Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 34

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 2013 Jón Elvar Hjörleifsson og Finnur Aðalbjörnson tóku við búskap á Ytra-Laugalandi árið 1995. Grettir Hjörleifsson tekur við að Finni 1999. Árið 2000 keyptu þeir bræður Hrafnagil, ásamt Ívari Ragnarssyni, og sameinuðu við Ytra-Laugaland og svo Brúnir ári seinna. Ívar hætti svo árið 2004 og Grettir 2007. Sama haust það ár flutti Berglind norður frá heimahögum sínum, Þverlæk í Holtum. Býli? Hrafnagil. Staðsett í sveit? Eyjafjarðarsveit, 12 km sunnan við Akureyri. Ábúendur? Berglind Kristinsdóttir og Jón Elvar Hjörleifsson. Fjölskyldustærð (og gæludýr)? Eigum fjórar dætur, Svölu Huld (9), Heiðrúnu (5), Freyju (3) og Iðunni (2). Eigum líka snillinginn hana Töru og nokkrar læður og kettlinga ef einhvern vantar mannelskar veiðiklær. Stærð jarðar? Hrafnagil er 690 ha, Ytra-Laugaland er u.þ.b. 250 ha og Brúnir nærri 200 ha, leigjum líka 70 ha hér í sveitinni. Gerð bús? Aðallega naut- griparækt, einnig ferðaþjónusta, hrossarækt og túnþökusala. Fjöldi búfjár og tegundir? 360 nautgripir, fá en góð hross, 30 mislitar ær, 15 verpandi hænur og 3 tilgangslausar ullarkanínur. Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Förum í fjósið þegar við vökn- um og áður en við förum að sofa. Annars mjög fjölbreytt og oftast mikið að gera, engir tveir dagar eins. Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Leiðinlegast er að eiga við bankana og bókhaldið en skemmtilegast er að taka á móti ungviðinu og keyra heim rúllum. Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Verðum búin að virkja Reykána, verðum búin að rækta 50 ha í viðbót á Hrafnagili, komin með róbótavænni kýr og styttri skuldahala. Notum meira verktaka eins og Gretti bróður og Mána sem rúlla öllu upp. Hvaða skoðun hafið þið á félags- málum bænda? Höfum varla haft tíma til að hugsa um það síðustu ár eins og kannski margir bændur, en kjarabarátta bænda er ekki betri en svo að kók á flösku er dýrara en mjólk! Það er ekki eðlilegt, kannski er það markaðssetningin? Þessi verðlagsnefnd okkar er alveg út úr kú og réttast væri að gefa öllum nýjar reiknivélar til að byrja með. Vantar ákveðnari menn í okkar for- ustu eins og t.d. Snorri Sigurðsson var hjá LK á sínum tíma. Hann var með sólgleraugun í sjónvarps- viðtölum að rífa kjaft og hamraði á okkar málum, var áberandi og hreyfði við hlutunum en við erum ekki að segja að þar sé ekki unnið gott starf í dag, þetta er erfitt allt saman en okkar menn þurfa að vera miklu meira áberandi og fast- ari á sínu og bændur allir að þora að segja sínar skoðanir annars- staðar en við eldhúsborðið. Hvernig mun íslenskum land- búnaði vegna í fram tíðinni? Það er allt undir bönkum landsins komið og hvernig stjórnmálin taka á skipulagi landnýtingar, og kynslóðaskiptum í búskap sem er nánast ógjörningur í dag. Þetta er áhyggjuefni. Hvar er gamla lánadeild landbúnaðarins? Það mættu fleiri aðilar styðja sína heimabyggð eins og KS í Skagafirði í stað þess að hafa einhverja miðstýringu frá Reykjavík þar sem oft er lítill skilningur á málefnum landsbyggðarinnar. Sorglegt hvernig til dæmis KEA fór á sínum tíma. Og aldrei ESB, það má ekki gerast. Hvar teljið þið helstu tækifærin í útflutningi íslenskra búvara? Það mætti skoða af meiri þunga framleiðslu og markaðssetningu á okkar hreinu búvörum svo sem eins og grænmeti, hér er nóg af vatni og grænni orku! Eins er smjörið til dæmis eitthvað sem væri hagstætt að flytja út. En kannski er best að halda áfram að flytja inn túristana til landsins til að grænka grasið okkar. Hvað er alltaf til í ísskápnum? Smjör, KS súrmjólk, ostar, grænmeti, egg, mjólkurfatan og reyktur silungur. Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Lambakótilettur með sveppaostasósu og kartöflum, einnig bakaður lax eða þykkir og sveittir heimalagaðir hamborgarar. Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þau eru alltof mörg til að velja eitthvað eitt en það sem kemur fyrst upp í hugann er þegar hryssan Sara frá Víðinesi II vann fyrstu verðlaun (8,29) á LM 2008, en hún er ættuð héðan af gamla Hrafnagilskyninu. Eða þegar kýrnar Sérviska og Unnur fóru yfir 50 kg í dagsnyt. Einnig þegar við tókum hringekjuna í gagnið í janúar 2006 og svo seinna róbótana í febrúar á þessu ári. Skondnast til að setja á prent væri þegar við lentum um árið í því að Hranastaðakýrnar sluppu saman við okkar og við tókum ekkert eftir því fyrr en Ásta bóndi hringdi í okkur. Líf og lyst BÆRINN OKKAR Nú nálgast sú tíð að bændur fara í göngur og réttir. Þá er ekki amalegt að eiga í hnakktöskunni nokkrar flatkökusneiðar og auðvitað með hangikjöti. Flatkökubakstur er mikil list og þá skiptir máli að kunna til verka. Birna Sigurðardóttir, húsfreyja og kennari á Hvolsvelli, kallaði á ömmu sína á dögunum og bauð henni í heimsókn. Tilgangurinn var að baka helling af flatkökum og kenna yngri kynslóðinni handtökin. Amman heitir Ragnheiður Klemensdóttir er fædd og uppalin á syðsta bæ landsins, Görðum í Mýrdal þann 30. janúar 1923 og er því 90 ára. Hún hefur búið í Ytri-Skógum með dóttur sinni og fjölskyldu frá 1977. Ragnheiður stundaði vinnu í Skógum; mötuneyti Skógaskóla og eldhúsinu á Hótel Eddu. Dvaldi oft á Fit hjá hinni dóttur sinni í fríum. Birna sagði að sig hefði lengi langað til að læra handtökin við flatkökugerðina almennilega. „Ég fékk ömmu í heimsókn til að kenna mér þetta og krökkunum mínum. Þegar ég bað ömmu um uppskriftina benti hún bara á kollinn á sér og tautaði: Hún er nú bara hér!“ 80 flatkökur 2 kg hveiti 600 g rúgmjöl 2 tsk salt 2 ltr. sjóðandi vatn, sett út í smám saman Aðferð: Hvaða mél svo sem er notað þá er lykilatriðið fólgið í vatninu og aðferðinni við að hræra. Vatnið verður að vera sjóðandi heitt. Þurrefni eru sett í skál og mynduð hola/skál í miðju þess þar sem sjóðandi heitu vatninu er hellt út í og smám saman hveiti barmarnir hrærðir saman við. Hnoða með höndunum (í hönskum því deigið er svo heitt) í lokin og rúlla í þykkar lengjur. Gott að geyma það deig sem ekki er verið að vinna strax í plastpoka svo það harðni ekki. Deigið á að vera vel mjúkt. Lengjan skorin í bita og þeir mótaðir í klatta. Flatt út (passa þarf að hafa vel af hveiti á borðinu). Gott að nota potthlemm með beittri brún til að skera út flatkökurnar. Baka á vel heitri plötu. Að sögn skyldmenna Ragnheiðar hefur hún alla tíð verið forkur til allrar vinnu. Flatkökurnar, kleinurnar og pönnsurnar sem hún hefur galdrað fram í gegnum tíðina eru óteljandi. Flatkökurnar hennar ömmu Ragnheiðar MATARKRÓKURINN FLATKÖKUBAKSTUR Á HVOLSVELLI Hrafnagil Myndir / Birna Sigurðardóttir

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.