eftir göngustíg. Mynd / ÞÖ Búið að leggja vatnsrásir (dren) í göngustíg. Kemur í veg fyrir að vatn renni eftir stígnum. Mynd / ÞÖ Þessi brekka á Almenningum er hluti af Laugaveginum. Hér rennur vatn eftir götunni. Hún hefur verið færð til en vatnið eyðileggur nýju slóðina. Mynd / Ragnheiður Elísabet Jónsdóttir Víða á Almenningum er trjágróður að sækja í sig veðrið. Í bakgrunni er Einhyrningur, handan Markarfljóts. Mynd / Ragnheiður Elísabet Jónsdóttir

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.