Morgunblaðið - 19.01.2013, Side 30
30
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. JANÚAR 2013
S
ystkinin sjö frá Kleppi ól-
ust upp við óvenjulegar
aðstæður sem næstum
því ábyggilega mótuðu
mjög framgöngu þeirra
og lífsviðhorf. Faðir þeirra, Þórður
geðlæknir, lagði jafnan á það
áherslu við börn sín að þeim bæri að
umgangast sjúklingana á Kleppi
sem allt annað fólk – öllum bæri að
sýna skilning og virðingu og engan
mannamun gera.
Þessi grunnregla yfirlæknisins
virðist hafa sett mark sitt á börn
hans. Þegar litið er yfir líf systk-
inana á Kleppi, sést vel hve margt
þau áttu sameiginlegt þótt að sönnu
væru þau einnig ólík um margt.
Þetta var fordómalaust og umburð-
arlynt fólk sem jafnan var tilbúið að
taka hverjum og einum – eins og
hann eða hún var. Enda áttu systk-
inin í engum erfiðleikum með það
sem nú kallast „mannleg samskipti“
en hét áður „að tala við fólk“.
Faðir minn vann sem blaðamaður
sína löngu starfsævi – hann vann við
það að tala við fólk, fyrst sem frétta-
haukur í innlendu fréttunum á
Mogganum og síðustu ár starfs-
ævinnar sem lauk í árslok 1992 sem
umsjónarmaður minningargreina
blaðsins sem var þá – líkt og nú –
gífurlega krefjandi þjónustustarf
(og hafi lesendur vinsamlegast í
huga að þetta var fyrir daga int-
ernets og tölvuskeyta). Pabbi hafði
unun af því að tala við fólk og var
allt fram á síðasta dag sjarmerandi,
skarpur og hnyttinn í tilsvörum –
alla tíð laus við stæla og uppgerð,
frjáls undan þörf fyrir sjálfs-
upphafningu sem rænir svo marga
frelsi og efa, fordómalaus, umburð-
arlyndur – líberal – í gömlum skiln-
ingi þess orðs – fann aldrei hjá sér
þörf fyrir að hafa skoðanir á öðru
fólki og hvernig það kaus að lifa lífi
sínu – lífsháttastjórnun og reglu-
gerðahyggja nútímans var honum
alla tíð algjörlega framandi.
En umburðarlyndið sem ein-
kenndi minn gamla pabba átti sér
einnig rætur í móðurættinni. ekki
síður en glaðværðin. Ellen, móðir
hans, var einstaklega léttlynd og
mannblendin kona – sannkölluð „fé-
lagsvera“ eins og það heitir á máli
nútímans. Hún var Kaupmanna-
hafnarstúlka, komin af frönskum
húgenottum og dönskum góðborg-
urum; afsprengi viðhorfa og menn-
ingar sem voru flestum Íslendingum
ókunn með öllu þegar hún kom
kornung til Íslands – ein og um há-
vetur – til að giftast Þórði Sveins-
syni og hefja búskap á Kleppi.
„Oppe over skyene er himlen altid
blaa,“ var eitt af fjölmörgum dönsk-
um orðtökum sem amma Ellen hafði
jafnan á hraðbergi. Þessi orð lýsa
Ellen vel – en ekki síður syni henn-
ar. Faðir minn var eins og hún
hneigður til þess að líta fremur á
hinar jákvæðari hliðar tilverunnar.
Ekki að hann neitaði hinum myrkari
eða dapurlegri birtingarformum
veruleikans en honum þótti ástæðu-
laust að festa hugann við þau. Nýir
dagar fólu í sér ný verkefni, ný fyr-
irheit. Mestu skipti að halda áfram –
alltaf að halda áfram.
