Morgunblaðið - 10.11.2012, Blaðsíða 47
MINNINGAR 47
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. NÓVEMBER 2012
slóðir. Var hann þá orðinn rúm-
lega áttræður. Við fyrstu kynni af
Helgu varð okkur ljóst að þar var
engin venjuleg kona á ferð. Hún
var tíguleg í fasi, há og grönn og
geislaði af lífsgleði og góðvild í
hvers manns garð. Hún var líka
vel að sér og hafði jafnan eitthvað
gott til málanna að leggja. Og
sjaldan féll henni verk úr hendi.
Ung missti hún móður sína og þar
sem hún var eina stúlkan í stórum
barnahópi, kom það að mestu leyti
í hennar hlut að sjá um heimilið og
annast bræður sína og föður. Það
hefur eflaust verið mikil ábyrgð
og reynsla fyrir litla stúlku og að
því bjó hún æ síðan, en á þeim
tíma hefur það þótt sjálfsögð til-
högun.
Föður okkar reyndist Helga
einstaklega vel. Áttu þau margar
góðar stundir saman og fóru víða,
bæði innanlands og utan. Ekki
duldist neinum hvað faðir okkar
dáði Helgu og mátti hann vart af
henni sjá. Við Ragnarsbörn viljum
flytja Helgu okkar innilegustu
þakkir fyrir hennar ómetanlega
þátt í að veita föður okkar ham-
ingju og umönnun hans síðustu
æviár. Einnig er okkur í huga
þakklæti fyrir góðvild í garð okkar
fjölskyldna.
Megi hún hvíla í guðs friði.
Börnum hennar og fjölskyldum
þeirra flytjum við okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur og biðjum
þeim allrar blessunar.
Reynir, Þorsteinn,
Valdís, Salóme og Ína
Sóley Ragnarsbörn.
Helga Pálsdóttir, mágkona
mín, var kona með reisn. Hún
vakti ósjálfrátt athygli þegar hún
skeiðaði um götur bæjarins komin
nokkuð á tíræðisaldur. Lengst af
var hún við góða heilsu, en fyrir
nokkru fór henni að hraka og svo
fór að þreki hennar var lokið. Hún
kvaddi þennan heim þegar hún
hafði náð níutíu og fimm ára aldri.
Helga var fædd og ólst upp í
Pálshúsi á Brekkunni í Hnífsdal,
ásamt fimm bræðrum sínum, sem
komust til aldurs, eina systirin.
Móður sína missti hún, þegar hún
var á sjötta aldursári, en faðir
hennar giftist fljótlega aftur og
ólst hún upp hjá honum og fóstur-
móður. Hún var alla tíð mikill
Hnífsdælingur, fannst vænt um
Dalinn sinn og fólkið, sem þar býr
og tók þátt í lífi þess og starfi.
Þrátt fyrir margvíslegt and-
streymi á lífsleiðinni var hún
ávallt glöð og æðrulaus og söng-
elsk var hún, eins og fleiri ætt-
menni hennar. Helga kaus sér ung
það lífsstarf að vera húsmóðir.
Átján ára gömul fór hún á hús-
mæðraskólann á Ísafirði. Það kom
í hlut hennar að stýra stóru og
mannmörgu heimili, sem hún
stjórnaði af reisn og skörungs-
skap.
Helga giftist bróður mínum,
Skúla Hermannssyni, haustið
1939 og stofnuðu þau heimili í
Hnífsdal. Þeirra hjónaband var
farsælt og með þeim hjónum ríkti
mikill jöfnuður, gagnkvæm virð-
ing og tillitssemi. Þau eignuðust
fimm börn. Ég stundaði barna-
skólanám í Ögri fram undir ferm-
ingu, gekk þá daglega úr Ögur-
nesi heim í Ögur. Það voru oft
kaldsamar ferðir. Börnum úr Ög-
urnesi fór fækkandi og seinasta
árið var ég eini skólaskyldi nem-
andinn. Bauðst mér þá að vera í
barnaskólanum í Hnífsdal og
dvelja á heimili þeirra Helgu og
Skúla. Þeirrar umbyggju, sem ég
naut þar minnist ég alltaf með
þakklæti í huga.
