Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 2013 Öll barrtré eða barrviðir teljast til þeirrar fylkingar plantna sem kölluð er berfrævingar. Berfrævingar eru sérfylking plantna og eiga það sameiginlegt að skorta blómhlíf og aldinin eru könglar eða ber. Flest eru barr- trén sígræn. Sígrænar plöntur eru vinsælar í garðinum, sérstaklega á veturna, enda er græni liturinn bæði hlýlegur og róandi. Í þessum og næsta hluta umfjöllunarinnar um barrtré verður sagt frá nokkrum algengum ættkvíslum og tegundum innan þeirra sem flestar hafa reynst vel hér á landi eða lofa góðu. Mismunandi ættkvíslir og tegundir barrviða geta verið mjög ólíkar í útliti. Þær eru allt frá því að vera margra tuga metra há tré niður í jarðlæga runna. sem þrífast við margs konar aðstæður, og flestar þeirra ná háum aldri. Nauðsynlegt er að skýla flestum barrviðum fyrstu veturna. Einir Forn trú segir að afstýra megi húsbruna með því að hafa eini í húsinu. Einirinn var notaður sem jólatré í eina tíð. Séra Björn í Sauðlauksdal segir í Grasnytjum að gott sé að sjóða seyði úr nýjum einisprotum og drekka eins og te. Enn betri eru þó þroskuð ber drukkin sem kaffi, auk þess sem brennivín sem hellt er yfir ristuð einiber verður að hollum brjóstdropum. Einir (Juniperus). Ættkvísl ríflega 50 tegunda sem vaxa um allt norðurhvelið, í Norður- Ameríku, Evrópu, Asíu og niður eftir austurströnd Afríku. Er ein útbreiddasta trjáplanta heims. Allt frá jarðlægum runnum upp í 40 metra há ein- eða margstofna tré. Harðgerðar og skuggþolnar plöntur sem gera litlar kröfur til jarðvegs og eru að mestu lausar við sjúkdóma og vanþrif. Barrið og viðurinn ilmandi. Einir (J. communis). Eina barrtréð sem vex villt á Íslandi. Jarðlægur og kræklóttur runni en getur náð 1½ metra hæð. Stofninn brúnn og flagnar með aldrinum. Barrið grænt, útstætt og stinnt. Berin græn í fyrstu en verða síðan dökkblá. Nægjusamur og hægvaxta runni sem hentar sem þekjuplanta á litlum blettum. Fjöldi yrkja í ræktun, til dæmis „Compressa“ sem er kúlu- laga dvergeinir, „Green carpet“ og „Nana Hustad“ sem eru skriðulir. Himalajaeinir (J. squamata). Heimkynni í Himalaja-fjöllum. Runni eða tré sem getur náð 12 metra hæð. Stofninn með langar greinar sem flagna. Barrið grænt, stinnt og stingandi. Berið svart, lítið og egglaga. Mjög dugleg tegund hér á landi sem gerir litlar kröfur til jarðvegs. Meðal yrkja í ræktun eru „Meyeri“ sem getur náð 2 metra hæð, „Blue Carpet“ sem er 20 til 30 sentímetrar á hæð með stálblátt barr sem fær rauðan blæ á veturna, „Blue Star“ sem er kúlulaga og þétt með vaxtarlag smárunna, og „Holger“ sem er lágvaxinn og breiður með ljósgulan nývöxt. Kínaeinir (J. chinensis). Uppruni í Kína. Tré eða runni sem getur náð 20 metra hæð. Greinarnar grannar. Barrið tvenns konar, aðfellt og hreisturkennt eða kransstætt og hvasst. Meðal yrkja í ræktun eru „Blaauw“ sem er þéttvaxinn runni, 1,5 til 2 metrar á hæð, barrið blágrátt og greinarnar útsveigðar, og „Mint Julep“ sem er lágvaxinn og breiður runni með langar og uppsveigðar greinar. Klettaeinir (J. scopulorum). Heimkynni í Norður-Ameríku og vex sem einstofna tré sem nær 20 metra hæð. Börkurinn brúnn eða gráleitur. Barrið ljós- eða blágrænt, aðfellt og gagnstætt. Kýs þurran og kalkríkan jarðveg. Yrkið „Blue Arrow“ með súlulaga vöxt. Sjaldgæfur hér. Sabínueinir (J. sabina). Vex villtur í Evrópu og Asíu. Mjög breytileg tegund. Jarðlægur og breiðvaxinn eða upprétt tré sem getur náð 12 metra hæð. Börkurinn rauðbrúnn og flagnar. Barrið ljós- eða dökkgrænt og nálarlaga. Sjaldgæfur en hefur reynst vel. Skriðeinir (J. horizontalis). Ættaður frá Norður-Ameríku. Lágvaxinn runni sem getur teygt sig upp í eins metra hæð við góðar aðstæður. Barrið blágrænt og