Læknablaðið - 15.12.1995, Side 62
888
LÆKNABLAÐIÐ 1995; 81
íðorðasafn lækna 72
Víxlaprófun
Fulltrúi lyfjafyrirtækis
hringdi nýverið og spurði hvort
íðorðanefnd ætti í fórum sínum
íslenskt heiti á þeirri aðferð
lyfjaprófunar sem á ensku
nefndist cross-over trial. Svo
var ekki. Cross-over er ekki
uppflettiorð í íðorðasafni
lækna, en þar má þó finna
nokkrar þýðingar á fyrirbæri
sem nefnistcrossing-over. I litn-
ingafræðinni er crossing-over
notað um skipti samstæðra litn-
inga á erfðaefni meðan á frumu-
skiptingu stendur og nefnist
slíkt víxliin, yfirvíxlun, litninga-
víxl, víxl eða litningahlutavíxl.
Hin mikla orðabók Websters
gerir grein fyrir því að cross-
over sé nafnorð sem notað sé
um tiltekin fyrirbæri í erfða-
fræði, raffræði, pípulögnum,
hönnun vegamannvirkja og
járnbrautarteina, keiluspili og
dansi. í þessum samsetningum
virðist mega nota íslensku orðin
skipti, umskipti, víxl eða brú.
Trial er heldur ekki að finna í
íðorðasafninu, en í tiltækum
ensk-íslenskum orðabókum má
finna þýðingarnar prófun, til-
raun, reynsla, mótlœti, raun og
réttarhald. Því liggur beint við
að cross-over trial nefnist víxla-
prófun. Læknisfræðiorðabók
Stedmans lýsir trial þannig að
um sé að ræða próf eða tilraun
sem fari fram við tiltekin skil-
yrði. Lyfjavíxlaprófun snýst um
samanburð á verkun tveggja
lyfjaefna. Fyrst er annað lyfið
gefið í hæfilegan tíma, en síðan
er skipt um og hitt lyfið gefið á
svipaðan hátt og verkun efn-
anna hjá sömu einstaklingum
þannig borin saman.
Nafnheiti
Heiti sjúkdóma og annarra
læknis- og líffræðilegra fyrir-
bæra eru ákaflega margvísleg.
Meðal þeirra eru svonefnd
eponym, en það eru heiti dregin
af nöfnum, oftast nöfnum
þeirra sem fyrstir lýstu fyrirbær-
inu í fræðilegri grein. Eponym
er ekki uppflettiorð í Iðorða-
safninu en má ef til vill nefna
nafnheiti. Á árum áður — og
jafnvel enn — tíðkaðist slík
nafngjöf og þykir fræðimönnum
mikill heiður að því að nöfn
þeirra verði gerð ódauðleg á
þennan hátt. Nefna má Addi-
son’s disease, Billroth’s opera-
tion, Comby’s sign, Doppler
phenomenon, Edward’s syndr-
ome, Frenkel’s symptom,
Gaucher cell, Henle’s gland,
Johnson’s method, Koch’s
bacillus, Lafora body og svo
framvegis. I sumum tilvikum
eru greinarhöfundar fleiri en
einn og verða menn þá að deila
heiðrinum með öðrum, þannig
að fram koma samsett nöfn, svo
sem Martin-Bell syndrome,
Niemann-Pick disease og
Mayer-Rokitansky-Kúster-
Hauser syndrome. Deilur geta
einnig risið um það hver varð
fyrstur eða hverjum ber mestur
heiðurinn, svo sem þegar ýmist
er notað heitið Reed-Sternberg
eða Sternberg-Reed cell.
Nafnheiti eru oft vinsæl og
mörg ná útbreiddri notkun. Þau
eru hins vegar ekki gagnsæ eða
lýsandi og gefa engar upplýsing-
ar um fyrirbærið, sem þau eiga
að tákna. Slíkt er sérstaklega
óheppilegt þegar sami maður
hefur gefið fleiri en einum sjúk-
dómi eða kvilla nafn sitt. Mörg
fyrirbæri eiga því tvö heiti, ann-
ars vegar nafnheiti og hins vegar
lýsandi fræðiheiti sem kemur að
meira gagni í formlegu flokkun-
arkerfi kvilla af líkum toga.
Nefna má til dæmis Grawitz’s
tumor sem einnig ber samheitið
renal cell adenocarcinoma.
Einn ókostur nafnheita er sá
að nöfnin er að sjálfsögðu ekki
hægt að þýða á önnur tungumál.
Hafi nafnheiti náð verulegri út-
breiðslu getur þýðing á hinu
kerfisbundna samheiti því átt
undir högg að sækja. Starfshóp-
ur orðanefndar hefur nú tekið
þá ákvörðun að amast ekki við
nafnheitum. Þau verða fram-
vegis skráð í íðorðasafnið til
jafns við önnur samheiti. Al-
menna reglan verður sú að í
nafnheiti komifyrst mannsnafn-
ið með sínum rétta erlenda rit-
hœtti, síðan eignarfalls-„s“ án
úrfellingarmerkis og loks íslensk
þýðing síðasta hlutans, svo sem
aðgerð, heilkenni, teikn, æxli
eða sjúkdómur. Eignarfalls-„s“
verði þó ekki notað þegar er-
lenda nafnið endar á „s“-i eða
„s“-hljóði, né heldur þegar
nafnheitið er samsett úr tveimur
eða fleiri nöfnum. Þannig verði
skrifað Graves sjúkdómur,
Arthus fyrirbæri og Zollinger-
Ellison heilkenni. Enn fremur
skal sleppa eignarfalls-„s“-i þar
sem rík hefð er fyrir slíku, til
dæmis Gram-litun og Gram-já-
kvæður. Vera má að þessar ein-
földu reglur nái ekki til allra
þeirra tilvika, sem fyrir kunna
að koma, og því væri æskilegt að
læknar kæmu frávikum á fram-
færi við Orðanefnd.
Jóhann Heiðar Jóhannsson