Skúli stundaði sjómennsku frá
Hnífsdal öll hjúskaparár þeirra,
seinast á togaranum Sólborgu,
með Páli mági sínum. Eftir hátíð-
arnar 1958 hélt hann í sjóferð, sem
átti að verða og varð hans sein-
asta. Á nýársdag féll hann útbyrð-
is á miðunum við Nýfundnaland
og var látinn, þegar tókst að
bjarga honum. Skyndilega var
Helga orðin ekkja með fimm ung
börn, þrjú þeirra innan við ferm-
ingu. Þá kom sér vel, að hún var
ein af þessum sterku konum, sem
halda öllu saman, láta allt ganga
og tókst með dugnaði að koma
börnum þeirra öllum til þroska.
Fjölskylda hennar var alltaf efst á
forgangslista hennar í lífinu og
hún umvafði börn sín umbyggju
og ástúð. Helga harmaði Skúla
sárt og mikið, sem og allir sem af
honum höfðu kynni. Eftir að börn-
in voru flogin úr hreiðrinu fór hún
út á vinnumarkaðinn og starfaði
við margvísleg þjónustustörf um
árabil. Þegar starfsævinni lauk
var Hermann, sonur hennar, stoð
hennar og stytta í dagsins önn.
Það var henni því mikið áfall þeg-
ar hann féll frá á besta aldri.
Ekkja hans, Sólveig hefir verið
tengdamóður sinni ómetanleg
hjálparhella og stuðningur alla tíð.
Við Jón Páll og börn okkar
kveðjum Helgu með þökk fyrir
góðar stundir á liðnum árum.
Börnum hennar og afkomendum
öllum færum við innilegar samúð-
arkveðjur.
Hulda Pálmadóttir.
Mig langar að minnast minnar
kæru föðursystur Helgu Páls í
nokkrum orðum. Ég ólst upp við
náin samskipti pabba og Helgu
sem hann kallaði alltaf „Helgu
systur sína“ og í röddinni mátti
greina mikinn kærleik. Þegar ég
var barn heima í Hnífsdal var það
einn af föstu punktunum í tilver-
unni að fara upp á Brekku og
heimsækja Helgu frænku þar sem
hún bjó með afa Páli þar til hann
lést í hárri elli. Eftir að afi féll frá
flutti Helga frænka á Garðaveg-
inn við hliðina á æskuheimili mínu
og jukust þá samskiptin enn frek-
ar. Flesta daga leit ég inn hjá
henni og var spjallað yfir góðgæti
sem alltaf var til nóg af. Ég var
rétt rúmlega tvítug þegar foreldr-
ar mínir þurftu að dvelja langdvöl-
um í Reykjavík vegna veikinda
mömmu og þá leitaði ég mikið til
hennar. Hún var mér innan hand-
ar í einu og öllu og alltaf sérlega
umhyggjusöm. Þegar ég var orðin
móðir kenndi hún mér að prjóna
ungbarnasokka samkvæmt upp-
skrift sem amma hennar, Helga
Jóakimsdóttir, hafði kennt henni.
Ég er enn að prjóna þessa sokka
og yfir prjónunum hvarflar hug-
urinn til notalegu stundanna okk-
ar á Garðaveginum í Hnífsdal.
Það er eftirminnileg stund að
hafa verið með þeim pabba og
Helgu þegar þau hittust í síðasta
sinn í sumar sem leið. Þar tindr-
uðu litlu augun þeirra og lýstu ein-
lægri gleði, væntumþykju og
þakklæti langrar samveru. Vin-
semd og velvilji Helgu frænku
minnar varða vegi hennar hvar
sem þeir liggja. Afkomendum
Helgu frænku sendi ég mínar
innilegstu samúðarkveðjur.
Guðrún Guðríður
Halldórsdóttir.