útstætt. Berin blá. Meðal yrkja í ræktun eru „Andorra Compact“ og „Prince of Wales“ sem bæði eru skriðul, 20 til 30 sentímetrar á hæð. Barrið fær rauðleitan blæ yfir veturinn. Greni Skaðvaldar á greni eru sitkalús sem leggst aðallega á amerískt greni á haustin. Grenisprotalús klekst út á vorin og sýgur næringu úr ársprotum síðasta árs svo þeir verða gulir. Köngullingur er mítill sem sýgur næringu úr barrinu þannig að á það koma rauðgulir blettir. Greniryðsveppur lýsir sér með ljósgrænum blettum á yngsta barrinu. Greni (Picea) Fjölbreytt ættkvísl með 40 til 80 tegundum sem vaxa á norðurhveli og í Himalaja-fjöllum. Erfitt hefur reynst að greina ættkvíslina niður í tegundir vegna þess hve erfðabreytileiki hennar er mikill. Sígræn og keilulaga, yfirleitt stór og tvíkynja tré með kransstæðar greinar. Bolurinn hrjúfur og barrið stakstætt. Dafna best í rökum, súrum og næringarmiklum jarðvegi. Blágreni (P. engelmannii). Ættað úr fjöllum í norðvestanverðri Norður- Ameríku. 50 til 60 metrar á hæð og getur orðið 250 ára. Uppmjótt og keilulaga tré. Greinarnar þéttar og niðursveigðar frá stofni og lykta eins og kattahland séu þær nuddaðar. Barrið blágrænt, ferstrent og mjúkt. Könglarnir egglaga. Harðgert tré sem dafnar vel og hefur náð 20 metra hæð og myndað frjó fræ. Skuggþolið. Úr barrinu má brugga C-vítamínríkan bjór. Broddgreni (P. pungens). Kemur frá Klettafjöllum Norður-Ameríku og getur orðið 50 metrar á hæð í heimkynnum sínum. Svipar til blá- grenis í vexti. Börkurinn hrjúfur. Greinarnar láréttar eða lítillega niðursveigðar og síðan uppréttar á endanum. Barrið blágrænt, stinnt og stingandi. Viðkvæmt og sjaldgæft. Hvítgreni (P. glauca). Heimkynni í norðurhluta Norður-Ameríku og getur náð um 40 metra hæð. Langlíf tegund sem getur náð 600 ára aldri. Þéttvaxið og keilulaga tré með grábrúnan stofn og grunnt rótarkerfi. Greinarnar láréttar út frá stofninum. Barrið blágrænt, greinarnar sveigðar og stinnar og minnir ilmurinn af þeim á sólber eða kattahland. Könglarnir aflangir og hafa myndað fræ hér á landi. Skuggþolið og seinvaxið en gerir litlar kröfur til jarðvegs. Indíánar töldu það góða vörn gegn illum öndum að sofa undir hvítgreni og notuðu barr, börk og trjákvoðu þess til lækninga. Kákasusgreni (P. orientalis). Upprunnið í Kákasus og getur orðið allt að 60 metra hátt. Mjóvaxið og keilulaga tré. Barrið stutt, dökkgrænt og glansandi. Sjaldgæf tegund sem ætti að gefa meiri gaum. Rauðgreni (P. abies). Heimkynni í Mið- og Norður-Evrópu. Getur náð 60 metra hæð og nokkur hundruð árum í aldri. Einstofna með rauð- brúnan stofn sem flagnar í þunnar flögur. Greinarnar breytilegar, láréttar eða slútandi. Barrið dökk- grænt, stinnt og stingandi og gulnar á veturna. Könglarnir stórir, aflangir og keilulaga. Ilmar vel. Skuggþolið og gott garðtré á góðum stað en hentar betur í sumarbústaðalóðina. Sitkabastarður (P. × lutzii). Kynblendingur af sitkagreni og hvítgreni. Er upprunninn frá Norður-Ameríku þar sem tréð nær 30 metra hæð. Ber einkenni beggja foreldra og getur því verið mjög breytilegt í útliti. Harðgerð tegund hér sem hefur myndað fræ. Sitkagreni (P. sitchensis). Uppruni á vesturströnd Norður-Ameríku þar sem það vex sem runni eða tré sem hefur hæst mælst 95 metrar. Langlíft og getur orðið 700 ára. Vex eins og breið keila. Rótarkerfið grunnt. Greinarnar grannar en stinnar. Barrið dökkgrænt og gljáandi, stinnt, hvasst og stingandi. Flatvaxið eða þrístrent. Könglarnir aflangir og mynda frjó fræ. Skugga- og saltþolið og þolir vel klippingu. Dafnar best í frjósömum, rökum og súrum jarðvegi. Kraftmikil og harðgerð tegund sem hentar ekki í litla garða en fer vel á stórum lóðum eða í skjólbelti. Brennur iðulega í vorsólinni og sitkalús á það