Helgafell - 01.01.1943, Side 41
TVÆR KVENLÝSINGAR
27
VIII.
Um Óðin eru ekki til fullkomnar heimildir nema frá Norðurlöndum,
en það sem um hann er vitað frá öðrum germönskum þjóðum, kemur alveg
heim við þær, svo langt sem það nær. Norrænu heimildirnar sýna persónu-
mynd, sem er fram úr öllu hófi margbrotin og margræð, en um leið ákaflega
eftirminnileg. Þýzki guðfræðingurinn Rudolf Otto heldur því fram í bók
sinni, Das heilige, að það sem heilagt er og fyllt guðdómlegum krafti, hafi
fyrst og fremst tvenns konar áhrif á mennska menn: það sé ,,fascinans“ og
,,tremendum“ í einu, svást og óttalegt, dregur að sér og yfirþyrmir. Óðinn
hefur mikið af hvorutveggja, og ekki síður þó af hinu uggvænlega, en af-
stöðu þeirra er svo farið, að ótal spurningar vakna hjá átrúendum hans.
Og þetta eru þó ekki einu andstæðurnar í mynd hans.
Óðinn er alfaðir, aldafaðir; goðin eru börn hans, og mennirnir eru að
minnsta kosti í skjóli hans, hann vakir yfir heiminum með umhyggju og
áhyggju. En í aðra röndina er hann ævintýramaður, sem hefur gaman af
að leggja á tæpasta vaðið. Umhyggja hans fyrir heiminum og sjálfselska
hans verða ekki sundur greindar, hann er svo fortakslaust höfuð allrar
heimsbyggðarinnar, og er því ógerningur að segja hvort það er fyrir sjálfan
sig eða aðra, að hann leggur á sig mikil meinlæti og raunir til að öðlast
vizku, rúnaspeki og skáldskaparlist (fjölhæfnin er óþrjótandi), eða hverj-
um í hag hann, hinn dýrðlegi konungur veraldarinnar, leggst svo lágt að
iðka seið. Óðinn bregzt á ferðum sínum og ævintýrum í allskonar hami.
Hann er Grímnir, hinn grímuklæddi. Hann er Þekkr, fascinans, en líka
Yggr, væntanlega sá er veldur ugg, tremendus; hann er kallaður Saðr, hinn
sanni, en líka Glapsviðr, sá sem er fimur að glepja, og hann hælist um
að hafa látið Hlébarð jötun gefa sér gambantein, en svipt hann síðan vit-
inu. Hann heitir Þrór, af því að hann lætur málin þróast, en hann er líka
Bölverkr. Hann er fjöllyndur í kvennamálum og ævintýramaður í ástum,
hann leikur sér að því að fá með vélum og svikum vilja kvenna, en hann
er líka ver Friggjar, og með þeim er slíkur trúnaður, að hún veit öll örlög
með honum og kann með honum galdraljóð, sem enginn kann annar. Hann
er jafnt guð kaldra hygginda og guðdómlegs æðis. Hann er herguð og val-
faðir; hann veitir óskasonum sínum heill, sigra í orustum og frama, en hann
getur hvenær sem er að geðþótta sínum rænt menn sigri og lífi. Og þó
að menn hljóti þá vist hjá honum í Valhöll, er mönnum gjarnt að líta á
þessa hluti frá sjónarmiði þessa lífs, og þá þykir þeim hann brigðlyndur,
tvísýnn, jafnvel illúðugur.
Varla held ég að sé til annað ólíkara Óðni en Seifur eða Apollón.
Mynd Óðins er svo einkennileg, margbreytt og andstæðufull, að óvíða