Milli mála - 01.01.2013, Page 179
179
Michel Eyquem eða Michel de Montaigne eins og hann kallaði sig,
og er hann gjarnan nefndur þegar þessa forvitnilegu bókmenntagrein
ber á góma.
Michel Eyquem fæddist árið 1533 á landareigninni Montaigne
nálægt Bordeaux. Hann var af efnuðu fólki kominn, hlaut góða
menntun, las lögfræði og starfaði sem ráðgjafi við réttinn í Périgueux
og síðan Bordeaux. Hann kynntist starfsbróður sínum og skáldinu
Étienne de La Boétie og með þeim tókst mikil vinátta. Þegar faðir
Michels dó, árið 1568, erfði sonurinn jörðina og tók upp nafnið
Montaigne. Nokkrum árum síðar lét hann af ráðgjafarstörfum, 38
ára gamall, dró sig í hlé og helgaði skrifum og fræðistörfum tíma
sinn. Hann kom sér fyrir í turni á setri sínu með bókasafn sitt og
blöð og dvaldi þar löngum stundum, las og skrifaði, hugsaði og
horfði út um gluggana; þannig gat hann fylgst með lífinu á setrinu
og stjórnað búinu (Montaigne III.3, 19626: 806; Hoffmann 1998:
13). Endurreisnin í Frakklandi mótaðist meðal annars af miklu
trúarlegu umróti og þar tókust kaþólikkar og mótmælendur á í
borgarastríði sem klauf landið í andstæðar fylkingar. Í marga áratugi
(1562–1598) var barist af heift. Montaigne var kaþólskur en áhrif
mótmælendatrúar voru mikil þar sem hann bjó.7 Hann hlýddi þó
kalli konungs, Hinriks 3., og tók þátt í samningaviðræðum eins
helsta forsprakka mótmælenda, Hinriks af Navarre (seinna Hinrik
4.), sem Montaigne dáðist að, og erkifjanda hans, hins volduga
Hinriks af Guise. Árið 1580 fór Montaigne til Parísar þar sem hann
færði Hinriki 3. fyrstu tvö bindi rits síns Essais sem þá voru nýút-
komin. Hann ferðaðist þaðan til Rómar um Sviss, Þýskaland og
Ítalíu og leitaði sér lækninga við gallsteinum. Hann hélt dagbók,
Journal de voyage, á ferðalaginu sem ekki var ætluð til útgáfu en kom
þó fyrir almennings sjónir árið 1774. Árið 1581 var hann settur
bæjarstjóri Bordeaux þótt hann hafi ekki sóst sérstaklega eftir því
embætti og gegndi starfinu til 1585. Sama ár herjaði pestin grimmt
á íbúa Bordeaux og nágrennis og fjölmargir lögðu á flótta. Þegar
faraldrinum linnti gat Montaigne snúið sér aftur að ritstörfum.
6 Áður en vísað er í blaðsíðutal þeirrar útgáfu verksins Essais sem notuð var við ritun greinarinnar
er tilgreint númer bindis og kafla (hér III.3).
7 La Guyenne var stjórnað af Hinrik af Navarre sem var mótmælendatrúar þar til hann snerist til
kaþólsku til þess að geta tekið við konungstigninni eftir lát Hinriks 3. Trúarbragðastríðin í
Frakklandi stóðu í um fjörutíu ár.
ÁSDÍS R. MAGNúSDÓTTIR