Elskuleg föðursystir okkar,
Helga Pálsdóttir, hefur nú kvatt
okkur eftir langa og farsæla ævi.
Helga frænka, eins og við höfum
alltaf kallað hana, hefur ávallt átt
sérstakan sess í hjörtum okkar.
Fyrir okkur hefur hún verið líkt
og klettur sem bylgjur hafsins
brotnuðu á en haggaðist aldrei.
Við vissum að hvað sem á gekk var
Helga frænka á sínum stað og um-
lukti alla með hlýju og væntum-
þykju. Hjá henni var alltaf hús-
rúm og hjartarúm þegar lítill
drengur þurfti að fá pössun í
lengri eða skemmri tíma og víst er
að sá drengur vildi hvergi annars
staðar vera. Helga var sérlega
frændrækin og hélt góðu sam-
bandi við okkur alla tíð og vildi fá
að fylgjast með hvað á daga okkar
drifi. Hún var líka áhugasöm um
fjölskyldur okkar og sýndi börn-
um okkar mikið örlæti. Þegar
fyrsta langafabarn föður okkar
fæddist á síðasta ári prjónaði
Helga fallega peysu og teppi
handa barninu, þá orðin 94 ára
gömul. Það kom aldrei annað til
greina en að byrja á að heimsækja
Helgu frænku þegar leið okkar lá
vestur og voru móttökurnar æv-
inlega höfðinglegar.
Helga frænka var einstaklega
glæsileg kona. Hvar sem hún kom
vakti hún eftirtekt þar sem hún
stóð hávaxin og hnarreist. Hún
var alla tíð dugleg að hreyfa sig og
fór svo til daglega í gönguferðir
um Hnífsdal og síðar Ísafjörð, eft-
ir að hún flutti þangað. Þegar að
heimilishaldi kom var glæsileikinn
ekki minni því allt lék í höndum
hennar, hvort sem það voru eld-
hússtörf eða hannyrðir. Ofarlega í
minningunni eru ófáir súkku-
laðibollar og pönnukökur í hlýju
eldhúsinu í Pálshúsi. Þá var Helga
mjög músíkölsk og tónelsk og
söng með kirkjukórnum í Hnífs-
dal í áratugi. Okkur systkinum er
enn í fersku minni þegar hún söng
með bræðrum sínum á ættarmóti
þar sem þau vöktu mikla lukku,
enda öll með mikla rödd.
Líf Helgu frænku var ekki allt-
af dans á rósum. Ung stóð hún
uppi sem ekkja með fimm börn
þegar Skúli eiginmaður hennar
fórst af slysförum. Ekki lét hún þó
bugast heldur ól hún börn sín upp
af miklum myndugleika þannig að
úr urðu mikil mannkostabörn. Þar
að auki annaðist hún föður sinn
síðustu árin sem hann lifði. Það
var Helgu mikill harmur að missa
Hermann, son sinn, á besta aldri
en með æðruleysi tókst hún á við
sorgina.
Helga frænka fann mikinn
styrk í trúnni. Hún talaði um að
Skúli hefði vitjað sín og hún ef-
aðist aldrei um að þau ættu eftir
að hittast hinum meginn. Undir
það síðasta mátti heyra á henni að
hún var farin að hlakka til þeirra
endurfunda.
Við systkinin hugsum með
hlýju og þakklæti til föðursystur
okkar og vottum afkomendum
hennar okkar innilegu samúð.
Blessuð sé minning Helgu
frænku.
Guðbjörg, Páll Skúli
og Jón Áki Leifsbörn.
Haust,
haust og laufin
fundu hvernig blærinn,
blés á burt
lífsanda þeirra.
(Sjón)
Lífsandi Helgu blés burt þegar
haustið hafði kvatt.
Þessi glæsilega kona gekk
hnarreist um götur Ísafjarðar allt
fram á síðustu daga sína og lét sig
ekki muna um að ganga brekkur.
Kæmist hún ekki út í sína reglu-
legu göngu þá gekk hún bara
margar ferðir eftir gangstéttinni í
kring um húsið á Hlíf, þar sem
hún bjó.