Faðir minn nam rafvirkjun hjá
Eiríki Hjartarsyni en hikaði ekki við
að hætta því námi þegar honum
bauðst að gerast blaðamaður á
Morgunblaðinu árið 1943. Í viðtali
við Svein Guðjónsson, gamlan og
góðan félaga af Mogganum, sem
birtist í bókinni „Íslenskir blaða-
menn“ sem út kom árið 2007, sagði
pabbi: „Ég átti mér þann draum frá
barnæsku að gerast blaðamaður.
Hann átti eftir að rætast á stríðs-
árunum. Haustið 1943 gaf Valtýr
Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðs-
ins, mér tækifærið með stuðningi
æskuvinar míns, Guðmundar Ás-
mundssonar, sem þá var í laganámi
og síðar lögfræðingur hjá SÍS.“
Í þessu sama viðtali lýsti faðir
minn starfi sínu svo: „Á öllum mín-
um árum á Morgunblaðinu voru
sjálfstæð vinnubrögð og efnistök í
fréttunum og þótt vinnudagur hafi
yfirleitt byrjað með ritstjórnarfundi
laust eftir hádegi voru ritstjórarnir
ekki alltaf afskiptasamir. Ég var í
innlendum fréttum, til dæmis „bæj-
arfréttum“ og í gegnum blaðið
kynntist ég mörgum góðum mönn-
um og mörgum sem „tippuðu“ varð-
andi ýmis mál sem gátu verið efni-
viður í góða frétt. Stundum kom ég
við í morgunkaffi hjá valinkunnum
mönnum í bænum áður en ég mætti
til vinnu til að ræða það sem var efst
á baugi og forvitnast um stöðu mála.
Ég átti þá heima í miðbænum þar
sem ég bý enn og því hæg heimatök-
in því þessir aðilar voru flestir stað-
settir hér í miðbænum. Ég kom til
dæmis oft við í lögreglustöðinni við
Pósthússtræti ... og ég var líka í
góðu sambandi við þá sem höfðu
upplýsingar um aflabrögð og sjó-
sókn svo sem Arnór í Fiskifélaginu.“
Þessi orð lýsa skemmtilegum en
horfnum heimi. Ungt fólk sem vinn-
ur við blaðamennsku nú um stundir
gerir sér enga grein fyrir hvernig
var að sinna þessu starfi fyrir daga
internets og tölvubréfa, farsíma, og
gervihnatta svo ekki sé minnst á
prenttæknina. Breytingunum verð-
ur tæpast með orðum lýst.
Í fyrrnefndu viðtali í bókinni „Ís-
lenskir blaðamenn“ var faðir minn
spurður hverjir væru stærstu
fréttaviðburðirnir sem hann upplifði
á hálfrar aldar blaðamennskuferli
sínum. Ekki stóð á svarinu: „Lok
heimsstyrjaldarinnar. Það er að
minnsta kosti stórkostlegasti frétta-
viðburður sem ég upplifði.“
Hann upplifði lok heimsstyrjald-
arinnar beint og milliliðalaust og
varð fyrir lífsreynslu sem fylgdi
honum alla ævi. Aðeins 24 ára gam-
all, árið 1946, hélt hann á vegum
Morgunblaðsins til Þýskalands þar
sem hann var meðal annars við-
staddur stríðsréttarhöldin í Nürn-
berg yfir Herman Göring og öðrum
helstu foringjum þriðja ríkisins. För
föður míns til Þýskalands og fréttir
hans frá réttarhöldunum vöktu
mikla athygli hér á landi. Í viðtali
við Freystein Jóhannsson, annan
góðan vin af Mogganum, sem birtist
árið 2007 sagði pabbi m.a: „Þetta
var óskaplega þrúgandi lífsreynsla,
sem situr einhvers staðar í manni
ennþá. En eyðileggingin utan rétt-
arsalarins stendur mér ljóslifandi
fyrir hugskotssjónum.“
Vinnudagurinn á Mogganum var
langur – þá sem nú. Gæfa föður
míns var sú að vera einstaklega
verkglaður, hraustur og drífandi
maður. Gamlir starfsmenn Morg-
unblaðsins muna vel eftir honum
þar sem hann þeyttist – hvíthærður
og tágrannur – eins og hvirfilbylur
milli hæða í Aðalstrætinu með hand-
rit í hendi. Hann var enda þá kall-
aður „hvíti stormsveipurinn“ með
vísan til Ajax-auglýsingar sem gekk
í sjónvörpum landsmanna (og naut
ekki aðeins athygli heldur beinlínis
vinsælda – dásemdin var fólgin í
salmíakinu – það lyktaði öðruvísi!).
