Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 18

Bændablaðið - 22.08.2013, Blaðsíða 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. ágúst 2013 Íslenski sjávarklasinn vinnur að því að tengja saman sjávarútveg og landbúnað Humarúrgangur hentugur áburður – nýtingin þó leyfisskyld samkvæmt úrskurði Umhverfisstofnunar Frá því um vorið 2009 hefur Sæmundur Jón Jónsson, kúabóndi í Árbæ á Mýrum í Hornafirði, notað humarskel sem áburðar- gjafa á tún sín. „Tún hér í sýslu eru almennt súr en of dýrt er að flytja skeljasand að sunnan til að kalka þau með. Þetta er semsagt það sem ekki er nýtt af humrinum, hausinn og eitthvað af klónum, þetta er hakkað og Skinney- Þinganes kemur með þetta til mín. Ég safna þessu á einn stað þar sem ég set hálm og búfjáráburð yfir til að hindra að vargur fari í þetta og einnig til að draga úr lyktarmengun. Síðan hef ég dreift þessu í flög og plægt niður,“ segir Sæmundur. „Jarðvegurinn sem ég vinn þetta í verður betri með kalkinu sem er í skelinni. Sýrustigið hækkar sem er gott fyrir þær plöntur sem þar þurfa að vaxa.“ Hann hefur starfsleyfi frá heil- brigðisyfirvöldum og matvælastofn- un til nýtingarinnar og fær úrganginn án endurgjalds. Samvinna milli sjávarútvegs og landbúnaðar Vegna fordæmis Sæmundar hafði Íslenski sjávarklasinn áhuga á að kanna frekara samstarf milli útgerð- araðila og bænda á þessu svæði. „Sveitarstjórinn í Hornafirði benti þeim á að tala við mig í vor þegar hópurinn var hér á ferðinni. Þessi endurvinnsla getur auðvitað haft mikið að segja fyrir alla aðila,“ segir Sæmundur. „Ég hef árlega verið að taka við um 500 tonnum af humarskel og fiskbeinum þannig að sveitarfélagið gæti losnað við að stækka urðunarsvæði sitt ef fleiri bændur gætu nýtt sér þennan áburð. Skinney losnar við kostnað sem hlýst af urðun og ég losna við að borga dýran flutning á kalkgjafa af Suðvesturhorninu.“ Brynja Björg Halldórsdóttir, er verkefnastjóri hjá Íslenska sjávar- klasanum. „Verkefni okkar hjá Íslenska sjávarklasanum er m.a. að tengja saman sjávarútveg og land- búnað, og stuðla að því að gengið sé vel um afurðir hafsins – og þessi nýting á humarúrganginum fellur vel að því. Í tilviki Hornafjarðar er það Skinney-Þinganes sem er með mikið magn humarskelja og úrgangs sem tekst ekki að nýta. Þetta verður því að urða eða nota í bræðslu að einhverju leyti. Öll nýting leyfisskyld Ég fékk þau svör frá Umhverfisstofnun fyrir skemmstu að öll nýting á þessum úrgangi væri leyfisskyld. Það gerir bændum svolítið erfiðara fyrir að nýta sér humarúrganginn sem áburð. Eins og stendur þýðir það bara að málin eru nú í höndum heimamanna. Enn sem komið er hafa bændur sett það fyrir sig að þurfa að fara í gegnum skrifræðið og kostnaðinn af því að sækja um leyfi, til að geta nýtt sér þennan úrgang. Sæmundur hefur sýnt fram á að það er hægt að nota þessar skeljar í áburð. Hann hefur tekið við þessu frá útgerðinni og notað nánast óunnið á sín tún með góðum árangri. Áætlun okkar var að fá fleiri bændur til að fara að dæmi Sæmundar og um leið að gera verðmæti úr úrganginum. Okkur datt í hug hvort það gæti verið leið að búa til meltu úr þessum úrgangi. Allur búnaður er til staðar hjá Skinney-Þinganes og því bara reikningsdæmi fyrir þá að finna út hvernig verðleggja ætti þetta þannig að allir myndu græða. Sæmundur hefur leyfi fyrir nýtingu á humarskelinni en aðrir bændur í Hornafirði hafa enn ekki látið slag standa þó svo að mikill áhugi hafi verið til staðar. Jarðvegurinn er þar enda víðast hvar súr og kalksnauður – og skelin einstaklega kalkrík. Bændur á þessu svæði eyða miklu fé í kaup á áburði árlega, enda þarf að flytja hann langt að. Ég myndi mæla með því fyrir bændur að skoða vel þann möguleika að sækja um tilskilin leyfi.“ Hluti af stærra verkefni Íslenska sjávarklasans Brynja segir að þetta sé hluti af stærra verkefni Íslenska sjávarklasans, sem felst í því að kortleggja alla haftengda starfsemi á Íslandi í mjög víðtækum skilningi. Landbúnaðurinn getur svo tengst inn á það á ýmsa vegu; t.d. þegar þörungar eru notaðir til fóðurgerðar eða matvælaframleiðslu (t.d. smurostagerð) eða úrgangur til áburðargerðar svo dæmi séu tekin. /smh Starfsmaður óskast á hænsnabú Matfugl ehf. óskar eftir að ráða starfsmann á hænsnabú á Suðurlandi. Starfið hentar duglegum og samviskusömum ein- staklingi með reynslu og áhuga á umhirðu dýra. Upplýsingar veitir Mónika í síma 660-9621. Sæmundur Jón Jónsson kúabóndi í Árbæ hefur notað humarúrgang sem áburð frá árinu 2009 með góðum árangri. Mynd / smh Humarúrgangur (búkar og klær) Meginuppistaðan í slíkum úrgangi er skelin (25-40% protein, 15-25% kítin, og 40-50% kalíum karbonat). Slíkar afurðir hafa mun lærra próteingildi en annar fiskúrgangur og henta því ekki vel sem fóður. Slíkur úrgangur hefur hins vegar nokkuð gott áburðargildi (köfnunarefni 6%, fosfór 2% og kalíum 1%). Þekkt er framleiðsla á lífrænum áburði hjá litlum fyrirtækjum, sérstak- lega í Bandaríkjunum. Kostir við að nota humarskel í áburð: Humarskel er rík í efninu kítin. Það efni hefur hemjandi áhrif á t.d. þráðorma (nematodes). Nokkrir framleiðendur auglýsa kítin sem náttúrulegt skordýraeitur sem m.a. geti komið í stað notkunar á metýlbrómíði. Kítin bætir einnig vatnsbindieiginleika jarðvegs. Skelin er einnig rík af kalki sem virkar hraðar en kalk úr kalksteini. Um er að ræða lífrænan áburð sem uppfyllir öll skilyrði fyrir lífræna framleiðslu Leiðir til að nota humarskel í áburð: Meltuframleiðsla. Þarfnast nokkurs búnaðar og kostnaður er töluverður. Sýrustig meltu verðu mjög lágt. Erfitt getur verið að melta harða skel. Þurrkun. Mikið notað við að framleiða áburð úr skeldýraúrgangi. Humarskelin notuð óunnin. Jarðgerð. Vel þekkt aðferð. Brynja Björg Halldórsdóttir, er verkefnastjóri hjá Íslenska sjávar- klasanum.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.