Ég geymi margar góðar min-
nigar eftir langa vináttu. Kær-
leiksríkt viðmót hennar og einstök
hlýja er mér efst í huga þegar ég
minnist hennar. Til margra ára
bjuggum við í nálægð og hittumst
því oft. Hún hafði alltaf tíma og
var alltaf jafn hlý. Í Pálshúsi var
alltaf mikið af gestum. Jólaboð-
anna minnumst við systkinin með
mikilli gleði. Þar svignuðu veislu-
borðin og ekki má gleyma heima-
lagaða ísnum sem var frystur í
snjóskafli. Mín fyrsta minning er
frá haustdögum þegar ég var um
fimm ára en þá var ég í fóstri hjá
Helgu sem bjó á Felli í Hnífsdal.
Skúli, maðurinn hennar, var móð-
urbróðir minn og er sá besti
frændi sem ég hef átt, hann lést
því miður allt of snemma, þá var
Helga ung með fimm börn, það
hefur vafalítið verið mikið á hana
lagt þá. Páll Skúlason hringdi í
mig og sagði mér að hún væri far-
in til hans frænda míns, þegar
hann tilkynnti mér andlát hennar.
Mér fannst það góð tilhugsun.
Börnin og fjölskyldur þeirra
sakna ömmu með stórt hjarta.
Ég þakka henni vináttuna og
samfylgdina. Fjölskyldunni sendi
ég innilegar kveðjur.
Dansaðu
á gegnsæju skýi
úr silki
fljúgðu til fegurri heima.
(Berglind Gunnarsdóttir)
Þorbjörg Ólafsdóttir.
✝ Eygló Guð-mundsdóttir
fæddist í Reykjavík
14. desember 1935.
Hún lést á Land-
spítalanum í Foss-
vogi 1. nóvember
2012.
Hún var eldra
barn Undínu Sig-
mundsdóttur hús-
freyju og Guð-
mundar Sölvasonar
verslunarmanns, síðast inn-
heimtustjóra Sláturfélags Suð-
urlands, yngri er Sigmundur
Birgir pípulagningameistari.
Austurbæjar og Húsmæðraskól-
anum í Reykjavík. Hún starfaði
nokkur ár hjá Lyfjaverslun rík-
isins, síðar við verslunarstörf í
Glæsibæ og var skólaritari í
Álftamýrarskóla. Eftir að
Eygló fluttist til Borgarness
starfaði hún um skeið á skrif-
stofu Borgarneshrepps, ann-
aðist fjóra vetur kennslu og
þjálfun fjölfatlaðs drengs í
Grunnskólanum, en vann eftir
það til starfsloka sem læknarit-
ari á Heilsugæslustöðinni í
Borgarnesi. Eygló hafði mikið
yndi af útiveru og ferðalögum,
var náttúrubarn sem gaf gaum
öllu stóru og smáu í náttúrunn-
ar ríki. Þá var hún einlægur
tónlistarunnandi og sótti
gjarna tónleika.
Útför Eyglóar fer fram frá
Borgarneskirkju í dag, 10. nóv-
ember 2012, kl. 14.
Fyrri maður
Eyglóar var Guð-
jón Sigurbjörnsson
læknir. Þau skildu
og áttu dótturina
Margréti, kirkju-
vörð í Langholts-
kirkju. Hún á þrjú
börn og dótt-
urdóttur.
Seinni maður
Eyglóar er Snorri
Þorsteinsson, fv.
fræðslustjóri Vesturlands. Þau
eru barnlaus.
Eygló stundaði nám í Aust-
urbæjarskóla, Gagnfræðaskóla
Elsku Eygló frænka.
Ég kveð þig, hugann heillar minning
blíð,
hjartans þakkir fyrir liðna tíð,
lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.
Við burtför þína er sorgin sár
af söknuði hjörtun blæða.
En horft skal í gegnum tregatár
í tilbeiðslu á Drottin hæða.
og fela honum um ævi ár
undina dýpstu að græða.
