Kjarninn - 06.03.2014, Page 59

Kjarninn - 06.03.2014, Page 59
11/11 viðtaL hönnunarmars skilað miklu Eins og áður segir fer HönnunarMars fram síðar í mánuðinum, en þetta er sjötta árið í röð sem hátíðin er haldin á vegum Hönnunarmiðstöðvar Íslands. „Hönnunar- Mars er stærsta kynningarverkefni á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi. Þátttaka íslensks almennings er mjög mikil og verkefnið er farið að vekja verulega athygli erlendis. Hönnuðir og fyrirtæki nota HönnunarMars til að kynna nýjar línur, vörur og hugmyndir. Í ár verður HönnunarMars enn stærri, faglegri og fjölbreyttari en áður og við eigum von á mun fleiri erlendum gestum til landsins, bæði erlendum hönnuðum, þátttakendum og fjölmiðlafólki. Við bjóðum erlendum kaupendum að koma og hitta íslenska hönnuði, sem hefur skilað sér í margvíslegum viðskiptum þannig að íslenskar hönnunarvörur eru nú til sölu víða erlendis. Við eigum sömuleiðis von á erlendum hönnuðum, til að mynda frá Grænlandi og Færeyjum, sem ætla að taka þátt og sýna vörur á HönnunarMarsi. Þetta snýst mjög mikið um að efla tengsl og stækka atvinnusvæði okkar þannig að íslenskir hönnuðir fari að starfa meira með erlendum hönnuðum og fyrirtækjum og að þessir hópar sæki okkur heim í auknum mæli, meðal annars með viðskipti í huga. HönnunarMars er grasrótar verkefni sem íslenskir hönnuðir hafa skapað, hann er frábært verkefni og tækifæri fyrir okkur öll sem hefur skilað mjög miklu.“ Þrátt fyrir áskoranirnar í geiranum er framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands bjartsýnn á framtíð hönnunar á landinu bláa. „Ég er bjartsýn að eðlisfari, annars myndi ég aldrei endast í þessu starfi. Ég held að við séum að sjá ákveðnar breytingar eiga sér stað, við höfum tækifærin. Það er mikil og lífleg grasrót hérna en helsta áskorunin er auðvitað að grasrótarverkefnin nái að þroskast og verða að fyrirtækjum sem skapa góða atvinnu fyrir ungt fólk með fjölbreytilega menntun. Við þurfum að vinna skipulega að frekari framgangi hönnunar en við þurfum að gefa verulega í til þess að það gerist,“ segir Halla að lokum.

x

Kjarninn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Kjarninn
https://timarit.is/publication/958

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.