til að ganga nærri því á hlýjum vetrum. Skrápgreni (P. asperata). Kemur frá Kína þar sem það verður allt að 45 metra hátt. Greinarnar langar og uppsveigðar. Barrið grágrænt, hvassyddað og stendur í allar áttir. Þrífst best í sendnum leirjarðvegi og gerir ekki miklar kröfur til sýrustigs. Saltþolið en þrífst illa í skugga, seinvaxið en þolir vind ágætlega. Svartgreni (P. mariana). Vex sem tré eða runni í freðmýrum í Norður- Ameríku. Getur náð 30 metra hæð og 250 ára aldri. Ræturnar grunnstæðar. Greinarnar grannar og slútandi en greinaendarnir uppsveigðir. Barrið dauf- eða blágrænt, grannt, þéttstætt og stundum bogið. Könglarnir sem myndast ofarlega á trénu eru litlir og rauðbrúnir að lit. Nægjusamt, viðkvæmt og hægvaxta. Dafnar best í deigum jarðvegi. Ilmvötn og efni til bjórframleiðslu eru unnin úr barrinu. Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur Garðyrkja & ræktun Grænt í garðinum allt árið Barrtré - Fyrri hluti Ný tækni hefur verið þróuð við Háskólann í Nottingham sem gerir öllum plöntum kleift að taka til sín köfnunarefni úr and- rúmslofti. Með því má komast hjá kostnaðarsamri notkun á tilbúnum áburði, sem auk þess hefur skaðleg áhrif á umhverfið. Upptaka köfnunarefnis er nauð- synleg fyrir plöntur til að lifa og vaxa. Hins vegar hefur aðeins lítill hluti plantna, einkum belgjurtir, getu til að taka til sín köfnunarefni úr andrúmslofti. Mikill meirihluti plantna þarf að taka til sín köfnunar- efni úr jarðvegi og af þeim sökum þurfa flestar plöntur sem ræktaðar eru í heiminum að reiða sig á til- búinn köfnunarefnisáburð. Aðferðin sem beitt er gengur út á að koma bakteríum sem geta unnið köfnunarefni úr andrúmslofti fyrir í frumum róta plantnanna. Í ljós kom að ákveðin tegund slíkra baktería sem fannst í sykurreyr gat tekið sér bólfestu í frumum allra helstu nytjaplantna heimsins. Áhrif þessa á landbúnað heimsins gætu orðið gríðarleg því með þessari nýju tækni geta plöntur uppfyllt stóran hluta af þörf sinni fyrir köfnunarefni. Lykilþáttur í fæðuöryggi heimsins Að sögn prófessors Edwards Cocking sem fer fyrir verkefninu er tæknin, sem þekkt er undir nafninu „N-Fix“, hugsanlega lausn á því hvernig má brauðfæða heimsbyggðina í fram- tíðinni. „Að hjálpa plöntum að fanga köfnunarefni sem þær þurfa á að halda úr andrúmslofti með náttúru- legum hætti er lykilþáttur í lausn á fæðuöryggi heimsins. Heimurinn verður að hverfa frá síauknu trausti sínu á tilbúinn áburð, framleiddan með jarðefnaeldsneyti, með þeim kostnaði, mengun og orkusóun sem því fylgir,“ segir Edward. N-Fix er að sögn hvorki erfða- breyting né líftækni. Það er nátt- úruleg leið ákveðinna baktería til að fanga og nýta köfnunarefni úr andrúmslofti. Með því að beita aðferðinni á frumur plantna, um fræ, öðlast allar frumur plantnanna getu til að nýta köfnunarefni. Með notkun tækninnar má ná fram sjálf- bærri lausn á ofnotkun á tilbúnum áburði og köfnunarefnismengun. Verður í boði á næstu árum Notagildi tækninnar í ýmsum teg- undum nytjaplantna hefur þegar verið sannað á rannsóknarstofum. Nú er unnið að rannsóknum á vett- vangi og því starfi verður fylgt eftir með umsókn um markaðsleyfi í Bretlandi, Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og Brasilíu til að byrja með. Gert er ráð fyrir að N-Fix tæknin standi ræktendum til boða á næstu tveimur til þremur árum. Ný tækni gæti gerbreytt landbúnaði - Gerir öllum plöntum kleift að vinna köfnunarefni úr andrúmslofti Sitkagreni. Upprunnið á vesturströnd Norður-Ameríku þar sem það vex sem runni eða tré sem hefur hæst mælst 95 metrar. Langlíft og getur orðið 700 ára. Lúpína er gædd þeim eiginleika að geta unnið köfnunarefni úr andrúms- loftinu.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.