(Guðrún Jóhannsdóttir)
Garðar, Bryndís
og fjölskylda.
Það eru margar minningarn-
ar sem koma upp í huga okkar
nú þegar við kveðjum Eygló,
konu föðurbróður okkar. Efst
stendur okkur þó í huga sá
hæfileiki hennar að geta gefið
hinu hversdagslega sérstakan
ævintýraljóma. Heima á
Hvassafelli slógumst við oft í för
með Eygló þegar hún fór í
gönguferðir og oftar en ekki
fylgdu hundar, kettir og jafnvel
heimalningar bæjarins. Hún var
náttúruunnandi og saman skoð-
uðum við steina, gróður og hvað
það sem fyrir augun bar. Þau
Snorri buðu okkur stundum í
skemmtireisur til Reykjavíkur. Í
þessum ferðum lagði Eygló ríka
áherslu á að við horfðum í
kringum okkur því annars gæt-
um við misst af öllu því áhuga-
verða sem var í kringum okkur.
Skýjunum á himninum, fjöllun-
um, fuglunum, marglitum hús-
þökum, áhugaverðum bygging-
um og auglýsingaskiltum. Áhugi
hennar á umhverfinu smitaði
okkur og fyrr en varði vorum
það við sem fórum að benda á
og velta fyrir okkur því sem fyr-
ir augun bar og bros Eyglóar
gaf til kynna að þá væri tilgang-
inum náð. Hún gaf sér tíma til
að leyfa okkur að upplifa það
sem við höfðum ekki reynt fyrr.
Hún lét sér ekki muna um að
fara með okkur nokkrar auka-
ferðir í lyftum háhýsa, fá Snorra
til að keyra aukahring á hring-
torgum eða aukaferðir í lykkjur
umferðarbrúa. Eftir að við kom-
umst á unglingsárin sá Eygló
svo til þess að við misstum ekki
af vinsælustu myndunum í bíó
og ógleymanlegt er okkur þegar
þau Snorri fóru með okkur til
Reykjavíkur á 17. júní svo við
gætum farið á okkar fyrstu tón-
leika. Á heimleiðinni gaf hún sér
rúman tíma til að ræða þessa
upplifun við okkur. Þau höfðu
fylgst með úr fjarlægð og ekk-
ert hafði farið framhjá Eygló
hvort heldur var tónlist, klæða-
burður eða sviðsframkoma tón-
listarmannanna. Það var engu
líkara en að hún væri fastagest-
ur á rokktónleikum. Hinn ein-
lægi áhugi sem Eygló sýndi
áhugamálum okkar og viðfangs-
efnum var henni eðlislægur og
hans fengu miklu fleiri að njóta
heldur en við. Það var ekki síður
skemmtilegt að hlusta á frá-
sagnir hennar af því sem þau
Snorri tóku sér fyrir hendur, þá
ekki síst ferðalögum þeirra, en
einnig barnabörnum og litlu
langömmu stelpunni henni Mar-
gréti. Hún hafði þann hæfileika
að gæða frásagnirnar lífi og
töfrum. Jafnvel þegar við heim-
sóttum hana á sjúkrahúsið eftir
að hún veiktist á ferðalagi til
Vínarborgar þá hljómaði frá-
sögnin af dvöl hennar á bráða-
móttöku þar í borg og sjúkra-
flugi heim ekki eins og
sjúkrasaga. Þvert á móti færði
Eygló hana í sama búning og
aðrar ferðasögur sem hún hefur
sagt okkur í gegnum tíðina með
sinni sérstöku áherslu á hvernig
upplifun þetta hafi verið og hvað
hún var að sjá og reyna í fyrsta
sinn. Á kveðjustund er okkur
efst í huga þakklæti fyrir að fá
að kynnast og vera samferða
Eygló þessa áratugi. Dýrmæt-
ust er sú gjöf sem hún gaf okk-
ur að læra að upplifa og njóta
þess sem svo auðvelt er að taka
sem sjálfgefnu. Þá viljum við
votta Snorra frænda okkar,
Margréti, Andreu, Snorra Þor-
steini, Eygló Dóru, Davíð og
öðrum aðstandendum okkar
dýpstu samúð.