Síðan var hlaupið upp á sjöundu
hæð í kaffi.
Í hádeginu kom hann oftast heim
á Þórsgötu og fór þá út með hund-
inn sem hann hélt um 15 ára skeið.
Um kvöldið lá leiðin aftur út í
Öskjuhlíð með ferfætlinginn sem má
eiga að aldrei kvartaði hann þótt
álagið væri bæði stöðugt og mikið.
Hugtakið „afslöppun“ átti aldrei vel
við Sverri Þórðarson – en vitanlega
gat hann slakað á – bara ekki lengi í
einu! Þá naut hann þess að hlýða á
tónlist enda mjög músíkalskur mað-
ur.
Faðir minn var um áratugaskeið
fréttaritari norrænna fjölmiðla og
fréttastofa hér á landi. Naut hann
þess þá að bæði tala og skrifa
dönsku sem innfæddur. Hann vann
m.a. fyrir Ritzau, NTB og hina
sænsku TT en ekki síður eru minni-
stæð árin sem hann vann fyrir dag-
blaðið Dimmalætting í Færeyjum
og Útvarpið í Grænlandi. Þetta var
gríðarlega bindandi starf – og hann
var alltaf að. Á öllum tímum sólar-
hringsins fór hann niður á Mogga til
að senda fréttir frá Íslandi til
grannþjóðanna.
Í þá daga veitti tæknin mönnum
ekki sömu hjálp og nú. Skrifa þurfti
fréttirnar á telex-tæki, ægilegt og
óþjált fjölmúlavíl, – búa til gata-
strimil sem síðan var rennt í gegn-
um gripinn þegar loks náðist sam-
band við viðtökulandið. Enn fer
hrollur um gamla blaðamenn þegar
þeir rifja upp kynni sín af þessu
skelfilega tæki. Það er í senn fyndið
og undarlegt að svo óþolinmóður og
kvikur maður sem faðir minn hafi
þurft að nýta tækni sem átti svo illa
við allt hans upplag og eðli. En hann
lét þetta ekki slá sig út af laginu
fremur en annað.
Afköstin voru með ólíkindum. Allt
fram yfir sjötugt bókstaflega dældi
Í minningu blaðamanns
Morgunblaðið/Ól.K.M.
Á tali Sverrir var afkastamikill blaðamaður og er hér að taka niður frétt frá fréttaritara. Myndin er tekin árið 1953.
Morgunblaðið/Ól.K.M.
Blýið kvatt Myndin er tekin þegar hætt var að vinna blaðið í blý. Frá vinstri: Magnús Finnsson, Björn Vignir Sig-
urpálsson, Árni Johnsen, Björn Jóhannsson, Ólafur K. Magnússon, Ingvi Hrafn Jónsson og Sverrir Þórðarson.
Morgunblaðið/Emilía
99 ára reynsla Þorbjörn Guðmundsson fulltrúi ritstjóra og Sverrir á síðasta
vinnudegi beggja, 30.12. 1992. Samanlagður starfsaldur þeirra er 99 ár.
Í ár verður Morgunblaðið 100 ára. Helming þess tíma
starfaði Sverrir Þórðarson á blaðinu við góðan orðstír
og sagði frá mörgum af merkustu atburðum liðinnar
aldar, jafnt innan lands sem utan. Sverrir lést hinn 7.
janúar síðastliðinn. Hér að neðan minnist Ásgeir
Sverrisson föður síns og bregður um leið upp nokkr-
um svipmyndum úr sögu Morgunblaðsins.