Læknablaðið - 15.11.1983, Page 21
LÆK.NABLAÐID
287
Ekki er víst að öll kurl séu komin til grafar og
því hefur verið haldið fram að C. trachomatis
geti valdið hjartavöðvabólgu hjá börnum (4),
lungnabólgu hjá fullorðnum (5) og ófrjósemi
karla (6).
C. trachomatis er mun minna smitandi en N.
gonorrhoeae og er talið að um 75 % líkur séu
á því að sýkjast við samfarir af einstaklingi,
sem sýktur er af lekanda, en ekki nema 45 %
líkur á því að sýkjast af einstaklingi, sem ber C.
trachomatis (7). Þrátt fyrir þetta eru klamydía-
sýkingar algengari en lekandi. Líklegt er að
þetta stafi einkum af því að mun fleiri einstak-
lingar ganga einkennalausir með C. tracho-
matis en N. gonorrhoeae (1). í öðru lagi vegna
þess að meðgöngutími klamydíasýkinga er
lengri en lekanda (8) og síðast en ekki síst að
aðgangur að bakteríólógískri greiningu C.
trachomatis hefur verið takmarkaður.
Forvarnarstarf og lækningar. Sjúkdómar eins
og lekandi og klamydíasýkingar ættu að vera
útrýmanlegir. Maðurinn er eini hýsillinn og
eini smitberinn. Meðferð er áhrifarík, grein-
ingaraðferðir nokkuð öruggar og smitun fer
fram við hátíðlega athöfn svo að smitleiðin
ætti að vera auðrakin. En því fer fjarri að
þessir sýklar séu að komast á lista yfir lífverur,
sem eru í útrýmingarhættu. Flestir eru sam-
mála um að mikill viðgangur þessara sýkla
orsakist fyrst og fremst af félagslegum og
siðferðilegum aðstæðum, en ekki er fullljóst
hverju læknar geta áorkað til að hefta út-
breiðslu þeirra.
Undirritaður er eindregið þeirrar skoðunar
að verulegum árangri megi ná í fækkun
klamydíasýkinga með markvissri skimun
(screening) og með aukinni fræðslu, bæði
almennings og heilbrigðisstétta. Þessar aðgerð-
ir krefjast nokkurra fjármuna. Ef um væri að
ræða smitsjúkdóm, sem ekki væri svo ná-
tengdur siðferðilegum vandamálum, hefði
sennilega þegar verið skorin uþþ herör
gegn klamydíasýkingum. Það hefur mjög færst
í vöxt hin síðari ár að beita þrýstihópum til
þess að fjármagna aðgerðir í heilbrigðismálum.
En trúlega verður einhver bið á því að við fá-
um að sjá heilsíðuauglýsingu í Morgunblað-
inu með mynd af Hannesi Þórarinssyni, Arin-
birni Kolbeinssyni ásamt hópi kvenna um tví-
tugt undir fyrirsögninni: »Þessir menn hafa
bjargað frjósemi margra kvenna. Hjálpið þeim
að bjarga fleirum«. Hér reynir því á velvilja
og víðsýni opinberra aðila.
Á þingi kynsjúkdómafræðinga (Medical So-
ciety for the Study of Veneral Diseases), sem
haldið var fyrr á þessu ári, var mælt með því
að eftirfarandi hópar væru rannsakaðir með
tilliti til klamydíasýkinga (9):
a) allar konur, sem grunaðar eru um kynsjúk-
dóm, b) allar konur yngri en 25 ára, sem eru
þungaðar í fyrsta sinn, c) allar konur 18 ára
eða yngri, sem æskja fóstureyðingar eða leita
til læknis til þess að fá getnaðarvarnir.
Auk þess þarf augljóslega að taka klamydía-
ræktanir frá öllum körlum, sem grunaðir eru
um kynsjúkdóm.
Á sýkladeild Rannsóknastofu Háskólans við
Barónsstíg hefur ekki verið unnt að taka við
sýnum nema frá völdum hópum. Til dæmis
hafa ekki verið tekin nema fá sýni til klamydía-
ræktana frá sjúklingum, sem heimilislæknar
eða sérfræðingar, sem starfa utan stofnana,
rannsaka. í þessum hópi greindust um 75
tilfelli af lekanda á síðasta ári. Ef gert er ráð
fyrir að sama hlutfall sé milli lekanda og
klamydía hjá þeim og sjúklingum, sem leita til
kynsjúkdómadeildarinnar, má ætla að á annað
hundrað einstaklingar með ógreinda klamyd-
íasýkingu hafi verið meðal þeirra. Það er því
nauðsynlegt að efla rannsóknastofuna og
gera henni kleift að taka við sýnum frá öllum,
sem þörf hafa fyrir þjónustuna. Einnig þarf að
bæta aðstöðu á kynsjúkdómadeild Heilsu-
verndarstöðvar Reykjavíkur og kvennadeild
Landspítalans. Fræðslu um kynsjúkdóma, sem
fram hefur farið á vegum landlæknis þarf einn-
ig að auka. Þar sem þessir sjúkdómar herja
mest á aldurshópa, sem hægt er að ná til í fram-
haldsskólum verður að telja að slík starf-
semi sé líkleg til árangurs.
Hér á landi er betri aðstaða til þess að
ráðast til atlögu gegn klamydíasýkingum, en í
flestum löndum öðrum, meðal annars vegna
að ísland er eitt af fáum löndum þar sem
þvagrásarbólga er skráningarskyld og skoð-
uð sem kynsjúkdómur. Ekki þarf stórar fjár-
hæðir til og telja verður að um hagkvæma fjár-
festingu sé að ræða. Það er eindregin skoð-
un undirritaðs að kostnaður vegna þeirra sem
veikjast af klamydíasýkingum, sem unnt væri
að koma í veg fyrir með markvissri skimun sé
meiri en kostnaður við slíkar aðgerðir. Ekki
má heldur gleyma raunum þeirra, sem veikjast
eða líða vegna afleiðinga klamydíasýkinga,
svo sem af ófrjósemi.
Ólafur Steingrímsson