Sigurlaug Gísladóttir
og Ingibjörg María
Gísladóttir.
Eygló frænka mín er látin.
Hún var fædd 14. desember
1935. Við vorum alla tíð miklir
mátar frá því að við ásamt Birgi
bróður hennar vorum að bralla
ýmislegt heima hjá þeim á
Mánagötunni. Eygló var fjórum
árum eldri en ég. Síðan leið tím-
inn, við fórum í nám, og þegar
ég var að byrja í enskunámi þá
gekk erfiðlega með enskuna. Þá
kom boð frá frænku um að ef ég
vildi koma upp í Drápuhlíð þá
skyldi hún hjálpa mér við námið
sem ég þáði. Skokkaði ég tvisv-
ar í viku til hennar í rúman
mánuð meðan ég var að ná taki
á náminu.
Eitt sinn þegar faðir minn
varð fimmtugur var fagnaður
heima og barst talið að því hvort
við kynnum að tjútta. Við játt-
um því og varð það til þess að
við sýndum fólki á stofugólfinu.
Náðum við vel saman í dans-
inum eins og við hefðum stund-
að þetta saman í mörg ár. Síðan
stofnuðum við bæði fjölskyldu
og það varð til þess að sam-
bandið slitnaði um tíma, en eftir
skilnað hennar náðum við sam-
bandi aftur. Kom þá í ljós að ég
gat launað henni greiðann með
því að aðstoða hana við gerð
skattaskýrslunnar ár hvert. Var
það fastur liður í rúman áratug
að ég kom í heimsókn til þeirra
mæðgna Eyglóar og Margrétar
til þess að gera skýrsluna, var
þá oft setið við eldhúsborðið og
spjallað. En svo kom að því að
hún þurfti ekki lengur aðstoð
mína því hún hafði kynnst verð-
andi manni sínum, Snorra, og
síðan flutti hún úr bænum. En
alltaf höfum við verið í sam-
bandi þó svo að heimsóknirnar
hefðu mátt vera fleiri. Ég var
sjaldan á ferð um Borgarnes en
ég náði því þó að heimsækja
þau. Við höfðum það fyrir sið að
hringja í hvort annað á afmæl-
isdegi hins. Þess á milli fengum
við fréttir af hvort öðru hjá
Oddu móðursystur okkar sem
var fram á síðasta dag tengiliður
fjölskyldunnar.
Við Aldís munum alla tíð
minnast þín, frænka, með hlý-
hug um ókomin ár. Við viljum
votta Snorra og Margréti samúð
okkar sem og öðrum ættingjum.
Blessuð sé minning þín,
frænka.
Hilmar og Aldís.
Eygló
Guðmundsdóttir
✝
Ástkær sonur okkar, bróðir og frændi,
ARON KRISTJÁN BIRGISSON,
lést að heimili sínu sunnudaginn 4. nóvember.
Útförin fer fram í Grafarvogskirkju miðviku-
daginn 14. nóvember kl. 13:00.
Blóm og kransar eru vinsamlega afþakkaðir.
Þeim sem vilja minnast hans er bent á
Neistann, félag hjartveikra barna.
Anna María Ámundadóttir, Birgir Sumarliðasson,
Lára Birgisdóttir, Björn Ólafsson,
Bríet Birgisdóttir, Björn Gunnlaugsson,
Rósa Björnsdóttir,
Anna María Björnsdóttir,
Amalía Björnsdóttir.
✝
Eiginmaður minn,
Jóhann F. Guðmundsson
flugumferðarstjóri,
Sléttuvegi 11,
andaðist mánudaginn 5. nóvember á
Landakoti, deild L-4.
Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju
fimmtudaginn 15. nóvember kl. 13:00.
Fyrir hönd aðstandenda,
Lára Vigfúsdóttir.